Að stinga hausnum í EES-sandinn

Það er háttur margra að bera á borð annaðhvort lofgerðarrullu um kosti EES-samstarfsins eða að lýsa göllunum fjálglega.  Þessi aðferðarfræði er haldlaus á 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið-EES, því að þar er um æ flóknara fyrirbæri að ræða.  Þá eru ekki margir hérlendis, sem hafa lagt sig eftir valkostum Íslendinga við EES-samninginn, sem þó er nauðsynlegt innlegg í umræðuna um veginn framundan í ljósi stöðunnar í Evrópu og reynslunnar af EES-samstarfinu.  Þetta mat verður ekki inntak þessa pistils, heldur skal hér þrengja umræðuefnið til að spanna einn anga EES-samstarfsins, Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.

Tilefnið er greinarstúfur á Sjónarhóli Morgunblaðsins 3. janúar 2019 eftir Ara Guðjónsson, lögmann og yfirlögfræðing Icelandair Group, sem hann nefnir:

"EES-samstarfið í uppnámi".

Það olli vonbrigðum við lestur greinarinnar, hversu þröngt sjónarhornið er og takmarkaður eða alls enginn rökstuðningur í greininni færður fyrir skoðun lögmannsins.  Honum þykir málflutningur andstæðinga innleiðingar Þriðja orkupakka ESB digurbarkalegur, en þeir hafa þó uppi góða tilburði, margir hverjir, til að rökstyðja sín sjónarmið. 

Einkennandi fyrir málflutning skoðanasystkina Ara Guðjónssonar um þetta mál eru fullyrðingar um umdeilanleg lögfræðileg atriði, eins og lögmæti fullveldisframsals m.v. íslenzku Stjórnarskrána og áhrif innleiðing Evrópugerðar eða tilskipunar á gildandi réttarfar hér á landi.  Þá ber mikið á sleggjudómum um viðbrögð samstarfsaðila Íslendinga í EES við höfnun Alþingis á "pakkanum", þótt EES-samningurinn sjálfur fjalli um leyfileg viðbrögð við synjun þjóðþings.  Verður nú vitnað í téða Sjónarhólsgrein, sem hófst þannig:

"Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á þeirri löggjöf.  Andstæðingar þessarar nýju löggjafar hafa verið heldur digurbarkalegir í umræðunni og hafa haldið því fram, að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og hafa jafnvel kallað eftir því, að Ísland gangi út úr samstarfinu.  Þrátt fyrir að öll umræða um þessi málefni sé góðra gjalda verð, standast þær fullyrðingar, sem fram hafa komið frá helztu andstæðingum þriðja orkupakkaans enga lögfræðilega skoðun."

Á Evrópuréttarfræðinginum Stefáni Má Stefánssyni, fyrrverandi lagaprófessor, er að skilja, að með Orkupakka #3 verði gengið lengra í framsali fullveldis en samrýmist Stjórnarskránni, enda verði að taka tillit til uppsafnaðs framsals ríkisvalds til ESB.  Það eru þess vegna uppi mjög miklar lögfræðilegar vangaveltur hérlendis, sem og í Noregi, um þetta atriði.  Ari Guðjónsson hefur ekkert í höndunum til að sópa áhyggjum af þessu atriði út af borðinu. Þær eiga sér traustan, lögfræðilegan grundvöll.

Lögfræðileg umræða um framsal fullveldis þarfnast jarðtengingar til skýsringar. Það nægir hér að benda á eitt efnisatriði í þessu sambandi, en það er stofnun embættis Landsreglara, eða, sem væri enn þá verra, að breyta embætti Orkumálastjóra í Landsreglara, sem verður að Evrópurétti, sem á þessu sviði verður æðri íslenzkum lögum við innleiðinguna, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, löggjafarvaldi og hagsmunaaðilum.  Þetta embætti getur orðið íslenzkum lögaðilum og einstaklingum íþyngjandi með sektargreiðslum, fyrirmæli til embættisins eru samin hjá ACER-Orkustofnun ESB, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem er umsaminn milliliður, hefur enga heimild til að ógna einsleitni regluverks á milli landa EES með því að breyta fyrirmælunum eða hundsa þau til EFTA-landanna.  

Landsreglarinn verður eftirlitsaðili með flutningsfyrirtækinu Landsneti og dreifiveitunum, semur reglugerðir þeim til handa og staðfestir verðskrár þeirra eða hafnar þeim.  Hann getur farið fram á víðtæka upplýsingagjöf frá fyrirtækjum á íslenzka raforkumarkaðinum að viðlögðum fjársektum, ef ekki er orðið við þeim beiðnum. 

Landsreglarinn mun hafa eftirlit með því, að íslenzki raforkumarkaðurinn starfi, eins og ACER bezt telur henta kaupendum á markaðinum, en svo illa vill til, að kjörfyrirkomulag ACER er frjáls samkeppni í orkukauphöll, sem engan veginn tryggir hag orkukaupenda, þar sem orkukerfið er samsett á þann einstæða hátt, sem hérlendis er raunin.  Það getur hins vegar virkað ágætlega við aðstæður, sem það er hannað fyrir (eldsneytiskerfi, margir birgjar).

Þarna er vikið að innihaldi valdframsals yfir orkumálum til yfirþjóðlegs valds, þar sem við ekki höfum atkvæðisrétt.  Það getur blessazt, en það eru mun meiri líkur á, að ákvarðanataka á grundvelli sameiginlegra hagsmuna ESB/EES gagnist illa íslenzkum hagsmunum á þessu sviði, þar sem aðstæður eru gjörólíkar.  Þar af leiðandi á Alþingi að láta það ógert að taka slíka áhættu.  Stjórnarskráin vísar rétta leið.  Framsal ríkisvalds til útlanda er ávísun á verri stjórnarhætti, sem geta orðið landsmönnum dýrkeyptir.  Þetta veit almenningur, enda er sagan ólygnust.

Ari Guðjónsson kýs að gera minni háttar atriði við Orkupakka #3 að aðalatriðum greinar sinnar, og þannig kemst hann aldrei að kjarna málsins, sem er stefnumörkun um málefni íslenzka raforkumarkaðarins út frá hugmyndafræði ESB, sem kallar á árekstra við hagsmuni almennings á Íslandi. 

Hann gerir mikið úr, að íslenzkum yfirvöldum hafi tekizt að fá undanþágu frá skýrum reglum Orkupakka #2 og #3 um, að flutningsfyrirtækið, hér Landsnet, skuli vera óháð öðrum aðilum á orkumarkaði.  Þessa undanþágu telur hann kost, en hún er alvarlegur ókostur, því að Landsnet, RARIK, OR og OV eiga Landsnet.  Þar með er auðvelt að gera því skóna, að Landsnet mismuni aðilum á markaði, t.d. nýjum vindorkufyrirtækjum, sem gjaldi fyrir áhrifastöðu LV, RARIK, OR eða OV í stjórn LN.

  Með miklum tilkostnaði var lítill raforkumarkaður Íslands brotinn upp í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu, að fyrirmælum ESB, til að tryggja frjálsa samkeppni, en skrefið hefur aldrei verið stigið til fulls til að formlegum reglum um frjálsa samkeppni sé þó fullnægt. Ari Guðjónsson er hróðugur yfir þessum óskapnaði og skrifar:

"Að þessu leyti mun þriðji orkupakkinn því engin áhrif hafa á gildandi réttarumhverfi hér á landi, og er þar með búið að tryggja, að ekki þurfi að gera breytingar þar á vegna innleiðingarinnar [á Orkupakka #3-innsk. BJo]."

Að hugsa sér, að þetta skuli vera uppistaðan í röksemdafærslu lögfræðingsins fyrir því, að Orkupakki #3 muni engin áhrif hafa hér á landi.  Ekki tekur betra við, þegar kemur að Landsreglaranum, sem við blasir, að verður einsdæmi í stjórnsýslu á Íslandi og í raun Trójuhestur ESB í stjórnkerfinu á Íslandi, þótt hann kunni (umdeilanlega) að vera eðlilegur þáttur stjórnsýslu ESB í ESB-löndunum.  Þessu snýr Ari Guðjónsson á haus og kveður fyrirkomulagið verða sjálfstæðismál fyrir Orkustofnun.  Hver hefur beðið um það ? 

Það er lýðræðislegt fyrirkomulag, að Orkumálastjóri heyri heill og óskiptur undir íslenzkan ráðherra, en ekki stundum undir forstjóra ACER með ESA sem millilið.  Hvernig í ósköpunum á Orkumálastjóri stundum að vera óháður ráðherra og stundum að vera undir boðvaldi hans ?  Ari skrifar:

"Það liggur hins vegar fyrir, að gera þarf ákveðnar breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun vegna innleiðingarinnar.  Þær breytingar munu m.a. tryggja frekara sjálfstæði Orkustofnunar með þeim hætti, að ráðherra mun ekki geta gefið stofnuninni fyrirmæli um úrlausn mála, þrátt fyrir að Orkustofnun muni enn heyra undir yfirstjórn ráðherra."

Það er alveg makalaust, að lögfræðingurinn virðist telja ávinning af innleiðingu þessa aukna og ólýðrýðislega flækjustigs í íslenzka stjórnsýslu, þótt við leikmanni blasi, að breytingin feli í sér Stjórnarskrárbrot.  

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum með lofrullu um EES-aðildina og hræðsluáróður um, að EES-samstarfið velti á innleiðingu Orkupakka #3.  Það er ekki fótur fyrir slíku.  Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. gamla fríverzlunarsamninginn, sem í gildi var á milli EFTA og ESB, nemi viðskiptalegur ávinningur EES-samningsins 4,5 mrðISK/ár.  Kostnaðurinn er hins vegar margfaldur ávinningurinn, því að beinn kostnaður er talinn nema 22 mrðISK/ár (Viðskiptaráð Íslands) og óbeinn kostnaður af ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani í örsmáu samfélagi og minni framleiðniaukningu um 1,0 %/ár fyrir vikið, þýðir sóun upp á yfir 100 mrðISK/ár. Alls nemur árlegur nettókostnaður EES-aðildar á annað hundrað milljörðum ISK.  Þetta er nú öll margrómuð himnaríkisdýrð EES-aðildar Íslands.

Til að gefa innsýn í hugarheim EES-trúaðra er fróðlegt að birta jarðteiknasögu Ara Guðjónssonar og "Götterdämmerung" eða syndafallið í lokin:

"Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga, að EES-samningurinn felur í sér eina mestu réttarbót, sem íslenzkt samfélag hefur innleitt.  Samningurinn hefur tryggt Íslandi fullan aðgang að innri markaði Evrópu, en þó með þeim takmörkunum, sem taldar voru nauðsynlegar á sínum tíma, sem aðallega varða sjávarútveg.  Það er ekkert launungarmál, að Ísland hefði líklega aldrei náð að landa slíkum samningi án þess að hafa verið í samstarfi með öðrum stærri ríkjum, þegar samningurinn var gerður.  Ef Alþingi tryggir ekki innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi, gæti það sett EES-samstarfið í uppnám."

Í raun og veru er þetta áróður fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að meint "réttarbót" er Evrópurétturinn og synjunarvald þjóðþinganna á ESB-gerðum er það, sem helzt greinir að réttarstöðu EFTA-ríkjanna (í EES) og ESB-ríkjanna gagnvart stofnunum Evrópusambandsins.

Í Noregi gætir vaxandi efasemda um aðild landsins að EES-samninginum, og er þar athyglisverðust þróunin innan norsku verkalýðshreyfingarinnar.  Ekki er ólíklegt, að BREXIT-dramað endi með gerð víðtæks fríverzlunarsamnings á milli Bretlands og ESB.  Þá liggur beint við, að EFTA leiti hófanna um svipaðan samning við Bretland og ESB.  

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband