Orkuskýrsla SI - rýni III

Hér verður haldið áfram að rýna skýrslu Samtaka iðnaðarins um raforkumál frá 16.10.2019 og tekið til við kaflann "Uppbygging raforkumarkaðar". Þar segir í undirgreininni: 

"Orkupakkar ESB og markaðsvæðing raforkukerfisins":

"Orka er skilgreind sem vara í skilningi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.  Með aðild Íslands að þeim samningi hefur íslenzka ríkið tekið á sig þær skuldbindingar að innleiða svokallaða orkupakka ESB, sem fela í sér regluverk, er viðkemur opnun raforkumarkaða og markaðsvæðingu þeirra."    

Nær er að skrifa, að Evrópusambandið (ESB) skilgreinir orku sem vöru, og þar með fellur raforka undir allt regluverk fjórfrelsis Innri markaðar EES. Það er of langt seilzt í þjónkun við ESB að halda því blákalt fram, að aðild Íslands að EES skuldbindi landið til að taka upp og innleiða í sína löggjöf orkulöggjöf ESB, svo nefnda orkupakka.  Ef þetta væri rétt, gæti framkvæmdastjórn ESB ákveðið upp á sitt eindæmi, hvaða löggjöf EFTA-löndin 3 í EES tækju upp úr safni ESB-löggjafar.  Þar með væri jafnframt Sameiginlega EES-nefndin hreint formsatriði, stimpilstofnum fyrir mál, sem Framkvæmdastjórnin hefur merkt sem EES-mál.  Hvað skyldu málsvarar EES hérlendis segja um þetta ?  Þetta er alveg af og frá og skrýtið, að þessu skuli vera varpað fram sem túlkun SI á EES-aðild Íslands.

Um raforkumarkaðinn segir í skýrslunni:

 "Markmið breytinga á raforkumarkaði endurspeglast í markmiðsákvæði raforkulaga, þar sem segir m.a., að stuðla skuli að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.  Í því skyni skal skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku með þeim takmörkunum, sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og loks taka tillit til umhverfissjónarmiða."

Hér kveður við nýjan tón í skýrslunni, því að ekki er þarna um að ræða skefjalausa markaðstrú, heldur skuli leitazt við að afhenda neytendum raforku á lágmarksverði (þjóðhagslega hagkvæmu) og beita takmörkunum á frjálsa  samkeppni, sem túlka má sem markaðsstýringu með ívafi orkulindastýringar, þegar það á við.  Þarna hefði að ósekju mátt skrifa skýrar.  Þetta er of mikið, eins og komið hafi frá véfréttinni í Delphi, og er það, ásamt innbyrðis ósamræmi, ljóður á ráði skýrsluhöfunda.  Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er þessu lagaákvæði illa eða ekki fylgt af fyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur gagnvart grænmetisbúinu Lambhaga í Reykjavík, eins og gerð verður grein fyrir í síðari pistli.

Í kaflanum "Opinbert eignarhald í orkufyrirtækjum"

 er sett fram sjónarmið, sem hægt er að taka undir, og gæti verið lausn á furðulegri stöðu, sem upp er komin, af því að stjórn Landsvirkjunar leikur lausum hala, rekur verðlagsstefnu, sem vafasamt er, að njóti stuðnings á Alþingi, og hefur haldið uppi áróðri fyrir því að selja raforku úr landi um sæstreng, þótt sú afstaða njóti ekki almenns fylgis nú um stundir, enda vantar mikið á, að hún hafi verið rökstudd skilmerkilega (með hagkvæmniútreikningum):

"Mikilvægt er, að í þeim tilvikum, þar sem opinbert eignarhald er á fyrirtækjum, að sett sé samhliða stefnumörkun eigenda hverju sinni, þar sem fram koma með skýrum hætti markmið þeirrar starfsemi, áætlanir og samskipti við viðskiptavini þess, svo [að] dæmi séu tekin.  Þess vegna hafa Samtök iðnaðarins kallað eftir eigendastefnu stjórnvalda fyrir orkufyrirtæki í beinni eða óbeinni eigu hins opinbera."

Það er brýnt, að stjórnvöld fari að sýna á spilin í þessari vinnu, og væntanlega mun Landsvirkjun þurfa að snúa við blaðinu, þegar eigandastefna hennar kemur fram, ef hún verður á annað borð bitastæð.  

Það er einkennilega mikil áherzla í þessari skýrslu á samkeppni, og nokkur hrifning virðist hjá sumum höfundunum á orkupökkum Evrópusambandsins.  Í kaflanum:

"Raforkumarkaður stuðli að samkeppni"

er minnzt á þetta "leiðarljós" orkupakkanna, sem undirstrikað sé í OP#2 frá 2003, en það ár var OP#1 innleiddur á Íslandi.  Höfundarnir hafa tekið upp þetta trúaratriði úr orkupökkunum, þótt á Íslandi skorti forsendur fyrir því, að frjáls samkeppni virki í því fákeppnisumhverfi með tiltölulega litlum fyrirtækjum, sem hér er, enda tilfæra höfundarnir engar rannsóknir, er sýni fram á árangur af innleiðingu orkupakkanna á Íslandi. 

Þvert á móti sýndi hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands fram á það í grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, að raunorkuverð með flutningi og dreifingu hefði hækkað um 7 %- 8 % á tímabilinu 2003-2018.  Þetta er alger öfugþróun, því að á þessu tímabili stórlækkuðu skuldir raforkugeirans sem heildar, en fjármagnskostnaður er stærsti kostnaðarliðurinn.  Þetta er til marks um hækkun rekstrarkostnaðar með uppskiptingu fyrirtækjanna og sýnir svart á hvítu, að það gengur ekki upp að reyna að flytja hingað inn hugmyndafræði fyrir orkugeirann, sem sniðin er við allt aðrar aðstæður.  Af sömu ástæðum myndi það gera illt verra, sem lagt er til í skýrslunni, að skipta núverandi Landsvirkjun upp.  Þeir, sem halda slíku fram, berja hausnum við steininn.

Ekki verður séð, að SI þjóni hagsmunum umbjóðenda sinna með órökstuddum málflutningi, eins og þessum hér í ofangreindum kafla:

"Þegar eitt fyrirtæki á samkeppnismarkaði hefur yfir að ráða verulegri hlutdeild vatnsafls, er vandséð, að ávinningur frjálsrar samkeppni náist fram að fullu.  Því þarf að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði, og er aðhald Orkustofnunar og samkeppnisyfirvalda því mikilvægara en ella.  Mikilvægt er að skapa skilyrði til að auka samkeppni á raforkumarkaði, en um leið að stuðla að samkeppnishæfni í alþjóðlegu samhengi."

Þessi síbylja um "ávinning frjálsrar samkeppni" á íslenzka raforkumarkaðinum er bábilja.  Rafmagnfyrirtækin eru hátæknifyrirtæki, sem ríður á að laða til sín hæfileikafólk og þróa sína tæknilegu innviði.  Þetta verður ekki gert með því að sneiða þau niður í enn smærri einingar.  Máttur stærðarinnar fyrir samkeppnishæfni þeirra (og viðræðuhæfni) í alþjóðlegu tilliti vegur miklu þyngra en að fjölga þeim.  Vandamál Landsvirkjunar er allt annars eðlis og verður betur leyst með öðru móti, eins og drepið hefur verið á.

Fjórði og lokahluti þessarar rýni á nýrri skýrslu SI mun birtast í næsta pistli höfundar þessa vefseturs.

 

 


Bloggfærslur 10. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband