Aukin ásókn í leyfi fyrir vindorkuverum

Samhliða fjölgun millilandatenginga við raforkukerfi Noregs hefur orðið gríðarleg fjölgun vindmyllna í landinu.  Við árslok 2018 voru vindmyllur með  framleiðslugetu um 4 TWh/ár í rekstri (svipað og öll almenn notkun á Íslandi), en vindmyllur að framleiðslugetu 22 TWh/ár eru annaðhvort í byggingu eða hafa fengið virkjanaleyfi frá NVE (Orkustofnun Noregs). Þessi viðbót er meiri en öll núverandi raforkuvinnsla á Íslandi.  

NVE hefur ennfremur kunngert hugsanlegan ramma fyrir frekari virkjun vindorku í Noregi upp á 30 TWh/ár.  Í lok næsta áratugar gæti þannig orkuvinnslugeta vindmyllna í Noregi numið um 50 TWh/ár, sem er svipuð  heildarvinnslugetu vatnsorkuvera og jarðgufuvera Íslands, eins og hún er talin geta orðið mest í reynd.  Vindorkuver munu þá nema yfir fjórðungi af raforkuvinnslu í Noregi.  Þetta svarar til þess, að hérlendis mundu rísa vindorkugarðar með 7 TWh/ár framleiðslugetu um 2030.  

Hver er skýringin á þessum skyndilega áhuga á vindorkuverum í Noregi, sem hingað til hafa ekki verið arðsöm þar ?  NVE og Anders Skonhoft, hagfræðiprófessor, eru sammála um, að skýringarinnar sé að leita í væntingum um hærra raforkuverð í Noregi. Þetta hefur reyndar leitt til kaupa fjárfesta frá ESB-löndum á smávatnsvirkjunum, vindmyllum og til umsókna þeirra um leyfi til að reisa slíkar virkjanir. 

Í Noregi hafa vindmylluleyfi verið gefin út fríhendis, þ.e. án þess að um þau gildi nokkur heildar rammaáætlun fyrir landið allt. Það þýðir að mati prófessors Anders Skonhoft, að slík virkjunarleyfi hafa verið gefin út, án þess að leggja sérstakt mat á "gildi náttúru og umhverfis".

Svipaðrar tilhneigingar gætir hérlendis frá fjárfestum.  Þeir hafa sýnt áhuga á að reisa vindorkuver, sem í fljótu bragði virðist ekki vera fjárhagsgrundvöllur fyrir.  Þannig reiknaði höfundur þessa pistils út vinnslukostnað 130 MW vindorkuvers í landi Hróðnýjarstaða, í grennd við Búðardal við Hvammsfjörð, 53 USD/MWh eða 6,4 ISK/kWh, fyrir um ári.  Þetta er um 30 % yfir núverandi heildsöluverði hérlendis.  Ef til Íslands verður lagður aflsæstrengur erlendis frá með flutningsgetu um 1200 MW og raforkukerfi landsins tengt við raforkukerfi, þar sem raforkuverðið er, segjum, tvöfalt hærra en hér, þá mun heildsöluverðið allt að því tvöfaldast hérlendis og vindmyllur augljóslega verða mjög arðsamar.

Það er engum blöðum um það að fletta, að íslenzkar virkjanir og virkjanaleyfi munu verða enn verðmætari en nú í augum fjárfesta með tilkomu millilandatengingar og jafnvel þegar við innleiðingu uppboðsmarkaðar raforku í Orkukauphöll, sem Landsreglari mun fylgja stranglega eftir, að stofnsett verði hér eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Hvað þýðir það, að hér verði vindmyllugarðar upp á 7 TWh/ár ?

 M.v. reynslutölur frá Noregi þá jafngildir þetta 600 vindmyllum á Íslandi, sem leggja munu undir sig 300 km2; 0,3 % af heildarflatarmáli landsins, en áhrifasvæði þeirra er langtum víðáttumeira, því að hæð þeirra verður allt að 250 m, og hávaðinn getur orðið gríðarlegur.  Athafnasvæðið sjálft flokkast sem iðnaðarsvæði með vegi þvers og kruss, sem mælast munu í hundruðum km.

Orkan frá þessum vindmyllum, 7 TWh/ár, nemur nokkurn veginn því, sem reiknað er með að flytja utan um téðan sæstreng, því að með þessari miklu hækkun raforkuverðs innanlands verður afgangsorkuflutningsgeta sæstrengsins nýtt til að flytja inn rafmagn að næturþeli á lægra verði en hér verður þá, eins og gerzt hefur í Noregi, e.t.v. 2 TWh/ár.  

 Þessi þróun mála er landsmönnum óhagfelld, því að frá sjónarmiði innlendra orkukaupenda er afleiðingin sú að heildarrafmagnsreikningurinn gæti hækkað um 60 %.  Hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna vex einvörðungu vegna sölu innanlands á hærra verði, en samkvæmt prófessor Anders Skonhoft verður enginn hagnaðarauki hjá þeim af útflutningi raforkunnar um sæstreng, heldur  hirðir strengeigandinn allan hagnaðinn af útflutninginum, enda verða innlend orkuvinnslufyrirtæki fyrir kostnaðarauka af viðbótar orkuöflun (til útflutnings).  Frá hagsmunamati innlendra raforkukaupenda er hér um svikamyllu að ræða.  Prófessor Anders Skonhoft orðar þetta þannig í þýðingu pistilhöfundar:

"Veitið því annars athygli, að hagnaður orkuvinnslufyrirtækjanna er einvörðungu tengdur verðhækkun innanlands vegna útflutningsins.  Án hækkaðs verðs innanlands hafa orkuvinnslufyrirtækin þar með enga fjárhagslega ástæðu til að fagna orkuviðskiptum við útlönd."

Þetta ætti að færa eigendum íslenzku orkuvinnslufyrirtækjanna (þau eru flest í opinberri eigu) endanlega heim sanninn um, að það er þjóðhagslega óhagkvæmt að hefja slík viðskipti. Aukinn hagnaður þeirra verður allur á kostnað innlendra raforkunotenda, þvert á það, sem ýmsir stjórnmálamenn og talsmenn orkufyrirtækja o.fl. hafa haldið fram.  Ástæðan er aukinn kostnaður þeirra við öflun útflutningsorkunnar, og að sæstrengseigandinn hirðir allan ávinninginn av millilandaviðskiptunum.  Þá er ótalið fjárhagstjónið, sem leiðir af verri samkeppnisstöðu allra atvinnufyrirtækja í landinu.  Afleiðingin á frjálsum markaði verður óhjákvæmilega, að fyrirtæki munu gefast upp á rekstrinum og geta hinna til að greiða laun verður minni en áður.  

Ætlun Evrópusambandsins með Orkupakka #3 var að færa völd á sviði orkumarkaðar og milliríkjaviðskipta með raforku (og gas) frá aðildarlöndunum og til Framkvæmdastjórnarinnar til að ná markmiðum ESB um aukinn millilandaflutning orku, og Orkupakki #4 leggur áherzlu á, að þetta verði í vaxandi mæli orka úr endurnýjanlegum orkulindum.  Eftir samþykkt Orkupakka #3 verður möguleiki á því, að samskipti ESB og Íslands á orkusviðinu verði leikur kattarins að músinni, þar sem lokahnykkur þess að ganga orkustefnu ESB á hönd verður þar með tekinn.  Hana móta æðstu stofnanir ESB út frá hagsmunum þungamiðju evrópsks iðnaðar.  

Olíuleitar pallur

 

 


Bloggfærslur 17. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband