Vindmyllur leysa engan vanda

Danmörk er langmesta vindmylluland Norðurlandanna, og þar er raforkuverðið langhæst.  Danir hafa fjárfest gríðarlega í vindmyllum og auðvitað framleitt þær og selt út um allar jarðir. Hár fjárfestingarkostnaður, stuttur endingartími, tiltölulega hár rekstrarkostnaður og slitróttur rekstur veldur því, að vinnslukostnaður rafmagns er hár með vindmyllum, og á sama má segja, að aflið frá þeim sé annars flokks vegna óvissunnar, sem gætir um afhendingu þess.  Viðskiptavinur getur ekki reitt sig á þetta afl, og þess vegna hefur vindmylluaflið afar lítið gildi hjá viðskiptavini, sem verður fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef hann fær ekki umsamið afl. 

 

 

Erlendis er þetta leyst með því, að seljandi vindmylluorku semur við seljanda orku frá annars konar orkuveri, yfirleitt gaskyntu orkuveri, um að hlaupa fyrir sig í skarðið.  Hérlendis vill varla nokkur borga forgangsorkuverð fyrir vindmylluorku, nema seljandi vindorkunnar geti tryggt umsamda afhendingu.  Þannig nemur verðmæti einangraðrar vindmylluorku hérlendis aðeins verðmæti ótryggðrar raforku, sem er e.t.v. þriðjungur af verðmæti forgangsorkunnar. Þannig er vandkvæðum háð að gera samning við seljanda vindmylluorku til lengri tíma en nemur sæmilega öruggri veðurspá. 

Hins vegar gætu vindmyllur orðið verðráðandi hér á væntanlegum uppboðsmarkaði til eins sólarhrings, því að þar mun gilda, að fyrir öll viðskiptin ráði hæsta verðtilboð, sem tekið er.  Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins og annarra hefur nú komið Evrópumönnum hrottalega í koll á orkuskortstímum, og hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB sagt fyrirkomulagið ekki vera á vetur setjandi. 

Nú væri hægt að láta alla þessa ókosti vindmylluraforkunnar liggja á milli hluta í nafni endurnýjanlegrar orkulindar og athafnafrelsis í landinu innan marka laganna, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að vindmyllur eru landfrekar, uppsetning þeirra kallar á tiltölulega umfangsmikil landspjöll og af þeim stafar ýmiss konar mengun. 

Haukur Ágústsson hefur skrifað greinar í Morgunblaðið, sem veigur er í.  Ein birtist 26. október 2022 undir fyrirsögninni:

   "Viðbrögð við vindmyllum":

"Samkvæm vorut samtökunum "StopTheseThings" (Stöðvið þetta) voru yfir 30 k vindmyllur í Þýzkalandi árið 2019.  [M.v. höfðatölu svarar þetta þó aðeins til 140 stk á Íslandi, en hérlendis hafa verið birt áform um mörg hundruð vindmyllur-innsk. BJo.] Margar þeirra eru svo bærri byggðu bóli, að mikið ónæði hlýzt af.  Því hafa fasteignir í nágrenni þeirra lækkað í verði og jafnvel orðið óseljanlegar, auk þess sem almenn andúð á þeim hefur vaxið.  Nú er svo komið, að sem næst engar nýjar vindmyllur eru reistar í Þýzkalandi, heldur horfa þýzkir fjárfestar til annarra landa og þá einkum Noregs."

Þýzkaland er 62 sinnum þéttbýlla en Ísland og þess vegna engin furða, þótt fórnarkostnaður af uppsetningu og rekstri vindmylla sé hár.  Þjóðverjar hafa á seinni árum verið afar seinheppnir með orkustefnu sína, sem nú á ófriðartímum hefur leitt þá í algerar ógöngur, eins og kunnugt er.  Höfuðsök þar ber fyrrverandi formaður CDU og kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem árið 2011 beitti sér fyrir lokun kjarnorkuvera og um 2015 fyrir banni við vökvaknúinni gasvinnslu úr jarðlögum (e. fracking) ásamt niðurgreiðslum á raforkukostnaði frá vindmyllum.  Afleiðingin er sú, að Þjóðverjar eru ósjálfbjarga, þegar kemur að öflun orku, og færðu Rússum lykilstöðu um orkuútvegun.  Þetta var svo mikill barnaskapur, ef ekki eitthvað verra, að engu tali tekur.

  "Samkvæmt vefsíðunni "The Local (Nágrennið) berjast menn víða gegn þessum framkvæmdum, t.d. í Norður-Noregi og Svíþjóð, þar sem Samar búa með hreindýra hjarðir sínar og segja dýrin fælast myllurnar, ef þær hafa verið byggðar [reistar] á haglendi þeirra.

Að sögn Energifakta Norge (Orkutölur Noregs) voru 53 vindmyllugarðar í Noregi í upphafi ársins 2021.  Árið 2019 voru stofnuð þar í landi samtök, sem fengu heitið "MotVind (Gegn vindorku).  Hliðstæð samtök eru til víðar, s.s. í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum.  Öll berjast þau gegn útbreiðslu vindmylla og telja þær skaðlegar náttúrulegu umhverfi og dýra- og mannlífi, auk þess sem þær dugi alls ekki til þess að koma í veg fyrir þær loftslagsbreytingar, sem ætlað er, að maðurinn valdi.  Barátta þessara samtaka hefur víða borið verulegan árangur og hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir uppsetningu vindmyllugarða."

Þess er skemmst að minnast, að fumbyggjar í Norður-Noregi unnu dómsmál í réttarkerfi Noregs gegn vindmyllueigendum og yfirvöldum, sem veitt höfðu framkvæmdaleyfi á hefðbundnum beitarsvæðum hreindýra. Þessi dómur gefur til kynna, að yfirvöldum sé að norskum rétti óheimilt að leyfa framkvæmdar, sem rýra umtalsvert hefðbundin lífsskilyrði íbúanna á svæðin.  Dómurinn kann að verða leiðbeinandi um meðferð dómsmála, ef sveitarstjórnir, t.d. á Vesturlandi, leyfa, að reistar verði vindmyllur í grennd (í áberandi sjónlínu) við íbúa eða jafnvel frístundabyggð, sem fallnar séu til að rýra lífsgæði íbúanna með einhverjum þeim hætti, sem hægt sé að færa sönnur á fyrir rétti.

Það er illskiljanlegt, að yfirvöld hérlendis skuli ljá vindmyllufyrirtækjum eyra í ljósi þess, að hérlendis verður alls engin þörf fyrir þessa dýru raforku, ef yfirvöld á borð við Orkustofnun og útgefendur framkvæmdaleyfa í héraði slá nú í nára truntunnar og keyra hana úr sporunum til að flýta virkjanaleyfum fyrir hefðbundnar íslenzkar virkjanir, sem almennt eru taldar sjálfbærar, og er þar auðvitað átt við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir.

Að lokum skrifaði Haukur Ágústsson:

"Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu, voru umhverfissinnar ötulir við að mótmæla virkjuninni.  Menn komu meira að segja erlendis frá til þátttöku í aðgerðunum, sem fólust m.a. í því að stöðva verk með því að setjast niður fyrir framan vinnuvélar.  Nú er rætt um yfir 30 vindmyllugarða á Íslandi.  Afar lítið, ef nokkuð, ber á mótmælum vegna þessara áætlana.  Þó eru umhverfisáhrifin sízt minni en af vatnsvirkjunum og miklu meira áberandi vegna afar hárra, gnæfandi turna og víðfeðmra spaða.  Ekki er heldur minnzt á áhrifin í högum sauðfjár og hreindýra [sbr téð norsk dómsniðurstaða - innsk. BJo] eða á þann skaða, sem áreiðanlega verður á fuglum og smærri flugdýrum [skordýrum - innsk. BJo] - hvað þá áhrifin á ferðamannageirann.  

Við Íslendingar búum enn við sæmilega óspillta náttúru.  Er mikið vit í því að skaða hana í þágu gróðafíknar fáeinna manna, sem hyggjast græða á því að fordjarfa hana - og virðast ýmsir auk þess vera á mála erlendra aðila, eins og í Noregi."

Þetta er vel skrifuð grein hjá kennaranum fyrrverandi með þörfum ábendingum og viðvörunum.  Án þess að gera vindmylluforkólfum upp hvatir (þeir ofmeta einfaldlega ávinninginn m.v. fórnarkostnaðinn) þá ber að beita sér einarðlega gegn leyfisveitingum fyrir vindmyllum á Íslandi um leið og yfirvöld eru hvött til að beita sér gegn þeirri vá, sem yfirvofandi raforkuskortur í landinu er fyrir hag landsmanna, með því að ýta undir nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru bæði nauðsynlegar og þjóðhagslega hagkvæmar, en vindmylluþyrpingar eru hvorugt.  

Ímynd vatnsorkuvera erlendis er dálítið lituð af því, að víða hefur þurft að beita fólk nauðungarflutningum af athafnasvæðum slíkra virkjana.  Það hefur ekki þurft í seinni tíð á Íslandi.  Þá er beizlun vindorkunnar erlendis einn af fáum endurnýjanlegum virkjanakostum víða.  Þetta hefur kallað fram ofstæki gegn vatnsaflsvirkjunum og doða gagnvart vindorkuverum, sem kann að hafa smitazt hingað. Þannig gera hvorki vindmylluforkólfar né virkjanaandstæðingar á Íslandi sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum í landinu.  

 

    

 


Bloggfærslur 10. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband