Orkan, loftslagið og framlag Íslendinga

Orkumál heimsins eru samofin aukningu koltvíildis í andrúmsloftinu, af því að rúmlega fjórðungur árlegrar losunar, sem nú nemur 43 mrdt CO2/ár, myndast við raforkuvinnslu eða rúmlega 11 mrdt CO2/ár, og losun vegna umferðar í lofti, á láði og á legi er líklega svipuð.  Hinn helmingurinn kemur frá framleiðslutengdri starfsemi, stálvinnslu, sementframleiðslu, álvinnslu frá báxíti til áls, landbúnaði o.fl. Til samanburðar myndar bruni jarðolíu um þessar mundir um 15 mrdt/ár CO2.

Þjóðir heims hafa flestar staðfest s.k. Parísarsamkomulag um að draga úr losun CO2-jafngilda (a.m.k. 6 aðrar gastegundir eru sterkar gróðurhúsalofttegundir, og er CH4 (metan) þeirra algengust), svo að losun þeirra verði í mesta lagi 60 % árið 2030 af losuninni árið 1990. M.v. viðbrögð þjóða heims frá staðfestingu fulltrúa þeirra á Parísarsamkomulaginu 2016, en losun margra þeirra eykst enn, er borin von að ná þessu markmiði í heild.

Parísarsamkomulagið er án viðurlaga við að standa ekki við skuldbindingarnar og er að því leytinu til með sams konar ágalla og Kyoto-samkomulagið.  Frá Austur-Asíulöndunum kemur meira en helmingur heildarlosunar, svo að allt veltur á, hvernig þar tekst til. Þar er misjafn sauður í mörgu fé, og losun þar eykst enn, þótt aðallosarinn, Kína, hafi sýnt lit um tíma.

Hingað til hafa þjóðir farið í aðgerðir til að draga úr losun CO2, sem þær telja sig sjálfar hafa ávinning af. Ábyrgðartilfinning gagnvart gróðurhúsaáhrifum losunar er ekki mikil. Þar vegur þyngst hin heilsufarslega nauðsyn á að draga úr mengun, t.d. loftmengun í stórborgum, súrt regn og mengun grunnvatns.

Fáir eru í jafnhagstæðri stöðu og Íslendingar að geta undið sér í orkuskiptin með því að virkja sjálfbærar orkulindir og spara fé með því að leysa olíuvörurnar af hólmi með rafmagni, metani og repjuolíu, svo að eitthvað sé nefnt.  Nú er eitt norðanskot hins vegar búið að svipta hulunni af þeirri voveiflegu staðreynd, að flutningskerfi Landsnets er reist á brauðfótum og á öllu norðanverðu landinu stenzt það ekki norðanáhlaup. Við þær aðstæður er fullkomið óráð að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með rafmagni.

Evrópa, vestan Rússlands, með fáeinum undantekningum, aðallega Noregi, eru háð löngum aðdráttum orku á formi jarðefnaeldsneytis.  Þetta er ógn við þjóðaröryggi til lengdar og kostar mikil gjaldeyrisútlát, því að þessi orkuviðskipti eru í USD.   Það er þess vegna eftir miklu að slægjast að þróa raforkuvinnslu úr mengunarlitlum og kolefnisfríum orkulindum. Þar stendur samt hnífurinn enn í kúnni, því að meginland Evrópu, nema Frakkar, vill ekki kjarnorku og hefur fjárfest gríðarlega í vindmyllum og sólarhlöðum með tiltölulega litlum árangri.  Þegar eitthvað bjátar að veðri, eru þessir orkugjafar hins vegar fullkomlega gagnslausir, og allar virkjanir eru það, ef flutnings- og dreifikerfi landsins þola ekki aðstæður, sem orðið geta og orðið hafa í ólíkum landshlutum á hverjum áratugi frá rafvæðingu landsins, en afleiðingarnar eru hins vegar miklu verri í tæknivæddu nútímaþjóðfélagi.  (Það er t.d. ekki nóg að plægja í jörðu ljósleiðara um allt land, ef enginn hugsar út í þörf varaafls fyrir tengistöðvarnar.)

Hingað til hafa Evrópuþjóðirnar ekki þróað raunhæfan valkost við kolaorkuverin, sem hvert um sig er iðulega um 1 GW (1000 MW) að afkastagetu og geta verið stöðugt í rekstri með árlegum viðhaldshléum.  Vindmyllur eru yfirleitt nú um 5 MW og ganga slitrótt og framleiða aðeins um 28 % af fullri vinnslugetu sinni yfir árið á heimsvísu.  Á vindasömum svæðum, t.d. í Noregi, á Íslandi og í Færeyjum, getur nýtingin þó farið yfir 40 %.  Af þessum sökum þarf mjög margar vindmyllur í orkuskiptin, en uppsett afl þeirra í heiminum er yfir 350 GW, og til samanburðar er uppsett afl vatnsorkuvera um 990 GW og jarðgufuvera um 11 GW.

Nú hefur þing Evrópusambandsins (ESB) lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, sem hlýtur að ýta mjög á orkuskiptin þar á bæ.  Þar hefur t.d. hægt mjög á uppsetningu nýrra vindmyllna vegna mótmæla íbúanna, sem verða fyrir skertum lífsgæðum þeirra vegna, og þær eru skaðræði fyrir fuglalífið.  Mótmæli gegn nýjum kolefnislausum virkjunum mætti væntanlega berja niður með harðri hendi á grundvelli þessa yfirlýsta neyðarástands. Hér glepst Alþingi vonandi ekki á því að setja slíka löggjöf, en það verður að einfalda lykilframkvæmdaaðila orkustefnunnar störf sín með lagasetningu um að fella framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku (tenging á milli landshluta) undir lög um landsskipulag.  Samgönguráðherra hefur lýst yfir skilningi á þessu í ljósi óverjandi tafa á nýrri 220 kV línu frá Brennimel norðan Hvalfjarðar um Vestur-, Norður- og Austurland, að Fljótsdalsvirkjun.  

Sama (og um vindorkuverin) er að segja af miklum samtengiáformum Framkvæmdastjórnar ESB á milli raforkukerfa álfunnar. Þau hafa á síðustu misserum sætt aukinni gagnrýni vegna fyrirferðarmikillar ásýndar, svo að ekki sé nú minnzt á almenning í Noregi og á Íslandi, sem óttast afleiðingar þess fyrir ásýnd landsins og fyrir verðlag orkunnar heima fyrir að senda stóran hluta afurða orkulindanna utan með sæstreng, en núverandi ástand flutningskerfa Landsnets krefst hins vegar tafarlausra úrbóta fyrir hag og velferð landsmanna sjálfra.

Þessi neyðarástandsyfirlýsing getur valdið því, að tryppin verði harðar rekin frá Brüssel við öflun verðmætrar kolefnisfrírrar orku frá Norðurlöndunum til að fylla í skörð vindmyllurekstrarins.  Með slíka orku í handraðanum að norðan þarf ekki lengur að brenna jafnmiklu jarðgasi á álagstímum, þegar vind lægir í stórum vindmyllugörðum Evrópu. Við eigum að sameinast í andstöðu við að tengja Ísland slíkum áformum.

Á Íslandi vill svo til, að lunginn af orkuskiptunum átti sér stað á tímabilinu 1940-1990, þegar kol, koks, gas og olía voru að mestu leyti leyst af hólmi fyrir eldamennsku og  upphitun húsnæðis.  Þetta var gert af öryggis- og fjárhagsástæðum, og bætt loftgæði voru viðbótarkostur, en hugtakið gróðurhúsaáhrif var þá ekki til, nema á meðal vissra vísindamanna.  Í lok þessa tímabils hófst hagnýting jarðgufu til raforkuvinnslu, en til að sjá, hversu mikla þýðingu hagnýting jarðhitans hefur fyrir orkubúskap Íslendinga, er eftirfarandi yfirlit áhugavert.  Þar er sýnd orkunotkun landsmanna í PJ (PetaJoule) ásamt hlutfalli hvers þáttar af heild árið 2016.  Við olíuvörur hefur verið bætt keyptu eldsneyti hérlendis á millilandaflugvélar og -skip, sem nemur 21,8 PJ, sem er 59 % af öðru eldsneyti og hefur aukizt síðan:

  • Vatnsorka   48,5 PJ = 18,5 %
  • Jarðhiti   149,2 PJ = 57,1 %
  • Olíuvörur   59,0 PJ = 22,6 %
  • Kol          4,8 PJ =  1,8 %
  • _____________________________
  • Alls       261,5 PJ = 100 %
Yfirlitið hér að ofan sýnir í sviphendingu, hversu góð staðan er á Íslandi fyrir orkuskiptaátak til að verða kolefnishlutlaus, því að hlutfall kolefnisfrírrar orkunotkunar landsmanna er nú þegar 75,6 % að millilandasamgöngum meðtöldum og 82,4 % án þeirra.  Yfirleitt sjást ekki hærri tölur en 50 % án millilandasamgangna, og Evrópusambandið sem heild er ekki hálfdrættingur á við það.
 
Nú hafa Færeyingar ákveðið að fara í sín fyrstu orkuskipti, en megnið af raforku Færeyinga og húshitunarorku kemur úr jarðolíu, því að þeir hafa hvorki á eyjum sínum jarðhita né vatnsorku, sem hagkvæmt sé að virkja í verulegum mæli.  Þeir hafa nú ákveðið að nýta vindorku eyjanna í þessu skyni í stað þess að óska eftir sæstreng frá Íslandi.  Það merkilega er þó, að þeir hafa leitað samstarfs við Íslendinga um vindmyllugarð, sem hafa mjög takmarkaða þekkingu og reynslu af rekstri vindmyllna, og sniðgengið þar með þjóðina, sem þeir eru í ríkjasambandi við, Dani, sem eru mikil útflutningsþjóð á vindmyllum og hafa þjóða mesta þekkingu og reynslu af rekstri þeirra. Eftir veðurhaminn á Íslandi í viku 50/2019 rifjast upp, að oft hvessir rækilega í Færeyjum, og við slíkar aðstæður verða vindmyllur ónothæfar.  Færeyingar verða þess vegna að halda í núverandi hitunarkerfi sín til vara, ef ekki á illa að fara. 
Um þessa baksviðsfrétt fjallaði Stefán E. Stefánsson í Morgunblaðinu 6. desember 2019 undir fyrirsögninni:
 
"Leiða orkuskipti í Færeyjum".
Verður nú gripið niður í þessi baksviðstíðindi af frændum vorum:
"Í dag koma 85 % þeirrar orku, sem nýtt er til húshitunar í Færeyjum, frá jarðefnaeldsneyti.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, segir, að p/f Magn [dótturfyrirtæki Skeljungs] hafi séð tækifæri í því, þegar stjórnvöld í landinu settu á laggirnar verkefnið "2030", sem miðar að því, að stærstur hluti orkunotkunar heimila og bílaflota Færeyja eigi árið 2030 að koma frá endurnýjanlegri orku.
"Ef þær áætlanir eiga að ganga eftir, þurfa um 18 þúsund fjölskyldur að skipta úr olíukyndingu yfir í rafmagn", segir Árni Pétur. Hann bendir á, að í Færeyjum séu ekki sömu tækifæri til nýtingar jarðhita og fallvatns til raforkuframleiðslu og hér á landi og því hafi vindorkan orðið fyrir valinu.
"Stjórnvöld í Færeyjum stefna að því að vera með a.m.k. tvo vindorkugarða.  Í því skyni efndu þau til útboðs um uppbyggingu og rekstur slíks garðs í sumar, og þar varð Magn hlutskarpast.  Ríkið hefur svo skuldbundið sig til þess að kaupa alla þá orku, sem þar verður framleidd.""
 
Það er klókt hjá Færeyingum að láta ríkið kaupa alla þá orku, sem vindmyllurnar geta framleitt, því að þannig tryggja þeir íbúunum lágmarksverð, þar sem áhætta vindmyllufjárfestanna, Magns og færeyskra lífeyrissjóða, verður í lágmarki.  Væntanlega hefur færeyska ríkið möguleika á að draga niður í öðrum virkjunum, þegar framboð verður umfram eftirspurn.
Hér er um að ræða heildarfjárfestingu (samkvæmt fréttinni) upp á 2,2 mrdISK í framleiðslugetu 64 GWh/ár.  Hér er þá um að ræða uppsett vindmylluafl 21 MW m.v. 35 % nýtingu vindmyllnanna, og eru þetta þá líklega aðeins 6 vindmyllur.
 
Blekbóndi hefur reiknað vinnslukostnað þessara vindmyllna m.v. árlegan rekstrar- og viðhaldskostnað 3 % af stofnkostnaði, og varð niðurstaðan 29 USD/MWh (3,6 ISK/kWh), sem er ótrúlega lágur vinnslukostnaður. Íslenzk vindmylluverkefni gera yfirleitt ráð fyrir a.m.k. 70 % hærri vinnslukostnaði, svo að einhver kostnaðarliður kann að vera undanskilinn í baksviðsfrétt Morgunblaðsins, t.d. landnotkun og/eða uppsetningarkostnaður, nema Magn njóti betri kjara við t.d. innkaup en fjárfestar á Íslandi. Ef þetta er hins vegar rétt niðurstaða, getur hún skýrt áhugaleysi Færeyinga á rafmagni frá Íslandi, því að það er orðið dýrara en þetta í heildsölu, og er þá flutningskostnaðurinn alveg eftir.  Enn sýnir sig, að verðlagning raforku á Íslandi er ósamkeppnishæf.
 
Hér ríkir verðlagsstefna á raforku, sem felur í sér yfirverðlagningu, sem er bæði langt yfir meðalkostnaðarverði og yfir verði, sem samkeppnishæft getur talizt í alþjóðlegu samhengi.  Það hefur komið fram hjá garðyrkjubændum og gagnaverseigendum, og það á ekki síður við um málmiðnaðinn á Íslandi, kísiliðju, járnblendi og áliðnað.  Nýjasta dæmið er af áliðnaðinum, þar sem eitt fyrirtækjanna hefur leitað fyrir sér um kaup á 10 MW, en ekki fengið á sanngjörnu verði m.v. samkeppnisaðila þessa fyrirtækis.  Talsmenn Landsvirkjunar segja, að þeim beri að hámarka afrakstur þeirra auðlinda, sem þeim er falin forsjá fyrir.  Halló, þetta er heimalöguð sósa, sem kemur þannig út, að fyrirtækið lætur orkuna fremur renna framhjá virkjunum sínum en að selja hana á samkeppnishæfu verði.
 
Landsvirkjun hefur enn enga eigandastefnu og er á kolrangri braut undir núverandi stjórn, sem sveigt hefur af upphaflegri braut Landsvirkjunar, sem fólst í að efla atvinnu- og útflutningsstarfsemi í landinu með hóflegum eigin hagnaði.  Nú er aðeins horft á eigin hagnað, og ríkissjóður fitaður þá leiðina.  Hægt er að fita ríkissjóð enn meira, með því að Landsvirkjun stuðli beinlínis að aukinni verðmætasköpun og þar með atvinnusköpun í landinu.  Alþingi, þar sem sitja fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, verður að marka þessu stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki heilbrigðari braut en það nú er á.  
 
Framlag Íslendinga til loftslagsvanda heimsins liggur í augum uppi.  Það er að nýta orkulindir sínar innanlands með hagnýtingu beztu fáanlegu tækni til hámarksnýtingar á virkjuðu afli og orku m.v., að mannvirkin falli sem allra bezt að umhverfinu og að framkvæmdir valdi engu óþarfa raski í náttúrunni. Á meðan völ er á að virkja vatnsföll og jarðgufu til raforkuvinnslu á Íslandi með ásættanlegum umhverfiskostnaði að flestra mati og með samkeppnishæfum tilkostnaði á hverja kWh, er líklegt, að þessar orkulindir verði ofan á til að anna vaxandi afl- og orkuþörf fyrir vaxandi mannfjölda og til orkuskiptanna. 
Í flestum tilvikum er umhverfiskostnaðurinn og vinnslukostnaður hærri fyrir annars konar virkjanir.  Í nafni loftslagsins og baráttunnar gegn hlýnun jarðar til skamms tíma, jarðsögulega séð, verða landsmenn þó líklega að slá af ýtrustu kröfum sínum um óraskaða náttúru. Það fer illa saman að hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og að vera samtímis á móti nánast öllum framkvæmdum í orkugeira, sem reistar eru á sjálfbærri nýtingu.
 
Spádómar um hámarksolíuvinnslu hafa hingað til ekki rætzt, en nú er ýmislegt, sem bendir til, að hún geti átt sér stað um 2020, en ekki árið 2030, eins og Alþjóða orkumálastofnunin býst við.  Hámarkið verður þá um 36 mrdtunnur/ár.  Olíuforðinn í jörðu er talinn nema 2000 mrdtu, sem þá mun endast í hálfa öld enn m.v. hámarksvinnsluna.
 
Á þessu ári, 2019, sem að vísu er með lítinn hagvöxt á heimsvísu, hefur olíueftirspurnin aðeins aukizt um 0,8 %.  Tilraunir OPEC-ríkjanna til að hækka verðið með vinnsluminnkunum hafa ekki tekizt, og þegar helmingur olíuvinnslu Sádanna lá óvígur um tíma á þessu ári, hafði það mjög skammvinn og lítil áhrif til verðhækkunar.  Viðskiptabann Bandaríkjanna á Venezúela og Íran, sem ráða yfir mesta og fjórða mesta olíuforða í heimi, hefur haft lítil áhrif á markaðinn.  Á þessu ári hefur olíuverðið hæst komizt í 75 USD/tu í apríl og síðan lækkað í rúmlega 60 USD/tu.  Því veldur að nokkru leyti leirbrotsolíuvinnsla ("fracking") Bandaríkjamanna, en hún hefur aukizt um 12 % frá í fyrra.
Segja má, að Sádar og Bandaríkjamenn ráði olíuverðinu.  Þegar olívinnsluríki skapa offramboð, minnka Sádar sína vinnslu, en þegar hillir undir skort, auka Bandaríkjamenn leirbrotið.  
Fjárfestar vilja sjá meiri hagnað af leirbrotinu í Bandaríkjunum, og þess vegna verður lagt í minni kostnað, sem fljótlega mun draga úr framleiðslu, en þróunin annars staðar mun auka framboðið strax á næsta ári.  Exxon-Mobil eykur nú framleiðsluna undan ströndum Guyana, og árið 2021 munu fjárfestingar undan ströndum Brasilíu skila sér í jafnvel 18 % meiri framleiðslu en í ár.
 
Á vegum norska olíusjóðsins var tilkynnt í október 2019, að hann myndi selja eignir sínar í olíuleitar- og -vinnslufélögum, en Equinor, norska olíufélagið, tilkynnti á svipuðum tíma, að á Johan Sverdrup, risavinnslusvæði í Norðursjó, væri byrjað að dæla upp olíu. 
M.v. núverandi olíuverð virðist offramboð olíu blasa við.  Þá mun verðið lækka, sem aftur mun auka eftirspurn.  Að öðru óbreyttu mun þá eftirspurnin enn vaxa, og hámarksvinnsla ("peak oil") verður ekki 2020, heldur á síðari hluta áratugarins. Það, sem getur kippt stoðunum undan eftirspurnaraukningu eru efnahagsleg stöðnun eða samdráttur hagkerfa heimsins og nýir orkugjafar.  Nýtni sprengihreyfilsins eykst með hverju árinu, um allt að 1,5 %/ár frá aldamótum, og úrval kolefnisfrírra farartækja mun aukast mikið á allra næstu árum.  Allt bendir þetta til hjöðnunar á olíunotkun á allra næstu árum.
 
Engu að síður má búast við, að a.m.k. þriðjungi olíuforðans verði dælt upp og honum brennt eða um 600 mrd/tu.  Tæplega 2000 mrdt CO2 koma frá þessum bruna, og til viðbótar kemur annar bruni, t.d. kola- og gasbruni.  IPCC telur, að fjarlægja þurfi 730 mrdt CO2 af núverandi koltvíildi í andrúmsloftinu til að halda megi hækkun lofthitastigs frá 1850 innan 1.5°C-2,0°C.  Þetta magn koltvíildis, sem fjarlægja þarf, mun þá 3,7 faldast , og það er ógjörningur að fjarlægja það allt.  Samkvæmt líkani IPCC, sem er reyndar ekki óskeikult, mun hitastigshækkunin þá nema yfir 3°C og skynsamlegast er að rannsaka, hvernig bezt verði brugðizt við. Þurfum við t.d. að hanna innviði m.v. meiri öfgar í veðri ?
 
 
 
 

 


Bloggfærslur 14. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband