Af framtíð heimsins

Enn á ný er barizt á banaspjótum út af yfirráðum lands í Evrópu og stjórnarfyrirkomulagi í því landi og víðar, í þessu tilviki einræði að rússneskri fyrirmynd eða lýðræði að vestrænum hætti.  Úkraínumenn hafa sýnt það að fornu og nýju, að þjóðfélagsleg viðhorf þeirra eru gjörólík Rússanna.  Úkraínumenn eru einstaklingshyggjumenn, sem er annt um frelsi sitt og lands síns og eru búnir að fá sig fullsadda á yfirráðum Rússa og frumstæðum stjórnarháttum þeirra.

  Úkraínumenn ganga ekki að því gruflandi núna, að þeir verða hnepptir í þrældóm, ef Rússar munu ná fram vilja sínum á þeim. Rússar eru forræðishyggjumenn, sem taka festu og stöðugleika í þjóðfélaginu fram yfir persónulegt frelsi sitt.  Þeir hafa jafnan í sögunni sýnt sínum zar hollustu. Hafi þeir velt honum, hafa þeir einfaldlega tekið sér nýjan zar.

Núverandi zar, sem af tali sínu og gjörðum að dæma gengur alls ekki heill til skógar, stundar nú þjóðarmorð í Úkraínu og er einn grimmasti stríðsglæpamaður seinni tíma. Hann hefur opinberað veikleika rússneska hersins á vígvellinum og með framferði sínu innan lands og utan skipað Rússlandi á ruslahauga sögunnar. Nú eru Pótemkíntjöldin fallin og eftir stendur agalítill og lítt bardagahæfur her án góðrar herstjórnar og herskipulags, sem níðist miskunnarlaust á varnarlausum óbreyttum borgurum.  Með falli téðra Pótemkíntjalda opinberast um leið siðblinda Kremlarherra, sem vekur fyrirlitningu um allan heim, einnig á meðal undirsáta Rússanna innan ríkjasambandsins.   

Úkraínska þjóðin er nú með eldskírn sinni endurfædd til sögunnar.  Hún hefur skipað sér í raðir vestrænna ríkja og ætlar að reka ræfildóminn úr austri í eitt skipti fyrir öll af höndum sér.  Vonandi hafa Vesturveldin manndóm í sér til að standa svo myndarlega við bakið á hinni hugdjörfu og einbeittu úkraínsku þjóð, að henni takist ætlunarverk sitt í nafni fullveldis, frelsis og lýðræðis, og vonandi ber NATO-ríkin gæfa til að veita Úkraínu vernd gegn látlausum yfirgangi úr austri með því að veita landinu aðild að varnarsamtökum vestrænna ríkja.  Að láta einræðisherrann í Kreml ráða því, hvaða lönd eru tekin inn í NATO að þeirra beiðni, gengur ekki lengur. 

Hryðjuverkamennirnir við stjórnvölinn í Rússlandi nútímans reyna nú í vanmætti sínum á vígvellinum að sprengja íbúa Úkraínu langt aftur í aldir og svipta þá lífsnauðsynjum s.s. vatni og rafmagni.  Þetta er gjörsamlega ófyrirgefanleg hegðun nú, þegar vetur gengur í garð.  Orkuskorts gætir líka um alla Evrópu.  Evrópa sýpur nú seyðið af draumórum sínum um, að gagnkvæmir hagsmunir vegna viðskiptatengsla ráði meiru um stefnumörkun í hefðbundnu einræðisríki en aldalöng útþensluhefð ríkisins. 

Það, sem á við um Þýzkaland í þessu samhengi, á einfaldlega ekki við um Rússland, og við mun taka áralöng einangrun Rússlands fyrir vikið. 

Um alla Evrópu, nema á Íslandi, mun verða gripið til viðarkyndingar í vetur til að halda lífi, og kolaorkuver hafa verið endurræst.  Það hillir ekki undir, að markmið Parísarsamkomulagsins náist árið 2030, enda fer losun flestra ríkja á koltvíildi vaxandi. 

Við þessar ömurlegu aðstæður og misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanna á flestum mikilvægustu sviðum tilverunnar, er hressandi að lesa boðskap Björns Lomborg, sem andæfir bölmóði heimsendaspámanna  með talfestum rökum. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22.10.2022 undir fyrirsögninni: 

"Af svartagallsrausi heimsendaspámanna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

  "Ósköpin dynja á okkur í síbylju, hvort sem þar er á ferð seinasta hitabylgja, flóð, skógareldar eða gjörningaveður.  Engu að síður sýnir sagan okkur, að síðustu öldina hafa válynd veður haft æ minni áhrif á mannskepnuna.  Á 3. áratug síðustu aldar lézt 1/2 M [manns] af völdum veðuröfga, en aðeins 18 k allan síðasta áratug [þ.e. þ.e. 3,6 % af fjöldanum fyrra tímabilið - innsk. BJo].  Árin 2020 og 2021 kröfðust svo enn færri mannslífa á þessum vettvangi.  Hvers vegna ?  Jú, vegna þess að því loðnara sem fólk er um lófana, þeim mun öruggar býr það."

Nú eru strax fluttar fréttir af vettvangi með myndaefni, þar sem veðuröfgar verða.  Fjölmiðlum hættir mjög til að gera mikið úr frásögnum sínum í sögulegu samhengi og kenna síðan hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum um.  Þetta er innistæðulaus bölmóður, hræðsluáróður, ætlaður til að koma sektarkennd inn hjá almenningi, hræða hann til að breyta neyzluvenjum sínum og lifnaðarháttum. Allt væri það unnið fyrir gýg. Samkvæmt gervihnattamælingum er hlýnun andrúmsloftsins miklu minni en IPCC (Alþjóðaráð Sþ um loftslagsbreytingar) heldur fram í skýrslum sínum og hleypir þar engum gagnrýnisröddum að.  Öfgar veðurfarsins eru iðulega ýktar í sögulegu tilliti og sérstaklega afleiðingar þeirra, eins og Björn Lomborg er óþreytandi við að rekja: 

"Sjónvarpsfréttir, sem fjalla um veður, gefa hins vegar til kynna, að allt sé á heljarþröm.  Það er rangt.  Árið 1900 var fátt talið eðlilegra en 4,5 % alls þurrlendis á jörðunni brynni ár hvert.  Síðustu öldina er þetta hlutfall komið niður í 3,2 %.  Sé að marka myndir frá gervihnöttum, hefur hlutfallið enn minnkað á síðustu árum.  Í fyrra var það 2,5 %.  Rík samfélög fyrirbyggja eldsvoða; svo einfalt er það.  Spár gera ráð fyrir því, að við lok þessarar aldar [21.] verði brunar enn færri, hvað sem hnattrænni hlýnun líður."

Fréttamenn hafa tilhneigingu til að slengja fram getgátum einum sem staðreyndum án þess að grafast fyrir um hinar raunverulegu staðreyndir.  Ef þeir ná óskiptri athygli "fréttaneytenda" í nokkrar mínútur, eru þeir nokkuð ánægðir með vaktina.  Fyrir vikið úir og grúir af misskilningi og rangfærslum, og allt er hengt á hlýnun af mannavöldum.  Úr henni er of mikið gert, og við á Norðurlöndunum getum nánast engin áhrif haft á koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, sem er meintur sökudólgur, en hvað með önnur efni þar ? Öll er þessi saga of áróðurskennd og æsingakennd til að vera trúverðug, enda eru menn á borð við Björn Lomborg búnir að höggva stór skörð í trúverðugleikann. 

"Ekki dregur þó úr veðurtjóni einu þrátt fyrir spár um annað.  Ekki er nema áratugur síðan umhverfisverndarfólk boðaði endanlegan dauða stóra kóralrifsins við Ástralíu vegna loftslagsbreytinga.  Brezka blaðið Guardian ritaði jafnvel minningargrein um það.  Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á, að rifið er í góðum gír - raunar betri en síðan 1985.  Þau skrif las auðvitað enginn." 

 Það væri til að æra óstöðugan að afsanna allan fullyrðingaflauminn, sem streymir frá froðuframleiðendum, sem kenna sig við umhverfisvernd, og eru illa að sér um lögmál náttúrunnar og hafa hvorki getu né vilja til að kynna sér þau mál til hlítar, sem þau gaspra um í tíma og ótíma.  Þarna tíundar Björn Lomborg eitt dæmið, en hann hefur hrakið marga bábiljuna úr smiðju þeirra.  Verst er, að hræðsluáróður dómsdagsspámanna nær eyrum stjórnmálamanna á Vesturlöndum, sem við stefnumörkun sína, t.d. í orkumálum, hafa mótað stefnu, sem er ekki aðeins vita gagnslaus og kostnaðarsöm, heldur einnig stórhættuleg fyrir lífsafkomu almennings í bráð og lengd. 

"Önnur algeng tækni umhverfisverndarsinna var að nota myndir af ísbjörnum í áróðursskyni.  Meira að segja var þeim beitt í kvikmynd Al Gore, Óþægilegur sannleikur.  Raunin er hins vegar sú, að ísbjörnum fjölgar.  Á 7. áratuginum [20. aldar] voru þeir [á] milli 5 og 10 þús., en eru í dag um 26 þús. að öllu töldu.  Þetta eru fréttir, sem við fáum aldrei.  Þess í stað hættu sömu umhverfisverndarsinnar bara hægt og hljótt að nota ísbirni í áróðri sínum."

Þegar þekking og yfirsýn ristir grunnt, gerist einmitt þetta, sem Björn Lomborg lýsir.  Ísbjörninn þarf aðgang að sjó til að leita ætis.  Þess vegna hefst hann við nálægt ísröndinni.  Sú ísrönd færist til eftir árstíðum, árum, áratugum og öldum.  Á norðurhveli hefur áður verið hlýrra en nú, t.d. á blómaskeiði víkinganna, þegar Ísland var numið.  Ísbjarnarfjölskyldur hafa væntanlega dafnað vel þá í miklu æti ekki síður en nú.  Hvernig fengu unhverfiskjánarnir þá flugu í höfuðið, að afkoma ísbjarna væri bundin við breiddargráðu ?  Ísbjörninn er stórkostlegt dýr, sem hefur alla tíð þurft að aðlagast breytilegu umhverfi. 

Síðan bendir Björn okkur vinsamlegast á, að kuldi sé manninum meiri skaðvaldur en hiti, og það á alveg sérstaklega vel við núna í orkuskortinum í Evrópu, þegar sumir hafa ekki efni á að kynda og hafa ekki aðgang að eldiviði:

"Á sama tíma horfum við fram hjá stærri vandamálum.  Lítum á alla athyglina, sem hitabylgjur hljóta í Bandaríkjunum og víðar. Dauðsföllum af völdum hita fækkar einmitt í Bandaríkjunum, aðgangur að loftkælingu hjálpar meira en hár hiti skaðar.  Kuldi kostar hins vegar mun fleiri mannslíf.  Í Bandaríkjunum einum deyja 20 k [manns] á ári vegna hita, en 170 k [manna] vegna kulda - við spáum ekkert í það.  Dauðsföllunum vegna kulda fjölgar í Bandaríkjunum, en við einblínum á hlýnun jarðar vegna þess, að stjórnmálamenn tönnlast á grænum lausnum, sem gera ekkert annað en að hækka orkuverð með þeim afleiðingum, að færri hafa efni á kyndingu.  Við skellum skollaeyrunum við því, hvar við gætum í raun hjálpað mest."  

Það er athyglisvert, að í BNA deyja næstum áttfalt fleiri úr kulda en hita.  Það má ætla, að ýmist sé það fólk, sem hefur ekki efni á að kynda húsnæði sitt, eða útigangsfólk.  Á Íslandi er líka útigangsfólk, sem hefur króknað úr kulda, en sem betur fer eru landsmenn langflestir í þeirri stöðu að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, svo að þeir geti haldið á sér nægilegum hita í verstu vetrarhörkunum.  Hættan er hins vegar sú, að ekki sé fjárfest nægilega í tæka tíð til að hindra, að framboðið ráði ekki við eftirspurnina.  Þetta kann að eiga við um hitaveitur vegna mikillar mannfjölgunar og rafmagn vegna vanfjárfestinga í nýjum virkjunum.  Kveður svo rammt að hinu síðar nefnda núna, að klárlega má segja, að orkuyfirvöldin fljóti sofandi að feigðarósi.   


Bloggfærslur 24. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband