Fjárráðstafanir sveitarfélaga misjafnar að gæðum

Til langframa skiptir mestu máli fyrir velferð fólks, hvernig það og fyrirtæki landsins verja aflafé sínu, svo og yfirvöldin, sveitarfélög og ríkisvaldið. Sveitarfélögin hafa lengi tekið til sín vaxandi hluta landsframleiðslunnar, og hefur þessi hluti vaxið úr 7 % í 13 % af VLF á tímabilinu 1980-2017 eða tæplega tvöfaldazt á tæplega 40 ára skeiði.  Heildartekjur A-hluta, þ.e. sveitarfélagssjóðanna, eru taldar munu nema tæplega miaISK 360 árið 2018 og verða þá um 43 % af tekjum ríkissjóðs.  Hér er um mikla fjármuni að ræða, og ráðstöfun þeirra hefur áhrif á hag allra fjölskyldna í landinu.  

Útsvarstekjurnar eru stærsta tekjulindin og nema um 80 % af skatttekjum sveitarfélaganna og 62 % af heildartekjum.  Ríkisvaldið setur gólf og þak á útsvarsheimtuna, en slíkt er umdeilanlegt í ljósi þess, að samkeppni á að ríkja um íbúana á milli sveitarfélaganna.  Á höfuðborgarsvæðinu er Reykjavík eina sveitarfélagið, sem beitir hæstu leyfilegu útsvarsálagningu, 14,52 % af tekjum þegnanna, enda hefur fjölgun þar orðið einna minnzt á höfuðborgarsvæðinu, en það er reyndar einnig af lóðaskorti, sem er óáran af mannavöldum.

  Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur heitið því að lækka álagningu útsvars niður í 13,98 % á næsta kjörtímabili í 4 áföngum, þrátt fyrir mjög bága stöðu borgarsjóðs.  Það þýðir, að í lok kjörtímabilsins verður útsvarsheimtan 96 % af því, sem hún er núna.  Þetta er skref í rétta átt, sem skilar nokkrum þúsundköllum í vasa útsvarsgreiðenda í Reykjavík á mánuði, ef þeir kjósa svo, og mun ásamt fleiri vaxtarhvetjandi aðgerðum veita höfuðborginni viðspyrnu í samkeppninni.

Það er óeðlilegt, og reyndar sjúkdómseinkenni, að stærsta sveitarfélagið nái ekki að nýta sér hagkvæmni stærðarinnar og þá kosti að hýsa helztu stjórnsýslustofnanir ríkisins, eina háskólasjúkrahúsið, tvo háskóla, miðstöð samgangna innanlands og þannig mætti lengi telja tekjulindirnar, sem önnur og minni sveitarfélög njóta ekki, til að lækka útsvar á íbúana úr hámarkinu. 

Það er hins vegar fyrir neðan allar hellur, að borgarsjóður skuli undanfarin 8 ár hafa verið rekinn með dúndrandi tapi, svo svakalegu, að skuldirnar hafa tvöfaldazt á þessu góðæristímabili að raunvirði.  Skuldirnar hafa vaxið hraðar en tekjurnar, svo að skuldir borgarsjóðs sem hlutfall af tekjum hafa hækkað á 8 árum úr 56 % í 85 %. Á þessu kjörtímabili, einstöku góðærisskeiði, hefur skuldaaukningin numið miaISK 32 eða 8 miaISK/ár, og skuldir A-hluta nema nú yfir miaISK 100.

Skuldir OR hafa lækkað, en samt stefnir í, að skuldir samstæðunnar, A+B hluta bókhaldsins, fari yfir viðmiðunarmörk sveitarfélaganna á næsta kjörtímabili, og þá missir höfuðborgin í raun fjárhagslegt sjálfstæði sitt. Þegar svona er grafið undan fjárhag borgarinnar, er verið að draga úr getu hennar til að veita sómasamlega þjónustu í framtíðinni og til fjárfestinga eða til að mæta efnahagsáföllum.  Satt að segja vitnar þessi staða mála um fádæma búskussahátt að hálfu þeirra, sem undanfarin 8 ár hafa stjórnað málefnum borgarinnar. Um mikilvægi góðrar fjármálastjórnar  fyrir íbúana þarf ekki að fjölyrða, en um skattheimtuna skrifaði Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum þann 16. maí 2018:

"Mýtan um að hugmyndafræði skipti litlu":

"Fyrir launafólk skiptir miklu, hvaða stefna er rekin í skattheimtu sveitarfélagsins.  Útsvarsprósentan skiptir láglaunafólk meira máli en hvað ríkissjóður ákveður að innheimta í tekjuskatt.  Sá, sem hefur 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins (ef hann greiðir þá nokkuð [þangað]).  Í heild greiða Íslendingar mun meira í útsvar en í tekjuskatt.  Lækkun útsvars er stærra hagsmunamál fyrir flesta en að þoka tekjuskattsprósentu ríkisins niður."

Það, sem skilur á milli góðrar og slæmrar fjármálastjórnar, er fjármálavitið, þ.e. að kunna að greina á milli ólíkra valkosta við fjárráðstöfun.  Sá, sem hefur gott fjármálavit, ráðstafar takmörkuðu fé til hámarksgagnsemi fyrir eigandann, en sá, sem er án fjármálavits, kastar perlum fyrir svín og fleygir fé umhugsunarlaust í gæluverkefni án tillits til notagildis eða sparnaðar af fjárfestingunni.

Stærsti kostnaðarliður borgarinnar eru menntamál, forskóli og grunnskóli.  Þar tekst borginni að ausa út fé án nokkurs sýnilegs árangurs á alþjóðlega mælikvarða.  Af lýsingunum hér á eftir að dæma fer óhæft lið með æðstu stjórn skólamála borgarinnar, og borgarstjórinn er þar utan gátta, eins og hans er von og vísa.  

Brynjar Níelsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skrifaði í Morgunblaðið, 7. maí 2018,

"Illa ígrunduð menntastefna Reykjavíkurborgar".

Hún hófst þannig:

"Yfirskrift þessarar greinar er fengin að láni hjá fráfarandi skólastjóra Réttarholtsskóla, Jóni Pétri Zimsen, og kom fram í viðtali við hann á mbl.is.  Undir stjórn hans hefur Réttarholtsskóli náð góðum árangri, bæði í innlendum og erlendum samanburði.  Jón Pétur hefur verið gagnrýninn á aðgerðir og stefnu skólayfirvalda í borginni og segir ófagleg vinnubrögð og skeytingarleysi þeirra í garð skólanna eiga m.a. þátt í því, að hann ákvað að hætta sem skólastjóri.  Þegar farsæll skólastjóri segir upp störfum, ætti það að vera borgarbúum áhyggjuefni."

Hér er varpað ljósi á óhæfni yfirstjórnar skólamála í Reykjavík.  Ætla foreldrar í höfuðstaðnum bara að yppa öxlum, láta sem ekkert sé og endurkjósa liðið, sem stjórnar Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur ?  Það mundi bera vitni um ótrúlegt skeytingarleysi um hag barnanna að reyna ekki að hrista upp í þessu rotna liði og fá nýja vendi til að sópa ósómanum út í stað þess, að núverandi valdhafar sópa öllu undir teppið.

Um menntastefnu borgarinnar og getu- og metnaðarleysi núverandi valdhafa þar á bæ skrifaði Brynjar Níelsson:

"Niðurstaðan er sú, að enginn veit í hverju þessi menntastefna borgarinnar felst, en vitað er, að hún hefur skilað dýrasta grunnskóla innan OECD og slökum árangri í samanburði við aðrar þjóðir.  Ábyrgð á því ber meirihlutinn í borginni, en ekki þúsundir manna, sem Skúli Helgason og Dagur B. Eggertsson hafa talað við."

Annað svið borgarmálanna, sem ber vitni um algert skilningsleysi borgaryfirvalda á því, hvernig beztur árangur næst fyrir þorra borgarbúa fyrir hverja krónu, sem varið er í málaflokkinn, er samgöngusviðið.  Dagur, borgarstjóri, og Hjálmar, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, stefna ótrauðir út í fullkomið fjárfestingarforrað, sem hægja mun enn meir á bílaumferðinni, en út af fyrir sig draga sáralítið og ekki merkjanlega fyrir bílstjórana úr fjölgun bíla á götum borgarinnar, enda hefur Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur og MBA, komizt að þeirri niðurstöðu, að: 

"Borgarlínan = Nýju fötin keisarans".

Undir þessari fyrirsögn skrifaði hann grein í Morgunblaðið, 14. maí 2018, sem hófst svona:

"Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nýlega samþykkt þá breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040, að tekið var af skarið með það, að borgarlínan verði hraðvagnakerfi (Bus Rapid Transit, BRT).  Áður hafði verið gert ráð fyrir, að borgarlínan yrði annaðhvort hraðvagnakerfi eða léttlestakerfi.  Það var gersamlega út úr öllu korti að reikna með þeim möguleika að byggja léttlestakerfi upp á allt að 200 milljarða [ISK] fyrir árið 2040.  Það er nógu galið að ætla sér að byggja hraðvagnakerfi upp á 80 milljarða [ISK], sem er mun hærri upphæð en hefur farið í uppbyggingu þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu sl. 20 ár."

Heilbrigð skynsemi ætti að skjóta kjósendum í Reykjavík, og reyndar landsmönnum öllum, skelk í bringu yfir því, að þvílík áform um sóun á almannafé skuli vera uppi í borgarkerfinu og hjá skipuleggjendum höfuðborgarsvæðisins fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.  Að beztu manna yfirsýn munu þessar rándýru fyrirætlanir Samfylkingarmannanna Dags og Hjálmars o.fl. aðeins gera illt verra í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins og skipulagsmálum Reykjavíkur, og var þó ekki á bætandi, eins og Þórarinn vék að í téðri grein:

"Eins og ég benti á í grein í Morgunblaðinu í marz sl., mun borgarlínan í bezta falli leiða til þess, að bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu verði um 4 % minni en ella árið 2040.  Erlendar reynslutölur benda til þess, að líklega verði árangurinn aðeins 2-3 % minni bílaumferð en ella [gæti þá orðið um 10 % meiri en 2018-innsk. BJo]. Til að ná þessum takmarkaða árangri þarf nánast öll uppbygging á höfuðborgarsvæðinu að vera í formi þéttingar byggðar meðfram samgönguásum borgarlínunnar.  Auk þess þarf að setja þröngar takmarkanir á fjölgun bílastæða og taka vegtolla á höfuðborgarsvæðinu."

Hliðarskilyrði Borgarlínu, sem Þórarinn þarna nefnir, ættu ein og sér að fella Borgarlínuna alveg út af kortinu sem tæka lausn.  Í stað þessarar skipulagslegu ófæru og fjárhagslega kviksyndis þarf að velja lausnir, sem virka og kosta í mesta lagi þriðjung á við Borgarlínu fram til 2040.  Þær eru að brjóta nýtt land undir byggð og atvinnustarfsemi í austurhluta borgarinnar, samhæfa ljósastýringu og beina gangandi umferð undir eða yfir umferðaræðar, fækka ljósastýrðum gatnamótum með umferðarbrúm og fjölga akreinum, sumpart fyrir almenningsvagna, leigubíla og tæki með 3 eða fleiri innanborðs.   

 

 

 


Bloggfærslur 20. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband