Er betra að veifa röngu tré en öngu ?

Í lok 9. áratugar 20. aldarinnar voru aðrir við stjórnvölinn hérlendis en sjálfstæðismenn. Þáverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir bullandi tapi á sjávarútvegi, af því að fiskiskipin voru allt of mörg m.v. leyfilegan heildarafla að ráði Hafrannsóknarstofnunar.  Ríkisstjórnin gat beitt stjórnvaldsákvörðunum til að aðlaga stærð flotans að ástandi fiskimiðanna í íslenzku lögsögunni, en hún ákvað að láta markaðinn um að leysa vandamálið. Það gerði hún með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp um frjálst framsal fiskveiðiheimilda, kvóta á skip, sem ríkið hafði úthlutað 1983-1984 á grundvelli veiðireynslu árin 3 þar á undan. Sjálfstæðismenn, sem þá voru í stjórnarandstöðu, voru sumir hverjir andsnúnir þessu, og flokkurinn átti engan veginn frumkvæði að kerfi, sem aðrir hafa eignað honum og hann tekið upp á sína arma, af því að það reyndist vera þjóðhagslega hagkvæmt (hvergi hefur annað fyrirkomulag reynzt hagkvæmara).

Það kom sem sagt í ljós, að markaðurinn svínvirkaði.  Aflahlutdeildir gengu kaupum og sölum á milli útgerða, útgerðum og skipum fækkaði og kaupendur efldust, m.a. af því að þeir náðu smám saman aukinni hagræðingu í krafti stærðar og fjárfestinga í nýrri tækni.  Nú er samhljómur á meðal hagfræðinga um, að þessi breyting hafi orðið til góðs, og staðreyndirnar tala sínu máli.  Íslenzkur sjávarútvegur er sjálfbær í öllum skilningi (hann notar að vísu enn olíu, en minna af henni á hvert veitt tonn en annars staðar þekkist), og hann stendur sig vel á erlendum mörkuðum, þangað sem yfir 95 % af vöruframboði hans fara. 

Sjálfstæðismenn áttuðu sig fljótt á því, að þarna hafði heillaspor verið stigið, enda varð atvinnugreinin nú sjálfstæð, hefur lagt mikið að mörkum til samfélagsins og hefur ekki þurft að leggjast inn á vöggustofu ríkisins, sem áður fyrr hlynnti að veikburða fyrirtækjum. Hins vegar bregður svo við, að sumir aðrir stjórnmálaflokkar, t.d. Samfylking, Viðreisn og líklega hentistefnuliðið, sem kallar sig pírata, hafa nú horn í síðu þessa árangursríka fyrirkomulags sjávarútvegsstefnunnar. Að sjálfsögðu ráðast þeir á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa tekið þessa vel heppnuðu stefnu upp á sína arma, en hvað hafa þeir á móti kerfinu ? Sjálfstæðisflokkurinn sýndi þarna, að hann er víðsýnn flokkur og næmur fyrir breytingum, sem vel reynast.  Hann kastar þó ekki fyrir róða, því sem vel hefur gefizt, nema annað enn betra sé örugglega í boði.

Sagt er, að þeir, sem fjárfest hafa í kvóta og dýrum búnaði til að nýta sjávarauðlindirnar í íslenzku lögsögunni, og þeir af meinfýsni uppnefndir "sægreifar", ausi af auðlind í eign þjóðarinnar.  Loddarar hafa alið á tortryggni og jafnvel andúð í garð útgerðarmanna á þeim fölsku forsendum, að þeir græði á því, sem aðrir eiga.  Þetta er auðvitað fráleitur málflutningur, sérstaklega þar sem kvótinn hefur að mestu leyti gengið kaupum og sölum samkvæmt landslögum.  Vitleysan á rætur að rekja til misskilnings á fiskveiðistjórnunarlögunum. 

Þar er því slegið föstu, að fiskimiðin innan íslenzku lögsögunnar séu eign íslenzku þjóðarinnar.  Það er góð hugsun að baki þessu ákvæði, því að það tryggir fullveldi íslenzka ríkisins yfir miðunum, en ekki, að ég geti gert kröfu á þá sem eiga afnotaréttinn um u.þ.b. 1/365000 af aflaverðmætunum, þegar kostnaðurinn við að afla verðmætanna hefur verið dreginn frá.  Þar sem ríkisvaldið fer með þennan fullveldisrétt þjóðarinnar, merkir þjóðareignarákvæðið, að ríkisvaldið hefur óskoraðan rétt til að fara með stjórnun aðlindarinnar. Það er gert með fiskveiðistjórnarlöggjöf og reglugerðum, reistum á henni.

Þá er mikið gert úr því, að aðgengi nýrra, sem vilja spreyta sig á að afla verðmæta úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sé heft.  Það er markaðurinn, sem myndar þann inngönguþröskuld, að kaupa þarf eða leigja aflahlutdeild.  Verðið markast að nokkru af því, að hér er um mjög takmarkaða auðlind að ræða, jafnvel m.v. núverandi afkastagetu fiskiskipastólsins eftir mikla fækkun skipa.  Að minnka veiðiheimildir núverandi útgerða og úthluta þeim til annarra á einhverju verði er löglaust athæfi (brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrár (afnotaréttur er ein tegund eignarréttar)) og hagfræðilega óverjandi ráðstöfun, því að þar með væri ríkisvaldið að stuðla að óhagkvæmari rekstri allra útgerða, með því að fjölga þeim,og tapi hjá þeim, sem nú eru lítið eitt ofan við bókhaldslegt 0.  Að auka heildaraflamarkið til að hleypa öðrum að er ósjálfbær ráðstöfun og óréttlætanleg gagnvart eigandanum, þjóðinni, sem á rétt á því, að bezta þekkta þekking sé nýtt til að hámarka afrakstur miðanna til frambúðar, eins og manninum er fært á hverjum tíma. 

Umræðan um sérgjaldtöku af sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar, s.k. auðlindagjald, hefur verið á villigötum frá upphafi einfaldlega vegna þess, að engum hefur tekizt að sýna fram á með skýrum hætti, að s.k. auðlindarenta væri fyrir hendi í sjávarútvegi, þ.e. umframhagnaður greinarinnar m.v. aðrar greinar vegna aðgangs hennar að náttúruauðlind. Ef hún væri fyrir hendi hér, hlyti hún að finnast í norskum sjávarútvegi líka, því að í norsku lögsögunni eru gríðarlega auðug fiskimið.  Það er öðru nær og stafar m.a. af því, að kostnaðarsamt er fyrir fyrirtækin að sækja sjóinn.  Norsk sjávarútvegsfyrirtæki fá fjárhagsstuðning frá hinu opinbera, og þannig háttar til alls staðar annars staðar í Evrópu, nema í Færeyjum. 

Kjarni málsins er sá, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við þennan niðurgreidda sjávarútveg á evrópskum mörkuðum og víðar.  Gjaldtaka af sjávarútveginum umfram venjulega skattheimtu rýrir óneitanlega samkeppnishæfni fjármagnsfrekrar starfsemi eins og sjávarútvegsins. Þess vegna þarf ríkisvaldið að gæta hófs.  Núverandi gjaldtaka tekur þriðjung hagnaðar.  Það er ekki hófleg gjaldtaka í ljósi almenns tekjuskatts af lögaðilum á Íslandi, sem er fimmtungur hagnaðar. 

Evrópusambandið (ESB) stjórnar fiskimiðum aðildarlandanna utan 12 sjómílna.  Ef Ísland gengur í ESB, eins og Samfylking og Viðreisn berjast fyrir og píratar virðast vera hlynntir, þá fellur íslenzka lagaákvæðið um þjóðareign fiskveiðiauðlindarinnar fyrir lítið, því að Evrópuréttur er rétthærri landsrétti innan ESB og reyndar EES, en fiskveiðistjórnun er undanskilin í EES-samninginum. Það mun þá verða mikill þrýstingur frá frönskum, spænskum og fleiri útgerðum ESB-landanna á Framkvæmdastjórnina um að hleypa þeim inn í íslenzku landhelgina, enda að missa spón úr aski sínum við Bretlandsstrendur.

  Íslenzkir aðildarsinnar, t.d. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, halda því statt og stöðugt fram, að hægt verði að semja um "hlutfallslegan stöðugleika", sem er reistur á veiðireynslu.  Spurning er, hvort veiðireynsla Frakka, Spánverja o.fl. á fyrri tíð við Ísland er fyrnd.  Alla vega er núverandi fyrirkomulag bráðabirgða fyrirkomulag innan Evrópusambandsins, og samkvæmt hvítbók ESB um þetta efni er stefnt að því, að markaðurinn stjórni aðgangi að öllum miðum aðildarlandanna, er fram í sækir. Það er gert með því að bjóða út eða upp aflaheimildir.  Íslenzk fiskveiðistjórnun í lögsögu Íslands mun þá fara veg allrar veraldar, og þjóðarframleiðslan mun minnka að sama skapi með slæmum afleiðingum fyrir hag landsmanna og byggð í landinu. Innganga í ESB mun gera Ísland að óaðlaðandi verstöð með of lágar þjóðartekjur til að keppa um hæfasta vinnuaflið.

Stefna Viðreisnar í fiskveiðistjórnarmálum er þannig aðeins liður í aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins.  Stefán Einar Stefánsson birti útdrátt úr Dagmálaviðtali við varaformann Viðreisnar, Daða Má Kristófersson, í Morgunblaðinu, 15. júlí 2021, undir fyrirsögninni:   

"Nýtt kerfi skili ekki meiri tekjum".

Frásögnin hófst þannig:

"Ekki standa líkur til þess, að tekjur ríkissjóðs af fiskveiðiauðlindinni muni aukast, nái tillögur Viðreisnar um svo kallaða samningaleið fram að ganga.  Þetta segir Daði Már Kristófersson, varaformaður flokksins og prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands.  Bendir hann á, að veiðigjöld, sem nú eru lögð á útgerðina, nemi um þriðjungi af hagnaði þeirra, og að kerfisbreytingar þær, sem hann telji nauðsynlegt að ráðast í, muni skila svipuðum tekjum til lengri tíma litið."

Yfirleitt hefur jarmurinn út af fiskveiðistjórnunarkerfinu snúizt um að skattleggja sjávarútveginn enn þá meira en gert er. Oftast er um að ræða fólk útblásið af hugsjónum og réttlætiskennd fyrir hönd þjóðarinnar með afar takmarkað vit á útgerð.  Þau slá um sig með slagorðum á borð við: "látum sjávarútveginn greiða markaðsverð fyrir aðganginn að þjóðareigninni".  Nú játar varaformaður Viðreisnar, að sjávarútvegurinn muni ekki geta greitt meira í ríkissjóð en hann gerir nú þegar. Með þetta hljóta margir vizkubrunnar að hafa orðið fyrir vonbrigðum.  Þeir hafa gjarna bent á leiguverð kvóta sem líklegt markaðsverð hans.  Þetta er algerlega fráleit hugmynd, sem sýnir, að þau hafa ekki minnsta vit á því, sem þau bera fyrir brjósti að umbylta. Leiguverð er jaðarverð.  Leigður kvóti þarf aðeins að standa undir rekstrarkostnaði við að veiða viðbótarfisk við grunnkvóta skipsins.  Þess vegna getur verið hagkvæmt að leigja kvóta á yfir 200 ISK/kg, sem gæti verið 10-20 falt núverandi veiðigjald fyrir þorsk.  Þannig er rekinn skefjalaus falsáróður til að vekja öfund og ólund gagnvart útgerðarmönnum.

Síðan var vitnað beint í Daða Má:

"Auðvitað gæti einhver sagt, að verulegur partur [arðsins] væri skilinn eftir hjá útgerðinni.  En tilfellið er, að það er mjög mikilvægt, að útgerð sé ábatasöm atvinnugrein [...]; allir skattar valda einhvers konar skaða, og umfangið af þeim skaða, og umfangið af þeim skaða er háð umfangi skattlagningarinnar, og það er mjög mikilvægt, að við séum örugglega réttum megin þar.  Ég vil benda á, að sambærileg skattlagning auðlindagreina í nágrannalöndunum er iðulega ekki meiri en þetta með beinni skattlagningu."

Þarna ratast varaformanni rétt orð í mun um skattheimtuna.  Sjávarútvegur verður ekki mjólkaður meira með nýju fiskveiðistjórnunarkerfi. Hvers vegna er þá talin þörf á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi ?  Það er til að aðlaga kerfið stefnu ESB í sjávarútvegsmálum, en það er að sjálfsögðu ekki viðurkennt, heldur skálduð skýring: 

"Spurður út í, hvað knýi á um breytt fyrirkomulag í kringum úthlutun fiskveiðiheimilda, fyrst slíku kerfi sé ekki ætlað að skila meiri tekjum í ríkissjóð, segir Daði Már, að innköllun núverandi veiðiheimilda yfir langt tímabil, þar sem hægt væri að bjóða þær upp í kjöldarið, sé líklegri til þess að tryggja sátt um sjávarútveginn."  

Þessi útskýring er eins og hver önnur þvæla.  Hvaða heilvita manni dettur í hug, að mesta þjóðnýting Íslandssögunnar sé líkleg til að skapa aukna sátt um eina atvinnugrein ?  Viðreisn hefði varla getað framreitt heimskulegra og ótrúverðugra yfirklór yfir þá sorglegu staðreynd, að hún starfar hér á Íslandi sem eins konar útibú frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og allar gerðir hennar miða að því einu að flækja Íslandi undir yfirráð hennar.  

Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, var líka á téðum Dagmálafundi:

"Nýverið birtu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skýrslu, sem Ragnar Árnason vann fyrir þau og var eins konar "uppfærsla" á ríflega 10 ára gamalli skýrslu Daða Más, sem unnin var fyrir tilhlutan starfshóps um mögulega endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu íslenzka. Þar kemst Ragnar að þeirri niðurstöðu, líkt og Daði Már, að innköllun aflaheimilda fæli í sér eignaupptöku." 

Ragnar hefur áreiðanlega ekki hrapað að þessari niðurstöðu, svo vandaður fræðimaður sem hann er.  Þetta er "fait accompli" eða þegar framkvæmt, og það er ekki til neins að láta eins og afturkalla megi þennan gjörning og þar með aflaheimildirnar, nema með því að ógilda eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og það verður aldrei gert með samþykki meirihluta kjósenda, svo mikið er víst.  Friður um stjórnkerfi fiskveiða er almenningi fyrir beztu, enda nýtur þetta fyrirkomulag alþjóðlegrar viðurkenningar og er grundvöllur þróunar sjávarútvegsins á öllum sviðum, s.s. öryggis skipverja (gott skipulag veiðanna), orkusparnaðar og orkuskipta (afl til fjárfestinga í nýrri tækni) og gjörnýtingar aflans (hvati til aukinnar verðmætasköpunar úr hverju kg). 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 24. júlí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband