Lognið á undan storminum

Ekkert ber á raunhæfum úrræðum ríkisstjórnar til að létta atvinnulífinu róðurinn.  Það glímir nú við slæm rekstrarskilyrði, einkum útflutningsatvinnuvegirnir, sem glíma við minni tekjur í krónum talið á meðan kostnaður hefur aukizt hóflaust.  

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur undanfarið ár verið ötull við að skrifa blaðagreinar, þar sem hann hefur lýst hættulega mikilli rýrnun samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og jafnframt bent á úrræði, sem stjórnvöld þurfa og geta gripið til hið bráðasta.

Stýrivextir Seðlabankans eru  kapítuli út af fyrir sig, sem ríkisstjórnin ræður ekki við öðru vísi en að leggja lagabreytingu um Svörtuloftin fyrir Alþingi, sem gerir þeim skylt að líta meira til efnahagslegs stöðugleika en nú er í stað gallaðs mats á verðbólguvæntingum, sem hafa á undanförnum árum skotið hátt yfir markið.  Húsnæðisliður hefur auk þess allt of hátt vægi við verðbólguútreikninga, og þættir langt utan seilingarsviðs Seðlabankans hafa mun meiri áhrif á verðþróun húsnæðis en útlánsvextir.  

Þann 3. júlí 2018 birtist alvarleg frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fyrirtækin að fara úr landi":

""Stjórnvöld verða að bregðast við versnandi stöðu framleiðslufyrirtækja með skýrri atvinnustefnu.  Annars er hætta á, að fleiri framleiðslufyrirtæki og störf fari úr landi."  Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.  Það sé að koma á daginn, að íslenzkt hagkerfi standi ekki undir svo háum launum, nema framleiðni aukist."

Hvernig í ósköpunum má það vera, að ríkisstjórnin sitji við þessar aðstæður með hendur í skauti og aðhafist ekkert gegn aðsteðjandi vanda ?  Með því bregst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skyldum sínum.  Hún ætti nú þegar að hafa hleypt af stokkunum mótvægisaðgerðum, sem ýta undir framleiðnivöxt.  Þar er um að ræða fjárfestingarörvandi aðgerðir á borð við lækkun opinberra gjalda af fyrirtækjum, s.s. lækkun veiðigjalda, að létta kolefnisgjöldum af þeim, sem náð hafa loftslagsmarkmiðum 2030, lækkun tryggingagjalds og tekjuskatts fyrirtækja.

Hvað sagði Sigurður Hannesson meira ?:

"Það er hætt við, að iðnaður, sem fer úr landi, komi ekki aftur.  Framleiðslufyrirtæki hafa verið að hagræða og segja upp fólki í vetur.  Það segir sína sögu, þegar fyrirtæki vilja annaðhvort færa hluta starfseminnar utan eða telja sig ekki geta keppt við við erlenda keppinauta vegna þess, hversu hár innlendur kostnaður er orðinn.  Laun og vaxtakostnaður eru lægri erlendis sem og skattar og tryggingagjald.  Þessi skilyrði eru erfið fyrir ný fyrirtæki sem og þau eldri.  Hættan er sú, að ný fyrirtæki verði síður til." 

Í fréttinni kemur fram, að næst á eftir Svisslandi eru meðallaun í ISK í iðnaði og þjónustu hæst á Íslandi.  Meðallaun innan OECD eru 361,2 kISK/mán, og miðað við þau eru 5 hæstu launin innan OECD:  í Sviss 215 %, á Íslandi 205 %, í Noregi 172 %, í Lúxemborg 163 % og í Ástralíu 158 %. 

Ísland er áreiðanlega komið með hærri launakostnað en hagkerfið ræður við.  Eitt af mörgum úrræðum, sem grípa þyrfti til, til að verjast ofrisi og hrapi hagkerfisins, er lágt þak (undir verðbólgu) á allar launahækkanir í t.d. 3 ár.

Þann 13. júní 2018 birti Markaður Fréttablaðsins grein eftir Sigurð, sem bar fyrirsögnina:

"Heimatilbúinn vandi".

Hann lauk greininni þannig:

"Ein forsenda bættrar samkeppnishæfni er, að starfsumhverfi sé stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt.  Aukinn og víðtækur stöðugleiki er ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtæki, heldur allt íslenzkt samfélag.  Undanfarin ár hafa ytri skilyrði verið hagfelld, en því má ekki treysta til framtíðar litið.  Háir skattar, há laun og háir vextir í alþjóðlegu samhengi vinna þó á móti, auk þess sem lengra er gengið í innleiðingu EES-reglugerða en þörf krefur.  Það jákvæða í stöðunni er þó það, að þetta er heimatilbúinn vandi, sem stjórnvöld hafa öll tækifæri til að vinna á og efla þar með samkeppnishæfni Íslands."

Vera landsins í EES eykur verulega á óstöðugleikann í starfsumhverfi atvinnulífsins, því að framkvæmdastjórn ESB ungar stöðugt út nýjum Evrópugjörðum, lagabálkum og reglugerðum.  Það er ekkert tillit tekið til smæðar íslenzka þjóðfélagsins við innleiðingu þessara gerða, og kostnaður fyrirtækja og stjórnsýslu hérlendis af þessu skriffinnskubákni er að öllum líkindum yfir 100 miaISK/ár, þegar tillit er tekið til hamlandi áhrifa báknsins á framleiðniaukningu landsins.  Of lítil framleiðniaukning almennt hérlendis er einmitt viðurkennt vandamál. 

Til að losna við þessa byrði þarf einfaldlega að segja upp EES-samninginum.  Þá tekur við eins árs umþóttunartími.  Hafi ekki náðst að gera fríverzlunarsamning á þeim tíma, tekur gamli verzlunarsamningurinn á milli Íslands og ESB gildi, og hann var alls ekki slæmur.  

Þorbjörn Guðjónsson, cand.oecon., varpaði ljósi á hrikalega stöðu útflutningsfyrirtækis á hugbúnaðarsviði með grein í Morgunblaðinu 3. júlí 2018,

"Við erum öll í ástandinu og það er gott".

Hann sýndi áhrif verðlagsbreytinga á rekstrarniðurstöðu dæmigerðs hugbúnaðarfyrirtækis í útflutningi.  Árið 2014 námu rekstrartekjur þess MISK 350, en höfðu árið 2017 lækkað niður í MISK 285,4.  Gengishækkun, 18,5 %, innlend verðbólga, 6,7 % og launahækkanir, 27 %, höfðu breytt 3,6 % hagnaði fyrir skatt í 36 % tap.  Þetta er hrikaleg staða.  

Það er með ólíkindum, að ríkisstjórnin verðist vera stungin líkþorni og ekki hafa döngun í sér til að gefa eitt eða neitt út á þetta.  Henni ber þó að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika og að gera sitt til, að landið sé samkeppnishæft um fólk og fyrirtæki.  Vonandi vænkast hagur Strympu fyrr en síðar.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 16. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband