Hlutverk raforkugeirans

Íslenzki raforkugeirinn gegnir auðvitað margháttuðu hlutverki, en efst á blaði hlýtur að vera þjónustuhlutverk við fólk og fyrirtæki í landinu (Íslandi, en ekki Englandi eða annars staðar). Þessi stuðningur við mannlíf og atvinnustarfsemi verður að vera óháður búsetu fólks og staðsetningu fyrirtækja. Ef viðskipti þessara aðila við íslenzk raforkufyrirtæki bæta ekki lífskjör fólks og samkeppnisstöðu fyrirtækja í samanburði við útlönd, þá er maðkur í mysunni.

Á sólstöðum, 21. júní 2018, birtist í Morgunblaðinu frétt, sem bendir til, að þingmenn þurfi að fara að hrista upp í raforkugeira á villigötum.  Fyrirsögn fréttarinnar var þannig:

"Hátt raforkuverð neyðir bónda til að hætta ræktun":

 Fréttin hófst þannig:

""Það borgar sig að loka fremur en að vera með opið á veturna"(1), segir Gísli Hallgrímsson, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Brúnulaugar í Eyjafirði, sem mun í haust hætta ræktun paprika á veturna.  Að sögn Gísla veldur hátt raforkuverð því, að lítill sem enginn hagnaður skapast af starfseminni(2).  Þá geri reglur RARIK, sem er með einkaleyfi á dreifingu raforku á svæðinu, garðyrkju afar erfitt fyrir.  "Gjaldskráin hefur hækkað mikið undanfarin ár. (3) Auk þess eru reglurnar þannig, að þar sem íbúar eru færri en 50 talsins, er verðið talsvert hærra en á stöðum, þar sem íbúarnir eru fleiri.(4) Það er að mínu mati mjög undarleg skýring, og ég veit ekki, hvað liggur þar að baki", segir Gísli og bætir við, að hátt verð neyði hann til þess að loka fyrirtækinu á veturna."(5)

  1. Þegar rafmagnsverð til garðyrkjubænda hérlendis er orðið svo hátt, að þeir treysta sér ekki til að framleiða grænmeti á samkeppnishæfu verði, þá er það vísbending um, að íslenzki raforkugeirinn sé kominn út af sporinu sem þjónustuaðili við almenning í landinu.  Raforkufyrirtækin hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, að mikilvægara sé að skila eigendunum arði en að halda raforkuverðinu stöðugu eða jafnvel að lækka það.  Þar sem um fyrirtæki í almannaeigu er að ræða í flestum tilvikum, er þetta meinloka, sem fulltrúar eigendanna, sveitarstjórnarfulltrúar og Alþingismenn, þurfa að leiðrétta.  Hækkun raforkuverðs jafngildir þá skattahækkun.
  2. Framboð ótryggðrar raforku í landinu er allt of lítið.  Slíkir viðskiptaskilmálar geta hentað garðyrkjubændum og fiskimjölsverksmiðjum með olíukatla til vara.  Það þarf að virkja meira til að auka þetta framboð, en sáralítið er á döfinni núna af nýjum virkjunum.  Fyrir ótryggða orku er nóg fyrir viðkomandi virkjun að fá rekstrarkostnaðinn greiddan, en hann er lágur í íslenzkum virkjunum, einkum vatnsaflsvirkjunum, og til að spanna hann ætti að vera nóg að verðleggja ótryggða orku á 1,5 ISK/kWh að jafnaði, frá framleiðanda.
  3. Það skortir haldbærar skýringar á gjaldskrárhækkunum raforkufyrirtækja undanfarin ár, og Orkustofnun verður að standa meir á bremsunum gagnvart einokunarfyrirtækjunum.  Raforkuframleiðendum hefði átt að vera í lófa lagið að hækka minna en verðbólgu nemur, vegna skuldalækkana, og hinum, flutnings- og dreifingaraðilunum, að halda sig við almennar verðlagshækkanir.  
  4. Að sama dreifingarfyrirtæki mismuni viðskiptavinum sínum eftir búsetu, er hneyksli og stenzt varla jafnræðisreglu laga og stjórnlaga landsins.  Þingmenn hafa rætt þetta ramma óréttlæti, en ekki drifið í að gefa út þingsályktun eða samþykkja lög, ef nauðsyn krefur, sem fyrirskrifa, að allir viðskiptavinir sama dreififyrirtækis skuli búa við sams konar gjaldskrá, óháð búsetu, en auðvitað eiga "stórnotendur" á borð við garðyrkjubændur að búa við lægri gjaldskrá en almenn heimili vegna margfaldra viðskipta, óháð staðsetningu.  Eftirlitsaðili dreififyrirtækja raforku þarf að gæta þess, að einokunarfyrirtækin "svíni" ekki á viðskiptavinum sínum, sem ekki geta leitað annað.
  5. Orkustofnun þarf að meta, hvort dreifingarfyrirtækin sýna nægt kostnaðarlegt aðhald gagnvart viðskiptavinunum til að verðskulda sérleyfið, eða hvort fela á sérleyfið öðrum aðila, sem getur veitt betri þjónustu.  Sérleyfi á einokun til dreifingar rafmagns á ekki að vera sjálfsagt mál til eilífðarnóns.  Það er grafalvarlegt, ef verðlagning á rafmagni er svo há, að lýsing í gróðurhúsum, sem er stöðugt og jafnt álag, borgi sig ekki á Íslandi.

Á undanförnum misserum hafa komið fram kvartanir fleiri aðila undan háu verði ótryggðs rafmagns.  Hefur þar hæst borið hitaveitur með rafskautakatla og olíukatla til vara og fiskimjölsverksmiðjur, sem rafvætt hafa þurrkferlið, en til vara haldið gömlu olíukötlunum.  Á sama tíma og Landsvirkjun gasprar yfir umframorku í landinu upp á 2,0 TWh/ár, sem tiltækt yrði til sölu inn á sæstreng með "litlum" tilkostnaði, sem er tóm vitleysa, þá er tilfinnanlegur hörgull búinn að vera á tiltækri umframorku fyrir innlenda markaðinn.  Hér skýtur mjög skökku við.  

Eins og málum er nú háttað, er jafnframt mjög óljóst, hvort nokkur aðili í landinu ber raunverulega ábyrgð á því, að jafnan sé svo mikið framboð raforku í landinu, að ekki verði skortur á forgangsorku.  Einna helzt  virðist ábyrgðin á þessu liggja hjá Orkustofnun, en hún hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja eitt eða neitt.  

Það er brýnt að auka orkuöryggið í landinu samfara orkuskiptunum.  Það þarf að gera með tvennum hætti:

  • Efla þarf flutningsgetuna á milli landshluta og innan landshluta.  Á milli landshluta er brýnast að tengja saman Suðurland og Norðurland með um 500 MW jafnstraumsjarðstreng á Sprengisandsleið. Með því verður hægt að spara miklar línubyggingar í og nálægt byggð á Suð-Austurlandi og víðar. Það er líka brýnt að tengja saman Austurland og Norðurland með 220 kV loftlínu á milli Hryggstekks í Skriðdal og Kröflu.
  • Auka uppsett afl og miðlunargetu orkuvinnslufyrirtækjanna, svo að árleg orkuvinnslugeta þeirra fari aldrei niður fyrir að vera 5 % yfir árlegum forgangsorkuskuldbindingum þeirra.  Þetta gæti jafnframt stækkað markað ótryggðrar raforku.  
  burfellmgr-7340

 

 

 


Bloggfærslur 2. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband