Enn er líf í ACER umræðunni í Noregi

Haustið 2018 höfðuðu samtökin "Nei til EU", sem eru systursamtök Heimssýnar í Noregi, mál gegn Ernu Solberg, forsætisráðherra, fyrir málsmeðferð Stórþingsins, að undirlagi ríkisstjórnarinnar, á atkvæðagreiðslu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  

Stjórnarskrá Noregs kveður á um, að við valdframsal ríkisins til erlendra stofnana án aðildar Noregs, þar sem milliríkjasamningurinn, sem í hlut á, getur ekki talizt vera þjóðréttarlegs eðlis, eins og aðild að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðabankanum eða NATO, svo að dæmi séu tekin, skuli 3/4 af mættum þingmönnum, sem ekki mega vera færri en 2/3 allra kjörinna þingmanna, þurfa að fallast á framsalið, svo að það hljóti samþykki.  

Það er hins vegar einfaldur meirihluti þingsins sjálfs, sem sker úr um eðli málsins og þar með, hvort viðhafa skuli regluna um aukinn meirihluta. Þetta má kalla veikleika við annars ágætt ákvæði, sem nú hefur leitt til málaferla. 

Dómsmálaráðherrann sendi þinginu í fyrravetur álitsgerð, þar sem ekki var talin vera þörf á auknum meirihluta til að samþykkja Þriðja orkupakka ESB, af því að hann væri "lite inngripende", þ.e. hefði lítil áhrif á þjóðlífið.  Þar stendur þó hnífurinn í kúnni.  "Nei til EU" nýtur sérfræðilegs stuðnings fjölda  norskra lagaprófessora í því, að málið hafi svo víðtæk áhrif á stjórnsýslu Noregs og heimili Landsreglara að hlutast til um gjaldskrár Statnetts og dreifiveitnanna og að heimta alls konar orkutengdar upplýsingar af fyrirtækjum að viðlögðum sektum, að áskilja hefði átt aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu Stórþingsins um málið samkvæmt Stjórnarskránni.  Þá kynni málið að hafa fallið á Stórþinginu, því að innan við 2/3 mættra þingmanna greiddu því atkvæði sitt, en það hlaut að vísu yfir 3/4 greiddra atkvæða.

Ríkislögmaðurinn krefst frávísunar stefnunnar á þeim grundvelli, að verið sé að flytja pólitískan ágreining inn í réttarsal, en "Nei til EU" lítur á það sem lýðræðislegan rétt sinn að fá úr því skorið af dómstóli, hvort Stjórnarskráin hafi verið brotin.  Dómsúrskurðar er að vænta nú í apríl/maí um frávísunarkröfu ríkislögmanns.  Haldi málið áfram fyrir dómi, má vænta dóms í Þingréttinum (fyrsta dómstig) síðla árs 2019.  Málið mun varla fara fyrir Lagmannsretten, heldur beint fyrir Hæstarétt, sem líklega kveður þó ekki upp dóm fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2020.  Það er fullkomlega óeðlilegt, að Alþingi taki Þriðja orkupakkann til formlegrar afgreiðslu fyrr en lyktir fást í þessu dómsmáli.

Vinni "Nei til EU" málið (fyrir Hæstarétti), mun Stórþingið verða að fjalla um það að nýju.  Þá verður uppi ný staða í norskri pólitík.  Það var Verkamannaflokkurinn, sem fyrir ári réði úrslitum um afdrif þessa máls.  Á meðal þingmanna hans var talsverð óánægja með Orkupakka #3, og hún er enn meiri nú, en Landsstjórn flokksins samþykkti fyrirmæli til þingflokksins um að greiða sem blokk atkvæði með pakkanum.  Þar réð gamalkunnug hollusta flokksins við ESB.

Slíkt mun ekki endurtaka sig, komi Orkupakkinn aftur til kasta þingsins.  Ástæðan er sú, að í millitíðinni er norska Alþýðusambandið búið að taka afstöðu gegn innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og norska löggjöf, og norski Verkamannaflokkurinn hefur líklega aldrei gengið í berhögg við verkalýðshreyfinguna í grundvallar hagsmunamáli, eins og hér um ræðir. Á Stórþinginu mun málið að líkindum falla við endurupptöku, aðallega vegna sinnaskipta Verkamannaflokksins.

Hver eru rök norsku verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli ?  Þau eru, að atvinnuöryggi margra verkamanna, iðnaðarmanna og tæknimanna og heilu sveitarfélaganna á landsbyggðinni, er stór hætta búin, ef stefnumörkun í orkumálum Noregs flyzt til ESB.  Þetta eru ekki getgátur verkalýðsforingja, heldur hefur norska verkalýðsforystan látið sérfræðinga áhættugreina stöðuna fyrir sig, og þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að norskur útflutningsiðnaður muni í miklum mæli gefast upp á samkeppninni, ef raforkuverðið hækkar uppundir það, sem gengur og gerist á Bretlandi og í iðnaðarmiðju meginlands Evrópu. Að sjálfsögðu yrði slík staða alvarleg ógnun við atvinnuöryggi og kjör skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, og þess vegna er þessi pólitíska afstaða norska Alþýðusambandsins mikilvægur þáttur í varnarbaráttu þess fyrir áframhaldandi góðum lífskjörum verkafólks í Noregi.  

Hvers vegna ætti gildistaka Þriðja orkupakkans í Noregi að grafa undan samkeppnishæfni Noregs ?  Hún hefur verið reist á tiltölulega lágu raforkuverði, sem hefur verið jákvætt mótvægi við hærri flutningskostnað og starfsmannakostnað norsku verksmiðjanna en samkeppnisaðila á Bretlandi eða niðri í Evrópu.  Það hefur sýnt sig, að með hverjum nýjum aflsæstreng hefur raforkuverð í Noregi dregið meira dám af raforkuverðinu við hinn enda sæstrengsins.  Því stjórna markaðslögmálin.  Því meiri flutningsgeta millilandatenginga, þeim mun meir mun innanlandsverði raforku svipa til verðsins erlendis, sem tengingarnar ná til. 

Í Noregi nemur útflutningur raforku nú um 10 % af almennri raforkunotkun innanlands. Norska verkalýðshreyfingin óttast, og ekki að ástæðulausu, að útflutningur raforku muni vaxa enn frekar, þegar hann verður ekki lengur á forsendum Norðmanna sjálfra, heldur stjórnað af markaðnum, Landsreglara Noregs og reglum ACER.  Þetta muni ekki sízt koma niður á orkukræfum iðnaði Noregs, sem myndar  samfélagslegt hryggjarstykki í mörgum dreifðum byggðum Noregs.

Þar að auki horfir norska verkalýðshreyfingin nú á straum tilskipana og gerða frá ESB, sem hún telur réttindum og kjörum norsks verkafólks stafa hætta af.  Nefna má Járnbrautarpakka #4, gerð um millilandaflutninga, og nýja vinnumálalöggjöf ESB auk gerðar, sem skyldar stjórnvöld, einnig sveitarstjórnir, til að tilkynna Framkvæmdastjórninni um allar væntanlegar ákvarðanir varðandi þjónustutilskipun ESB. 

Búizt er við, að EES-aðild Noregs verði til umfjöllunar á næsta þingi Alþýðusambandsins 2021 og að m.v. núverandi þróun mála kunni uppsögn EES-samningsins að verða samþykkt þar.  Þetta mun vafalaust lita mjög kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar 2021 í Noregi.  Þessi atburðarás eykur líkur á, að Stórþingið muni fella Orkupakka #3 árið 2021.  Það er óþarfi fyrir Íslendinga að trufla þessa norsku atburðarás með því að taka orkupakkann til afgreiðslu fyrir þennan tíma.  

Það er enn meiri ástæða til að óttast rafmagnsverðhækkanir hérlendis en í Noregi af völdum aflsæstrengs, því að á Íslandi mun flutningsgeta fyrsta sæstrengsins verða tvöföld almenna raforkunotkunin.  Verðhækkunin innanlands mun þess vegna verða enn meiri en í Noregi, og heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis mun verða svipað og verðið, sem orkuseljendur hér fá fyrir orkuna inn á strenginnn.  ESB sjálft gerir ráð fyrir sáralitlum raforkuverðmun á milli landa eða 0,25 EUR/MWh (=0,034 ISK/kWh), þegar flutningsgeta millilandatenginga nær 30 % af uppsettu afli innan sambandsins.

Af aflsæstreng mun einvörðungu hljótast þjóðhagslegt tap, því að norski hagfræðingurinn Anders Skonhoft hefur sýnt fram á, að allur aukinn gróði innlendra orkuseljenda af útflutningi raforku stafar af hærra orkuverði innanlands vegna nýrrar utanlandstengingar, en gróðinn af útflutninginum sjálfum, þ.e. orkuviðskiptunum við útlönd, fer allur til sæstrengseigandans. 

Þau, sem  vilja innleiða hér erlenda löggjöf, sem er sniðin til að greiða fyrir millilandatengingum orku og til að stjórna orkuflæðinu, ekki sízt úr endurnýjanlegum orkulindum, eru að leggja drögin að svikamyllu, sem beint er að landsmönnum öllum.  Í flestum tilvikum ræður fávísi för og í mörgum tilvikum trúin á, að það, sem er gott fyrir ESB, sé líka gott fyrir Ísland.  Það er hins vegar herjans mikill misskilningur, og í raun einfeldningsháttur, eins og iðulega hefur verið fjallað um á þessu vefsetri.

Það er sem sagt engan veginn hægt að ganga út frá því sem vísu, að ný umfjöllun um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB á Stórþinginu muni leiða til afgreiðslu, þar sem fylgjendur fái 3/4 greiddra atkvæða.   Af þessum sökum er í raun ótímabært fyrir ríkisstjórn Íslands að hefja viðræður á vegum EFTA við ESB um undanþágur frá þessum ólánslagabálki fyrir Ísland, eins og Miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti í vetur.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að ríkisstjórnin tekur ekki þennan pól í hæðina og lýsir yfir frestun málsins, þar til lyktir fást í dómsmál "Nei til EU" gegn Ernu Solberg ? Í staðinn móast ráðherrarnir tveir við, sem aðllega véla um þetta mál, staddir úti á túni.

Í dag, 21.03.2019, kl. 1730, mun Morten Harper, sérfræðingur hjá "Nei til EU" í Noregi, flytja fyrirlestur um EES og Orkupakka #3 á Háskólatorgi HÍ, sal 105.  Verður áhugavert að kynnast viðhorfi hans til þessara mála og mati á þróun sambands EFTA-ríkjanna við ESB.      

 

 

 


Bloggfærslur 21. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband