Orkumálin reka á reiðanum

Iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fékk á sig réttmæta gagnrýni úr eigin kjördæmi, þ.e. frá bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, fyrir stefnuleysi í málefnum orkukræfs iðnaðar, í lok ágúst 2019, en þessi starfsemi á nú undir högg að sækja á Íslandi, m.a. út af háu raforkuverði. 

Sannleikurinn er sá, að flestar framleiðslugreinar og þjónustugreinar í landinu berjast í bökkum, á meðan raforkuvinnslufyrirtækin, jafnvel flutningsfyrirtækið, Landsnet, græða á tá og fingri.  Þetta er óeðlilegt, og sérstaklega er undarlegt, að verðlagsstefna Landsvirkjunar virtist breytast árið 2010, og síðan þá er hún ónæm gagnvart afkomu viðskiptavina sinna.  

Þetta hafa allir skynjað, sem nálægt Landsvirkjun hafa komið, og vissulega hafa óánægjuraddir heyrzt, en nú eru þær komnar á nýtt stig, svo að iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra geta ekki lengur skotið sér á  bak við orkustefnunefnd og stjórn Landsvirkjunar, heldur verða að setja Landsvirkjun eigandastefnu hið fyrsta, þar sem upphafleg stefnumörkun um uppbyggingu og viðhald samkeppnishæfs atvinnulífs í landinu fær sess í þeim mæli, sem samrýmist OP#3. 

Því miður er hætt við, að Landsreglarinn fetti fingur út í slíka eigandastefnu á grundvelli banns við ríkisstuðningi til atvinnurekstrar.  Er þetta smjörþefurinn af erfiðleikunum, sem OP#3 á eftir að valda íslenzku atvinnulífi ?  

Þann 2. september 2019 birtist frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu um nýjar vendingar í þessu máli undir fyrirsögninni:

"Ríkisstjórnin endurskoði stefnu sína".

Hún hófst þannig:

"Bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skora á ríkisstjórnina að endurskoða stefnu sína í málefnum orkukræfs iðnaðar og setja Landsvirkjun eigendastefnu án tafar.

Áskorunin var samþykkt á sameiginlegum fundi sveitarstjórnanna í síðustu viku, en þar kemur fram, að fundurinn hafi verið haldinn vegna "þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp er komin í atvinnumálum á Grundartanga og leitt getur til verulegs samdráttar í starfsemi orkukræfs iðnaðar og fækkunar starfa".

Fram kemur í áskoruninni, að rekstrarumhverfi þessa iðnaðar á Íslandi hafi versnað til muna, og það  samkeppnisforskot, sem hér hafi verið í orkuverði, sé nú algerlega horfið.  Kjörnir fulltrúar á svæðinu kalli eftir svörum um, hver hafi tekið ákvörðun um þessa stefnubreytingu og á hvaða vettvangi hún hafi verið tekin."

Hér fer ekkert á milli mála.  Landsvirkjun hefur gengið fram af offorsi, ekkert tillit tekið til þess, að umsamið raforkuverð skyldi styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á alþjóðlegum markaði, eins og hún jafnan gerði fyrrum tíð.  Ráðherra iðnaðar hefur ekki farið ofan í saumana á nýjustu orkusamningunum með þetta í huga og á sennilega óhægt um vik vegna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hefur tekið sér það hlutverk frá 2003.  Eðlilega er samt spurt um eigandastefnu Landsvirkjunar, og hvernig stefnubreyting Landsvirkjunar sé komin undir.  Hver veit, nema hana megi rekja allt aftur til OP#1 (2003) ?

Hér sjáum við svart á hvítu, að Landsvirkjun er á rangri braut með verðlagsstefnu sína og er komin yfir þolmörk íslenzks atvinnulífs.  Rétt viðbrögð eru þá að taka skref til baka og endursemja til að tryggja framtíð fyrirtækjanna og afkomuöryggi þeirra, sem þar vinna, beint og óbeint.  Einnig ætti hún að eiga frumkvæði að lækkun heildsöluverðs á almennum markaði.  Sé einhver samkeppni virk, koma hin fyrirtækin á eftir.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn.  Alþingi hefur innleitt OP#3, og eftir það er Landsreglarinn (undir ESA/ACER) innsti koppur í búri orkumálanna og ráðherrarnir í aukahlutverkum.  Það ber vissulega keim af fullveldisframsali, ef ráðherra getur ekki haft áhrif á verðlagsstefnu ríkisfyrirtækja með útgáfu eigandastefnu, sem ríkisstjórnin samþykkir.  

Þetta er smjörþefurinn af því, sem koma skal, þ.e. verðhækkanir á rafmagni, sem ógna tilveru fyrirtækja og afkomu heimila.  Stjórnvöld klumsa í eigin landi.  Innleiddu orkupakka með neytendavernd á vörunum.  Hvílíkir stjórnarhættir.  O, sancta simplicitas.  

 


Bloggfærslur 10. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband