Úrgangsstjórnun í skötulíki

Í síðasta pistli á þessu vefsetri (24.06.2021-Jónsmessu) var gerð grein fyrir þeim ógöngum, sem stjórn Sorpu hefur ratað í með sína nýju jarð- og gasgerðarstöð, GAJA.  Borgin er aðaleigandi Sorpu, og núverandi borgarstjórnarmeirihluta eru mjög mislagðar hendur í verklegum efnum, svo mjög, að í fljótu bragði mætti ætla, að allt, sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, Píratahreyfingarinnar og Viðreisnar, kemur nálægt, endi með klúðri.

Því miður virðist GAJA vera enn eitt dæmið í þetta safn fúsks og óhæfni. Stjórnmálamenn, sem ánetjazt hafa forsjárhyggjunni, þykjast þess einfaldlega umkomnir að hafa vit fyrir öðrum, þótt þá skorti bæði til þess vit og þekkingu, þegar kemur að tæknilegum verkefnum.

Þeirri aðferð að virkja markaðsöflin til að koma fram með hagkvæma framtíðarlausn á viðfangsefnum í frjálsri samkeppni er hafnað, af því að markaðsöflin eru knúin áfram af hagnaðarvon, sem er ljótt og ófélagslegt hugarfar í huga draumóravingla á vinstri kantinum.  Þessir stjórnmálamenn gerir þess vegna hverja skyssuna á fætur annarri til stórfellds tjóns fyrir almenning, sem fær reikninginn, og varla nokkur stjórnmálamaður axlar sín skinn út af óráðsíunni.

Í forystugrein Bændablaðsins, 24. júní 2021, fær vonlaus, pólitísk hugmyndafræði í umhverfismálum ærlega á baukinn og var kominn tími til slíkrar gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni, sem er í raun tæknilegt, fjárhagslegt og lagalegt úrlausnarefni, hafið yfir sérvizku og hugmyndafræði sérlundaðra stjórnmálamanna, sem hafa tafið fyrir eðlilegri þróun sorpeyðingarmála hérlendis (eins og þeir núna tefja fyrir eðlilegri þróun umferðarmannvirkja í Reykjavík með hrapallegum afleiðingum).

"Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi, að fara eigi að taka til hendi við að "undirbyggja ákvarðanir" um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 kt/ár sorporkustöð, sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum. 

Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka 4 mánuði, standa 4 byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins.  Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85 % alls úrgangs á landinu.

Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu, þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skolpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra, sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum bæði á landsvísu sem og í sveitastjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum.  Gilti þá einu, þó [að] sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku.  Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu, að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði, sem rekin hefur verið í loftslagsmálum."    (Undirstr. BJo.)

Þessi texti sýnir, að stjórnmálamenn með einkennilegar skoðanir, sem illa fylgjast með á þessu sviði og lítt kunna til verka á sviði nútímalegrar meðhöndlunar sorps, hafa vélað um málin með arfaslæmum árangri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sorpa er í djúpum skít með misheppnaða meira en mrdISK 6 fjárfestingu á bakinu undir formennsku vinstri græningja í borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.

Það verður að snúa af þessari vonlausu braut með því að draga kunnáttumenn á sviði tækni og verkefnastjórnunar að undirbúningi verkefnisins "Sorpknúið orkuver fyrir landið allt", sem finni hagkvæma staðsetningu, helzt þar sem þörf er á orkunni), bjóði verkið út, uppsetningu og rekstur, og velji birgi og semji við hann.  Það er að líkindum hagkvæmasta og áhættuminnsta leiðin fyrir skattgreiðendur.  Stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við verkefnið nútímaleg sorpeyðing hingað til, og með núverandi meirihluta í Reykjavík er algerlega borin von, að þeir finni hagkvæmustu og umhverfisvænstu leiðina í þessu máli.

Halldór Kristjánsson, ritstjóri Bbl., hélt áfram:

"Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi, sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á 7. mrd ISK. Sú stöð getur samt ekki annazt förgun á plasti og ýmsum efnum, sem áfram hefur orðið að urða.  Þá hefur verið upplýst, að önnur meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna, sem í henni eru." 

Það er ekki að ófyrirsynju, að varað er við áframhaldi þeirra vinnubragða, sem Sorpustjórnin hefur viðhaft, því að GAJA-verkefnið er alveg dæmigert um afleiðingar fúsks óráðþægra stjórnmálamanna, sem troðið hafa sér í stjórnunarstöður fyrirtækja hins opinbera, sem þeir ráða ekkert við.  Umhverfisráðherra er í lykilstöðu til að beina undirbúningi sorporkuversins í réttan farveg, en þar sem hann er af sama sauðahúsi og téð Líf, er borin von, að hann geri það.  Þess vegna stefnir í hreint óefni með um mrdISK 30 fjárfestingu.  Í stað þess að skuldbinda útsvarsgreiðendur fyrir risaupphæðum í verkefni, sem e.t.v. verður bara til vandræða í höndum óhæfra stjórnmálamanna, á að fela einkaframtakinu verkefnið á grundvelli útboðs, sem vandað verkfræðiteymi með lögfræðinga sér til aðstoðar hefur undirbúið og síðan metið tilboð og samið við hagstæðasta birginn í nafni "sorpsamlags Íslands" um alverk og rekstur. Vonandi nunu sorpflutningar í nýju stöðina verða sjóleiðis, því að 100-200 kt/ár sorpflutningar eru ekki leggjandi á vanbúið vegakerfið.  

"Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu [Líf Magneudóttir], sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag [22.06.2021], að þar sé "verið að ná tökum á lífrænum úrgangi".  Einnig segir: "Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang".  Fram kemur í þessu viðtali, að nú eigi loks að fara að skoða málin.  Allt verði skoðað, m.a. flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting "glatvarma". 

 

"Nýta "fiskeldismykju", mannaseyru, moltu, brennistein og fleira sem áburð".

"Jónas Baldursson og Ragnhildur Friðriksdóttir, starfsmenn Matís, að vinna með moltu.  Matís fékk 3 tegundir af moltu til að prófa, m.a. frá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er í eigu Sorpu.  Sú molta reyndist ónothæf vegna aukaefna, sem í henni eru.  Þurfti reyndar undanþágu frá reglum til að gera prófanir með notkun hennar á afmörkuðu svæði."

(Undirstr. BJo.)

 Samkvæmt þessu heldur stjórnmálamaðurinn, sem ber höfuðábyrgð á GAJA gagnvart eigendum Sorpu, fram blekkingavaðli til að breiða yfir misheppnaða fjárfestingu byggðasamlagsins Sorpu, sem stjórnmálamenn, aðallega í meirihluta borgarstjórnar, stjórna.  Þetta hlýtur að hafa stjórnmálalegar afleiðingar í borginni og ætti, ef allt væri með felldu, að leiða huga stjórnvalda að nauðsyn breyttrar aðferðarfræði við stjórnun úrgangsmála landsins.  Á því sviði, eins og öðrum, leiðir fúsk til falls fyrr en seinna. 

Forsætisráðherra virðist hafa gert loftslagsmálin að aðalmáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 2021, þótt ekki verði séð, að þau geti orðið VG til framdráttar.  Hún sagði t.d. nýlega, að sorphirðumálin væru mikilvæg fyrir árangur okkar í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Er það svo, eða heldur hún það bara ?

Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda stendur þetta m.a.: 

"Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5 % af losun Íslands árið 2019 (LULUCF)." 

Þessi losun nam aðeins 224 kt (4,7 %) CO2íg 2019 og hafði þá minnkað um 2,2 % síðan 1990 og um 12 % frá 2018.  Miklar fjárfestingar í sorpeyðingu er ekki hægt að réttlæta með minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.  Aðrar og mikilvægari ástæður gera nútímavæðingu þessara mála nauðsynlega hérlendis.  Evrópusambandið hefur bannað urðun, og sú ESB-löggjöf hefur verið innleidd í EFTA-löndum EES.  Það er ekki lengur verjanleg landnotkun út frá landnýtingarsjónarmiðum og mengun, sem getur verið lífríkinu skaðleg, að urða sorp.  Urðun þýðir þar að auki myndun metans í mun meiri mæli en þörf er á hérlendis, og metan er meira en tuttugufalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, sem stígur upp af sorpknúnum orkuverum.  Þetta koltvíldi gæti verið hagkvæmt að fanga og selja gróðurhúsabændum og lífeldsneytisframleiðendum. 

 

 

 

 


Bloggfærslur 27. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband