Alþjóðamál í deiglunni

Uppgangur Kína og tilhneiging til yfirgangs við nágranna sína á Suður-Kínahafi og Austur-Kínahafi, og vaxandi ógn, sem Taiwan stafar af Rauða-Kína, hefur ekki farið framhjá neinum, sem fylgjast dálítið með.  Þá hafa tök Kínverja á hrávöruöflun og vinnslu sjaldgæfra málma valdið áhyggjum iðnaðarþjóða frá Japan um Evrópu til Bandaríkjanna.

Framboð kínverskra málma í Evrópu og Bandaríkjunum hefur minnkað frá miðju ári 2020, líklega vegna minni raforkuvinnslu í gömlum og mengandi kolaorkuverum og mikillar málmeftirspurnar í Kína sjálfu.  Olíuverð og hrávöruverð almennt hefur hækkað mikið frá lágmarkinu í Kófinu, og má orsakanna að miklu leyti leita í Kína, þessu gríðarlega vöruframleiðslulandi. Eins og Huawei-málið sýndi, þarf nú að fara að meta viðskiptin við Kína í ljósi þjóðaröryggis.  

Á austurlandamærum Evrópusambandsins (ESB) eru væringar við Rússa og vopnuð átök á milli Úkraínu og Rússlands.  Í gildi er viðskiptabann á vissum vörum á milli Rússlands, EES og BNA.  Við áttum ekkert erindi í það viðskiptabann, því að Vesturveldin einskorðuðu það við tæknivörur, sem hægt væri að nýta við smíði hergagna.  Fyrir vikið misstum við mikilvægan matvælamarkað í Rússlandi.  Á fundi í Reykjavík nýlega óskaði utanríkisráðherra Rússlands eftir því, að Ísland væri dregið út úr þessu viðskiptabanni.  Við eigum að leita samninga um það við bandamenn okkar, enda taka t.d. Færeyingar ekki þátt í því.

Í Vestur-Evrópu hafa miklir atburðir gerzt, þar sem Bretar hafa rifið sig lausa frá ólýðræðislegu skrifræðisbákni meginlands Evrópu.  Engar af dómsdagsspánum hafa rætzt í því sambandi.  Bretar eru langt á undan Evrópusambandinu (ESB) í bólusetningum og hagvöxturinn er á hraðari uppleið á Bretlandi en í ESB. Bretar gera nú hvern fríverzlunarsamninginn á fætur öðrum við lönd um allan heim.  EFTA-ríkið Svissland með sína öflugu utanríkisþjónustu reið á vaðið á meðal EFTA-ríkjanna fjögurra og gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland fyrr á þessu ári.  Í kjölfarið sigldu hinar EFTA-þjóðirnar 3, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og höfðu samflot, en EES-kom ekkert við sögu.  Íslenzkir hagsmunir voru greinilega ekki hafðir í neinu fyrirrúmi í þessari samningalotu, þannig að viðskiptakjör fiskverkenda hérlendis hafa ekkert batnað, þótt vonir stæðu til þess. Því miður hefur íslenzka utanríkisráðuneytið enn valdið vonbrigðum.  

Kvótinn fyrir innflutning brezks svínakjöts, kjúklinga, eggja, ávaxta og grænmetis er anzi ríflegur og gæta verður þess að draga úr kvóta ESB að sama skapi til að hagsmuna íslenzks landbúnaðar og gæða á markaði verði gætt. Þarna er vonandi fyrirmynd komin að fleiri fríverzlunarsamningum EFTA. Fríverzlunarsamningur þessi sýnir, að það er hægt að ná fríverzlunarsamningi við Evrópuríki, sem er a.m.k. jafnhagstæður EES-samninginum, hvað viðskiptakjör varðar.

Samskipti hinnar hlutlausu EFTA-þjóðar Svisslendinga við framkvæmdastjórn hins Frakkahalla Þjóðverja Úrsúlu von der Layen hafa kólnað verulega undanfarnar vikur.  Framkvæmdastjórnin er óánægð með, að löggjöf Sviss skuli ekki taka "sjálfkrafa" breytingum í takti við þróun Evrópuréttar, þótt Svisslendingar hafi aðgang að Innri markaði EES í krafti um 120 tvíhliða samninga á milli ríkisstjórnarinnar í Bern og framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel.  Svisslendingar fallast einfaldlega ekki á það ólýðræðislega fyrirkomulag, sem felst í að afhenda Brüssel þannig  löggjafarvaldið að nokkru leyti. 

Á Íslandi er skeleggasti gagnrýnandi slíkrar ólýðræðislegrar þróunar á Íslandi nú í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, þar sem hann býður sig fram í 2.-3. sæti. Arnar Þór Jónsson er ekki andstæðingur EES-samningsins, en hann er talsmaður þess að nota allt svigrúm samningsins og innbyggða varnagla þar af þekkingu og rökfestu til að verja hagsmuni Íslands og stjórnarskrá landsins, þegar á þarf að halda.

Ef rétt er skilið, hefur Miðflokkurinn nú tekið gagnrýna afstöðu gegn þessum samningi og Schengen.  Í Noregi er líka mikil gerjun á þessu sviði í aðdraganda Stórþingskosninga í september 2021. Alþýðusamband Noregs hefur lagzt gegn innleiðingu "gerða" ESB um lágmarkslaun og réttindi verkafólks, sem Alþýðusambandið telur rýra kjör verkafólks í Noregi.  Eftir kosningar til þjóðþinga Íslands og Noregs kunna að verða ný sjónarmið uppi á teninginum á meðal stjórnarmeirihlutans á þingi í hvoru landi.  Hann mun þó stíga varfærnislega til jarðar, en að hjakka í sömu sporunum er varla fær leið lengur.  

Hér er við hæfi að vitna í Arnar Þór (Mbl. 03.04.2021):

"Klassískt frjálslyndi byggist á því, að menn njóti frelsis, en séu um leið kallaðir til ábyrgðar.  Það byggir á því, að menn hugsi sjálfstætt, en láti ekki aðra hugsa fyrir sig - ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - lýðræðislegan grunn íslenzkra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi."

"Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum, sem að framan eru nefndar.  Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því, að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa."

Í forystugrein Morgunblaðsins 31.05.2021, "Swexit ?" , sagði m.a.:

"Samningarnir [við ESB-innsk. BJo] breyta löggjöf Sviss ekki með sömu sjálfvirkni og gerzt hefur t.d. hér á landi, en þar skiptir einnig máli, að hér á landi hafa stjórnmálamenn ekki verið á varðbergi gagnvart þróun ESB í seinni tíð, þó að full ástæða hafi verið til, þar sem sambandið tekur stöðugum breytingum í átt að auknum samruna og ásælni yfirþjóðlega valdsins."

 Þessi varnaðarorð Morgunblaðsins og gagnrýni í garð stjórnmálamanna, þ.e. þingmanna á núverandi kjörtímabili og á nokkrum fyrri kjörtímabilum, beinist mjög í sama farveg og málflutningur Arnars Þórs Jónssonar.  Hann er ekki einn á báti með sín viðhorf, hvorki hérlendis né í hinum EFTA-löndunum. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með á nótunum gagnvart þróun samskipta hinna EFTA-landanna við ESB.

  Í Noregi er að myndast samstaða á meðal stjórnarandstöðuflokkanna gegn Orkupökkum 3 og 4 (OP3, OP4).  Sú andstaða kann að verða stjórnarstefna nýrrar norskrar ríkisstjórnar að afloknum Stórþingskosningum í haust.  Þá verður ómetanlegt að hafa á Alþingi víðsýnan, vel lesinn, grandvaran, nákvæman og vel máli farinn mann á íslenzku sem erlendum tungum til að leggja orð í belg við mótun utanríkisstefnu Íslands í breyttum heimi eftir Kóf.

Morgunblaðið tefldi í téðri forystugrein jafnvel fram Carl I. Baudenbacher, sem utanríkisráðherra fékk til að skrifa rándýra greinargerð með innleiðingu OP3 og mæta fyrir utanríkismálanefnd þingsins og kannski fleiri nefndir til að vitna um, að ESB gæti farið í baklás gagnvart EES-samninginum, ef Alþingi hafnaði OP3.  Nú er þessi fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins orðinn gagnrýninn í garð ESB:

"Baudenbacher segir, að það sé í anda spunavéla Brussel að kenna Sviss um, hvernig fór, en málið sé ekki svo einfalt. Hann segir, að bæði stjórnvöld í Sviss og Brussel hafi reynt að þoka landinu bakdyramegin inn í ESB, en vanmetið hafi verið, hve mikil andstaða sé við slíkt í Sviss. Þar vilji fólk efnahagslega samvinnu, en ekki stjórnmálalegan samruna.  Þegar fólk hafi fundið, að reynt hafi verið að ýta því svo langt inn í ESB, að ekki yrði aftur snúið, hafi það spyrnt við fæti."

Í ljósi ótrúlega slæmrar stöðu í samskiptum Sviss og ESB og vaxandi gagnrýni á stjórnskipulega íþyngjandi  hliðar EES-samningsins m.t.t. stjórnarskrár, fullveldis og alvöru lýðræðis, í Noregi og á Íslandi, er tímabært fyrir allar EFTA-þjóðirnar í sameiningu að freista þess að ná frambúðar lausn á samskiptunum við ESB á viðskipta- og menningarsviðunum.  Þetta gæti orðið einhvers konar nýtt fyrirkomulag á EES-samninginum, þar sem gætt yrði aðlögunar að Innri markaðinum án þess að ógna fullveldi og lýðræði í EFTA-ríkjunum. Augljóslega ekki auðvelt, en ætti þó að vera viðráðanlegt verkefni fyrir hæft fólk með góðan vilja.

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var enskt viðhorf til ESB reifað:

"Fleiri hafa bent á, t.a.m. Ambrose Evans-Pritchard, yfirmaður alþjóðlegra viðskiptafrétta Telegraph, hve hart Evrópusambandið gengur fram gegn nágrönnum sínum, ólíkt t.d. Bandaríkjunum, sem eiga farsæl samskipti við fullvalda nágranna sinn Kanada.  Hann bendir á, að ESB sé stöðugt að reyna að útvíkka regluverk sitt og dómsvald og þvinga hugmyndum sínum upp á aðra.  Nú hafi Sviss hafnað þessari leið og ESB, sem hafi nýlega misst Bretland úr sambandinu, geti einnig verið að ýta Sviss frá sér."

Þetta er lýsing á sífellt víðtækari völdum, sem safnað er til Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel og veldur einnig EFTA-ríkjunum vandræðum. ESB er í eðli sínu tollabandalag, sem ver sinn Innri markað gegn utan að komandi samkeppni með viðamiklu regluverki, sem er íþyngjandi að uppfylla.  ESB er hemill á frjáls viðskipti í Evrópu, en við verðum hins vegar hagsmuna okkar vegna að aðlaga okkur honum.  Við, eins og Svisslendingar, hljótum að stefna á að gera það í sátt við Stjórnarskrána, fullveldi þjóðarinnar og raunverulegt lýðræði í landinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Bloggfærslur 8. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband