Hversu teygjanleg er Stjórnarskráin ?

Merkingu textans í Stjórnarskránni er auðvitað ekki hægt að teyggja og toga endalaust í þá átt, sem valdhafar á hverjum tíma óska.  Þetta var Viðeyjarstjórninni ljóst 1992, er hún fékk hóp valinkunnra lögfræðinga til að rýna drög að EES-samninginum m.t.t. Stjórnarskrárinnar.  Lögspekingarnir komust að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að samningurinn reyndi til hins ýtrasta á þanþol Stjórnarskrárinnar. 

Lögfræðihópur á vegum þáverandi stjórnarandstöðu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að þáverandi EES-samningur væri handan þolmarka Stjórnarskrárinnar.  Síðan hefur mikið bætzt við þennan samning af atriðum, sem höggva í frelsi landsmanna til að haga málum að eigin vild, en þvinga þá undir ákvörðunarvald erlends ríkjasambands, á leið til sambandsríkis, og stofnana þess, þar sem Ísland á ekki aðild.  Með einfaldri almennri rökfræði má nú álykta, að mælirinn sé löngu fullur og að lengra verði alls ekki gengið í frelsisskerðingu landsmanna að óbreyttri Stjórnarskrá.

Nú hefur ríkisstjórnin boðað framlagningu þingmáls, sem enn heggur í þennan knérunn.  Er þar um að ræða innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Hér á þessu vefsetri hefur því verið haldið fram með tiltækri röksemdafærslu, að samþykkt Alþingis á þessu væntanlega þingmáli myndi fela í sér kúvendingu á íslenzkri orkustefnu frá lágorkuverðsstefnu til háorkuverðsstefnu, og er þá nærtækt að vísa til nýjustu fórnarlamba þessarar stefnu, frænda okkar og frænkna í Noregi.  

Ein aðferðin til að réttlæta samþykkt þessa Orkubálks #3 er að gera lítið úr honum.  Það er barnaleg afstaða og ber annaðhvort vitni um þekkingarskort á viðfangsefninu eða dómgreindarskort.  Tómas Ingi Olrich skrifar bitastæða grein í Morgunblaðið 12. febrúar 2019, þar sem hann kemur víða við og ritar á grundvelli yfirgripsmikillar þekkingar og reynslu, t.d. af samskiptum við ESB-"apparatið", einnig á sviði orkumála:

"Hvað er í pakkanum ?".

Greinin hófst þannig:

"Nú eru skiptar skoðanir um hinn svokallaða orkupakka.  Þeir, sem aðhyllast innleiðingu pakkans, virðast byggja afstöðu sína einkum á tvenns konar fullyrðingum.  Annars vegar eru þeir, sem halda því fram, að í tilskipuninni sjálfri sé ekki að finna það, sem þar stendur.  Aðrir halda því fram, að flest, ef ekki allt, sem í þriðju orkutilskipuninni stendur, hafi þegar verið í fyrri tilskipunum, sem Íslendingar hafa innleitt án athugasemda."

Þegar menn hafa tekið trú á eitthvað, í þessu tilviki Evrópusambandið, ESB, er það jafnan háttur þeirra að afneita því, sem óþægilegt er við átrúnaðargoðið.  Sú strútshegðun er alþekkt og er áberandi í umræðu um Orkupakka #3.  Hinum, sem halda því fram, að í Orkupakka #3 felist ekki nýmæli, má benda á embætti Landsreglara, sem verður einsdæmi á Íslandi, og, að með innleiðingu Orkupakka #3 mun Evrópurétturinn spanna nýtt svið á Íslandi, sem hvorugur fyrri orkupakka spannaði, sem eru millilandatengingar fyrir orkuflutninga. Fjallað verður nánar um þann þátt síðar í þessari vefgrein. 

Um þessi atriði skrifar Tómas Ingi:

"Ef sá skilningur er réttur, þýðir það, að Íslendingar hafa ekki vald yfir sínum orkumálum."

Þetta er hárrétt athugað, og þar með er fullveldið rokið út í veður og vind.  Landið verður einfaldlega ekki lengur fullvalda, ef landsmenn verða háðir Evrópusambandinu um ráðstöfun auðlinda sinna eða orkunnar úr orkulindunum.  

Nokkru síðar í greininni hnykkti Tómas Ingi á þessu:

"Ég hygg, að stjórnvöldum sé ekki heimilt að koma í veg fyrir tengingu um sæstreng og í þriðja orkupakkanum séu ákvæði, sem styrkja þá fullveldisþrengingu.  Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður með LLM í orkurétti, staðfestir þann skilning minn.  Telur hann, að það sé með öllu óheimilt að setja reglur, sem banna fyrirtækjum eða ríkjum ESB aðgang að íslenzkri orku, en bendir mér kurteislega á, að svo hafi verið lengi."

Það hefur ekki verið svo lengi (eða frá innleiðingu orkubálks ESB #2 eða #1), að fyrirtæki í ESB hafi getað öðlazt aðgang að íslenzkum orkulindum með því að leggja hingað sæstreng, en þann rétt öðlast þau með Orkupakka #3.  Það staðfestir dágóður fjöldi norskra lagaprófessora, t.d. Peter Örebech, í fyrirlestri hérlendis 22. október 2018. 

Hins vegar hafa  fyrirtæki af EES-svæðinu mátt sækja um virkjunarleyfi hér til jafns við innlend fyrirtæki frá innleiðingu Orkubálks #1. Þau munu þó varla fá áhuga á því fyrr en orkukauphöll að hætti ESB hefur tekið hér til starfa, en slíkt verður skylda og undir eftirliti Landsreglara eftir samþykkt Orkupakka #3 (og var valfrjálst eftir Orkupakka #2).

Næst gerði Tómas Ingi frelsisafsal í orkumálum og Stjórnarskrána að umræðuefni og tók Ara Guðjónsson, yfirlögfræðing Icelandair Group, til bæna.

"Engu að síður finnst lögmanninum, sem telur, að valdaframsal orkupakkans standist ekki skoðun, vissara að leggja til, að í stjórnarskrá Íslands verði mælt skýrt fyrir um heimild til þess að framselja vald til tollabandalagsins.  Sú varfærni lögfræðingsins kann að benda til þess, að honum finnist hann hafa farið örlítið fram úr sjálfum sér.  Alla vega finnst mér það."

Það er nokkuð ljóst, að lögfræðilega má ekki við svo búið standa.  Upptaka hverrar gerðar ESB á fætur annarri brýtur Stjórnarskrána.  Lausnin á því viðfangsefni er hins vegar ekki að gefast upp á sjálfstæði landsins og veikja fullveldisvarnir Stjórnarskrárinnar, heldur að leita hófanna innan EFTA um að endursemja við ESB um aðganginn að Innri markaði þessa tollabandalags.

Ýmsar furðuhugmyndir um Stjórnarskrárbreytingar hafa sézt á þessari öld, s.s. um að gera Ísland að fylki í Noregi og önnur af svipuðum toga um að fastbinda EES-aðild Íslands í Stjórnarskrá.  Um hina síðari ritaði Sigurbjörn Svavarsson, formaður Frjáls lands, grein í Morgunblaðið, 4. janúar 2019:

"Að beygja stjórnarskrána undir EES samninginn":

"Það er ljóst, að stjórnvöld vilja ekki styggja miðstjórnina í Brussel; það sést bezt á sjálfvirkri afgreiðslu mála inni í Sameiginlegu EES-nefndinni; samþykkt þar er skuldbindandi fyrir Ísland, þrátt fyrir stjórnmálalegan fyrirvara um samþykkt Alþingis.  Gagnrýni á málið er afgreidd með tilvísun um fyrri samþykkt utanríkismálanefndar.  Þessa ólýðræðislegu, sjálfvirku afgreiðslu ESB-gerða vilja ráðamenn kalla stjórnskipunarhefð eða reglu til að réttlæta ferlið.  Með þessu eru íslenzkir ráðamenn í raun að leiða þjóðina hægt og bítandi inn í ESB, án þess að hún fái nokkru um það ráðið."

Síðan er Sigurbjörn ómyrkur í máli um hina fáránlegu tillögu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, "að festa aðildina að EES eina í stjórnarskrána":

"Greininni [Björns Bjarnasonar-innsk. BJo] í heild er ætlað að draga fjöður yfir gagnrýni á, að þróun til miðstýringar í ESB sé verið að yfirfæra á Ísland í gegnum EES-samninginn, og í stað þess að ræða og takast á við þá óheillaþróun er stjórnarskránni kennt um að vera fyrir EES-samningnum.

Það er verið að afvegaleiða og blekkja almenning með slíkri umræðu og er hættulegt sjálfstæði landsins þegar fylgispekt ráðamanna við ESB er orðin slík að gera tillögu um, að viðskiptasamningur sé felldur inn í stjórnarskrána, eins og hann verði þar um ókomna framtíð."

Fáránleiki tillögu téðs Björns er slíkur, að enginn viti borinn maður er líklegur til að gefa henni jákvæðan gaum, en hún er hins vegar til þess fallin að sýna flestum á hvaða stig undirlægjuhátturinn við Evrópusambandið er kominn.  Hér vantar ekkert annað en að leggjast marflatur og sleikja skósóla búrókratanna í Brüssel.

Þá víkur sögunni að núverandi iðnaðarráðherra Íslands.  Tómas Ingi víkur að henni í téðri grein:

"Það má skilja iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, á þann veg í Bændablaðinu 15. nóvember síðastliðinn, að ekki sé útilokað, að grunnreglur EES-samningsins um frjálst vöruflæði geri það að verkum, "að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs (til Íslands), þó að eftir sem áður yrði hann háður leyfum samkvæmt málefnalegum sjónarmiðum." Án þess að taka afstöðu til málsins bætir ráðherrann við: "Sé það raunin, er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það, frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.""

Iðnaðarráðherrann skilur ekki, hvernig EES-samningurinn virkar.  Þótt Viðauki IV í EES-samninginum hafi verið fyrir hendi frá upphafi, þá var í Viðaukanum ekkert, sem virkjaði almenn ákvæði samningsins um Innri markaðinn fyrir rafmagn fyrr en Fyrsta orkumarkaðslagabálkinum var komið þar fyrir árið 1996.

Sjö árum síðar bætti Annar orkumarkaðslagabálkurinn um betur, en þar var útfært nánar, hvernig orkumarkaðurinn skyldi virka á Innri markaðinum með uppboði á orku í okkrum orkukauphöllum innan ESB (EES), þar sem einnig færu fram afleiðuviðskipti með orku í anda harðsvíraðrar spákaupmennsku.  Við ríkjandi aðstæður innan ESB átti þetta fyrirkomulag að tryggja kaupendum lægsta verðið, en þar sem þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi á Íslandi, tryggja þær seljendum hér hæsta verðið.

Það er hins vegar ekki fyrr en með Þriðja orkumarkaðslagabálkinum frá 2009, sem almenn ákvæði EES-samningsins um Innri markaðinn, t.d. bann við inn- og útflutningstakmörkunum, virkjast fyrir milliríkjaviðskipti með orku.  Það er kominn tími til, að ráðherrann átti sig á þessu og hætti að tuða um, að Orkupakki #3 breyti sáralitlu fyrir Íslendinga, en miklu fyrir Norðmenn, og þess vegna eigum við einfaldlega að halda lengra út á þá braut, sem er þegar mörkuð.  Þetta er algerlega óyfirveguð nauðhyggja, sem er ósæmileg ráðherra og varaformanni  Sjálfstæðisflokksins.  

Tómas Ingi Olrich greiddi atkvæði með EES-samninginum á Alþingi, og sagðist í téðri grein ekki hafa haft hugmynd um, að með því væri hann að afsala okkur valdi yfir íslenzkum orkumálum.  Eins og rakið er hér að ofan, er það kolrangt hjá Þórdísi Kolbrúnu, að Tómas Ingi og allir hinir hafi með samþykkt EES-samningsins gerzt sekir um slíkt á Alþingi í janúar 1993. Sá, sem gerzt ætti um þetta að vita, guðfaðir samningsins að Íslendinga hálfu, Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi utanríkisráðherra, telur það fráleitt, að slíkt afsal hafi farið fram á þeim tíma.

Í lokakafla greinar sinnar, "ESB og örlagahyggja", hittir Tómas Ingi heldur betur naglann á höfuðið.  Kaflinn hófst þannig:

"Í samskiptum okkar við ESB sýnist mér, að fleiri Íslendingar en góðu hófu gegnir séu farnir að aðhyllast örlagahyggju.  Við erum að missa tökin á því að haga seglum eftir vindum íslenzkra hagsmuna.  Í því máli geng ég ekki lengra en að segja: við skulum anda rólega og spyrna við fótum, þar sem það á við.  Síðan skulum við leita leiða til að hægja á og stöðva aðlögun Íslendinga að fjölþjóðlegu tollabandalagi, sem þeir vilja ekki verða aðilar að."

Raunafl og launafl-þýzkt

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 1. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband