Litlu verður vöggur feginn

Málefnafátækt og lítt eða ekki rökstuddar fullyrðingar einkenna málflutning þeirra, sem mæla með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki Evrópusambandsins, ESB.  Sneitt er hjá að færa óyggjandi rök fyrir því, að samþykktin standist Stjórnarskrá, t.d. um framsal ríkisvalds til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland á ekki fullgilda aðild, og á  valdsvið Landserglara ("National Energy Regulator"), sem skal í störfum sínum verða algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, er sjaldan minnzt á þeim bæjum.  

Áhrif inngöngu Íslands (með áheyrnaraðild aðeins) í ACER-Orkustofnun ESB, t.d. á málsmeðferð umsókna um leyfi til að leggja aflsæstrengi til Íslands, eru afgreidd í fljótheitum sem engin og fullyrt, gegn málflutningi sérfræðings í Evrópurétti, norska lagaprófessorsins Peter Örebech, sem alltaf vísar mjög nákvæmlega í gerðir og tilskipanir ESB um þessi efni máli sínu til stuðnings, sbr ritgerð eftir hann í viðhengi með þessum pistli, að Alþingi og íslenzk yfirvöld muni eiga síðasta orðið um afgreiðslu sæstrengsumsókna hingað.

Eitt af því, sem "fylgjendur" Þriðja orkupakkans hengja sig í, þegar kemur að fullveldisframsalinu, er, að við framkvæmd þessa lagabálks hérlendis verði tveggja stoða kerfi EES-samningsins haldið í heiðri.  Þetta er rétt, en aðeins að nafninu til, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) hvorki getur né er til þess ætlazt af henni í þessu tilviki, sbr tilvitnun  hér á eftir í greinargerð með norska lagafrumvarpinu um innleiðingu Orkupakka #3, sinnt sjálfstæðu hlutverki sem Orkustofnun EFTA, spegilmynd ACER.

Upplýsingar, tilmæli og skipanir frá ACER til embættis Landsreglara, fulltrúa ESB yfir orkumálum á Íslandi samkvæmt Orkubálki #3, munu þess vegna verða afritaðar og kannski þýddar hjá ESA og sendar áfram til Landsreglarans, og sama gildir um boð til baka.  Hér er um að ræða tveggja stoða kerfi í orði, en ekki á borði.  Er hér með ólögmætum hætti verið að fara á svig við stjórnarskrár Íslands og Noregs ?  Hvað Noreg varðar verður því vonandi svarað í norska réttarkerfinu senn hvað líður (mál er þar fyrir þingrétti), og vonandi mun prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, svara því fyrir sitt leyti í skýrslu, sem hann mun eiga að skila til utanríkisráðuneytisins og er sennilega þegar búinn að.

Tilvitnun á bls. 26 í Frumvarp 4 S (2017-2018) um staðfestingu á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 (þýðing pistilhöfundar):

"Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] skal grundvalla samþykkt sína á drögum frá ACER, þegar hún [ESA] gerir slíka samþykkt. Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA. Það er undirliggjandi forsenda fyrir þessu umsamda fyrirkomulagi, að Eftirlitsstofnun EFTA skuli, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Hér fer ekki á milli mála, að ekki er ætlazt til, að ESA taki neina sjálfstæða ákvörðun á grundvelli Þriðja orkumarkaðslagabálksins, heldur er hún hrein afgreiðslustofnun fyrir ESB/ACER, enda er grundvallaratriði fyrir ESB, að framkvæmd stefnumótunar hjá ESB sé sú sama alls staðar innan EES.  Að halda því fram, eins og fylgjendur Orkupakka #3 gera, að ESB/ACER fái engin völd hér, af því að við séum í EFTA, er einhvers konar lögfræðilegur kattarþvottur, og það fær varla staðizt fyrir dómi, að þetta fyrirkomulag sé í samræmi við Stjórnarskrá.

Önnur aðalfullyrðing þeirra, sem mæla með téðri orkupakkainnleiðingu, er, að á meðan Ísland ekki er tengt við raforkukerfi ESB, þá hafi ACER engin völd hér, og ESB/ACER geti ekki komið fram þeim vilja sínum, sem þó virðist vera fyrir hendi, sbr forgangsverkefnaskrána PCI (Projects of Common Interest) með "Ice-Link" innanborðs, að hingað verði lagður sæstrengur frá ESB-ríki. Þessi óraunsæja staðhæfing er hrakin í ritgerð prófessors Peter Örebech, sjá viðhengi með þessum pistli, bls. 11.

Sannleikurinn er sá, að orkuauðlindir ESB-landanna og tengdra EFTA-ríkja , þ.e. innan EES, skulu verða meðhöndlaðar samkvæmt stefnumörkun í hverju landi, en hún verður hins vegar að vera í samræmi við markmið ESB um Innri markaðinn fyrir orku.     Höfuðstefnumið ESB í þessum efnum er að "tryggja hátt stig afhendingaröryggis rafmagns", sbr gerð 714/2009, kafla 1 b, og að koma á "vel starfhæfum" markaði (formálinn, atriði 24) og "samkeppnishæfum verðum" (formálinn, atriði 1).  Eftir að Orkupakki #3 hefur tekið gildi hér, munu íslenzk stjórnvöld ekki geta mótað og rekið orkustefnu hér, sem ekki tekur tillit til stefnu ESB um að auka notkun endurnýjanlegra orkulinda í heild, eins og kostur er, og að samtengja alla afkima EES við hið miðlæga raforkukerfi ESB, sem allt snýst um, að fái næga orku.  Fjórði orkupakkinn leggur áherzlu á, að raforkan sé úr umhverfisvænum orkulindum. 

Í gerð nr 713/2009, kafla 8 (4) stendur: "Framkvæmdastjórnin getur samþykkt reglur um þau tilvik, að stofnunin [ACER] fái völd til að taka ákvörðun um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að [stofnkerfi] og rekstrarlegu öryggi í sambandi við innviði á milli landa."

Hér stendur "skilyrði fyrir aðgangi að .... innvið[um] á milli landa".  Það stendur  hins vegar ekkert um, að ACER geti aðeins skipt sér af millilandatengingum, sem þegar eru komnar á, enda væri slíkt í mótsögn við fyrirætlunina með Orkupakka #3, sem er að fjölga þeim, svo að flutningsgeta þeirra nemi a.m.k. 20 % af orkuvinnslugetu ESB árið 2030. 

Setjum sem svo, að Bretar gangi úr ESB og ACER og Ísland samþykki Þriðja orkupakkann.  Síðan komi tvær tillögur um sæstreng frá Íslandi, önnur til Englands og hin til Írska lýðveldisins.  Þá getur ACER sagt sem svo, að öll "umframorka" á Íslandi eigi að fara inn á Innri markað ESB/EES, og þar með skuli aðeins tengja Írlandsstrenginn við íslenzka raforkukerfið.  

Þeim hræðsluáróðri hefur verið beitt hérlendis, að með því að beita neitunarvaldi sínu gagnvart samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar 05.05.2017 sé Alþingi að setja EES-samninginn í uppnám og jafnvel að brjóta hann, svo að búast megi við refsingum af hendi ESB.  Þessi áróður er úr lausu lofti gripinn, enda var honum t.d. aldrei beitt í Noregi, þótt harðar deilur stæðu þar nánuðum saman um sama efni fram til 22.03.2018.  Sannleikurinn er sá, að Alþingi er fullkomlega frjálst að beita neitunarvaldinu, þegar því sýnist, og ESB getur ekki með neinu móti refsað Íslandi fyrir það, enda fengu Norðmenn engar kárínur fyrir slíka synjun á sinni tíð.  Það, sem ESB getur gert, er að ógilda Viðauka IV í EES-samninginum gagnvart Íslandi, en þar eru aðallega Orkupakki #1 og #2.  Það þýðir, að Alþingi getur að eigin vild sniðið þessa löggjöf að íslenzkum aðstæðum.  Er það verra ?

Að "samningaviðræður" fari fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, takmarkar á engan hátt neitunarvald Alþingis, enda fer samþykkið í téðri Brüsselnefnd fram með fyrirvara um samþykki Alþingis (þjóðþinga EFTA-landanna þriggja í EES).  Þingið hefur alls ekki veitt samþykki sitt, þótt 3 þingnefndir hafi verið upplýstar um gang mála af embættismönnum.  Þannig er þetta líka í Noregi. Hví skyldu aðrar reglur gilda um þetta hér en þar. Það er hreinn skáldskapur, að þetta upplýsingaferli hafi á einhvern hátt bundið hendur Alþingis.  

Aðalatriðið er, að þetta neitunarvald Alþingis er grundvallaratriði EES-samningsins fyrir EFTA-löndin og kann að hafa ráðið úrslitum á sinni tíð um, að Alþingi staðfesti samninginn í janúar 1993.  Ef neitunarvaldið væri ekki áskilið, þá væri EES-samningurinn einfaldlega annars eðlis, þ.e.a.s. hann væri "yfirþjóðlegur" í þeim mæli, að hann hefði ekki staðizt Stjórnarskrá, eins og hann var í upphafi, hvorki hérlendis né í Noregi, og síðan hefur hallazt á merinni.  Vegna neitunarvaldsins er það samt svo, að Alþingi og Stórþingið eru hinir formlegu löggjafar.  

Að neitunarvaldið hefur verið svo lítið notað stafar einfaldlega af því, að meirihluti Stórþingsins hefur lengst af frá gildistöku EES-samningsins, 01.01.1994, oftast verið hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt norska þjóðin hafi að meirihluta allan tímann verið andvíg aðild.  Þannig hefur myndazt þrýstingur á íslenzka fulltrúann í Sameiginlegu EES-nefndinni frá báðum hliðum, ESB og EFTA, að samþykkja tillögu Framkvæmdastjórnarinnar um innleiðingu viðbóta í EES-samninginn.  Nú ber nauðsyn til að stinga við fótum.  Mikill meirihluti Norðmanna yrði því feginn, og Noregur myndi einfaldlega gera tvíhliða samning um orkuviðskipti án þess að vera bundinn aðild að ACER. Slíkt veitir Noregi vafalaust meira svigrúm í samningaviðræðum, svo að ekki þurfa Íslendingar að óttast, að þeir geri á hlut frænda sinna í Noregi með því að beita neitunarvaldi á Þriðja orkupakkann.  

Þann 9. marz 2019 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, sem hann nefndi:

"Til Michaels Manns, sendiherra ESB á Íslandi".

Einar hælir sendiherranum fyrir Morgunblaðsgrein hans 15. nóvember 2018 um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem Íslendingar voru að sjálfsögðu hvattir til að láta af andstöðu sinni við hann og innleiða hann vafningalaust í íslenzk lög.  Flestum Íslendingum hefur sennilega þótt grein sendiherrans óviðeigandi afskipti af innanríkismálum hér, sem sendiherrar jafnan forðast.  Einar S. Hálfdánarson tekur hins vegar þennan sendiherra sem fullgilda heimild um það, sem rétt er í þessu máli, en ber ekki við að vísa í neina gerð eða tilskipun "pakkans" máli sínu til stuðnings.  Það er vissulega nýtt af nálinni síðan á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að gera sendiherra ESB svo hátt undir höfði.  Þannig reit Einar:

"Þannig staðfesti hann (sem vitað var), að Íslandi er ekki skylt að opna raforkumarkað sinn né að veita þriðja aðila aðgang hér að fjárfestingartækifæri.  Jafnframt, að þar sem Ísland er ekki aðili að ESB, muni ACER ekki hafa neitt vald hér á landi.  Þau málefni, er lúta að Íslandi, séu á hendi ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA), en ekki ACER."

Hér að ofan eru sett fram haldföst rök um hið gagnstæða við það, sem þarna er haldið fram.  Pistilhöfundur hefur ýmist vitnað til gerða ESB, norska lagaprófessorsins Peter Örebech eða greinargerðar með frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn, en Einar S. Hálfdánarson hefur vitnað í sendiherra Evrópusambandsins sem heimild.  Lesendum er eftirlátið að bera þetta saman og mynda sér skoðun.

Síðan skrifar Einar:

"Það skiptir ESB ekki nokkru, hvort Ísland innleiðir þriðja orkupakkann og Ísland væntanlega minnstu."

Ef þetta er rétt, hvers vegna skrifaði Michael Mann þá umrædda grein í Morgunblaðið 15.11.2018 ?

Eins og vænta mátti, vitnaði Björn Bjarnason, formaður nefndar utanríkisráðherra um mat á reynslu Íslands af EES, í þessa grein Einars í dagbókarfærslu sinni 10. marz 2019, og má um það segja, að litlu verður vöggur feginn.  Björn hefur ekki komið fram með neinar skýringar á því, hvers vegna Íslendingar eigi að innleiða Þriðja orkupakka ESB, sem ekki hafa verið marghraktar, m.a. hér að ofan.  Hann er samt nógu ósvífinn til að skrifa eftirfarandi undir fyrirsögninni,

"Þegar haldföstu rökin skortir":

"Þetta [grein Einars] er athyglisverð staðfesting á því, sem hér hefur verið margítrekað.  Haldið hefur verið fram órökstuddum fullyrðingum um afleiðingar þess að innleiða 3ja orkupakkann.  Þessi blekkingarherferð er ekki reist á neinum "haldföstum rökum", svo að tekið sé undir orð Einars ... "

Hér kastar Björn Bjarnason steinum úr glerhúsi, enda færir hann sjálfur aldrei nein bitastæð rök fyrir því, að Íslendingar eigi að samþykkja Orkupakka #3. Hann hefur hins vegar látið sig hafa það að kasta fýlubombum á við þá sjúklegu samsæriskenningu, að hérlendir andstæðingar Orkupakka #3 séu á mála hjá norska Miðflokkinum til að stoppa það, sem þessum stjórnmálaflokki mistókst að stoppa fyrir ári í Noregi.  Guðlaugur Þór Þórðarson, sem sigraði téðan Björn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á sinni tíð, en virðist treysta honum núna, hefur lapið þessa bölvuðu vitleysu upp eftir Birni.  

Þegar Miðflokkurinn, norski, var hins vegar inntur eftir þessu, kannaðist enginn þar á bæ við að gera slíka útsendara út á Íslandi, og engin skjöl fundust þar um.  Þegar greint var frá því, að utanríkisráðherra Íslands héldi þessu þó blákalt fram, kváðu við þvílík hlátrasköll í Ósló, að annað eins hefur ekki heyrzt í Víkinni síðan Haraldi, hárfagra, var greint frá því þar á sinni tíð, að höfðingjar Vesturlandsins, norska, sem eigi vildu þýðast ríki hans, hygðust hafa sig á brott með fjölskyldur sínar og búsmala til nýfundinnar eyjar norður við Dumbshaf.  

Síðan lætur Björn Bjarnason í ljós undrun á því, að hann skuli ekki hafa hlotið nokkurn hljómgrunn fyrir áróður sinn fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans.  Téður Björn er þó ekki óvanur því að hljóta dræmar undirtektir á meðal flokksfélaga og á meðal almennings.  Það gerðist t.d., er Friðrik Sófusson sigraði hann í kjöri um formann Sambands ungra sjálfstæðismanna og í borgarstjórnarkosningum, þar sem hann galt afhroð sem borgarstjóraefni.

Þessa undarlegu undrun sína tjáir Björn með eftirfarandi ósmekklega hætti í téðri dagbókarfærslu:

"Í raun er ótrúlegt, hve margir hafa kosið að elta þá, sem kveiktu villuljósin vegna 3ja orkupakkans.  Sýnir sú vegferð, hve auðvelt er að leiða menn í ófærur með aðstoð samfélagsmiðla og í andrúmslofti, sem einkennist af því, að menn telja sig hafa höndlað dýpri sannleika en sjá [má] með því einu að kynna sér staðreyndir."

Er skrýtið, þótt sá, sem sendir frá sér þennan yfirlætisfulla texta, hljóti engan hljómgrunn ?

 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 14. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband