Það fer að krauma undir

Jón Gunnarsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum), ritaði grein í Morgunblaðið 6. september 2019 og sýndi þar rétt einu sinni, hversu árvökull, athugull og ákveðinn þingmaður hann er, enda er hann nú orðinn ritari flokksins. Hann gerði þar m.a. að umræðuefni aðfarir umhverfisráðherrans við friðlýsingu á öllu vatnasviði Jökulsár á Fjöllum, en þar virðist sá fara offari miðað við lagaheimildir sínar.  Ef þingið ekki ómerkir þessa gjörð hans, er hætt við málssóknum á hendur ríkinu og jafnvel skaðabótakröfum.  Þarna er flaustur á ferð í stað lýðræðislegra viðræðna við viðkomandi sveitarfélög, hagsmunaaðila og umræðna á Alþingi.  Málið hlýtur að hafa verið reifað í ríkisstjórn fyrst, og má furðu gegna, að enginn ráðherra virðist hafa gert athugasemd eða hreyft mótmælum. 

Jón segir óstjórn vera á orkumálum landsins og skal taka undir það.  Þar hlýtur ANR (auðlinda-, nýsköpunar og ferðamálaráðuneytið), sem hýsir orkumálin, að eiga höfuðsök.  Ráðherra þar er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og var tímabært, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyndi að ráðsmennsku hennar, sem mest einkennist af þekkingarleysi (OP#3) og athafnaleysi (aflskortur yfirvofandi í vetur samkvæmt Landsneti).

Jón Gunnarsson hóf grein sína:

"Lífið eftir orkupakkann",

þannig:

"Þá er búið að afgreiða orkupakkamálið í bili.  Það hefur verið okkur góð lexía um mikilvægi þess, hvernig staðið verður að sambærilegum málum tengdum EES-samningnum í framtíðinni.  Ég var einn af efasemdarmönnum í Sjálfstæðisflokknum, en eftir þá vinnu, sem fram fór, voru þær áhyggjur ekki lengur til staðar.  Að þessu máli loknu tel ég, að mikilvægasta umræðan sé eftir; það, hvernig við ætlum að tryggja heimilum og fyrirtækjum þessa lands næga raforku á lægsta verði, sem þekkist í þeim löndum, sem við berum okkur saman við."

Textinn þarfnast útleggingar:  Orkupakkamálið mun reka á fjörur okkar aftur.  Umræðan sýndi, að undirbúningi ráðuneytanna var mjög ábótavant, og það verður að kryfja málin betur næst m.t.t. íslenzkra hagsmuna.  Ég óttaðist í upphafi, að hagsmunir Íslands væru fyrir borð bornir, en eftir sameiginlega yfirlýsingu Miguels Canetes og Guðlaugs Þórs og setningu fyrirvara í þingsályktanir og lög tel ég hagsmunum okkar borgið. Nú er málið að hindra afl-og orkuskort og að tryggja áframhaldandi samkeppnisforskot íslenzkra fyrirtækja í krafti lágs raforkuverðs. 

Blekbóndi deilir ekki áhyggjuleysi Jóns út af skaðleysi OP#3, en "den tid, den sorg".  Framtíðin mun leiða það í ljós.  Það er alveg rétt hjá Jóni, að það er verk að vinna á orkumálasviði við að tryggja hagsmuni almennings, heimila og fyrirtækja, því að flotið hefur verið sofandi að feigðarósi, á meðan raforkuverð til heimila hefur hækkað að raunverði um 7 % - 8 %, síðan OP#1 var innleiddur hérlendis.  Ef almenningur hefði ekki verið snuðaður um beinan ávöxt eigna sinna sinna í orkugeiranum, hefði raunverðlækkun átt sér stað á þessu 15 ára tímabili. Um allt þetta má lesa í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.

Framtíðarvandinn er sá, að OP#3 felur í sér hættu á enn meiri raunverðhækkunum á næstu 15 árum, og Jón, Alþingismaður og ritari, mun hafa svipt sig völdum til áhrifa á þessu sviði með því að lúta flokksaga 02.09.2019 á Alþingi.  

"Það er kynleg staða og óásættanleg, sem orkumálaráðherra okkar er komin í, þegar hún þarf að ræða útfærslur á skerðingu á afhendingu raforku á næstu árum.  Í mínum huga er einfalda svarið við þeirri spurningu, að á vakt Sjálfstæðisflokksins kemur ekki til skerðinga í raforkukerfi okkar.  Við munum sjá til þess, að heimili og fyrirtæki í þessu orkuríka landi hafi næga ódýra raforku og að sköpuð verði tækifæri til að byggja upp nýjungar í verðmæta- og atvinnusköpun um allt land."

Þetta er gott og blessað, en staðan er einfaldlega sú núna, að verið er að brenna olíu til raforkuvinnslu vegna staðbundins raforkuskorts, og í vetur býst Landsvirkjun við aflskorti á landsvísu, en veit ekki, hvar hann muni koma niður.  Allt gerist þetta á vakt orkuráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem virðist samt hvorki hræra legg né lið.

Þegar Jóhann Már Maríusson var aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar minnist blekbóndi þess, að hann kallaði fulltrúa helztu viðskiptavina fyrirtækisins á sinn fund til að kynna þeim þá stefnu Landsvirkjunar að eiga að lágmarki 250 GWh varaforða í kerfinu.  Þessu var mjög vel tekið af viðskiptavinum.  Nú þyfti varaforðinn að vera meiri, en þessi stefna Landsvirkjunar hefur hins vegar verið lögð fyrir róða, illu heilli.  Hvers vegna koma ekki fyrirmæli frá fulltrúa eiganda Landsvirkjunar, ríkisstjórninni, um, að Landsvirkjun skuli tafarlaust koma sér upp tilteknum varaforða ?  

Á sama tíma og forsætisráðherra segir loftslagsmálin hafa algeran forgang í landinu, er minna framboð en spurn eftir endurnýjanlegri orku.  Setja verður enn meiri kraft í að afnema alla flöskuhálsa í kerfinu.

"Baráttan um Hvalárvirkjun er kannski skýrasta dæmið, sem við okkur blasir í dag.  Í umræðum á Alþingi á sínum tíma bentu þeir, sem skemmst vilja fara mér og öðrum á þennan virkjanakost, sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, setti í nýtingarflokk.  "Nýtið þennan virkjunarkost áður en þið biðjið um aðra möguleika", var haft á orði.  Nú, þegar sá kostur hefur farið allt torsótta ferlið, fer þetta sama fólk í baklás og vill koma í veg fyrir framkvæmdir."

Þetta er réttmæt ábending.  Ferlið að framkvæmdaleyfi fyrir virkjanir og flutningsmannvirki er allt of torsótt og seinlegt. Tímafrestir fyrir kærur og úrlausn þeirra eru of rúmir.  Núverandi þunglamalega kerfi gerir undirbúning og framkvæmdir óþarflega dýrar, sem auðvitað kemur niður á neytendum. Flokkunin í nýtingu, bið og vernd er of losaraleg.  Taka þarf með í reikninginn þjóðfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar af að leyfa ekki virkjun.  Áður en virkjanakostur er settur í vernd þarf að tiltaka virkjanaútfærsluna, sem miðað er við, svo að hægt sé að endurskoða flokkunina með minna umhverfisraski. 

"Umhverfisráðherra hefur ekki getað lagt fram nýja rammaáætlun vegna þess, að hann á rætur sínar í þeim hópi fólks, sem telur, að ekki eigi að virkja meira á Íslandi.  Þess sé ekki þörf.  Lög um rammaáætlun gera ekki ráð fyrir stöðnun, og auðvitað er það svo, að umræða um þriðja orkupakkann eða önnur umræða um orkuauðlindina væri óþörf, ef slíkri stefnu væri framfylgt.  Ég fullyrði, að það var ekki skilningur þingmanna, þegar málið var á sínum tíma afgreitt í víðtækri sátt á Alþingi.  

Umhverfisráðherra er upptekinn af því þessa dagana að efna til friðlýsingar á grundvelli þessara laga. Aðferðafræði hans stenzt að mínu mati enga skoðun, og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt, að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu, sem hann boðar.  Ég er sammála því, að verklag hans samræmist ekki lögunum.  Í því sambandi má nefna, að dettur einhverjum í hug, að Alþingi hafi framselt slíkt vald til eins manns, að hann geti að eigin geðþótta ákveðið friðlýsingarmörk.  Það er annarra að gera það og Alþingis að afgreiða samhliða rammaáætlun hverju sinni."

Það var misráðið að láta umhverfisráðherra eiga frumkvæði að vinnu við Rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta.  Eðlilegra er að fela ráðherra orku, iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar þetta hlutverk, og viðkomandi þingnefndir ættu auðvitað að geta tekið frumkvæði líka.  Þingviljinn á að ráða þessu, og núverandi umhverfisráðherra er ekki þingmaður, sem gerir málið enn ólýðræðislegra.  Það er nauðsynlegt að ógilda umræddar gerræðislegar friðlýsingar hans á Jökulsá á Fjöllum; annars er afar líklegt, að málarekstur hefjist gegn ríkinu, og þeim málum mun ríkið líklega tapa, eins og allt er í pottinn búið.  Orkumálastjóri tók undir með Jóni Gunnarssyni um þessar friðlýsingar umhverfisráðherra í fjölmiðlaviðtali 7. september 2019, og fjármála- og efnahagsráðherra gerði það efnislega daginn áður.

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur að vísu séð ástæðu til að taka fram, að Jón tali ekki fyrir hönd þingflokksins, en vegna þess, að forsætisráðherra ber ábyrgð á þessum umhverfisráðherra og styður hann í vafasömum gjörningum hans, er ljóst, að um alvarlegt mál er að ræða fyrir ríkisstjórnina.  Jón Gunnarsson er áreiðanlega ekki einn á báti á meðal stjórnarliða. 

  

 

 


Bloggfærslur 16. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband