Spurningar um Orkupakka #3

Málefnalega er ríkisstjórnin sem örfoka eyðimörk, þegar kemur að efnislegri vörn hennar fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans (OP#3) hérlendis.  Hún getur ekki einu sinni útskýrt, hvers vegna það er ekki ástæða núna til að grípa í "neyðarhemilinn".  Svar iðnaðarráðherra jafngildir "af því bara". Frammistaða hennar í umræðunum um OP#3 á Alþingi var afspyrnuléleg.  Hún skilur ekki um hvað Orkusamband Evrópu snýst.  Hún heldur, að neytendavernd á meginlandi Evrópu sé neytendavernd á Íslandi. Hún hafði ekki roð við Ólafi Ísleifssyni í umræðunum á Alþingi á "síðsumarstúfinum".   Reyndar var orðræða hennar eitthvað á þá leið, að þau (ríkisstjórnin) tækju  ekki í neyðarhemilinn, bara af því að við megum það.  Svona léttúðugur ráðherra um lífshagsmunamál þjóðarinnar á einfaldlega skilið að fá sparkið frá kjósendum við fyrsta tækifæri. Því fyrr, þeim mun betra, mundi einhver segja (einnig í NV-kjördæmi). 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er forstokkaður, eins og reyndar hinir tveir þingflokkar ríkisstjórnarinnar.  Við slíka er erfitt að tala og jafnvel tímasóun.  Engu að síður verða þessir og aðrir þingflokkar að velta fyrir sér nokkrum aðkallandi spurningum jafnt fyrir og eftir atkvæðagreiðslu um OP#3 á Alþingi:

1) Hvernig getur utanríkisráðherra og Alþingi brugðizt við, telji Evrópusambandið (ESB) innleiðingu tilskipunar ESB nr 72/2009, rafmagnstilskipunar, ófullnægjandi og ekki veita Landsreglara það svigrúm til óháðra ákvarðana, sem tilskipunin mælir fyrir um ?

OP#3 verður innleiddur í heilu lagi, en síðan settur  fyrirvari ("back-stop"), sem kemur afar spánskt fyrir sjónir og er fordæmalaus í sögu EES, enda brot á 7. gr. samningsins.

Í þingskjali 1252-791. máli, er svohljóðandi breytingartillaga við þingsályktun:

"Ekki verður ráðizt í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng, nema að undangengnu samþykki Alþingis.  Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir, sem varða slíka tengingu, geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.  Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal leggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar."

Það er undarlegt að hafa þennan fyrirvara í þingsályktun, en ekki í lögum.  Það leiðir af sér tvennt.  Auðveldara er að breyta fyrirvaranum, og hann stendur vissulega skör lægra en OP#3, sem fær lagagildi hér eftir innleiðingu hans.  Samkvæmt OP#3 eiga Landsreglarar við sitt hvorn enda sæstrengsins að fjalla um tæknilega og fjárhagslega skilmála sæstrengsins.  Ef þeir komast ekki að niðurstöðu sín á milli, verða þeir að leggja málið fyrir ACER, sem úrskurðar.  Það er hvergi í reglum OP#3 gert ráð fyrir neins konar aðkomu löggjafans að einstökum verkefnum, enda er það undarleg stjórnsýsla að láta löggjafann sýsla með framkvæmdaatriði. Hann á að leggja meginlínur og lýsir yfir vilja sínum til að tengja landið Innri raforkumarkaðinum með samþykkt OP#3.

Hér er þess vegna komin upp sú staða, að við innleiðingu OP#3 eru hendur Landsreglarans á Íslandi bundnar með þingsályktunartillögu og reyndar með lögum, sbr þingskjal 1253-792, sem er frumvarp um breytingu á raforkulögum nr 65/2003, sem vísa í þessa þingsályktunartillögu, og hljóðar svo: 

"Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku."

Ríkisstjórn, sem leggur slíkt fram, virðist ekki skilja, hvað felst í OP#3.  Markaðinum er falið að fjármagna og standa að millilandatengingum, og ESB beitir bæði fjárhagslegum og reglusetningarlegum örvunaraðgerðum í því skyni.  Annað helzta hlutverk Landsreglarans eftir samþykkt OP#3 samkvæmt tilskipun 72/2009 verður að útrýma öllum hindrunum í vegi millilandatenginga við Ísland.  Samkvæmt OP#4 mega stjórnvöld ekki standa að þingsályktun, eins og þeirri, sem að ofan greinir.  Það eru þess vegna yfirgnæfandi líkur á, að ESA muni fá EFTA-dómstólinum þetta deilumál til úrlausnar, þegar fordæmi kemur frá ESB-dómstólinum í deilumáli Framkvæmdastjórnarinnar við ríkisstjórn Belgíu. Má þá einu gilda, hversu margir sótraftar eru á sjó dregnir hér við land til að vitna um, að dómur ESB-dómstólsins í Belga-málinu veiti EFTA-dómstólinum ekki fordæmi.  Útskýringar á því eru hlálegar og gætu hafa komið frá karlinum í Tunglinu.  Allt mun þetta fólk verða sér rækilega til skammar, þegar afleiðingar þessarar innleiðingar koma í ljós.  Þær verða almenningi ekki ódýrar.  

2) Hefur farið fram sértæk hagræn athugun á áhrifum stefnu ESB, eins og hún kemur fram í OP#3 og nánar í OP#4 á þjóðarbúskap Íslendinga og samfélagslegum áhrifum til lengri tíma, og hyggst ráðherra leggja niðurstöður slíkrar athugunar fyrir Alþingi áður en OP#3 verður samþykktur [sem er borin von], eins og nauðsynlegt er ?

Sá undarlegi málflutningur hefur verið hafður í frammi af boðberum OP#3 hérlendis, að hann muni lítil sem engin áhrif hafa á efnahaginn, nema þá helzt til batnaðar með bættri neytendavernd.  Þessi málflutningur vitnar um fullkomið skilningsleysi á því, sem þessi Evrópulöggjöf felur í sér, og fullkomið skeytingarleysi um almannahag. Strax með innleiðingu markaðsstýringar raforkuvinnslunnar, sem verður eitt af fyrstu verkum Landsreglarans á eftir ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna, verður raforkuverð sveiflukennt, og þar sem hillir undir orkuskort, mun meðalverðið hækka.  Neytendavernd er ekki til í þessu kerfi hérlendis.  Það er fásinna.  

Neytendavernd getur falizt í harðri samkeppni, en henni verður aldrei til að dreifa á íslenzkum raforkumarkaði.  Það sannar reynslan af OP#1 og OP#2.  Iðnaðarráðherra heldur því fram, að niðurhlutun fyrirtækja í smærri einingar hafi orðið neytendum til hagsbóta.  Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi í fjármagnsfrekri starfsemi, enda er reyndin sú,að raunhækkun raforkuverðs til heimila tímabilið 2003-2018 hefur orðið 7 % - 8 % samkvæmt gögnum Hagstofunnar og útreikningum prófessors Ragnars Árnasonar í skýrslu Orkunnar okkar, 16. ágúst 2019.

Ragnar skrifaði fróðlega grein í skýrslu Orkunnar okkar um hagræn áhrif innleiðingar OP#3, en slíkar upplýsingar hefur sárlega vantað í umræðuna, og ríkisstjórnin hefur engan gaum gefið að þessum þætti. Ragnar ver mestu rými greinarinnar í að greina afleiðingarnar af samtengingu Íslands við Innri raforkumarkað EES, enda er líklegast, að ESB fái vilja sínum fyrr en síðar framgengt um að tengja jaðarsvæði EES við Innri markaðinn, eftir að þau eru gengin í Orkusamband Evrópu:  

"Samkvæmt viðtekinni hagfræði má fullvíst telja, að hindrunarlaus orkumarkaður muni verða efnahagsleg lyftistöng fyrir ESB í heild og ýta undir hagvöxt.  Það er hins vegar ekki þar með sagt, að slíkur orkumarkaður styrki efnahagslífið á öllum svæðum sambandsins.  Hindrunarlaus orkuviðskipti munu einkum nýtast efnahagslegri þungamiðju sambandsins, þar sem orkuþörfin er mest.  Á hinn bóginn munu þau svæði, sem orka verður flutt frá, að öðru jöfnu verða fyrir búsifjum við þessa breytingu.  Það er vegna þess, að þau missa af hluta af sinni orku og þar með möguleikum til nýtingar hennar."

Með því að samþykkja OP#3 göngum við í Orkusamband ESB og játumst undir regluverk ESB um orkuviðskipti á milli landa.  Inntak þess er, að ríkisstjórnir og þjóðþing komi ekki nálægt þessum málum, hvorki til hindrunar né örvunar, heldur véli landsreglarar, ACER og fyrirtæki á orkumarkaði alfarið um þau.  Ríkisstjórnarflokkarnir o.fl. á Alþingi eru hins vegar haldnir þeirri meinloku, að fullveldi Íslands til að ráða þessum málum verði óskert með OP#3.  Það verður afdrifaríkur misskilningur í ljósi þess, að ágreiningur verður útkljáður fyrir EFTA-dómstólinum.

"Úrvinnsla raforku hér á landi leggur nú þegar talsvert af mörkum til landsframleiðslunnar og skapar verulega atvinnu.  Tækifæri til frekari og verðmætari úrvinnslu eru mikil, enda aðgangur að ódýrri og tryggri raforku ein helzta forsenda nútímaframleiðslu af fjölmörgu tagi."

Það er fullveldisréttur þjóða að ráða nýtingu náttúruauðlinda sinna.  Sá réttur verður tekinn af íslenzku þjóðinni varðandi nýtingu orkulindanna, því að fulltrúar hennar verða ekki hafðir með í ráðum, þegar Landsreglarinn mun sjá til þess, að Landsnet innleiði hér markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.  Vegna sérstöðu orkukerfisins getur hún ekki orðið hér í þágu almannahags.  Hún mun auka tekjur orkufyrirtækjanna á kostnað almennings og orkuöryggis. Orkulindastýring, sem er vel þekkt hérlendis, mundi sníða af þessu kerfi agnúana í þágu almannahags, en Landsreglarinn mun sennilega banna hana á þeim forsendum, að hún feli í sér óleyfileg ríkisafskipti af frjálsum markaði. 

Í Orkusambandi Evrópu eiga viðskipti með alla raforku að fara fram í orkukauphöll.  Það merkir, að ESB vill langtímasamninga feiga.  Þar með sér stóriðjan í landinu sína sæng út breidda.  Þetta mun minnka atvinnu, verðmætasköpun og hagvöxt í landinu, sbr texta Ragnars Árnasonar, hagfræðings.

"Á hindrunarlausum raforkumarkaði muni raforkan fara til þeirra nota, sem hæst verð bjóða.  Því muni raforka verða flutt frá því landi, þar sem raforkuverð er lægra, og sá útflutningur muni halda áfram, þar til skilaverðið til framleiðenda á raforku til innanlandsnota og útflutnings er orðið jafnhátt.  Raforkuverðið í útflutningslandi raforku muni því hækka til samræmis við raforkuverðið erlendis.  Jafnframt muni raforkuframleiðsla í útflutningslandinu vaxa, séu slík tækifæri á annað borð fyrir hendi, þar til framleiðslukostnaður í nýjum orkumannvirkjum þar er orðinn jafnhár hinu hærra raforkuverði."

Sæstrengur til Íslands nýtur svo mikillar velvildar framkvæmdastjórnar ESB, að hún hefur valið hann af Kerfisþróunaráætlun ESB og inn á "The Union list of projects of common interest" - Sambandslista verkefna í þágu almannahags, en þau verkefni verða sjálfkrafa samþykkt af landsreglurum landanna, sem í hlut eiga, þegar fjárfestar gefa sig fram.  Jafnframt eru slík verkefni styrkhæf úr mrdEUR 30 innviðasjóði ESB. Þótt slíkt verkefni geti ekki staðið á eigin fótum m.v. raforkuverð núna, gæti svo farið, að flutningskostnaður um slíkan streng í byrjun verði aðeins um 20 USD/MWh og færi lækkandi.  Þá gæti skilaverð til raforkuseljenda hérlendis orðið 80-20=60 USD/MWh, og raforkuverðið hérlendis hækkað um 50 % og meira, er frá líður.  Flutningsgjaldskrá Landsnets mun vart hækka minna vegna kostnaðar við uppbyggingu flutningskerfis innan lands vegna sæstrengs.  Þar með sér öll framleiðsla innan lands, sem er háð því, að raforkuverð hækki ekki frá því, sem nú er, sína sæng út breidda.

Ragnar dró mál sitt saman í 4 atriði:

  1.  "Í fyrsta lagi myndi raforkuverð á Íslandi hækka bæði til fyrirtækja og heimila.  Framleiðendur myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra.  Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun, sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum.  Verðið myndi ugglaust fyrst hækka, þar sem orkukaupendur eru ekki varðir af langtímasamningum, en smám saman myndi allt raforkuverð hækka.  Innlendir raforkunotendur myndu með öðrum orðum tapa á samtengingunni við orkumarkað ESB." 
  2. "Í öðru lagi myndi raforkunotkun á Íslandi minnka.  Hún minnkar, þar sem orkuverðið hækkar og minnkar mest, þar sem tiltöllulega lágt orkuverð er forsenda viðkomandi starfsemi. Ætla má, að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti, eins og t.d. í ylrækt, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og auðvitað svokallaðri stóriðju.  Atvinnutækifærum, sem byggjast á raforku, mun þá fækka að sama skapi." 
  3. "Í þriðja lagi myndi samtenging íslenzks raforkumarkaðs við evrópskan sennilega leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi.  Þar sem framleiðendur geta nú selt miklu meira magn en áður og á væntanlega hærra verði, munu þeir hafa áhuga á að auka framleiðslu sína. Þetta mun skapa þrýsting á, að virkjað verði (vatn, jarðhiti og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu.  Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöfl ráða.  Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja, ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir.  Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir."
  4. "Í fjórða lagi myndu orkuframleiðendur hagnast.  Eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði.  Þar sem notendur raforku innanlands tapa vegna hærra orkuverðs, hefur samtengingin því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku."

Nú þegar glittir í klærnar á þessu kerfi.  Landsvirkjun hefur við framlengingu gamalla stóriðjusamninga við 3 orkukræfa málmframleiðendur neytt yfirburða stöðu sinnar á markaði og þröngvað þessum fyrirtækjum til að ganga að raforkusamningum, sem eru þungbær byrði í núverandi árferði. Skynsamleg og sanngjörn tenging raforkuverðs við framleiðsluverð hefur verið rofin að kröfu forstjóra Landsvirkjunar og boginn spenntur langt umfram getu fyrirtækjanna við núverandi markaðsaðstæður, svo að framtíð fyrirtækjanna er í uppnámi og stórtap á rekstrinum.  Í fréttum hefur t.d. verið greint frá mrdISK 5,0 tapi í fyrra á ISAL í Straumsvík, og í júlí 2019 varð fyrirtækið fyrir rekstrarlegu áfalli, þegar um 40 % framleiðsluminnkun varð.  Framleiðslutækin urðu fyrir skemmdum og endurræsingin verður rándýr.  

Bæjarstjórn Akraness hefur lýst yfir miklum áhyggjum af stöðunni á Grundartanga og kennir miklum nýlegum raforkuverðshækkunum um bágborna stöðu fyrirtækjanna.  Það er stórfurðulegt, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli hafa sveigt mjög af leið í verðlagsstefnu sinni án nokkurrar umfjöllunar, að því er virðist, í ríkisstjórn, á Alþingi og í þjóðfélaginu.  Er ástæða til að ætla, að ekki sé lengur hugað að upprunalegu hlutverki Landsvirkjunar að skapa fyrir sitt leyti samkeppnishæfar aðstæður fyrir orkukræfan iðnað í landinu, sem þá myndi auðga umhverfið með margvíslegum hætti og skapa örugga og trausta vinnu innan girðingar og utan.  Nú getur Landsvirkjun skákað í því skjólinu, að fari allt á versta veg hjá viðskiptavinum hennar, geti hún flutt orkuna utan um sæstreng til Evrópusambandsins, sem það hefur mikinn hug á, að komið verði á laggirnar vegna orkuskorts þar á bæ.

  Hér er Landsvirkjun að feta inn á stórhættulega braut, sem ríkisstjórnin þarf að stöðva. Það getur varla verið, að stjórn fyrirtækisins hafi umboð frá ríkisstjórninni til að ganga á milli bols og höfuðs á stóriðjunni vegna þess, að hingað megi alltaf fá sæstrengstengingu frá útlöndum til að koma orku í lóg, sem stóriðjan hefur gefizt upp á að kaupa.  

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 1. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband