Hvaða vandamál á ACER að leysa hérlendis ?

Morgunblaðið birti 9. ágúst 2018 frétt á bls. 20 um raforkuverð til almennings í 33 Evrópulöndum, eins og það er reiknað af Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.  Einingin er cEUR/kWh (evrusent á kílówattstund), og trónir Belgía efst með 28,5 og Kósóvó er lægst með 6,6.  Ísland er í 21.-23. sæti með 12,4 cEUR/kWh eða 15,5 ISK/kWh m.v. 125 ISK/EUR.  Það eru 20 ESB ríki fyrir ofan Ísland og 3 fyrir neðan.  Ísland stendur vel að vígi í þessum samanburði, og það er mjög ólíklegt, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi mmundi leiða til lækkunar á raforkuverði hérlendis, því að samkeppnisþátturinn, raforkuvinnslan sjálf, spannar aðeins um 40 % af ofangreindu verði á Íslandi.  

Þvert á móti getur þessi innleiðing haft skaðleg áhrif hérlendis, því að markaðskerfi ESB/ACER letur fremur en hvetur íslenzk orkufyrirtæki til að fjárfesta í nýjum virkjunum, og þar af leiðandi eykst hættan á afl- og orkuskorti hér með þeim mikla samfélagslega kostnaði, sem hann hefur í för með sér.  Ástæðan er sú, að vinnslukostnaður nýrra virkjana á Íslandi er hærri en fyrri virkjana, öfugt við stöðuna í ESB-löndunum, og þar af leiðandi versnar samkeppnisstaða þeirra, sem hérlendis reisa nýjar virkjanir í orkumarkaðskerfi ESB.

Ef innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi leiðir til lagningar aflsæstrengs til útlanda, en slíkur er í framvinduskýrslu ACER frá 07.07.2017, "Consolidated Report on the progress of Electricity and Gas Projects of Common Interests for the year 2016", skráður á rannsóknarstigi, þá er alveg áreiðanlegt, að raforkuverð á Íslandi mun hækka verulega, bæði vegna aukinnar eftirspurnar, fjölda nýrra virkjana og vegna nauðsynlegrar eflingar flutningskerfisins til að flytja raforkuna að sæstrengnum. Sá kostnaður lendir á notendum innanlands samkvæmt reglum ESB/ACER.  

Raforkukerfið á Íslandi er allsendis ófullnægjandi, en markaðshagkerfi ESB/ACER leysir engan veginn úr þeim vanda, því að mestu vandkvæðin eru bundin við einokunarstarfsemina.  Flutningskerfi Landsnets annar ekki núverandi raforkuþörf á nokkrum stöðum og annar ekki þörfum orkuskiptanna, nema á einstaka stað.  Áreiðanleika flutningskerfisins er víða ábótavant, og áreiðanleika dreifikerfanna er mjög víða ábótavant.

Þann 8. ágúst 2018 varð straumlaust í 9 klst samfleytt í Hveragerði, sem er 2300 manna bæjarfélag með fjölbreytta atvinnustarfsemi. Skammhlaup varð í jarðstreng.  Ljóst er, að varnir aðalspennisins í aðveitustöð Hveragerðis hafa verið ranglega stilltar eða bilaðar, því að þetta strengskammhlaup leiddi til bilunar aðalspennisins.  Það er glæfralegt og óviðunandi fyrir bæjarfélag á borð við Hveragerði, að bilun í aðalspenni geti leitt til langvarandi straumleysis.  Í aðveitustöð Hveragerðis verður að búa svo um hnútana, að ein bilun geti ekki valdið meira en einnar klst straumleysi að hámarki.  Til þess þarf annar eins spennir að vera tilbúinn til innsetningar, ef hinn rofnar frá kerfinu.  

Frétt Morgunblaðsins af þessum atburði 9. ágúst 2018,

"Engin starfsemi í níu klukkustundir",

hófst þannig:

""Samfélagið lamaðist algjörlega, og maður sá, hversu virkilega háð við erum rafmagninu", segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um rafmagnsleysi, sem kom upp í bænum í gær og stóð yfir í um 9 klukkustundir. Rafmagn er nú komið á í bænum og allt komið í samt lag.  Spurð um, hvort rafmagnsleysið hafi valdið miklu tjóni, kveður Aldís já við.  Nefnir hún í því samhengi fyrirtæki, sem urðu af viðskiptum í kjölfar rafmagnsleysins."

Þá var viðtal við kynningarstjóra RARIK, sem er dreifingarfyrirtæki Hvergerðinga, Rósant Guðmundsson:

"Að sögn Rósants geta bilanir í aflspennum komið upp, hvenær sem er.  Með réttu viðhaldi sé bilanatíðni þeirra hins vegar afar lág. [Hér er sá hængurinn á, að "rétt viðhald" verður ekki framkvæmt, ef ekki er hægt að taka spenninn úr rekstri án straumleysis hjá notendum.  M.a. þess vegna eru 2 spennar nauðsynlegir, og hægt á að vera að flytja álagið á milli þeirra án straumleysis hjá notendum - innsk. BJo.]

"Aflspennar geta bilað, hvenær sem er.  Ef sagan er samt skoðuð, kemur í ljós, að með réttu viðhaldi er tíðni bilana lág.  [Rétt viðhald felur líka í sér réttar stillingar liðaverndar og prófanir á liðavernd - innsk. BJo.]  Í ljósi þess, hve dýrir aflspennar eru, þá er iðulega ekki gert ráð fyrir tvöföldu öryggi með aukaspenni á hverjum stað, heldur reynt að hafa tiltækan varaspenni, sem má flytja á svæðið, þegar þörf krefur", segir Rósant."

Fyrir yfir 2000 manna notendahóp er þetta einfaldlega rangt mat.  Kostnaður þeirra af slíku straumleysi réttlætir fullkomlega tvöfalt kerfi.  RARIK verður að gera meiri kröfur til sín um gæði þjónustunnar en þessi ummæli gefa til kynna, og sveitarfélagið ætti að krefjast nákvæmrar greiningar á þessu atviki og á  kostnaðinum, sem tvöföldun í þessu tilviki mundi hafa í för með sér fyrir notendur.

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði afar skilmerkilega grein í Morgunblaðið þann 9. ágúst 2018 um reginmun á raforkukerfi Íslands og ESB-landanna, sem gerir það að verkum, að það er ekki hægt að beita markaðsaðferðum ESB/ACER á íslenzka raforkumarkaðinn án þess að valda atvinnulífinu hér og öllum almenningi skakkaföllum. Rökrétt ályktun af þeirri niðurstöðu er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB á ekkert erindi inn í íslenzka löggjöf.  Íslendingar eru síður en svo bundnir af samþykktum á löggjafarsamkomum annarra EFTA-ríkja á þessari framandi ESB-löggjöf, og Alþingi ætti því hiklaust að synja þessu máli samþykkis, þegar það kemur þar til afgreiðslu.

Lokakafli téðrar greinar, 

"Markaðstrú og raunveruleiki", 

hljóðaði svo:

"Við þær aðstæður, sem hér eru, getur óheftur markaður samkvæmt forskrift ESB ekki tryggt notendum nægilegt öryggi og lágt orkuverð án aðkomu stjórnvalda.  Allt þetta merkir líka, að hægt verður að setja spurningar við það, hvað raforkumarkaður hér getur orðið frjáls í raun, en samt verður að reyna.  Það má ekki gefast upp á því að nýta markaðslögmálin til að auka hagkvæmni í raforkuvinnslu og flutningi til hagsbóta fyrir almenna notendur raforku í landinu.

Eins og kemur fram í forsendukafla tilskipunar ESB nr 75/2009, þá er ein meginástæða fyrir tilurð hennar tregða einhverra innan ESB til að setja þær reglugerðir og leggja í þær fjárfestingar, sem þarf til að mynda frjálsan, nægilega virkan markað yfir landamæri innan bandalagsins.  Á þessu er tekið í tilskipuninni, með því að hvert ríki ESB skal stofna embætti landsreglara, og hafi þeir með sér samstarf, sem ný stofnun, ACER, heldur utan um.  Þannig fær þessi stjórnarstofnun ESB sterkt áhrifavald inn í raforkukerfi hvers lands, framhjá öllum öðrum stjórnvöldum og beitir því til að samræma reglugerðir þeirra.  Þetta leysir engin okkar vandamála, nema síður sé."

Landsreglari ESB yfir raforkumálum á Íslandi yrði algerlega einstæður í sögu stjórnskipunar á Íslandi frá 1. desember 1918.  Stofnun þessa embættis felur í sér opinbert valdframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem er Stjórnarskrárbrot á Íslandi.  Þegar af þeirri ástæðu ber Alþingi að hafna væntanlegri þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu umrædds lagabálks.  

Kerfi ESB er tæknilega ófært um að lækka orkuverð á Íslandi og samtímis að tryggja nægt framboð raforku.  Hér þarf að leggja auðlindagjald á orku frá virkjunum 20 ára og eldri til að mynda hvata til nýrra virkjana.  

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 7. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband