Sumir pakkar eru forsendingar

Það er ljóst, að fundur nokkurra hverfafélaga í Reykjavík markar tímamót í baráttu sjálfstæðismanna gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES.  Engum vafa er undirorpið, að fleiri félög á landinu munu fylgja í kjölfarið og leita eftir afstöðu þingmanna flokksins í sínum kjördæmum.  

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, dags. 31.08.2018, gerði þennan vatnaskilafund að umræðuefni með mjög jákvæðum og áhugaverðum hætti, enda gat hann trútt um talað, mættur sjálfur á svæðið.  Höfundur Reykjavíkurbréfsins er alfarið mótfallinn innleiðingu þessa "orkupakka" í íslenzka löggjöf vegna Stjórnarskrárbrota, sem í henni felast, og vegna þess, að "efnislega væri þessi innleiðing þess utan frámunalega óhagstæð hinni íslenzku þjóð, og dæmin, sem nefnd voru, tóku af öll tvímæli í þeim efnum".

Þá verður ekki betur séð en höfundurinn lýsi yfir vantrausti á nýlegri nefndarskipan utanríkisráðherra um reynsluna af EES, er hann skrifar:

"Varla dettur nokkrum manni í hug, að þeir, sem hafa staðið með svo óboðlegum hætti að málum, séu færir um að leggja mat á framvinduna fram að þessu."

Undir þetta skal taka og bæta við með hliðsjón af þessu Reykjavíkurbréfi, að meiri þörf er á skipan hæfileikafólks um valkostina, sem Íslendingar eiga við EES, því að öllum öðrum en nauðhyggjumönnum má ljóst vera, að rannsaka þarf þessa kosti og leggja mat á þá raunhæfustu og hagkvæmustu.  Þetta hafa Norðmenn þegar gert og gefið út 188 bls. skýrslu í A4-broti.  Þessa skýrslu geta Íslendingar reyndar tekið sér til fyrirmyndar og hagnýtt sér að breyttu breytanda.  

Verður nú aftur vikið að hinu ágæta Reykjavíkurbréfi. Um hegðun stjórnmálamanna og embættismanna þeirra í trássi við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun Maskínu í vor skrifaði höfundurinn:

"Embættiskerfið ber enga ábyrgð, en stjórnmálamenn gera það, og sjálf stjórnarskráin mælir fyrir um, að þannig skuli það vera.

En fundarsóknin í kjölfar einnar blaðaauglýsingar samdægurs svarar því til, að þessu máli verður ekki svo auðveldlega svindlað í gegn, þótt brotaviljinn virðist óþægilega einbeittur."

Höfundur lýsti síðan, hvernig þessi ókræsilegi pakki var opnaður af framsögumönnum fundarins:

"Fjórir prýðilegir framsögumenn voru á fundinum um orkumálapakkann.  Þeir voru hver með sinn þátt undir, og var það gagnlegt.  Um sumt virtist málið flókið, en á daginn kom, að það, sem skiptir máli, var einfalt.  Erindin voru ítarleg og vönduð og fundarmenn virkir, og því teygðist verulega á fundinum án þess að þynntist á bekkjunum."

Höfundur Reykjavíkurbréfsins tengdi "orkupakkamálið" mjög sterklega við Stjórnarskrána og minnti á stefnumörkun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í marz 2018 um, að ekki skyldi verða um að ræða frekara valdframsal til erlendra stofnana yfir orkumarkaðsmálum Íslands:

"Fréttir af "formannafundi í Þingvallabæ" báru allar með sér, að tilgangurinn var ekki annar en sá að læðast aftan að íslenzku fullveldi.  Og nú virðist þessi orkupakki orðinn að bögglingi Sjálfstæðisflokksins !  

Landsfundur hefur þegar afgreitt málið með þunga.  Það var m.a. gert á sama fundi og núverandi iðnaðarráðherra var kjörinn varaformaður.  

Þess vegna er erfitt að horfa upp á þann ráðherra láta rugla sig í ríminu.  Rökin, sem helzt eru nefnd, eru ekki beysin.   "Það myndi eitthvað mjög alvarlegt koma fyrir, ef við hlýðum ekki skrifstofumönnum í Brüssel, eins og við gerum alltaf."

Þetta var reyndar inntakið í gerningaveðri áróðursins vegna Icesave.  

Og því er gjarnan bætt við, að Brüsselvaldið gæti tekið upp á að refsa okkur, ef við hlýddum ekki fyrirmælum þess."

Á téðum Valhallarfundi mátti ráða það af erindi Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti, að fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni og/eða yfirmenn þeirra í utanríkisráðuneytinu hafi hlaupið á sig með því að gera ekki fyrirvara við atriði Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB, sem greinilega brjóta í bága við íslenzku Stjórnarskrána.  Stefán Már ráðlagði að hafna þessum lagabálki ESB að svo komnu máli.  Vönduð greiningarvinna yrði að fara fram, enda væri þanþol Stjórnarskrárinnar raunverulega brostið, þegar á upphaflega EES-samninginn og allar viðbæturnar við hann væri litið.

"Á þetta [synjun Evrópugerða] hefur aldrei reynt, því að Ísland kyngir jafnan öllu.  En Brusselliðið, sem litla fólkið í ráðuneytunum umgengst, eins og börn umgangast leikskólakennara, hefði enga stöðu til að yggla sig í þessum efnum.  Það á ekki við, eins og hefur legið fyrir frá fyrsta degi og mátti lesa úr þessum fína fundi í Valhöll.

ESB er sem stofnun fullkomlega ljóst, eða ætti að vera það, að Ísland mætti aldrei og myndi aldrei lögtaka reglugerðir eða tilskipanir, sem því væri óheimilt í stjórnarskrá.  

Frá fyrsta degi samningaviðræðna um EES var viðsemjandanum gerð grein fyrir þessari staðreynd.  Ríkisstjórnin fékk vandaðan hóp fræðimanna til að fara yfir það, hvort EES-samningurinn stæðist Stjórnarskrá, enda hafði í átökum um hann verið fullyrt, að svo væri ekki.  Andstæðingarnir nutu lögfræðiaðstoðar að sínu leyti og fengu þá niðurstöðu, að EES-samningurinn færi út fyrir mörkin, sem stjórnarskráin leyfði.  Ríkisstjórnin og aukinn meirihluti Alþingis féllst hins vegar á það mat, sem hin opinbera laganefnd hafði í sinni niðurstöðu.  En það fór aldrei á milli mála og var viðurkennt og ítrekað á fundinum á fimmtudag, að þar var farið að yztu mörkum."

Alvarlegast og hættulegast við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi er, að samkvæmt honum verður stofnað til embættis í landinu, sem verður algerlega utan lýðræðislegs, innlends aðhalds, þannig að hvorki löggjafarvald, framkvæmdavald né dómsvald geta haft áhrif á gjörðir þessa embættis.  Embættinu er ætlað eftirlits- og stjórnunarhlutverk með flutningskerfi raforku í landinu og tekur þannig við núverandi hlutverkum Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis á þessu sviði, rýnir og samþykkir netmála (tæknilega tengiskilmála) Landsnets og dreifiveitna og gjaldskrár þessara fyrirtækja.  Embættinu er jafnframt ætlað æðsta eftirlitshlutverk með raforkumarkaðsmálum landsins.  Þótt það hafi ekki vald til að skipa fyrir um fyrirkomulag markaðarins fyrr en tenging við rafkerfi í Orkusambandi ESB er komin á framkvæmdastig, þá má fastlega gera ráð fyrir, að embætti þetta, Landsreglarinn, muni hvetja til upptöku uppboðskerfis raforku að hætti ESB frá fyrsta degi.  

Í tveggja stoða kerfi EES á ESA-Eftirlitsstofnun EFTA að gegna hlutverki framkvæmdastjórnar ESB gagnvart EFTA-löndunum.  Í samningum innan EES, væntanlega í Sameiginlegu EES-nefndinni, var hins vegar ESA-svipt sjálfstæði sínu gagnvart ACER og verður að taka við úrskurðum, tilmælum og fyrirmælum frá framkvæmdastjórn ESB og Orkustofnun ESB-ACER og framsenda slíkt til Landsreglarans.  Þarna eru hagsmunir Íslands algerlega bornir fyrir borð, landið er nánast innlimað í ESB á raforkusviðinu. Þetta er á meðal grófustu Stjórnarskrárbrota, sem sézt hafa. 

Lýsingu á samningum EFTA og ESB um þetta er að finna í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar nr 4 S (2017-2018): 

"Samþykki á ákvörðun EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 um innleiðingu réttarfarsáhrifanna í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum í EES-samninginn",

og er á þessa leið í þýðingu pistilhöfundar:

"Eftirlitsstofnun EFTA skal, þegar hún gerir slíkar samþykktir [er fara til Landsreglarans - innsk. BJo], reisa samþykktina á drögum frá ACER.  Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.  Það er grundvallar forsenda fyrir fyrirkomulaginu, sem samið hefur verið um, að Eftirlitsstofnun EFTA muni, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Þar með er íslenzki raforkumarkaðurinn og flutnings- og dreifikerfin komin undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB um nokkra milliliði.  Það er m.a. þetta, sem átt er við,þegar rætt er um hættuna, sem fullveldi landsins og sjálfstæði stafar af þessum lagabálki. Eftir samkeppnismarkaðsvæðingu íslenzka raforkumarkaðarins getur orðið stutt í kvörtun ESA til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af því, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skekki mjög samkeppnisstöðuna á markaðinum, sjá Valhallarræðu, 30.08.2018 í viðhengi.  Þar með er ESB komið með klærnar í alla 4 geira raforkukerfisins.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 9. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband