Reginhneyksli ríkisrekstrar á fjármálastofnun

Af einhverjum undarlegum ástæðum er hópur manna í þjóðfélaginu á þeirri skoðun, að ríkisrekstur á fjármálakerfinu eða drjúgum hluta þess sé heppilegasta rekstrarformið fyrir hag almennings.  Ekkert er fjær sanni en stjórnmálamenn séu öðrum hæfari til að móta  fjármálastofnanir og stjórna þeim. Dæmin þessu til staðfestingar eru mýmörg, en nýjasta dæmið er af Íbúðalánasjóði, sem stjórnmálamenn og embættismenn komu á laggirnar til að keppa við almenna bankakerfið um hylli húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda.  Þar tókst ekki betur til en svo, að gjaldþrot blasir við með um mrdISK 450 tjóni fyrir ríkissjóð [reiknað til núvirðis mrdISK 200].  Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að koma í veg fyrir þetta mikla tjón með viðræðum við lánadrottnana og viðeigandi aðgerðum í kjölfarið. 

 Margir hafa fundið sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka allt til foráttu.  Ýmist er það aðferðin, sem Bankasýslan mælti með, eða tímasetningin, sem látið er steyta á.  Allt er þetta þó skálkaskjól fyrir þau, sem eru með sem mest ríkisafskipti og ríkisrekstur sem einhvers konar trúarsetningu í lífi sínu, alveg sama hversu misheppnað þetta fyrirkomulag er í raun, hvað sem heimspekingar segja um það á pappírnum. 

Kaffihúsasnatinn Karl Marx var enginn mannþekkjari, heldur draumóramaður og "fúll á móti", sem hélt hann hefði fengið bráðsnjalla hugmynd, sem kölluð hefur verið kommúnismi.  Kommúnisminn í einhverri mynd hefur alls staðar leitt til kollsteypu, og þarf ekki að tíunda það frekar. 

Ríkisrekin fjármálafyrirtæki eru þar engin undantekning, eins og hrakfallasaga Íbúðalánasjóðs er gott dæmi um. Hætta ber vífilengjum og staðfesta  síðasta söluferli Íslandsbanka og bjóða það, sem eftir er af ríkiseign í bankanum, til sölu. Það er afleitt, að ríkisfyrirtæki séu á samkeppnismarkaði og að ríkissjóður standi fjárhagslega ábyrgur fyrir glappaskotum stjórnmálamanna og ríkisstarfsmanna í bankageiranum. 

Þóra Birna Ingvarsdóttir birti fróðlega baksviðsumfjöllun í Morgunblaðinu 24. október 2022 undir fyrirsögninni: 

"Svarti sauðurinn, Íbúðalánasjóður".

Þar stóð þetta m.a.:

"Árið 2011 beindi eftirlitsstofnun [EFTA] ESA tilmælum að íslenzkum stjórnvöldum, þar sem lánsfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs samrýmdist ekki reglum EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð á samkeppnismarkaði.  Í tilmælunum fólst, að breyta þyrfti lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig, að hann byði ekki lán til kaupa á dýrara húsnæði, takmarka þyrfti lán til leigufélaga og aðgreina þyrfti hina ríkisstyrktu starfsemi frá öðrum þáttum starfseminnar."

EES-samningurinn er ekki alslæmur, því að hann veitir ríkisrekstrarsinnuðum stjórnmálamönnum aðhald, eins og í þessu tilviki, þótt Samkeppniseftirlitið mundi geta tekið í taumana, ef það væri virkt til annars en að þvælast fyrir lúkningu stórsamninga og valda eigendum (hluthöfum) stórtjóni, eins og í tilviki sölu Símans á Mílu.  Þar er ekki hægt að sjá, að nokkurt vit hafi verið í tafaleikjum og kröfum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á sölusamningi, en hluthafar Símans misstu af of mörgum milljörðum ISK vegna óhæfni embættismanna.

Í lokin sagði í téðri baksviðsfrétt:

"Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðsins.  Um er að ræða einfalda ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð.  Í einfaldri ábyrgð felst, að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags. Hefði verið um sjálfskuldarábyrgð að ræða, hefði ábyrgð ríkisins gagnvart kröfuhöfum í megindráttum verið sú sama og ábyrgð sjóðsins.

Til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda [hans] þarf ríkissjóður að leggja til um mrdISK 450 eða um mrdISK 200 á núvirði.  Ef sjóðnum yrði aftur á móti slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða hans nema mrdISK 47."

Þetta sýnir í hnotskurn, hversu glórulaust fyrirkomulag það var að láta fólk á vegum ríkisins, sem var vitsmunalega og þekkingarlega alls ekki í stakkinn búið til að móta og reka fjármálastofnun, bauka við það viðfangsefni með baktryggingu ríkissjóðs Íslands á fjármálagjörningum sínum.  Það á að láta einkaframtakinu þetta eftir á samkeppnismarkaði, þar sem hluthafarnir standa sjálfir fjárhagslega ábyrgir fyrir gjörningunum og veita stjórnendum fyrirtækisins aðhald. Að ímynda sér, að viðvaningar úr stjórnmálastétt og embættismannastétt geti á einhvern hátt staðið betur að þessum málum, er draumsýn, sem fyrir löngu hefur orðið sér til skammar, og almenningur má þá borga brúsann fyrir óhæfnina.  Í þessum sósíalisma felst hvorki skynsemi né réttlæti.   

 

 


Bloggfærslur 4. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband