Þráhyggjan er þeirra einkenni

Þegar kommúnisminn hrundi sem siðferðislega og fjárhagslega gjaldþrota þjóðskipulag, þá misstu sósíalistar (sameignarsinnar) hvarvetna fótanna og hafa átt í mesta basli við að fóta sig síðan. Boðskapur þeirra um forræði stjórnmálamanna yfir atvinnurekstri og flestum eignum hefur alls staðar endað með ósköpum og afnámi einstaklingsfrelsis, þar sem þeir hafa komizt í aðstöðu til að láta að sér kveða.

Í kjölfar þessa og þjóðfélagsbreytinga á Vesturlöndum með enn meiri eflingu miðstéttarinnar hefur fylgið einnig reytzt af sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum) á Vesturlöndum, og nægir að minna á niðurlægingu brezka Verkamannaflokksins (Labour) og þýzka Jafnaðarmannaflokksins (SPD), en í fylkiskosningum 6. júní 2021 í Sachsen-Anhalt hlaut hann aðeins 8 % atkvæða. Boðskapur þeirra passar ekki við tíðarandann (Zeitgeist). Græningjar hafa hafa "Zeitgeist" með sér.

Það er ljóst, að íslenzkir vinstri menn þjást einnig af uppdráttarsýki, því að þeir hafa ekki lengur neinar rætur til verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn er blásið um mikilvægi þess, að Íslendingar verði "kolefnishlutlausir". Það mun þó engin mælanleg áhrif hafa á hitastig andrúmslofts jarðar. Sérvizkulegar kreddur, sem lítið sem ekkert höfða til daglegrar lífsbaráttu fólks, einkenna málflutninginn, og nú er að koma í ljós, að tvö mál ætla vinstri menn að halda dauðahaldi í í komandi kosningabaráttu af einskærri þráhyggju og málefnafátækt, fyrir utan loftslagsumræðuna, en það er endurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni, þ.e. ný stjórnarskrá, og umbylting fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Þegar hér er komið sögu, verður að átta sig á því, hverjir þessir vinstri flokkar eru.  Það eru t.d. þeir flokkar, sem sameinazt hafa um meirihlutamyndun til að stjórna Reykjavík, en stjórnun borgarinnar er, eins og sorgarleikur trúða, þar sem þekking á öllum málum, frá umferðartækni til fjármála, er fótum troðin, en fullkomnir fúskarar fá að traðka niður matjurtabeðin.

Eftir að varadekkið Viðreisn gekk til samstarfs við fallistana í Píratahreyfingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði undir stjórn Samfylkingar, stendur ekki steinn yfir steini í borginni. Það hefur keyrt um þverbak í hænsnabúinu.  Bragginn með sínum dönsku stráum að annars gagnslausu, en risastóru sóunarverkefni, Borgarlínunni, eru á meðal ömurlegra minnisvarða samvizkulausra sérvitringa og bruðlara með almannafé, og hnífurinn hefur ekki gengið á milli þeirra, svo að öllu þessu ásamt Flokki fólksins og Sósíalistaflokkinum má kemba með einum kambi.

Um Lýðveldisstjórnarskrána með áorðnum breytingum er það að segja, að fullveldistrygging hennar, sem ESB-sinnarnir vilja feiga, reyndist sverð og skjöldur þjóðarinnar, þegar hæst þurfti að hóa og mest reið á í ólgusjó fjármálahrunsins 2008-2010. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, rakti þetta og ósvífna aðför vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að Lýðveldisstjórnarskránni í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga.  Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir þessu og ónothæfum drögum Stjórnlagaráðs í forystugrein 7. júní 2021:

"Vegið að undirstöðu".

Því er m.a. haldið fram af áhangendum þessa Stjórnlagaráðs, að þjóðin hafi samþykkt tillögu þess í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta er alveg fráleit ályktun.  Lagðar voru fyrir kjósendur nokkrar spurningar og spurt eitthvað á þá leið, hvort leggja ætti tilgreindan texta til grundvallar nýrri stjórnarskrá.  Spurningarnar voru bæði loðnar og leiðandi og fullnægðu engan veginn þeim gæðakröfum, sem gera verður til spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þar að auki er þessi spurningavaðall ótækur í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.  Atkvæðagreiðslan var þess vegna ómarktæk sem slík.  Þegar fá á skoðun þjóðar á nýrri stjórnarskrá, ber að leggja hana fyrir þjóðina í heild sinni frágengna með góðum fyrirvara og spyrja síðan, hvort kjósandinn samþykki hana eða hafni henni.  Allt annað er kukl og fúsk. 

Miklar breytingar á stjórnarskrá skapa réttarfarslega óvissu í landinu, hvað þá alger endurnýjun.  Breytingar eiga að stuðla að auknum skýrleika fyrir almenning og dómara.  Sá kafli Stjórnarskrárinnar, sem er einna óskýrastur, jafnvel úreltur, er um forseta lýðveldisins.  Alþingi ætti að fela stjórnlagafræðingum að endursemja hann og fela forseta skýrt vald við stjórnarskipti og þingrof, svo og að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt er í anda nútímalegra lýðræðishugmynda.  Að buxnast við að setja inn alls kyns óþarfa í stjórnarskrá lýðveldisins, er tímasóun og misskilningur.  Það er t.d. alger óþarfi að setja í stjórnarskrá einhver gjaldtökuákvæði fyrir afnotarétt af auðlindum.  Þessum málum getur Alþingi hagað að vild sinni með lagasetningu án atbeina Stjórnarskrár.

Verður nú vitnað í téðan Morgunblaðsleiðara:

"Kristrún [Heimisdóttir, lögfræðingur] rekur þann dapurlega og löglausa farsa, sem í hönd fór, allt í boði vinstri stjórnarinnar, og að auki, hvernig þetta stjórnlagaráð "fór út fyrir umboð sitt, eins og það var ákveðið í þingsályktun".  Þá tók við kosning um "tillögur stjórnlagaráðs", sem Kristrún bendir á, að hafi ekki einu sinni verið tillögur stjórnlagaráðs, enda hafi þær ekki verið fullbúnar "til þinglegrar meðferðar, hvað þá þjóðaratkvæðis".  Mjög var svo óljóst um hvað var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012, sem Kristrún segir, að hafi orðið til á "hrossakaupamarkaði" stjórnmálanna og kjósendur hafi verið látnir halda, að þeir væru að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs, sem hafi ekki verið raunin.  Og hún talar um, að "orðræða um frumvarp stjórnlagaráðs" og "tillögur stjórnlagaráðs" hafi í meðförum Alþingis orðið "völundarhús hálfsannleikans".  

Í ljósi þessarar úttektar Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, blasir við, að sú stjórnarskráræfing, sem þarna fór fram, var slys, og það er tímasóun og rangfærsla að fjalla um hana sem eitthvað, sem Alþingi skuldi þjóðinni. Þeir, sem það gera enn, fiska í gruggugu vatni fórnarlambstilfinningarinnar.  Þetta slys hefur verið afskrifað og bezt er, að það falli í gleymskunnar dá.

Núverandi Stjórnarskrá bjargaði Íslandi frá gjaldþroti 2008-2009 með sínum ótvíræðu fullveldisákvæðum, sem t.d. áhangendur ESB-aðildar vilja nú þynna út.  Með hliðsjón af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslnanna um "Icesave" er harla ósennilegt, að þjóðin muni samþykkja nokkra útþynningu ákvæða, sem nú tryggja óskorað fullveldi ríkisins.  

Mogginn hélt áfram:

"Í grein sinni lýsir Kristrún því, hve fjarstæðukennt það sé að telja, að stjórnarskráin hafi haft eitthvað með bankahrunið að gera.  Þvert á móti fer hún yfir það, að stjórnarskráin hafi auðveldað Íslandi að komast út úr þeirri orrahríð, sem það lenti í. Um þetta segir í greininni:

"Ísland gat með engu móti bjargað of stóru fjármálakerfi frá þroti haustið 2008.  Því varð lagasetning innan ramma stjórnarskrár, sem sætti endurskoðunarvaldi dómstóla m.t.t. sömu stjórnarskrár, eina bjargræði þjóðfélagsins.  Aðgerðir Íslands skáru sig úr í alþjóðlegu fjármálakreppunni, og hvergi annars staðar var fullveldisrétti beitt á sambærilegan hátt í kreppunni.  Stjórnarskrá Íslands var í eldlínu alþjóðlegra átaka við erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir og erlenda kröfuhafa, því [að] í krafti hennar og í íslenzkri lögsögu breytti Ísland reglum með neyðarlögum, forseti Íslands beitti málskotsrétti til þjóðaratkvæðis tvisvar [þegar honum og tugþúsundum kjósenda ofbauð gjörðir Alþingis - innsk. BJo], og allir ytri aðilar höfðu virt þessar aðgerðir, þegar upp var staðið. Vegna þess að útilokað var stöðva hrunið með íslenzku fjármagni eða lánstrausti að utan, voru stjórnarskráin og fullveldisréttur, byggður á henni, einu úrræðin til að stöðva hrunið. Og það gekk.  Stjórnarskráin stöðvaði hrunið, og íslenzka réttarríkið var nógu sterkt andspænis umheiminum." 

Þráhyggjumenn eru og að sönnu iðnir við kolann að níða skóinn ofan af útgerðarfélögum.  Sagt er, að útgerðarmenn valsi í auðlind þjóðarinnar, á meðan aðrir komist ekki þar að, og greiði allt of lágt gjald fyrir þennan aðgang.  Þeir ættu að greiða markaðsgjald, svo að þjóðin fái sitt og réttlætinu sé fullnægt.  Halda þessir niðurrifsmenn því fram, að leiguverðið, sem er yfir 200 ISK/kg, sýni markaðsverð aflahlutdeildanna.  Þetta sýnir, að þessir spekingar vita ekkert, hvað þeir eru að tala um.  Leiguverðið er s.k. jaðarverð, þ.e. verð á viðbótum við kvóta, sem útgerðarmenn hafa fjárfest í.  Þessi viðbót þarf ekki að standa undir neinum fastakostnaði, heldur aðeins breytilegum kostnaði.

Til að fá fram markaðsverð aflahlutdeilda er sagt, að  þurfi að bjóða þær upp á markaði, og sú útgerð, sem byði jaðarverðið, færi lóðbeint á hausinn á því sama fiskveiðistjórnunarári. Hvort er um fáfræði eða illskeytta rangfærslu að ræða ?  Uppboðskerfið er fyrirskrifað í hvítbók ESB um fiskveiðistefnuna, en á meðan útgerðir ESB-landanna eru niðurgreiddar úr ríkissjóðum landanna, ríkir ekki frjáls samkeppni á þessum markaði, og þess vegna hefur ESB ekki enn sett þetta kerfi á.  Hins vegar hafa einstök lönd gert það, t.d. Eistland, en þau hafa fljótlega horfið frá uppboðskerfinu, af því að það gaf skelfilega raun, gjaldþrot minni útgerða og söfnun aflahlutdeilda til stórútgerða.  Stórútgerðir í ESB og í Noregi eru miklu stærri en þær íslenzku. Það gefur líka auga leið, að með uppboðskerfi er innleidd skammtímahugsun í útveginn, sem leiðir alls staðar til verri umgengni við auðlindina. Til að hvetja útgerðarfélög til skráningar í kauphöll Íslands, svo að þau geti orðið almenningshlutafélög, mætti hækka kvótaþak einstakra tegunda úr 12 % í t.d. 18 % hjá slíkum félögum.  Þá mundi skapast svigrúm til enn meiri hagræðingar, sem mundi styrkja samkeppnishæfni þeirra um fjármagn og um erlenda markaði. 

Um 95 % afla íslenzkra útgerða fer á erlenda markaði, þar sem þær eiga í höggi við niðurgreiddar útgerðir.  Íslenzkar útgerðir eru þær einu í Evrópu, sem þurfa að greiða veiðigjöld, utan þær færeysku.  Samkeppnisstaðan er því nú þegar skökk, því að íslenzkar útgerðir greiða hátt hlutfall hagnaðar í veiðigjöld, en erlendum er bættur upp tapreksturinn.

Íslenzkur sjávarútvegur hefur fjárfest mrdISK 250 á undanförnum 10 árum í veiðum og vinnslu.  Samkeppnin knýr þau til að lækka kostnaðinn per kg, og það hefur þeim tekizt frábærlega. Þjóðhagslega hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfið er kerfi, sem hámarkar sjálfbærar veiðar, hámarkar verð á kg og lágmarkar kostnað á kg. Þar með verður mest til skiptanna, sem allir njóta góðs af. Þetta gerir einmitt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem samþættir veiðar, vinnslu og markaðssetningu. Það væri óheillaskref aftur á bak fyrir hagsmuni þjóðarinnar, eiganda sjávarauðlindarinnar, að hrófla nú við kerfi, sem gefur henni hámarksarðsemi af auðlindinni í aðra hönd.

Að stórhækka veiðigjöld með einum eða öðrum hætti virkar eins og að hækka skattheimtu á fyrirtækin.  Fjárfestingargeta þeirra minnkar, og þau neyðast til að draga úr fjárveitingum til rannsókna og þróunar, sem hefur gert þeim kleift að gjörnýta hráefnið og stækka þar með enn kökuna, sem er til skiptanna fyrir alla þjóðina. 

Því hefur verið haldið fram, að óeðlilegar arðgreiðslur eigi sér stað í sjávarútvegi.  Samanburður talna um hlutfallslegar arðgreiðslur til fjármagnseigenda í sjávarútvegi og í öðrum fyrirtækjum sýnir þó, að þetta er hreinn uppspuni.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og kostar t.d. góður togari nú um mrdISK 6.  Það er þess vegna eðlilegt og ánægjulegt, að sjávarútvegsfyrirtækin eru nú í auknum mæli skráð í Kauphöll Íslands og almenningi boðin þátttaka í eignarhaldinu og þar með að sjálfsögðu einnig arðgreiðslunum til eigenda.  Að tengja saman hagsmuni almennings og sjávarútvegsins með beinum hætti mun vonandi leiða til aukinnar ánægju almennt með góðan árangur í þessari grein, svo að áróður, reistur á öfund og illvilja, koðni niður.  Arður af eigin fé fyrirtækja hefur verið gerður að skotspæni öfundarmanna einkaframtaksins, en arður eru einfaldlega vextir af því áhættufé, sem lagt er í fyrirtækjastarfsemi.  Án arðsvonar verða engar fjárfestingar í einkageiranum.  Þá mun hagkerfið von bráðar skreppa saman öllum til tjóns. 

Í öllum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið góð framleiðniaukning, einkum í vöruframleiðslugeirunum, á undanförnum árum.  Tækniþróun í krafti öflugra fjárfestinga er undirstaða þessarar tilhneigingar.  Ávinninginum af framleiðniaukningunni er í flestum samfélögum, ekki sízt í lýðræðisríkjum, skipt á milli fjármagnseigenda og launþega.  Hvergi er hlutur launþega í skiptingu verðmætasköpunarinnar stærri en á Íslandi.  Það er þess vegna ljóst, að launþegar hafa mestra hagsmuna að gæta, að fjárfestingar í atvinnulífinu séu sem mestar og skynsamlegastar. Það verður bezt í pottinn búið fyrir fjárfestingar með pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og lækkun opinberra gjalda.  Enn meiri hækkun veiðigjalda eða uppboðskerfi aflaheimilda mundi vinna þvert gegn þessum hagsmunum launþega. Það eru falsspámenn, sem fóðra sjúklegar skattheimtuhugmyndir sínar með gluggaskrauti á borð við, að þjóðinni beri að fá eðlilegan arð af auðlind sinni.  Í raun eru þessir falsspámenn að boða þjóðnýtingu sjávarútvegsins.  Bein afskipti stjórnmálamanna af atvinnurekstri leiða alls staðar og alltaf til ófarnaðar.  Ríkisrekstur stenzt einkaframtakinu ekki snúning, og þess vegna bregða stjórnmálamenn ríkisvæðingarinnar alltaf á ráð kúgunarinnar. 

Gott dæmi um framleiðniaukningu undanfarið í sjávarútvegi gat að líta í Viðskiptamogganum 2. júní 2021 undir fyrirsögninni:

 "Síldarvinnslan stefnir á nýja markaði".

 "Gunnþór [Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar] segir fyrirtækið hafa náð fram mikilli hagræðingu í rekstri.  Um það vitni t.d. fækkun fiskimjölsverksmiðja úr 8 í 2, og stóraukin framleiðni í loðnufrystingu á hvern starfsmann.  Afkastagetan farið úr 2 t/dag í 24 t/dag.  Þá geti 1 skip afkastað jafnmiklu á veiðum og 2-3 áður."

 Hér skal fullyrða, að taki stjórnmálamenn upp á því á næsta kjörtímabili, eins og hugur þeirra sumra virðist standa til, að fara að hræra í gildandi stjórnkerfi fiskveiða, þá verður sambærileg framleiðniaukning liðin tíð, og þar með mun sóknarþungi landsmanna til meiri velferðar koðna niður.  Hvernig mun þá fara fyrir þjóð, sem þarf að standa undir stöðugt vaxandi útgjöldum til heilbrigðis- og öldrunarmála, þótt hægi á fjölgun á vinnumarkaði ?  Kukl er enginn kostur.  

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband