Raforkulöggjöf sniðin við ólíkar aðstæður

Það er grundvallarmisskilningur, að raforkulöggjöf, sem sniðin er að stefnumörkun Evrópusambandsins (ESB) í orkumálum, hljóti að geta gagnazt Íslendingum, jafnvel betur en orkulöggjöf, sem sniðin yrði að orkustefnu fyrir Ísland, sem enn hefur ekki verið mótuð, en hlyti sjálfstæða umfjöllun á Alþingi án nokkurs þrýstings frá EES.  Hvers vegna ?

Fyrir því eru 2 meginástæður, að orkulöggjöf Íslands þarf að sníða við íslenzkar aðstæður.  Sú fyrri er, að orkukerfi landsins er gjörólíkt orkukerfi ESB, og sú síðari er, að orkumarkaðurinn er líka gjörólíkur.  Báðar valda þessar aðstæður því, að óheft markaðsstýrikerfi ESB á raforkuvinnslunni verður hér til óþurftar, hækkar raforkuverð (án sæstrengs) og gerir afhendingaröryggi raforku mun ótryggara en nú er, eins og tíundað hefur verið á þessu vefsetri.  

Sumir boða þó allt annað. Þá þarf að kryfja það. Þann 14. ágúst 2019 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar:

"Raforkulöggjöf sem hefur reynst vel". 

Þetta er illa rökstudd lofgjörð um orkupakka Evrópusambandsins, sem minnir á grátstafi sama forstjóra á sinni tíð af áhyggjum út af hag Landsvirkjunar, ef íslenzka ríkið myndi ekki ganga í ábyrgð fyrir "Icesave".  Greinin hófst þannig:

"Breytingar á orkulöggjöf Evrópusambandsins og innleiðing þeirra á Íslandi hefur skipt miklu fyrir framþróun raforkumarkaðarins og m.a. skapað orkufyrirtækjunum sterkari stöðu í samningum við erlenda stórnotendur."

Forstjórinn hefði þurft að útskýra þetta betur, svo að það yrði trúverðugt.  Það er hins vegar háttur hans að vaða á súðum í orkumálaumræðunni.  Það liggur ekki í augum uppi, hvers vegna uppskipting raforkufyrirtækjanna í vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki, dreifingarfyrirtæki og sölufyrirtæki, hefur styrkt íslenzk orkufyrirtæki í samningum við erlend stórfyrirtæki um raforkuviðskipti.  Þvert á móti veikti þessi uppskipting íslenzku raforkufyrirtækin, og orkukaupendur þurftu að semja um orkukaup við eitt eða fleiri fyrirtæki og um orkuflutningana við annað.

  Þetta er aðeins meira fráhrindandi fyrir hina erlendu aðila, jafnvel ruglingslegt, svo að þessi staðhæfing forstjórans stenzt ekki.  Það er enda þannig, að markaðskerfi ESB gerir ekki ráð fyrir langtímasamningum, eins og hér hafa tíðkazt, heldur er það stefna ESB, að öll orka fari á heildsölumarkað í orkukauphöll. Þar með sæju málmverksmiðjurnar sína sæng út breidda.  Hangir slíkt á spýtunni hjá einhverjum ?  Það yrðu krókódílstár, sem grátið yrði í ýmsum ranni, en efnahagslegar afleiðingar yrðu alvarlegar, eins og fram kemur í skýrslunni í viðhengi þessa pistils. 

Landsreglarinn mun vafalaust reyna að beina öllum orkuviðskiptum í orkukauphöll, þegar hann fer að stýra hér og stella.  Ef/þegar honum tekst að fá þeirri stefnu ESB framfylgt, að landið verði tengt innri raforkumarkaði ESB með sæstreng, þá verður það svanasöngur stóriðju á Íslandi vegna þess, að hún getur ekki keppt á sama markaði og iðjuver í hjarta Evrópu sökum óhagræðis fjarlægða. Til að glöggva sig á þessu ætti fólk að lesa 8. kafla Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors, í meðfylgjandi skýrslu Orkunnar okkar (í viðhengi). 

Forstjóri þessi reri að því öllum árum að fá OP#3 innleiddan hér og er áfram um að fá ESB-styrktan sæstreng til landsins.  Á sama tíma þykist ríkisstjórnin ekki hafa það á sinni dagskrá að fá hingað sæstreng frá útlöndum.  Það er holur hljómur í þeim málflutningi á sama tíma og téður forstjóri ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar leikur lausum hala og boðar allt annað.  Hvers konar ringulreið er þetta eiginlega hjá ríkisstjórninni ? Er hún með allt á hælunum í orkumálum landsins (eigendastefna í skötulíki) ?

"Með breytingunni [OP1-2] voru raforkusamningar við stórnotendur færðir í viðskiptalegt umhverfi án afskipta stjórnmálamanna.  Með því var sköpuð skynsamleg umgjörð um þessa flóknu viðskiptasamninga, sem gerðir eru við stór alþjóðleg fyrirtæki, þar sem hver hugsar vel um eigin hag.  Reynslan hefur sýnt, að í öllum nýjum samningum og endursamningum við stórnotendur hefur raforkuverð hækkað án þess, að dregið hafi úr eftirspurn eða framleiðslu.  Raforkuverð stórnotenda hefur nálgazt það verð, sem er í boði í öðrum löndum, enda er engin ástæða fyrir Íslendinga til að undirverðleggja íslenzkar orkuauðlindir - ekki frekar en íslenzkan sjávarútveg."

Forstjórinn hefur lamað eftirspurnina, eins og tóftir álvers Norðuráls í Helguvík eru til marks um og ýmislegt fleira mætti tína til í þeim efnum. Það er út í hött að líkja rafmagni við fiskafurðir á erlendum mörkuðum.  Nær er að líkja rafmagni við hráefni fyrir verðmætaskapandi starfsemi.  

Það er erfitt að sjá, að OP1-2 hafi gert nokkuð annað en að flækja viðskiptaumhverfið fyrir erlenda fjárfesta.  Áfram er Landsvirkjun ríkisfyrirtæki (100 %) og með algerlega markaðsráðandi yfirburðastöðu á markaði langtímasamninga. Hið eina, sem hefur breytzt, er, að ESA rýnir nú orkusamningana m.t.t. þess, hvort í þeim kunni að felast ríkisstuðningur.

Það varð alls engin jákvæð breyting með nýju raforkulögunum 2003, sem gerir Ísland áhugaverðari valkost fyrir fjárfesta.  Breytingin varð 2010, þegar téður Hörður var ráðinn forstjóri Landsvirkjunar.  Þá var tekin upp óbilgjörn afstaða til viðskiptavina fyrirtækisins, sem þurftu að endurnýja orkusamninga sína við fyrirtækið.  Var þá ekki lengur horft til upphaflegs hlutverks Landsvirkjunar um að stuðla að þróun iðnaðar og annarrar orkutengdrar starfsemi í landinu til að auka gjaldeyristekjur landsins, verðmætasköpun og atvinnufjölbreytni.  Afleiðingin frá endurskoðun orkusamninganna 2010-2018 er dúndurtap ISAL í Straumsvík og neyðarkall frá bæjarstjórn Akraness vegna ástandsins á Grundartanga. 

Það var ógæfulegt að hverfa frá því ágæta fyrirkomulagi að tengja raforkuverðið við verð afurðanna, sem rafmagnið er notað til að framleiða.  Þar með var að vissu marki létt undir með kaupandanum á erfiðleikatímum, og orkuseljandinn naut ávaxtanna, þegar vel gekk. Þannig er þetta enn hjá Fjarðaáli og mjög víða erlendis. Nú blasir óvissa við hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar, og ástandið fer væntanlega ekki framhjá sæstrengsfjárfestum, sem eru með almannatengla hér í vinnu.

Þeir, sem sjá ekkert athugunarvert við þessa þróun mála, ættu að kynna sér þá ókræsilegu framtíðarsýn, sem hér blasir við, ef farið verður að selja rafmagn utan um sæstreng í stað þess að framleiða hér vörur til útflutnings.  Sérstaklega má í því sambandi benda á skýrslu OO, 16.08.2019, t.d kafla 8, eftir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði.

Áfram skal vitna í forstjóra LV:

"Í öllum meginatriðum hafa þær grundvallarbreytingar, sem gerðar voru með setningu raforkulaganna [2003] reynzt vel.  Í stuttu máli má segja, að horfið hafi verið frá áætlunarbúskap til markaðsbúskapar með tilheyrandi ávinningi fyrir þátttakendur á raforkumarkaði og þjóðarbúið í heild."

Þetta eru rakalausar fullyrðingar og rangar.  Mælikvarði á árangur breytinganna 2003 með innleiðingu OP#1 og innleiðingu OP#2 2008 er þróun rafmagnsverðs til heimila tímabilið 2003-2018.  Það sést á grafi á bls. 45 í meðfylgjandi skýrslu.  Hækkunin hefur orðið 7 % - 8 % að raunvirði, en ef allt hefði verið með felldu, hefði raunverðið átt að lækka, af því að skuldir orkugeirans lækkuðu mikið á tímabilinu og megnið af kostnaði orkugeirans er fjármagnskostnaður. Ætla má, að OP#1-2 hafi að lágmarki snuðað almenning um 10 % að raunvirði (og gæti slagað í 20 %).  Ástæðan er t.d. sú, að með gamla fyrirkomulaginu rann fé frá orkuvinnslunni til línubygginga, en Landsnet fjármagnar framkvæmdir sínar að nokkru leyti með lánum, sem gjaldskrá fyrirtækisins stendur undir. 

Með OP#3 mun keyra um þverbak, því að Landsreglarinn mun ákvarða gjaldskrána, og orkufyrirtækin þurfa að standa undir kostnaði við embætti Landsreglara ásamt ríkissjóði.  

Affarasælast verður að taka stefnuna út úr Orkusambandi Evrópu, fá undanþágur frá öllum orkupökkunum, enda verður engin sátt í landinu um yfirþjóðlegt vald yfir öllum þáttum orkugeirans, eins og OP#3 kveður á um og OP#4 enn ákveðnar. 

"Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því, að baráttan um raunveruleg yfirráð og eignarhald á orkulindum landsins, a.m.k. þeim, sem Landsvirkjun hefur verið treyst fyrir, mun um ókomna framtíð snúast m.a. um, hvernig okkur gengur að semja við alþjóðlega stórnotendur um raforkuverð, enda nota þeir um 80 % af raforku Íslands.  Til að tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af auðlindinni verður hún að fá sambærilegt verð og greitt er annars staðar í hinum vestræna heimi."

Þetta er alrangur málflutningur, sem bendir til, að forstjóra Landsvirkjunar skorti allan skilning á orkumálum Íslands.  Eignarhald orkulindanna tengist endanlegum notanda, stóriðju eða öðrum, ekki neitt. Afnotarétturinn ("raunveruleg yfirráð") á orkulindinni ekki heldur, þ.e. orkunýtingarrétturinn. Hann er núna mestmegnis í höndum opinberra fyrirtækja, en hann er í uppnámi, því að ESA og Framkvæmdastjórnin vilja gefa einkafyrirtækjum kost á að bjóða í hann og virðast vilja ýta opinberum fyrirtækjum út úr orkuvinnslunni. Þar á samkvæmt orkustefnu ESB "frjórfrelsið" að ríkja án ríkisafskipta. 

ESB vill hleypa fjársterkum einkafyrirtækjum að til að stórefla fjárfestingar í endurnýjanlegum orkulindum.  Þetta þýðir, að Íslendingar munu glata erfðasilfri sínu til útlendra stórfyrirtækja.  Það er stórfurðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki tjá sig um þessa yfirvofandi ógn, heldur tengja yfirráð orkulindanna við það, hvernig gengur að semja við stórnotendur.  Það er alveg út í hött.  Ef Landsvirkjun í sinni núverandi mynd verður lögð niður, eins og ESA virðist stefna að, falla langtímasamningar hennar um koll, svo einfalt er það.  Orkan fer þá öll á Innri raforkumarkaðinn.  Þessa þróun verður að hindra með öllum tiltækum ráðum, jafnvel uppsögn EES-samningsins, ef það reynist nauðsynlegt til að halda yfirráðum orkulindanna í höndum landsmanna sjálfra (almannavaldsins).

Það er meinloka hjá forstjóra Landsvirkjunar, að hér geti verið sambærilegt verð til stóriðju og á meginlandi Evrópu.  Það er líka viðurkennt í Noregi, að þar verður að stuðla að samkeppnishæfni orkukræfs iðnaðar með því að veita afslátt af miðevrópsku raforkuverði, sem svarar til meiri fjarlægðar verksmiðjanna í Noregi frá hráefnaupptökunum og frá afurðamörkuðunum.

  Vandamálið, sem við er að kljást, eftir að orkupakkar Evrópusambandsins voru innleiddir, er, að ESA rýnir orkusamninga við ríkisorkufyrirtæki m.t.t. þess, hvort þeir feli í sér ríkisstyrki, og ESA viðurkennir ekki þessa fjarlægðarreglu, sem þó alltaf hefur verið við lýði á þeim mörkuðum, þar sem Landsvirkjun hefur keppt um að fá fjárfesta til Íslands. Þar að auki er það stefna ESB, að öll raforkuviðskipti fari fram í orkukauphöll, sem þýðir, að langtímasamningar munu líða undir lok.  Það  verður íslenzka þjóðarbúinu afar óhagfellt, því að mikil verðmætasköpun á sér stað í landinu með nýtingu raforkunnar í miklum mæli, og margir hafa af því atvinnu.  Raforkan stendur undir umtalsverðum hluta landsframleiðslunnar.  Samþykkt OP#3 magnar ófrið í landinu um orkumálin. 

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 4. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband