Raforku- og fjarskiptaöryggi - stórfelldir almannahagsmunir

Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja öryggi almennings, og Alþingi ber að hafa eftirlit með stjórnvöldum.  Það hefur nú opinberazt, að hvorki fjarskiptakerfi landsins né raforkukerfi eru í stakk búin til að standast þann veðurham, sem búast má við í einhverjum landshlutum á hverjum áratugi. Þetta er áfellisdómur yfir stjórnvöldum, sem þingið verður að láta til sín taka 2020 og hóf reyndar þá vegferð 2019.

Það virðist nú vera samdóma skoðun allra, leikra og lærðra, þingmanna og embættismanna, að við svo búið megi ekki standa. Eftir er þó að sjá, hver hvort hugur fylgir máli. Af umræðunum leiðir, að nægur einhugur ætti að vera fyrir hendi til að gera tafarlaust fjármagnaða áætlun um endurbætur, sem dugi til að koma í veg fyrir straumleysi og fjarskiptaleysi í veðurhami, sem er sambærilegur við jólaföstuóveðrið 2019 á norðanverðu landinu, þegar umbótum lýkur samkvæmt þeirri áætlun.  Það ætti ekki að vera seinna en við árslok varðandi 2025 varðandi rafmagnsöryggið. 

Nú vita viðkomandi fyrirtæki, aðallega Landsnet og RARIK, hvaða viðmiðun þarf að leggja til grundvallar á hverju landsvæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, í norðanroki eða fárviðri með ísingu og seltu. Áður hafa þessi fyrirtæki haft reynslu af slíku í suðlægum áttum.  Það verður ætlazt til þess, að fyrirtækin leggi nú ekki upp með lausnir, sem ekki standast verður, sem vænta má á 10 ára fresti. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja umbætur, sem ekki koma í veg fyrir milljarða ISK tjón á 10 ára fresti (áætlun BJo: mrdISK 5,0 í desember 2019).

Til þess verður ætlazt, að þessi fyrirtæki komi rafmagnsöryggismálum á norðanverðu landinu í þetta horf fyrir árslok 2025.  Það er reyndar ekki hægt að ætlast til þess svo fljótt fyrir sumarhúsabyggðir, en fyrir alla staði, þar sem atvinnustarfsemi er stunduð og föst búseta er, verður að ætlast til þess. 

Ef í ljós kemur, að fyrirtækin hafa ekki dregið rétta lærdóma af fyrrnefndu jólaföstuveðri, heldur lagt upp með lausnir, sem ekki duga, þá verður það stjórnendum og stjórnum viðkomandi fyrirtækja til mikils hnjóðs, og Alþingismenn, sem verða að vera yfirgæzlumenn almannahagsmuna hér sem endranær, verða að ganga eftir því við ríkisstjórnina, að ekki sé verið að sóa fé í útfærslur, sem menn nú mega vita, að eru of veikar fyrir veður, sem búast má við á hverjum áratugi.

Þann 21. desember 2019 skrifaði Höskuldur Daði Magnússon frétt í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Raforkustjórar kvaddir til".

Þar tók hann tali þingmann, sem góðu heilli hefur m.a. látið orkumálin sig miklu varða, eins og þingmönnum ber, og sveitarstjóra Húnaþings vestra á Hvammstanga, sem varð einna verst úti í óveðrinu vegna þess m.a., að aðveitustöð Hrútatunga stendur berskjölduð gagnvart ísingu og seltu í norðan hvassviðri við 0°C og vararafstöð vantar í þéttbýlinu þar í sveit:

""Mér hafa fundizt menn ekki vera að taka þetta nægilega alvarlega í gegnum tíðina.  Ég held, að það hafi ekki verið almenn vitneskja á svæðinu um það, hversu illa kerfið stóð allt saman", segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður."

Þetta er alveg rétt hjá þingmanninum.  Það hefur áratugum saman verið látið, eins og Byggðalínan væri nógu örugg, og að styrrinn um hana stæði aðeins um flutningsgetuna.  Nú vita menn betur, og menn vita jafnframt fyrir hvers konar veðuráraun þarf að hanna nýja Byggðalínu.  Það þýðir ekki lengur fyrir Landsnet að koma með tillögu um eitthvað, sem ekki þolir veðurham og seltu, sem vænta má á 10 ára fresti, eins og kom nú á jólaföstunni.  Orkuráðherrann getur á þingi vænzt spurningar á borð við þá, hvort fram komin tillaga Landsnets sé hönnuð til að standa af sér sambland af roki, ísingu og seltu, sem starfsmenn og verktakar Landsnets börðust við af seiglu og harðfylgi á jólaföstu 2019 og ásamt björgunarsveitunum björguðu því, sem bjargað varð.  Hin heilbrigða grasrót landsins bregst aldrei, en meiri áhöld eru um stjórnendurna (elítuna), sem minna stundum á vafagemlinga, svo að ekki sé nú minnzt á ormaveika rollu.

""Þetta var gagnlegur fundur [með Guðmundi I. Ásmundssyni og Tryggva Þ. Haraldssyni-innsk. BJo]. Við fengum yfirlit yfir það, hvernig þessi mál hafa þróazt og stöðuna.  Ég held, að það hljóti flestir að sjá, hversu mikilvægt er að styrkja og byggja upp flutningskerfi raforku.  Maður vill helzt ekki hugsa þá hugsun til enda, hvernig hefði farið, ef 65 % strengjanna hefðu ekki verið komin í jörð", segir Njáll Trausti."  

Það eru vafalaust nógu margir nú, sem sjá, að norðanvert landið býr við ófremdarástand, og skömm væri að að láta raunhæfar úrbætur reka lengur á reiðanum. Vel færi á, að áhugasamir þingmenn um þessi málefni legðu  fram þingsályktunartillögu um nýja Byggðalínu á milli Fljótsdals og Brennimels (Klafastaða) fyrir árslok 2025, og að allt dreifikerfi landsins til þéttbýlis og atvinnurekstrar fari í jörð á sama tíma og jafnframt dreifistöðvar (rofar og spennar, rafgeymar o.fl.) í hús.  Þá hljóta að koma fram stjórnarfrumvörp til nauðsynlegra laga, sem duga til að tryggja framgang þessa máls. Endalausar nefndaskipanir og skýrslugerðir duga ekki einar og sér.  Úr því, sem komið er, verður að hraða sér að teikniborðinu og láta verkin tala eða að játa uppgjöf sína gagnvart viðfangsefninu og fá aðra til verksins. Kjósendur munu senn vega það og meta, hverjir og hverjar eru á vetur setjandi.

""Við lögðum áherzlu á það, að hér hafi ekki verið varaafl til staðar og ekki hafi verið mönnuð stöðin í Hrútatungu.  Við viljum fá mönnun á svæðið og stærri spenni á Laxárvatn, svo að hægt sé að fá varaafl þaðan, ef það bregzt Hrútatungumegin", segir sveitarstjórinn [í Húnaþingi vestra]." 

Varðandi varaaflsþörfina er sjálfsagt af RARIK og öðrum dreifiveitum ásamt Landsneti eftir atvikum að gera nýjar áhættugreiningar í ljósi reynslunnar og nýrra áforma eftir jólaföstuóveðrið 2019. Slíkar áhættugreiningar ættu að fara fram með þátttöku heimamanna.  

Varðandi fjarskiptakerfi, sem reyndust vera alltof háð veiturafmagni m.v. mikilvægi þeirra, reynast fjarskiptafyrirtækin ekki hafa haft áhuga fyrir að keppa um viðskiptavini á grundvelli þess, hversu langvarandi samband þau byðu viðskiptavinum sínum í straumleysi.  Póst- og fjarskiptastofnun var meðvituð um ófullnægjandi neyðarafl hjá fyrirtækjunum, en ber því við eftir á, að lagaheimild sé ekki fyrir hendi til að ákvarða lágmarks neyðarafl.  Þessi embættisfærsla er anzi dauf, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið.  Setja þarf hið fyrsta lög, sem skylda Póst- og fjar til að ákvarða lágmarkstímalengd fullrar fjarskiptaþjónustu í straumleysi á hverjum stað og til að hafa virkt eftirlit með neyðaraflkerfum fjarskiptafyrirtækjanna og refsiúrræði, ef út af er brugðið.  Í lögum skal taka af tvímæli um, að samstarf fjarskiptafyrirtækjanna um neyðaraflgjafa sé leyfilegt.  Ótækt er, að túlkun samkeppnislaga á annan veg valdi verðhækkun til neytenda vegna sjálfsagðs neyðarafls m.v. mikilvægi.

Elías B. Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði vel ígrundaða grein um afhendingaröryggi raforku, sem birtist í Morgunblaðinu 19. desember 2019,

"Eftir storminn":

"Jólaföstuveðrið og afleiðingar þess sýndu fram á, að flutningskerfið er ekki hannað fyrir þau veður, sem hér geta komið.  Stjórnvöld og almenningur áttuðu sig á því og vill ráðstafanir.  Fólk á landsbyggðinni, bæði til sveita og í minni bæjarfélögum, býr ekki við það raforkuöryggi, sem þarf í nútíma þjóðfélagi.  Stóriðjufyrirtæki kunna að leggja mat á mikilvægi orkuöryggis og verða að taka tillit til þess kostnaðar, sem Landsnet og orkusali bera af öryggiskröfum þeirra, en þegar um öryggi almennings er að ræða, sofa stjórnmálamenn meðan sveitarstjórnir með skipulagsvaldið, náttúruverndarsamtök og einstakir landeigendur þvælast fyrir."

Það er hárrétt, að kjörnum fulltrúum almennings ber að gæta hagsmuna hans gagnvart flutnings-, dreififyrirtækjum og orkusölum (orkuvinnslu) með því að setja fram kröfur um gæði rafmagns, afhendingaröryggi og spennugæði. Þetta geta sveitarstjórnir gert með ályktunum sínum og  Alþingismenn t.d. með þingsályktunartillögu með tölusettum viðmiðum og markmiðum fyrir stjórnvöld og lagafrumvarpi um fjármögnun viðbótar kostnaðar vegna hærri öryggiskrafna en Landsnet hingað til hefur áætlað vegna Byggðalínu.

Í "den" fór Landsvirkjun fumlaust þá leið, þegar neikvæð reynsla kom á hefðbundnar 220 kV línur í íslenzkum óveðrum, að veita hagnaði af orkusölunni til að fjárfesta í traustari flutningslínum en evrópskir staðlar kváðu á um.  Þetta var og er nauðsynlegt til að veita íslenzkum almenningi og fyrirtækjum hérlendis sams konar raforkugæði, afhendingaröryggi og spennustöðugleika, og almenningur annars staðar í Evrópu býr við. 

Þetta var gert með því að reisa 3 línur á Suð-Vesturlandi með einangrunargildi fyrir 400 kV til að standast seltuáraun, þótt málgildi rekstrarspennunnar væri áfram 220 kV.  Í framtíðinni kann að verða hagkvæmt og jafnvel nauðsynlegt að hækka þessa 220 kV  rekstrarspennu. Sömu leið borgar sig að fara með nýja Byggðalínu um norðanvert landið, því að truflanir, sérstaklega langvinnar, eru dýrar.  Seltutruflanir geta einmitt verið langvinnar.

Elías skrifaði í seinni hluta greinarinnar:

"Hér á Íslandi búum við í stóru og fjöllóttu landi og þurfum að fá rafmagn okkar um langan veg frá vatnsorkuverum langt frá næsta þéttbýli í stað þess að byggja kolastöð við bæjarmörkin. Tengingar milli byggðarlaga eru langar og liggja yfir hálendi, þar sem veður eru válynd.  Allt hækkar þetta kostnaðinn, sem hver einstaklingur verður að standa undir.  Þessi munur á því að rafvæða Ísland og Evrópu var að koma betur og betur í ljós á síðari hluta aldarinnar, sem leið, og stjórnmálamenn fylgdust vel með og voru með í ráðum, þegar þurfti.  

Þar varð breyting á með nýjum raforkulögum 2003, þegar innleidd voru lög ESB um markaðsvæðingu raforkunnar. Þar með höfðu stjórnmálamenn minni möguleika á að fylgjast með, og þeim virðist ranglega hafa verið talin trú um, að markaðurinn mundi sjá fyrir nægu öryggi.  Þeir sofnuðu á verðinum.  Eitthvað hafa þeir rumskað við veðrið nú, en þeir, sem telja flutningslínur vera mengun, rumska ekki." 

Hér víkur Elías að miklum kostnaði flutningskerfis raforku fyrir Íslendinga vegna landshátta, veðurlags og dreifðrar byggðar.  Hinn valkosturinn (við öflugar samtengingar á milli héraða) er að virkja í hverju héraði og reka nokkur að mestu óháð raforkukerfi í landinu.  Sú stefna hefur hvergi í Evrópu verið farin, og Íslendingar hurfu í raun frá þeirri stefnu með uppbyggingu stórvirkjana í landinu, sem grundvallaðar voru á hugmyndinni um hagkvæmni stærðarinnar, sem almenningur um allt land skyldi njóta góðs af.

Til þess þarf öflugar samtengingar á milli landshluta. Þess vegna var Byggðalínan reist, sem taka skyldi við raforku frá Þjórsár/Tungnaársvæðinu og flytja hana til Vestfirðinga, Húnvetninga, Skagfirðinga og Eyfirðinga. Ekki voru allir sammála þessu, og þess vegna var Kröfluvirkjun reist í kjölfar Laxárævintýrisins, en Kröfluvirkjun (jarðgufuöflunin) lenti í miklum hremmingum í byrjun, og haldið var áfram með 132 kV Byggðalínu þangað og síðan áfram að Hryggstekk í Skriðdal árið 1978. Gallinn var sá, að um sýndaröryggi var að ræða, því að í flýti og fjárskorti var ekki  nægur gaumur gefinn að afhendingaröryggi og spennugæðum.  Nú eru aðrir tímar.  

Árið 1973 hækkaði olíuverð á heimsmarkaði um a.m.k. 70 %, og þá var Orkuskiptum #2 hleypt af stokkunum hérlendis, sem aðallega fólust í að leysa olíu af hólmi með rafmagni og jarðhita til upphitunar  húsnæðis.  Það var yfirvofandi alvarlegur raforkuskortur á Norðurlandi í kjölfarið, og þess vegna var Byggðalínu flýtt eftir föngum, og hún var í raun og veru reist af vanefnum og fullnægði aldrei skilyrðinu um "trausta" samtengingu á milli landshluta. 

Það hefur dregizt taumlaust úr hömlu að bæta úr þessu. Það er t.d. vegna meingallaðrar löggjafar um skipulag og leyfisveitingar verklegra framkvæmda. Hér ætti fjármálalega, skipulagslega og leyfisveitingalega að vera um "ríkismálefni" að ræða, þannig að framkvæmdir geti átt sér stað eins snurðulaust og kostur er, þótt sveitarstjórnir kunni að hafa mismunandi skoðanir um framkvæmd. Kæruferlum ætti að stilla í hóf svo sem gert er annars staðar á Norðurlöndum.

Hiklaust ætti að taka aftur upp þann hátt, sem hafður var á um fjármögnun flutningslína 1969-2005, að hagnaði af raforkuvinnslu og heildsölu rafmagns var m.a. varið til uppbyggingar flutningskerfisins.  Annað leiðir til svo hás flutningsgjalds, að raforkan verður ósamkeppnishæf hérlendis, eins og dæmin sanna. Eðlilegt er, að fjármagnið haldist þannig innan raforkugeirans, á meðan fjárfestingarþörf hans er mikil og brýn.

Landsreglarinn (The National Energy Regulator) hefur lítið tjáð sig opinberlega um stöðu raforkukerfisins í kjölfar óveðursins, en ætla má, að hann telji slíka fjármögnun ekki samræmast orkulöggjöf Evrópusambandsins, sem er í gildi hér vegna aðildar Íslands að EES og "Orkupakka" 3, sem yfirtók OP#2. Á þetta verður að láta reyna, jafnvel fyrir dómstólum.

Það er hins vegar líka mjög æskilegt út frá öryggislegu sjónarmiði að staðsetja bitastæðar virkjanir utan við hin eldvirku svæði landsins.  Þar koma Vestfirðir vissulega upp í hugann, þar sem þar er lítil jarðskjálfta- og gjóskuhætta og talsvert um vatnsafl og auk þess hratt vaxandi orkuþörf og kröfur um raforkugæði frá atvinnulífinu.  

Í lok téðrar greinar skrifaði Elías:

"Það sleifarlag, sem núverandi löggjöf veldur í nauðsynlegum endurbótum á flutningskerfinu gengur ekki lengur. Næsti stormur, jafnvel enn verri, getur látið bíða eftir sér í mörg ár, en hann getur líka komið í næsta mánuði. Hér á landi gengur ekki, að stjórnvöld axli ekki að sínum hluta ábyrgð á raforkuöryggi þjóðarinnar.  Raforkufyrirtækin þurfa vinnufrið til að tryggja öryggið að sínu leyti, en fá ekki nægan stuðning í gallaðri löggjöf.  Alþingi þarf að láta til sín taka og setja réttan hlut ábyrgðarinnar á rétta aðila." 

Hér er komið að kjarna máls.  Núgildandi raforkulöggjöf er hreinlega ekki sniðin við íslenzkar aðstæður. Stjórnkerfið og Alþingi hafa flutt inn löggjöf, sem hentar ekki hér, þ.e.a.s. myndar ekki réttan ramma til lausnar á aðsteðjandi vanda landsins. Stjórnarráðið og sumir þingmenn kunna að hafa haldið, að það gerði ekkert til, en nú hafa náttúruöflin vonandi sjálf komið vitinu fyrir þá opinberu starfsmenn og stjórnmálamenn, sem um orkumálin eiga að véla.  Markaðurinn og Landsreglarinn geta ekki leyst aðsteðjandi vanda, af því að spilað er á tætingslega löggjöf til að koma í veg fyrir þá lausn, sem Landsnet og í sumum tilvikum orkuvinnslufyrirtækin hafa lagt til.  Alþingismenn bera ábyrgð á að gera orkulöggjöfina þannig úr garði, að ekki verði hér langvarandi aflskortur vegna vöntunar á nýjum virkjunum og tímabundinn orkuskortur vegna bilana í rafkerfinu af völdum veðurs, sem vænta má á hverjum áratugi.

Afleiðing eldingar ágúst 2012

   

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 30. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband