Umhverfisverndarstefna í skötulíki

Stefna íslenzkra yfirvalda um verndun umhverfis er óbeysin.  Þau hafa skuldbundið landsmenn til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda mikið, eða um 20 % árið 2020 og 40 % árið 2030 m.v. 1990.  Reyndin er sú, að hún verður um 30 % meiri árið 2020 en 1990, og engin trúverðug áætlun hefur litið dagsins ljós um að ná 40 % markinu árið 2030. 

Gróðurfarslegt ástand landsins er slæmt, og hægagangur á að hamla skemmdum lands af völdum ferðamanna, sem víða eru miklu fleiri en takmarkaðar eða engar mótvægisaðgerðir réttlæta.

Við þessar aðstæður mátti lesa þetta í frétt Fréttablaðsins, 25. júní 2018,

"Hefji undirbúning til að kaupa losunarheimildir fyrir Ísland":

"Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er einnig á eftir áætlun, en hún átti að liggja fyrir á vormánuðum [2018].  Vinnan er leidd af umhverfis- og auðlindaráðherra, en fulltrúar 6 annarra ráðherra koma að vinnu verkefnisstjórnar."

Það er engu líkara en stjórnvöld telji að sinni hálfu nóg að gert með því að leggja á kolefnisgjald og hækka það árlega.  Jafnvel þetta kolefnisgjald er illa ígrundað.  Það er ekki eyrnamerkt, þannig að það veitir engin sóknarfæri á sviðum, þar sem virkilega mundi muna um það í umhverfisvernd, eins og síðar verður að vikið.  Kolefnisgjaldið er lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, s.s. dísilolíu, svartolíu og benzín. Gjaldið var sett á í neyzlustýringarskyni, fyrst til að örva kaup á dísilbílum og síðan til að flýta fyrir orkuskiptum.  Þar sem það hefur verið lagt á erlendis, hafa þar af leiðandi aðrir skattar verið lækkaðir á móti, svo að tekjuöflun ríkissjóðs stæði óbreytt.  Segja má, að gjaldalegar ívilnanir til rafbílakaupenda hafi verið vísir að slíkri mótvægisaðgerð hérlendis (u.þ.b. 1 miaISK/ár).

Gera má ráð fyrir, að kolefnisgjald skili ríkissjóði miaISK 5,5 í ár og miaISK 6,6 árið 2020.  Stuðningsaðgerðir við orkuskiptin, sem kostaðar eru af ríkissjóði, nema árlega mun lægri upphæðum. Stjórnvöld eru enn á villigötum með innheimtu og ráðstöfun kolefnisgjalds.  Skortur á stefnumörkun tefur fyrir orkuskiptum.  Stjórnvöld eru enn sem komið er hemill fremur en hvati á orkuskiptin, enda hafa þau ekki einu sinni getað tryggt næga raforku til allra landshluta. Á meðan slíkt herfilegt misrétti er við lýði í landinu, að sum héruð séu í raforkusvelti, eru stjórnvöld með allt á hælunum í orkuskiptamálum.   

Einn er sá gjaldstofn kolefnisgjalds, sem bæði er ósanngjarnt og óskynsamlegt að nota, ef álagningin er í þágu orkuskipta.  Þetta eru eldsneytiskaup sjávarútvegsins hérlendis.  Að nota þennan gjaldstofn ósanngjarnt af tveimur ástæðum:

  Í fyrsta lagi hefur sjávarútvegurinn einn allra atvinnugreina nú þegar náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um 40 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en 1990.  Fyrir þetta ber að umbuna honum með því að fella kolefnisgjöld af eldsneytiskaupum hans niður og mynda þannig árangurshvata fyrir aðra.  50 % hækkun kolefnisgjalds um síðustu áramót leiddi til 4 % hækkunar á eldsneytiskostnaði sjávarútvegsfyrirtækja, sem er annar stærsti útgjaldaliður sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launakostnaði. Á tímum 50 % hækkunar á heimsmarkaðsverði eldsneytis sýnir þessi gjörningur óvitaskap stjórnvalda, sem láta stjórnast af þokukenndri hugmyndafræði í stað markaðsstaðreynda. 

  Í öðru lagi nýtur fiskiskipafloti flestra hinna EES-landanna, t.d. Noregs, Danmerkur, Þýzkalands og Portúgals, undanþágu frá kolefnisgjaldi, eða þeir njóta endurgreiðslna úr viðkomandi ríkissjóði.  Stjórnvöld veikja með þessu alþjóðlega samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins og höggva þar með tvisvar í sama knérunn, sem þykir ógæfulegt. 

Það er ennfremur óskynsamlegt að haga sér með þessum hætti, því að kolefnisgjaldið dregur úr fjárfestingargetu sjávarútvegsins, en fjárfestingar í nýjum fiskiskipum og verksmiðjubúnaði hafa verið undirstaðan að frábærum árangri hans í umhverfisvernd hingað til.  

Þá að markvissri ráðstöfun kolefnisgjaldsins í því skyni að draga úr magni kolefnis í andrúmsloftinu:

  Kolefni, C, berst þangað eftir ýmsum leiðum og ekki einvörðungu við bruna jarðefnaeldsneytis.  Kolefni í andrúmslofti nemur nú 790 Tg (teragrömmum, tera er milljón milljónir), og til samanburðar er um 620 Tg af C í gróðri á jörðunni og 3000-4000 Tg í mold.  Í mold er magn C meira en fjórfalt magn C í andrúmslofti, svo að brýnast er að binda C í vistkerfum jarðar.  Þessar upplýsingar koma fram í grein prófessors Ólafs Arnalds,

"Moldin og hlýnun jarðar", 

í Fréttablaðinu, 27. júní 2018. Af þessu má ráða, hvernig forgangsraða á fjármunum hins opinbera og annarra til að ná mestum árangri fyrir hverja krónu, en íslenzk stjórnvöld hafa enn ekki markað stefnu í þessa átt. Það er hneisa.  Í greininni sagði m.a.:  

"Það er ekki aðeins notkun jarðefnaeldsneytis, sem hefur aukið styrk gróðurhúsalofttegunda; vænn hluti aukningar þeirra í andrúmsloftinu á rætur að rekja til hnignunar vistkerfa.  Ofnýting landbúnaðarlands leiðir til þess, að gengið er á lífrænan forða jarðvegsins, sem getur losað ógrynni CO2 til andrúmsloftsins.  Nýleg skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands leiðir í ljós, að losun af þessu tagi hérlendis er af sambærilegri stærðargráðu og losun frá iðnaði, samgöngum og sjávarútvegi samtals, jafnvel mun meiri. [Þetta þýðir losun a.m.k. 3500 kt CO2 á ári, ef einvörðungu er átt við samgöngur á landi-innsk. BJo.] 

Þá er áætlað, að losun á gróðurhúsalofttegundum frá framræstum votlendum á Íslandi sé meiri en losun frá iðjuverum og samgöngum landsins.  [Þetta þýðir a.m.k. 3000 kt CO2 og er lægra en áður hefur sézt. Hérlendir vísindamenn hafa varað við flausturslegri endurheimt votlendis.  Ef nýja vatnsstaðan nær ekki yfirborðshæð, er verr farið en heima setið-innsk.BJo.]  Það er ákaflega hollt að hafa þetta samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum vegna hlýnunar andrúmsloftsins."

Því miður virðist Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, vera að miklu leyti úti á þekju í störfum sínum og ekki hafa "samhengi hlutanna í huga við ákvarðanatöku á mótvægisaðgerðum".  Hann hefur tekið tillögu frá Náttúrufræðistofnun Íslands um friðlýsingu lands sunnan Hornstranda og Drangajökuls til athugunar, þótt slík tillaga sé allt of seint fram komin, setji Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda í uppnám og fyrirbyggi að líkindum virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, sem ásamt fleiri aðgerðum á að draga stórlega úr olíubrennslu í kyndistöðvum (uppsett afl 24 MW) og neyðarrafstöðvum (20 MWe) á Vestfjörðum og mun draga úr raforkutöpum á landsvísu vegna flutnings raforku um langar vegalengdir.  

Í frétt Fréttablaðsins, 25. júní 2018,

"Hefji undirbúning til að kaupa losunarheimildir fyrir Ísland",

var eftirfarandi haft eftir ráðherranum um viðbrögð við lélegum árangri í loftslagsmálum hérlendis:

""Við munum þó væntanlega þurfa að kaupa heimildir vegna fyrri skuldbindinga, sem miðast við árið 2020, en hversu miklar liggur ekki ljóst fyrir að svo stöddu", bætir Guðmundur Ingi við. "Ég vil hefja undirbúning kaupa á heimildum sem fyrst, þannig að Ísland sé í stakk búið til þess fyrr en á eindaga eftir 4-5 ár.  Ljóst er þó, að fjárheimildir þarf fyrir slíkum kaupum.""

Þessi forgangsröðun ráðherrans er fyrir neðan allar hellur.  Það á ekki að koma til mála að henda fé úr ríkissjóði Íslands til greiðslu á koltvíildiskvótum frá útlöndum (ESB).  Hér getur hæglega verið um að ræða upphæð fyrir tímabilið 1990-2020, sem nemur um miaISK 10.  Það ber þess í stað þegar í stað að setja afrakstur kolefnisgjaldsins, þann hluta, sem ekki hefur farið í  mótvægisaðgerðir gegn koltvíildislosun hingað til, til að hefja kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri af miklum krafti. 

Það verður að láta ESB vita, að við getum ekki samtímis greitt háar sektir og farið í skilvirkar mótvægisaðgerðir og að við höfum ákveðið að fara seinni leiðina samkvæmt vísindalegri ráðgjög Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins.

Á illa saman

 

 


Bloggfærslur 12. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband