Oviðunandi ábyrgðarleysi meirihluta borgarstjórnar

Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri var, er, og á að verða happafengur fyrir höfuðborgina og landsmenn alla, sem þó er ekki öllum gefið að bera skynbragð á, eins og meðferð pótintáta Samfylkingarinnar og gjaldþrota vinstri meirihluta hennar á vellinum og öryggismálum hans ber glöggt vitni um. Um þetta má hafa eitt orð: óhæfa. 

Hvers vegna er þessi flugvöllur, öryggi notenda hans og sem hæst nýtingarhlutfall hans hagsmunamál allra landsmanna ? 

 

Í fyrsta lagi þarf ekki að orðlengja samgöngubótina, sem hann veitir þeim, sem þurfa að gegna erindum til höfuðborgar og nágrennis eða þaðan og út á land í yfir 200 km vegfjarlægð, en á vegum landsins er mikil þungaumferð og þung umferð ferðamanna, þeir eru flestir þröngir og mjög misöryggir yfirferðar eftir árstíma. Flugumferðin á að vera öruggari og létta dálítið á þjóðvegunum.

Í öðru lagi veitir nálægð flugvallarins við akkerið í sjúkraþjónustu landsins, Landsspítalann, nánast öllum landsmönnum aukið öryggi, því að öll getum við átt brýnt erindi þangað í neyð, sem dunið getur á fjarri spítalanum.  Um þessar mundir munu um 1000 sjúklingar og slasaðir njóta þjónustu sjúkraflugsins á ári.  Það getur verið, að þyrlupalli verði komið fyrir á Nýja Landsspítalanum, en bæði er hann dýr og notkun hans hefur í för með sér mikinn hávaða, titring og rykþyrlun í og við byggingar spítalans, sem allt er óheppilegt þar og kann að verða metið sem frágangssök, þegar ákvörðun um þyrlupall þar verður tekin (í ljósi nálægðar við Reykjavíkurflugvöll). 

Í þriðja lagi er hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll gríðarmikilvægt, því að oftast er lendingarhæft í Reykjavík, þótt svo sé ekki á Miðnesheiði, þótt undarlegt kunni að þykja. Ef svo verður þrengt að Reykjavíkurflugvelli, eins og Samfylkingin og meðreiðarsveinar eru að undirbúa með Framsókn í gíslingu með valdalítið borgarstjóraembætti að beitu undir eftirliti tilsjónarmanns með fjármálaóreiðunni, mun nothæfisstuðullinn lækka og hugsanlega svo mikið, að millilandavélar geti ekki reitt sig á hann og verði að hafa um borð meiri eldsneytisforða fyrir vikið.  Slíkt mun hafa í för með sér lakari samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands og hækkun neyzluverðsvísitölunnar. 

Í fjórða lagi verður að hafa í huga aðstöðuna fyrir verklega flugkennslu, sem völlurinn veitir, og aðstöðu fyrir fjölmarga einkaflugmenn, innlenda sen erlenda, sem auðvitað eru háðir nothæfisstuðlinum, eins og aðrir notendur flugvallarins. 

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur kynnt sér málefni þessa fjölmenna vinnustaðar og tekjulindar fyrir sísvangan borgarsjóðinn ítarlega.  Afstaða hennar er, að það sé með öllu óverjandi að rýra öryggi flugvallarins með nokkrum hætti meira en orðið er.  Þá skipta auðvitað umtalaðar mótvægisaðgerðir með óljósa virkni engu máli.  Það er siðferðilega rangt að gera þeim, sem þurfa á flugvellinum að halda, lífið erfiðara og hættulegra, en siðlaus Samfylking virðir allt slíkt að vettugi. 

Þann 6. maí 2023 birtist grein eftir Mörtu í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Skýrsla um flugöryggi".

Þar stóð um afstöðu innviðaráðherrans, sem virðist standa í hrossakaupum við Samfylkinguna um borgarstjórastólinn í skiptum fyrir nýja byggð í Skerjafirði:

"Í Morgunblaðsviðtali við innviðaráðherra sl. laugardag [29.04.2023] segir hann m.a.: "Starfshópurinn telur ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði, en ný byggð kalli á mótvægisaðgerðir."

Þetta er afar villandi túlkun, byggð á tvíræðni.  Skýrslan segir ekkert um það, hvort hætt skuli við byggðina eða ekki.  Orðrétt segir í skýrslunni:

"Ekki er hægt að fullyrða án frekari rannsókna, að byggðin hafi slík áhrif á aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli, að þörf sé á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði."

Þessi yfirlýsing gefur alls ekki grænt ljós á fyrirhugaða íbúðabyggð."

 Dýralæknirinn á stóli innviðaráðherra virðist ekki skilja inntak téðrar skýrslu um öryggismál Vatnsmýrarvallarins, eða hann sveigir túlkun á henni að pólitískum þörfum Framsóknarflokksins, sem gætu hafa myndazt við hrossakaup um borgarstjórastólinn við hina siðlausu Samfylkingu, sem hefur staðið að því að rýra notagildi flugvallarins og þar með öryggi hans. Ályktun skýrsluhöfunda er einfaldlega sú, að rannsóknir skorti til að hægt sé að leyfa ráðagerð borgarstjórnarmeirihlutans um nýja byggð við enda flugbrautar í Skerjafirði.  Það vantar m.ö.o. líkan til að áætla áhrif mismunandi byggingarfyrirkomulags á vindhvirflamyndun og áhrif þeirra á mismunandi flugvélar í mismunandi vindáttum og vindstyrk o.s.frv.

Líkanið getur ekki gefið nákvæma niðurstöðu, en getur veitt vísbendingu um áhrifin á öryggi flugsins og nothæfisstuðul flugvallarins. Sé vísbending um neikvæð áhrif á flugið, er full ástæða fyrir innviðaráðuneytið til að hafna fyrirætlunum borgarinnar um þessar framkvæmdir.  Öryggi flugfarþega og áhafna flugvélanna, sem vilja leggja leið sína um Vatnsmýrarvöllinn, verður að ganga fyrir eða njóta vafans, eins og sumir segja.  Annað viðhorf er siðlaust og forkastanlegt.  Ætlar forysta Framsóknarflokksins að láta Samfylkinguna draga sig ofan í þann fúla pytt ?  Það þarf enga mannvitsbrekku til að sjá í hendi sér, að Framsóknarflokkurinn er að skjóta sig í fótinn (í borginni og á landsvísu) með þessu framferði. 

"Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag [02.05.2023] segir borgarstjóri m.a. um afstöðu skýrsluhöfundanna á kynningarfundi um skýrsluna:

"En þeir voru alveg rólegir með þetta.  Sögðu bara: Já !  Það er ekkert, sem ætti að tefja eða koma í veg fyrir, að þarna yrði byggt."

Þetta er óheyrileg rangfærsla.  Í fyrsta lagi voru fæstir skýrsluhöfundar á téðum kynningarfundi.  Í öðru lagi er lýsing borgarstjóra á afstöðu skýrsluhöfunda ekki í neinu samræmi við innihald skýrslunnar.  Í kafla um helztu niðurstöður skýrslunnar segir:

"Byggð í Nýja Skerjafirði samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi þrengir að starfsemi flugvallarins frá því, sem nú er, breytingar verða á vindafari á flugvellinum og í næsta nágrenni hans, og nothæfi hans skerðist."

Þar segir einnig: "Þar sem meðalvindhraðabreyting fer nú þegar yfir vindhraðamörk, þarf að gæta sérstakrar varúðar við að bæta við fleiri áhættuþáttum svo sem aukinni kviku.  Ljóst er af þeim gögnum og úttektum, sem fyrir liggja, að kvika eykst yfir flugvallarsvæðinu með tilkomu Nýja Skerjafjarðar samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi. Mun ítarlegri greiningu og mælingar vantar til að meta, hve mikil þessi breyting verður." 

Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni.  Sá maður, sem Samfylkingin hefur útnefnt sem sinn æðsta mann í Reykjavík og farið hefur með æðstu völd í Reykjavík í a.m.k. áratug, borgarstjórinn, opinberar hér tregan skilning á viðkvæmu, jafnvel örlagaríku máli (flugöryggi) eða óleyfilega og ósvífnislega umgengni við sannleikann, nema hvort tveggja sé.  Þetta framferði er með öllu óviðunandi, þegar um líf eða dauða getur verið að tefla, og reyndar tortímir hegðun af slíku tagi öllu trausti, sem samferðamenn geta haft á viðkomandi. 

Þannig er nú komið, að Samfylkingin ber ábyrgð á manni, sem beitir rangfærslum til að hafa sitt fram og þar með að auka svo ókyrrð í lofti yfir Reykjavíkurflugvelli, að farþegum og áhöfnum flugvéla, sem nota vilja flugvöllinn, er aukin hætta búin og nothæfisstuðullinn mun vísast lækka.   

 

   

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 2. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband