Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel

Utanríkisráðherra hefur upplýst, að á 24 ára tímabilinu, 1994-2017, hafi rúmlega 9000 gerðir Evrópusambandsins, ESB, eða rúmlega 13 % allra gerða sambandsins, verið tekin upp í EES samninginn eða upp í íslenzka stjórnsýslu samkvæmt honum.  Þetta eru 375 gerðir á ári eða rúmlega 1 á dag hvern einasta dag, sem liðið hefur frá gildistöku EES-samningsins hérlendis 1. janúar 1994.

Þetta keyrir úr öllu hófi fram, og það verður að binda endi á þetta vegna gríðarlegs kostnaðar, sem þessi fjöldi opinberra gerða, reglugerða, tilskipana og laga, hefur í för með sér í litlu samfélagi hjá fyrirtækjum og stjórnsýslu.  Það er engin hemja, að við skulum þurfa, 350 þúsund hræður, að bera þessar byrðar til að njóta aðgengis að Innri markaði ESB með öllu því margvíslega álagi, sem slíkt hefur í för með sér, t.d. vegna hömlulauss innstreymis fólks, undirboða og lagabrota á vinnumarkaði og víðar í þjóðfélaginu.

Það blasir við, að það er hægt að losa landsmenn mestmegnis undan þessu fargi með uppsögn EES-samningsins og gerð fríverzlunarsamnings við ESB og Bretland, eins og nýlegt fordæmi er til um (Kanada).  Sá gríðarlegi óbeini og beini kostnaður, sem af þessu samneyti við stórþjóðir Evrópu leiðir, kemur niður á lífskjörum landsmanna.  Skattheimtan hérlendis er nú þegar á meðal hins hæsta, sem þekkist í Evrópu, m.a. vegna gríðarlegrar yfirbyggingar lítils samfélags, og framleiðniaukning fyrirtækjanna hefur um langt árabil verið óeðlilega lág. Reglugerðafarganið virkar hamlandi á þróun fyrirtækjanna í átt til aukinnar verðmætasköpunar.  Stórskorið reglugerðafargan og eftirlitsbákn að hætti miklu stærri samfélaga lendir hér kostnaðarlega á fáum hræðum, sem heldur niðri lífskjarabata.  Holtaþokuvæl um nauðsyn ESB til að tryggja frið í Evrópu heldur ekki vatni. Það hefur NATO gert án tilstuðlunar ESB, sbr Balkanstríðið.  Við eigum að eiga sem frjálsust viðskipti í allar áttir og ekki að binda trúss okkar allt á einn hest. Samstarf EFTA og ESB á vettvangi EES er komið í öngstræti, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti í tvígang á í vetur.  Framsóknarflokkurinn hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að endurskoða EES-samstarfið. 

 Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita meira fé í EES-samstarfið undir því yfirskyni, að taka eigi meiri þátt í undirbúningi mála. Eru embættismenn látnir komast upp með það að ráða för ? Það er borin von, að EFTA-ríkin geti haft marktæk áhrif á undirbúning mála hjá ESB. Framkvæmdastjórnin hlustar ekki lengur (eftir BREXIT) neitt á kvakið í EFTA-löndunum.  Það er vegna þess, að kjarni undirbúningsvinnunnar fer fram á bak við luktar dyr í Berlaymont, þar sem aðeins ríkin 28, nú bráðum 27, mega taka þátt.  Fjárveitingum úr ríkissjóði væri betur varið hér innanlands eða til undirbúnings uppsagnar EES-samningsins með því að leita hófanna um gerð fríverzlunarsamninga. Þegar allt er tínt til, mundu sparast stórar fjárhæðir við að hætta að eltast við búrókratana í Berlaymont. 

Sum stórmál, sem ESB heimtar, að verði innleidd í EES-samninginn, eru þannig vaxin, að vandséð er, að þau komi að nokkru gagni í EFTA-löndunum, en þau valda þar gríðarlegum kostnaðarauka.  Nýtt dæmi er persónuverndarlöggjöfin.  Fylgir henni einhver áþreifanlegur kostur fyrir almenning á Íslandi, sem verður í askana látinn ?  Það virðast fylgja henni ókostir, t.d. fyrir hluta vísindasamfélagsins, og henni fylgir viðbótar launakostnaður, sem gæti hækkað kostnað sumra fyrirtækja umtalsvert, og e.t.v. um 1 % fyrir landið í heild. Safnast, þegar saman kemur.

Ekkert lát er á flóðinu frá Brüssel.  Það má hverju barni vera ljóst, að íslenzk stjórnsýsla ræður ekkert við þetta gríðarlega magn. Þótt íslenzka utanríkisþjónustan mundi beita öllum kröftum sínum að ESB/EES, mundi slíkt engu skila í ávinningi eða sparnaði fyrir íslenzka þjóðarbúið.  Ísland verður aldrei annað en óvirkur viðtakandi samþykkta frá Berlaymont, enda á forysta ESB fullt í fangi með að samræma afstöðu 28 ríkja, þótt EFTA-ríkin bætist ekki við.

Þegar rýnt er í efnivið gerðanna kemur í ljós, að hann kemur ekki að neinu gagni við að bæta stjórnsýsluna hér, en veldur miklum kostnaði um allt þjóðfélagið, bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjunum.  Allur lendir sá kostnaður á heimilum landsins.  Það blóðuga við þetta er, að það er algerlega óþarft.  Það er til fýsilegur valkostur við þetta.

Fjöldi slíkra mála er í deiglunni hjá ESB eða er til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni.  Eitt mál úr síðarnefnda hópinum er gjörð 391/2009 um skipaeftirlit.  Hún veitir Framkvæmdastjórninni heimild til að sekta vottuð eftirlitsfyrirtæki, sem hún hefur þegar viðurkennt sem hæf í eftirlitshlutverkið.  EFTA-ríkin vilja, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, fái þetta valda í EFTA-ríkjunum, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  ESB skeytir engu um tveggja stoða kerfið lengur, og þingheimur verður að fara að gefa sér tíma til að ræða viðbrögð við þessari tilhneigingu Framkvæmdastjórnarinnar, sem stafar af stefnu sambandsins um valdflutning frá aðildarríkjunum til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar.  

Hin svo nefnda aðferðargjörð nr 734/2013 fjallar um samræmda framkvæmd á reglum um ríkisstuðning með sektarheimild í höndum yfirþjóðlegs valds.  ESB hefur hafnað tillögu EFTA-landanna um að fela innlendum aðila í hverju landi sektarheimildina í staðinn fyrir ESA.  Innleiðing í EES-samninginn mun leiða til þess, að ESA fær aukin völd til að beita þvingunarúrræðum og sektum gagnvart lögaðilum á Íslandi. Þetta brýtur skýlaust í bága  við Stjórnarskrá Íslands.  Hversu langt eru stjórnvöld tilbúin að ganga eftir þessari braut lögleysunnar ? 

Það er dagljóst, að Ísland tapar fullveldi sínu í hendur Evrópusambandinu með þessu áframhaldi samkvæmt spægipylsuaðferðinni, þ.e.a.s. jafnt og þétt á sér stað fullveldisframsal til Brüssel á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, nánast án umræðu í samfélaginu og án þess, að þjóðin hafi fengið beint að tjá sig í atkvæðagreiðslu um málið.  Það er vitað, að meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu Íslands í ESB, en þangað siglum við þó hraðbyri.  Þetta eru fullkomlega ólýðræðislegir stjórnarhættir, og stjórnmálamönnum er hollast að grípa í taumana strax áður en það verður um seinan með óræðri lagalegri stöðu landsins og eldfimu stjórnmálaástandi sem afleiðingu.  Höggvið á hnútinn með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr EES og gerð fríverzlunarsamninga. 

  

    

 


Bloggfærslur 27. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband