Talsmenn Orkupakka #3 hér og þar

Einn er sá hagsmunahópur í Noregi og á Íslandi, sem heldur uppi áróðri fyrir innleiðingu EFTA-landanna í EES á Orkupakka #3 á mjög svipuðum nótum í báðum löndunum, en það er orkugeirinn sjálfur eða hluti af honum. Hérlendis hefur t.d. mátt greina hliðholla afstöðu til orkupakkans hjá aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Rögnu Árnadóttur, sem heldur því jafnan fram, að áhrif innleiðingar verði lítil hérlendis, og hjá forstjóra Landsnets, Guðmundi Inga Ásmundssyni, sem mærði frjálsa samkeppni með raforku í orkukauphöll í Fréttablaðinu, 26. janúar 2019, en það er einmitt fyrirkomulag í anda Þriðja orkupakka ESB.

Norska orkugeiranum er mikið í muna, að Þriðji orkupakki ESB öðlist lagagildi í Noregi, en það gerir hann ekki, nema Alþingi staðfesti hann, þótt hann muni hafa miklu alvarlegri áhrif á Íslandi en í Noregi, þar sem Norðmenn eru nú þegar með orkukauphöll í anda ESB og fjölda millilandatenginga, bæði í lofti og í sjó. Þann 17. janúar 2019 birti Energi Norge, sem eru samtök raforkufyrirtækja í Noregi í vinnslu, flutningum og dreifingu, greinargerð, sem þau hafa líklega keypt af norska lagaprófessornum Henrik Björnebye.  Hér verða rýndar 6 fullyrðingar þessa prófessors við lagadeild Óslóarháskóla:

  1. "EES-löndin halda fullum umráðarétti yfir náttúruauðlindum sínum-alveg eins og öll aðildarlönd ESB.  Grein 125 í EES-samninginum tryggir EFTA-löndunum möguleikann á opinberu eignarhaldi á náttúruauðlindum, eins og viðgengst í Noregi með vatnsaflið."----Hér er tvennt að athuga fyrir Ísland.  Frumorkan er eignaréttarlega samtvinnuð virkjuninni.  Sá, sem kaupir vatnsréttindi eða jarðgufuréttindi fyrir virkjun sína, eignast ráðstöfunarrétt yfir viðkomandi orkulindum.  Í ESB er algengast, að eldsneytismarkaðirnir sjái fyrir útvegun frumorkunnar, svo að orkumarkaðslíkan ESB er sniðið við allt aðrar aðstæður en hér.  Í annan stað er ekki þjóðareign á orkulindum á Íslandi, svo að það er ekkert gagn að gr. EES 125 á Íslandi til að verjast erlendri ásælni í orkulindirnar. Hið sama gildir í raun í Noregi.  Þar hafa þýzkir fjárfestingarsjóðir nýlega keypt fjölda smávirkjana vatnsafls í rekstri og byggingu.  Þessar virkjanir hafa vart borið sig til þessa, svo að Þjóðverjarnir veðja augljóslega á mjög hækkandi raforkuverð í Noregi, eins og birtingarmynd hefur sézt af í vetur.  Útlendingar hafa líka reist vindorkugarða í Noregi, m.a. á hálendinu, sem eru Norðmönnum mikill þyrnir í augum.  Augljóslega er þessi þróun mála hagsmunum almennings andstæð, þótt ríkisfyrirtækið Statkraft framleiði þriðjung norskrar raforku.   
  2. "EES-löndin ráða sjálf ákvörðunum um aflsæstrengi eða ekki - alveg eins öll ESB-aðildarlöndin." ---- Hér er Landsreglarinn greinilega talinn með til stjórnsýslu landanna, þótt líkja megi honum við Trójuhest ESB innan stjórnsýslu hvers lands.  Sérstaklega á það auðvitað við um EFTA-löndin.  Landsreglarinn á að fylgja því eftir í hverju landi, að Kerfisáætlun Landsnets hvers lands búi í haginn fyrir verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB um samtengingar orkukerfanna.  Um þetta er getið í ESB-gerð 347/2013, og hún verður áreiðanlega innleidd í kjölfar Orkupakka #3. Ef sæstrengur til Íslands er í Kerfisþróunaráætlun ESB, sbr Icelink, og framkvæmdaaðili sækir um leyfi til að leggja hann, þá varðar höfnun Orkustofnunar eða bann Alþingis einfaldlega broti á EES-samninginum og Evrópurétti eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Slíkur ágreiningur lendir endanlega fyrir ESB-dómstólinum í tilviki ESB-landa og fyrir EFTA-dómstólinum í tilviki EFTA-landa.  Þetta er óvéfengjanlegt.  Björnebye reynir að breiða yfir þessa grafalvarlegu staðreynd með óljósu orðalagi.
  3. "EES-löndin ákveða sjálf, hvaða innlenda stjórnvald á að bera ábyrgð á að meta og samþykkja ný sæstrengsverkefni eða hafna þeim. Í Noregi er þetta vald hjá Olíu- og orkuráðuneytinu. ACER getur ekki haft áhrif á þetta." ---- Hér er aðeins hálf sagan sögð hjá Björnebye.  Landreglarinn fylgist auðvitað náið með afgreiðslu umsóknar um aflsæstrengsleyfi, eins og honum ber að gera, þar sem Kerfisþróunaráætlun ESB á í hlut.  Hans fyrsta verk eftir höfnun Orkustofnunar/iðnaðarráðuneytis á slíkri umsókn verður að tilkynna hana til ACER, sem tekur þá ákvörðun um framhaldið í samráði við framkvæmdastjórn ESB.  Það liggur beint við að kæra höfnun til ESA sem brot á skuldbindingum Íslands.  Lagasetning Alþingis hefur engin úrslitaáhrif í þessu sambandi, þar sem innlend löggjöf víkur fyrir Evrópurétti samkvæmt EES-samninginum.  
  4. "Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er reistur á grundvallaratriðum, sem þegar hafa verið innleidd og hafa tekið gildi samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálkinum. Það er sem sagt ekki um að ræða að fara inn á innri orkumarkað ESB, heldur fremur að halda áfram og þróa núverandi tengingu okkar við þennan markað." ---- Það eru ýmsar leiðir færar til að hrekja þessa staðhæfingu.  T.d. hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að með samþykkt Orkupakka #3 tekur Evrópurétturinn gildi fyrir millilandaorkutengingar landanna, en hann er ekki við lýði nú fyrir millilandatengingar Noregs, eins og ljóst má vera af rekstri kerfisins og umræðunni í Noregi.  Þetta jafngildir grundvallarbreytingu á réttarstöðu EFTA-landanna á þessu sviði.  Að öðru leyti er mest sannfærandi í þessu sambandi að vitna í Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar frá 25. janúar 2019:"Að misskilja "rétt"": "Ráðuneytið virðist ekki skynja breytinguna frá stefnu framkvæmdastjórnar ESB í tilskipuninni, sem innleidd var hér með orkulögunum 2003 til þeirrar stefnu, sem boðuð er með þriðja orkupakkanum.  Þar er horfið frá því að láta hvert ríki um að aðlagast stefnu innri markaðarins eftir aðstæðum og hagsmunum hvers og eins, en í stað þess skal veita framkvæmdastjórninni síaukið vald til miðstýringar.  Þetta er grundvallarbreyting.                                        Þegar orkulögin voru samþykkt 2003, voru rafmarkaðir með allt öðru sniði en nú.  Samkvæmt þeim lögum virtist vera svigrúm til að koma á frjálsum uppboðsmarkaði með formi, sem gæti gengið upp hér, en svo er ekki lengur.  Með þriðja orkupakkanum kemur landsreglari í öllum ríkjum ESB, sem hvarvetna gegnir því hlutverki að vera reglusetningararmur ACER.  Ein meginskylda hans hér verður að vinna að uppsetningu á frjálsum markaði með sömu reglum og formi og nú er á rafmörkuðum ESB, en þeim mörkuðum er lýst í grein undirritaðs, "Rafmagn til heimila og útflutnings á markaði", á heimasíðu HHÍ, hhi.hi.is/vinnupappirar.  Með fyrirkomulagi núverandi rafmarkaða Evrópu eru markaðslögmál virkjuð í þágu notenda ESB, en ekki okkar.  Niðurstaða greinarinnar er, að vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins þá virkjast þessi sömu markaðslögmál ekki í þágu íslenzkra notenda með sama fyrirkomulagi.  Innleiðing þess hér yrði skaðleg.  Þetta fyrirkomulag verður samt innleitt hér, ef þriðji orkupakkinn hlýtur samþykki."  Þessu vandamáli Íslendinga skautar Henrik Björnebye, hinn norski lögmaður, léttilega framhjá, því að hann er að skrifa fyrir norska hagsmunaaðila í raforkugeiranum, sem eiga þeirra hagsmuna að gæta, að verðið haldist sem hæst á norskum raforkumarkaði, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn tryggir þá hagsmuni í Noregi og á Íslandi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði milliríkjaviðskipta með orku.  Til að sýna enn betur, hversu forkastanlegt ráðslag það er hjá íslenzkum orkuyfirvöldum að berjast fyrir innleiðingu löggjafar, sem sýnt hefur verið fram á, að er hag almennings á Íslandi stórskaðleg, skal halda áfram að vitna í téða grein Elíasar:  "Landsreglarinn mun taka yfir alla stjórn raforkumála frá ráðuneytinu, en staða hans er sett upp, svo [að] framkvæmdastjórn ESB hafi auðvelda leið til miðstýringar á öllu, er varðar viðskipti með rafmagn á innri markaðinum.  Hér mun sú miðstýring einnig ná yfir auðlindavinnsluna vegna þess, hve nátengd hún er raforkuvinnslu."  Þessar upplýsingar svara líka ágætlega klisjunni, sem fram kemur í lið 1 hér að ofan hjá Björnebye og algeng er hérlendis, að Orkubálkur #3 snerti ekki við auðlindastýringunni.  Hann mundi vissulega gera það á Íslandi.
  5.  "Nýjar reglur, reistar á Evrópuréttinum, s.s. netmálar og vinnureglur samkvæmt Orkupakka #3 ásamt nýlega samþykktum "Vetrarpakka" (Clean Energy for all Europeans) verða lagðar fram sem sjálfstæð mál til afgreiðslu hjá EES-löndum [EFTA] og ESB [væntanlega á Björnebye við Sameiginlegu EES-nefndina - innsk. BJo].  Þannig er ferlið fyrir allar nýjar ESB/EES-reglur." ---- Það er enginn ágreiningur um þetta, svo að eitthvað hafa boðin frá Íslandi til Energi Norge skolazt til.  Því, sem hins vegar hefur verið haldið fram hér, er, að allar orkutengdar reglur, sem ESB hugsar sem viðbót við Orkupakka #3, t.d. gerð nr 347/2013, munu áreiðanlega verða samþykktar í Sameiginlegu EES-nefndinni og væntanlega staðfestar á þjóðþingunum, því að það væri með öllu órökrétt að samþykkja Orkupakka #3, en hafna því, sem við hann á að éta.  Það gengur ekki upp.
  6.   "Þótt Ísland muni ekki samþykkja Orkupakka #3, munu samt áfram  verða í gildi ákvæði aðalsamnings EES um frjálst flæði vara, þjónustu, fjármagns og fólks ásamt regluverkinu um ríkisstuðning og sameiginlegar samkeppnisreglur." ---- Með þessu er Henrik Björnebye, lögmaður, að segja, að þrátt fyrir höfnun Alþingis á Orkupakka #3, verður samt "business as usual" innan EES.  Það er í samræmi við málflutning andstæðinga innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi.  

Bloggfærslur 31. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband