Mögnuð umvöndun Morgunblaðsins

Frægar eru magnaðar umvandanir meistara Jóns Vídalíns við leika, lærða og höfðingja, úr predikunarstóli á sinni tíð.  Fann hann að líferni almúgans, grautarlegum boðskap geistlegra, óvandaðri málafylgju höfðingja og níðangurslegri meðferð á fátækum og umkomulausum.  Er ekki að efa, að undan hefur sviðið á sinni tíð, enda mun orðstír meistara Jóns verða uppi, svo lengi sem land þetta byggist.

Sjaldan hafa valdsmenn borgar og ríkis á seinni tíð fengið aðra eins yfirhalningu frá ritstjórn Morgunblaðsins og gaf að líta í forystugrein þann 5. marz 2019.  Hún hét:

"Verðskuldað vantraust",

og hófst þannig í nafni ritstjórans:

"Síðustu kannanir um trúverðugleika opinberra stofnana eru eftirtektarverðar.  Þær sýna, að minnst álit alls hafa menn sameiginlega á stjórn höfuðborgar landsins.  Hvorki meira né minna en 84 % þeirra þykir ekki mikið til hennar koma.  Og verður ekki sagt, að þessi hraksmánarlegi dómur þurfi að koma á óvart.  Hvert dæmið rekur annað um stjórnleysi, áhugaleysi, skort á þjónustulund hjá fyrirtæki, þar sem fyrsta boðorðið og flest hinna eiga að snúast um að veita eigendum sínum, borgarbúum, góða þjónustu.  Sú krafa á meira en fullan rétt á sér, og þá ekki sízt, þar sem gjaldtaka fyrir hana hækkar stöðugt og langt umfram þróun verðlags í landinu." 

Það þarf ekki að orðlengja það, að stjórnun Reykjavíkurborgar er í molum og að þar er skattfénu sólundað purkunarlaust í gæluverkefni, sem ekki þjóna almannahagsmunum, heldur einvörðungu sérvizku borgarfulltrúa meirihlutans og e.t.v. í einhverjum mæli duttlungum æðstu embættismanna borgarinnar.

Nú hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um sparnað í borgarrekstrinum, lækkun gjaldskráa fyrirtækja OR, og minnkun arðgreiðslna frá samsteypunni og til borgarsjóðs ásamt útsvarslækkun, og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart íbúum borgarinnar og kjaraviðræðunum hafnað þessum ágætu tillögum. 

Þeim gafst þarna tækifæri til samstillts átaks borgarstjórnar við að bæta stjórnarhætti borgarinnar og gera yfirbót eftir gegndarlaust sukk og svínarí með skattfé borgarbúa.  Nú er ljóst, að Dagur Bergþóruson, borgarstjóri, verður við sama heygarðshornið, sem í hans tilviki er reyndar úti á þekju.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður, reifaði málið í Morgunblaðsgrein sinni, 6. marz 2019:

"Sveitarfélögin og kjarasamningar":

"Í heild greiðir íslenzkt launafólk meira í útsvar en tekjuskatt. Árið 2017 fengu sveitarfélögin nær 193 milljarða [króna] í sinn hlut af launatekjum í formi útsvars, en ríkissjóður 139 milljarða, að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta.  Lækkun útsvars er því stærra hagsmunamál fyrir flesta en að lækka tekjuskattsprósentu ríkisins.

Launamaður með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins, ef hann greiðir þá nokkuð, að teknu tilliti til bóta.  Þannig hefur skattastefna sveitarfélaga meiri áhrif á ráðstöfunartekjur launafólks en stefna ríkisins í álagningu tekjuskatts.  Lagfæringar á tekjuskattskerfi ríkisins bera takmarkaðan árangur gagnvart þeim, sem hafa lág laun."

Borgarstjórnarmeirihlutinn kýs að halda uppteknum hætti með útsvar í toppi og að blóðmjólka fyrirtæki sín með arðgreiðslum, sem skapast af okri á rafmagni og hitaveitu, þótt íbúarnir ættu réttu lagi að njóta arðs af auðlindum sínum með tiltölulega lágu verði á þessum lífsnauðsynjum. 

Reykjavík beitir íbúa nágrannasveitarfélaganna fjárkúgun með okri á einokunarstarfsemi á borð við hitaveitu og dreifingu rafmagns, þegar afrakstur sölunnar rennur í borgarsjóð.  Orkustofnun verður að grípa í taumana, þegar hitaveituvatn OR á höfuðborgarsvæðinu er orðið dýrara en á "köldu" svæði á borð við Egilsstaði.  Er hitaveitan látin greiða niður dýra raforkuvinnslu á Hellisheiði, sem er í samkeppni ?  

Óli Björn heldur áfram:

"Ekkert sveitarfélag er í betri stöðu en Reykjavík til að leggja sitt af mörkum, þegar kemur að kjarasamningum.  Ekki aðeins vegna þess, að í höfuðborginni er útsvar í hæstu hæðum, heldur ekki síður vegna eignarhalds á Orkuveitu Reykjavíkur. ....

Á mánudag [04.03.2019] kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tillögur um lækkun útsvars og lækkun rekstrargjalda heimilanna.  Með þessu eigi höfuðborgin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að greiða fyrir samningum á vinnumarkaði.  Það er því ekki tilviljun, að sjálfstæðismenn tali um "kjarapakkann", þegar þeir kynna tillögurnar.  

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvarið úr 14,52 % niður í 14,0 %.  Árlega skilar lækkunin um 84 þúsund krónum í vasa fjölskyldu með tvo sem fyrirvinnu á meðallaunum.  Lagt er til, að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum, sem felast í auknu aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar.  Þrátt fyrir þessa lækkun yrði útsvarið í Reykjavík nokkru hærra en það er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Þá leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til, að árleg rekstrargjöld heimila verði lækkuð um 36 þúsund krónur með lækkun á hitunarkostnaði, raforkuverði, sorphirðugjaldi og vatnsgjaldi.  Það kemur eflaust einhverjum á óvart, að í Reykjavík er hitun húsa dýrari en á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum.  Kostnaður við að kynda hús í Reykjavík er 30 % hærri en á Egilsstöðum. ( Í Reykjavík er raforkuverð einnig hærra.)  Í tillögunum er lagt til, að 13 milljarða [króna] áformaðar arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar verði að mestu nýttar til að standa undir lækkuninni."

Það virðist vera að krystallast út sá munur á stefnumörkun hægri og vinstri manna í orkumálum, að hægri menn vilja skapa markaðsforsendur fyrir sem lægstu orkuverði til almennings og almennrar atvinnustarfsemi og samkeppnishæfu orkuverði til stóriðju, en vinstri menn (og ESB-sinnar) vilja okra á orkuverði til almennings og stóriðju, þannig að þessar náttúruauðlindir landsins veiti ekki lengur landinu neitt samkeppnisforskot.

Hægri menn telja með öðrum orðum, að inngrip í náttúru landsins, sem allar virkjanir eru, séu aðeins verjanleg til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í landinu sjálfu, en vinstri menn vilja varpa auðlindarentunni inn í orkufyrirtækin, m.ö.o. orkan skal vera svo dýr, að hún verði skorin við nögl, en orkufyrirtækin græði samt á tá og fingri.

Jafnaðarmenn vilja flestir, að Íslendingar gangi í ESB, og þar er við lýði uppboðskerfi á raforku, sem við fákeppnisaðstæður á Íslandi og dyntóttar orkulindir náttúrunnar útheimtir samræmda auðlindastýringu, ef nýting orkulindanna á ekki að fara úr böndunum, notendum mjög í óhag.  Slík samræmd auðlindastýring samræmist hins vegar ekki  samkeppnisreglum ESB á frjálsum markaði, og þess vegna er glapræði að innleiða hér uppboðskerfið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn skyldar aðildarþjóðirnar til að gera.  Alþingi verður að gera einhvern ábyrgan fyrir því, að lágmarka hér hættu á orkuskorti.  Eðlilegast er, að Landsvirkjun fái það hlutverk, en hún virðist nú vera búin að verðleggja sig út af markaðnum, svo að hún stendur ekki í neinum virkjanaframkvæmdum núna.  Er hún að framkalla orkuskort til að fá átyllu til að hækka raforkuverðið ?

Aftur að téðri forystugrein Morgunblaðsins:

"Því fer fjarri, að gengið sé um landið af þeirri hófsemi, sem það á skilið.  Og meira en það, landið á til þess kröfu, sem ekki verður andmælt með neinum sanngjörnum rökum.  Það hefnir sín, verði sú krafa hunsuð.

Það þarf ekki að taka nema örskotsstund að laska mynd Íslands mjög, og þar með eyðileggja sjálft aðdráttaraflið með óafturkræfum hætti.  Það gildir það sama og um landráð gegn landinu, sem ístöðulausir ráðamenn segjast neyddir í af erlendum dómstólum, sem ekki hafa lögsögu hér.  Árið 2006 nýttu menn færið, þegar aginn var farinn úr herbúðunum, til að færa EES-samninginn yfir ómengaðan íslenzkan landbúnað, þvert ofan í það, sem þjóðinni hafði verið lofað við samningsgerðina.  Verði sú ógæfugata gengin til enda, má augljóst vera, að samningurinn sá er orðinn þjóðinni verri en enginn."

Þetta er hárrétt mat hjá ritstjóra Morgunblaðsins, EES-samningurinn verður þjóðinni þá verri en enginn, ef auka á innflutning á verksmiðjuframleiddum matvælum hingað frá löndum með gríðarlega sýklalyfjagjöf og þar af leiðandi fjölónæma sýkla, sem er mikill vágestur hér, auk aukinnar hættu á dýrasjúkdómum.

Um annan vágest, sem EES-samningurinn býður nú upp á hér á Íslandi, hafa einnig verið viðhöfð þau orð af ráðamönnum, að þeir "eigi bara ekki neitt val".  Þar er um að ræða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, og alveg dæmalausa nauðhyggju, sem fellur vel að yfirborðslegum málflutningi utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem aldrei virðist kryfja nokkurt mál að gagni, heldur láta duga að fara með frasa. 

Ein vitleysan er sú, að EES sé miklu betra fyrir Ísland en ESB, af því að EFTA-ríkin hafi aðeins þurft að innleiða 13,4 % af gerðum og tilskipunum ESB.  Það, sem máli skiptir er auðvitað ekki fjöldinn, heldur umfangið.  Gerðirnar, sem ESB ætlast til að EFTA-ríkin innleiði, fara sístækkandi (og fjöldinn vex líka hratt).  Nú er farið að vöðla tilskipunum og gerðum saman í lagabálka, sem löndunum er gert að samþykkja, og vöndlarnir eru meira að segja framhaldssögur, sem enginn veit, hvernig enda.

Gott dæmi um það eru orkumarkaðslagabálkar ESB.  Sá fyrsti kom út 1996 og var innleiddur hér samhliða nýjum orkulögum 2003.  Þar er áskilinn aðskilnaður orkuvinnslu, flutnings, dreifingar og sölu.  Flutningsfyrirtækið, Landsnet, hefur þó enn ekki verið gert fyllilega sjálfstætt frá hinum.  Ríkisstjórnin hyggur fyrst núna á að bæta úr því. 

Hefur orðið merkjanlegur árangur af þessu brölti á Íslandi ?  Hann er ekki merkjanlegur í smásöluverði raforku, sem hefur heldur hækkað að raungildi.  Þess var aldrei að vænta á stórmarkaði raforku (langtímasamningar), enda er Landsvirkjun ríkjandi þar.  Líklega hefur þetta brölt ekkert gagnast almenningi.  

Annar orkumarkaðslagabálkurinn var gefinn út 2003 og innleiddur hér 2007.  Þar er frjáls samkeppni með raforku í orkukauphöll skilgreind sem það fyrirkomulag, sem gagnast muni raforkukaupendum bezt.  Það hafa ekki verið bornar brigður á, að það eigi við um aðstæður meginlands Evrópu, en það hafa hins vegar verið leidd sterk rök að því í ritgerð eftir Elías Elíasson, verkfræðing, sem fylgir þessum pistli í viðhengi, að slíkt uppboðskerfi geti orðið stórskaðlegt almennum raforkunotendum á Íslandi, hækkað meðalverðið og aukið hættu á orkuskorti.  Landsnet er samt með innleiðingu slíks markaðskerfis raforku í undirbúningi, þótt það sé valfrjálst nú, en það verður hins vegar skylda samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, eins og lesa má um í Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, kafla 6. 

Í 2009/72/EB, kafla 37, er greint frá hlutverki og verkefnum Landsreglarans, og þar fer ekkert á milli mála, að Landsreglarinn verður æðsta embætti orkumála landsins.  Það er raunalegt að horfa upp á hæstaréttarlögmanninn Einar S. Hálfdánarson hengja sig í formsatriði og halda því fram, að ACER muni engin völd fá hér, af því að Ísland er ekki í ESB.

Í grein sinni,

"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi",

skrifar Einar S. Hálfdánarson m.a.:

"Þannig staðfesti hann [MM] (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér eða fjárfestingartækifæri.  Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi.  Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."

Til hvers heldur téður Einar eiginlega, að ESB gerð nr 714/2009 sé samin og gefin út ?  Hún fjallar um Kerfisþróunaráætlun ESB, og þar er útlistað, að aðildarlöndin (EES) skuli aðlaga stofnkerfi sín að Kerfisþróunaráætlun ESB.  Landsreglarinn getur krafizt þess af Landsneti að gera þetta og á að tilkynna öll frávik til ACER.  Með samþykkt Orkupakka #3 skuldbindur Alþingi landsmenn til að hlýða því, sem í honum stendur, þótt allt sé þar ekki enn lagalega skuldbindandi, t.d. 714/2009.  Þá má benda á grein 12 í EES samninginum, sem bannar útflutningshömlur á vörur innan EES.  Rafmagn er vara að Evrópurétti og að neita sæstrengsfyrirtæki um aðgang að íslenzka raforkumarkaðinum er brot á grein EES #12.  

Á bls 26 í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar 4 S (2017-2018) um samþykkt á ákvörðun Sameiginlegu EES nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017, segir svo á frummálinu um nánast algert valdaleysi ESA gagnvart ákvörðunum og beiðnum/skipunum frá ACER:

"EFTAs overvåkningsorgan skal, når det fatter slike vedtak, basere vedtaket på et utkast fra ACER.  Et slikt utkast er ikke rettslig bindende for EFTAs overvåkningsorgan.  Det er en underliggende forutsetning i den fremforhandlete modellen, at EFTAs overvåkningsorgan, kort tid etter mottak av et slikt utkast fra ACER, vil fatte et likelydende eller tilnærmet likelydende vedtak."

Hér fer ekkert á milli mála, hvor ræður, ACER eða ESA, þegar ACER vill koma málum áfram til Landsreglarans, og sama gildir til baka.  Að taka Michael Mann, sendiherra ESB, til vitnis um valdaleysi ACER hérlendis eftir innleiðinu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, er röksemdafærsla, sem engan veginn heldur máli í þessari umræðu. 

 

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 10. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband