Lýðveldisdagurinn 2011

Að þessu sinni er þess minnzt á Þjóðhátíðardeginum, að 200 ár eru liðin frá fæðingu þjóðhetjunnar, Jóns Sigurðssonar, forseta Alþingis, að Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Hlutur Jóns í sjálfstæðisbaráttunni við Dani var svo mikill, að fullyrða má, að framlag hans skipti sköpum um þróunina til fullveldis og lýðveldis, eins og hún varð, þó að hún hefði e.t.v. orðið með meiri krókaleiðum seinna án hans.  Í þessu sambandi má þó ekki gleyma forgöngumönnunum, sem skópu frjóan jarðveg, Fjölnismönnum, og öðrum, sem fram úr sköruðu, þ.á.m. Skúla Magnússyni, landfógeta, sem var fyrsti forgöngumaður iðnvæðingar Íslands með Innréttingunum (af þýzka orðinu Einrichtungen).  Allir voru þessir menn afburðamenn 18. og 19. aldar. 

Jón Sigurðsson var einnig mikill hvatamaður framfara og atvinnufrelsis í landinu, og taldi verklegar framfarir og verzlunarfrelsi mundu verða undirstöðu sjálfstæðis landsins.  Þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug, hvar í flokk Jón Sigurðsson mundi skipa sér nú á tímum. Ólíklegt verður að telja, að hann mundi verða upprifinn af hugmyndum nútímans um að binda trúss sitt við nokkuð, sem hæglega getur orðið að risaríki Evrópu, ESB, eins og ráða má af eftirfarandi tilvitnun í ræðu formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á Alþingi nýlega í tilefni afmælisins:

 

„...,þegar Íslendingum bauðst að kjósa fulltrúa á danska þingið og njóta þannig jafnræðis á við danska þegna, hafnaði Jón því alfarið. Það gerði hann meðal annars í þeirri vitneskju, að örfáir þingmenn á þingi, sem átti að stýra öllum löndum dönsku krúnunnar, hefðu lítil áhrif á hagi landsins og slíkir þingmenn yrðu ekki í tengslum við stöðu mála á Íslandi; ekki frekar en þeir embættismenn, sem fóru með málefni landsins á skrifstofu í ráðuneyti fjærri Íslandsströndum."

 

Á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar er vert að huga að hlutskipti æskunnar.  Þar skipta menntamálin sköpum.  Hvernig er búið að æskunni í skólum landsins ?  Athugun á kunnáttunni sýnir því miður, að gæðum kennslunnar er stórlega ábótavant.  Hlustum á málfarið og lítum á ritsmíðarnar.  Hvorugt heldur máli í of mörgum tilvikum.  Framburður er slæmur, orðaforði lítill, allt morar í hortittum og ambögum, og stafsetningin er í molum.  Ekki þarf annað en að líta með öðru auganu á bloggið til að sjá, hvílíkur voði er á ferð.  Margir, sem rembast við að tjá sig á ritvellinum, hafa til þess enga burði og allsendis ófullnægjandi kunnáttu.  Kennslunni hefur stórlega hrakað, frá því að höfundur þessa vefpistils sat við fótskör merkra lærifeðra í Ísaksskóla, Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar (landspróf) og MR.

Nýlega kvörtuðu nemendur opinberlega undan því að fá ekki kennslu í Stjórnarskránni.  Þeir voru þá að afhenda Stjórnlagaráði hugmyndir sínar. Þegar þessi höfundur var í Laugarnesskólanum var kennt þar fagið Félagsfræði, og þar var Stjórnarskráin hluti af námsefninu.  Hinn frábæri kennari, Pálmi Pétursson, hlýddi nemendum yfir hana. 

Handabakavinnubrögð hafa tekið við við skipulagningu námsskráa og skólastarfs, frá því að höfundur var í barnaskóla, gagnfræðaskóla og menntaskóla, og þar til börn hans fetuðu síðan sömu slóð, þ.e. afturför í gæðum kennslunnar hefur aðallega átt sér stað á tímabilinu 1970-1990.

Tungumálakunnáttan er sama markinu brennd.  Stúdentar í raungreinum geta flestir lítið sem ekkert tjáð sig á þýzku eða á öðrum málum en ensku, og geta vart haldið uppi samræðum á ensku.  Þetta er mikil afturför.  Sama má segja um þekkingu á sögu Íslands og mannkynssögu.  Þessi þekking er algerlega í molum hjá mörgum stúdentum.

Hvernig er þá fagþekkingunni háttað ?  Þjóðfélagi okkar ríður á, að skólarnir skili frá sér fólki, sem fullnægir þörfum atvinnulífsins.  Því fer fjarri, að svo sé.  Fjöldi iðnaðarmanna er of lítill, og þekking þeirra er ekki í nógu miklum mæli sniðin við þarfir nútíma athafnalífs.  Vinnubrögð nýsveina eru yfirleitt ekki nógu vönduð, og þeir hafa hlotið ófullnægjandi þekkingu í notkun og bilanagreiningu á iðntölvum, svo að eitthvað sé nefnt.  Skólakerfið er 10-20 árum á eftir tímanum.  Það verður að auka gæði kennslunnar í grunnskólum, á menntaskólastigi og ekki sízt á iðnskólastigi.  Alveg sérstaka rækt þarf að leggja við verknámsbrautir.  Setja þarf fé í að reisa æfingaaðstöðu og tilraunaaðstöðu fyrir fólk í verknámi til sveinsprófs, iðnfræði, tæknifræði og verkfræði.  Verklegri þjálfun allra þessara hópa er áfátt, ekki sízt verkfræðinga í samanburði við starfsbræður þeirra erlendis, og slíkt er hneisa fyrir þjóðfélag, sem ætlar að verða öflugt, útflutningsdrifið framleiðsluþjóðfélag.  

Það verður að auka sjálfstæði skólanna í stað þess að drepa þá í dróma samræmingar og miðstýringar.  Þannig myndast samkeppni á milli þeirra.  Rekstrarform skólanna þarf að vera mismunandi, t.d. sjálfseignarstofnanir og einkaskólar auk skóla í eigu sveitarfélaga og ríkis.  Þeir eiga að keppa um nemendur og keppa um að skila frá sér nemendum sem hæfustum fyrir næsta skólastig fyrir ofan og/eða atvinnulífið.  Gæði menntunar skiptir sköpum fyrir hagfellda þróun þjóðfélagsins og samkeppnistyrk. 

Hvernig er atvinnulífið í stakk búið að taka við nemendunum ?  Því miður er nú við völd ríkisstjórn, sem lætur hvert tækifærið af öðru á sviði framfara framhjá sér fara.  Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur glutrað niður jafnmörgum tækifærum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þótt valdaferillinn sé skammur.  Þar sem þetta er ekki einvörðungu klaufaskapur, heldur meðvitað háttarlag, verður að kalla þessa ríkisstjórn afturhaldsstjórn.  Af glötuðum tækifærum um sinn má nefna einkasjúkrahús á Miðnesheiði í húsnæði reist af Bandaríkjaher, gagnaver á svipuðum slóðum, álver þar skammt frá við Helguvík sem og á Bakka við Skjálfanda, milljarðafjárfestingar í sjávarútvegi, sem útgerðarmenn hafa frestað vegna vingulslegs tals stjórnvalda og frumvarps um þjóðnýtingu í greininni og nú síðast lagasetningar, sem grefur undan aflahlutdeildarkerfinu.  Sams konar tal var reyndar haft uppi um orkuiðnaðinn og virkar mjög fælandi á fjárfesta.  Skattastefna stjórnvalda hefur og gert illt verra og kæft athafnalífið og einkaneyzluna.  Allt eru þetta sjálfskaparvíti fólks, sem heltekið er af stjórnmálalegum kreddum, en hefur engan gáning á hagsmunum athafnalífsins.  

Af þessum sökum er mikill hörgull á boðlegum tækifærum fyrir æskuna, þegar hún kemur út úr íslenzka skólakerfinu, enda er geigvænlegt, e.t.v. 20 %, atvinnuleysi á meðal ungs fólks á bilinu 18-29 ára.  Þetta er sjálfskaparvíti þröngsýnna, einstrengingslegra og fákænna stjórnvalda, sem fyrir slysni skolaði hér á valdastólana eftir Hrunið, en verða senn send á ruslahauga sögunnar, ef forsjónin lofar.  

Alls staðar í Evrópu eiga jafnaðarmenn og sameignarsinnar undir högg að sækja.  Öllum kosningum eftir Hrunið hafa þeir tapað, nema á Íslandi.  Líklegt má heita, að repúblikanar (lýðveldissinnar) hreppi Hvíta húsið í BNA í næstu forsetakosningum þar m.v. ástandið í hagkerfi BNA núna og mikið atvinnuleysi. Það er þó að sumu leyti skárra en í ESB.

Ástæðan fyrir óförum félagshyggjunnar er einföld.  Það liggur í augum uppi, að vinstri úrræðin duga ekki, þegar á herðir.  Á meðan allt leikur í lyndi og hægt er að slá lán fyrir sukki og óráðsíu í opinberum rekstri, sem jafnan fylgir stjórnmálaflokkum vinstra megin við miðju í ríkisstjórn, hanga lýðskrumarar og loddarar við völd á kostnað komandi kynslóða.

Í höfuðvígi jafnaðarmanna, Svíþjóð, var þeim ekki hleypt í valdastólana í síðustu kosningum til Riksdagen, en í Noregi er að vísu enn við völd ríkisstjórn með sama flokkamynztri og hér, en það er einvörðungu vegna olíusjóðsins, sem ríkisstjórnin sáldrar úr og smyr opinberan rekstur með.  Í Noregi er hlutur hins opinbera orðinn geigvænlega stór hluti þjóðarkökunnar, og það eru ótrúlega fáir í einkageiranum, sem halda þjóðfélaginu uppi.  Sagt er, að alls kyns bætur úr opinberum sjóðum standi undir fylgi félagshyggjuflokkanna. Það eru ær og kýr vinstri manna að taka úr einum vasa til að setja í annan, jafnvel vasa sömu persónunnar.  Þetta felur í sér rýrnun verðmæta og sóun.

Þrátt fyrir tímabundna velferð í Noregi, er norska þjóðfélagið ósjálfbært.  Norðmenn lifa nú á kostnað komandi kynslóða í boði lýðskrumara og loddara.  Hið norræna velferðarkerfi á að verða okkur víti til varnaðar.

Hvað er til ráða á Íslandi ?  Það hafa tapazt um 30 000 störf á Íslandi frá Hruni, sem þýðir, að nýting athafnalífsins er aðeins um 85 % um þessar mundir.  Þetta er meiri sóun auðlinda en við höfum ráð á og með svo lágri nýtni nær hagkerfið sér ekki á strik.  Ráðið við þessu eru mjög auknar fjárfestingar, enda eru þær mjög litlar og minnkandi nú.  Núverandi ríkisstjórn hefur engin áform um neitt slíkt og engan áhuga, nema síður sé; hún þvælist endalaust fyrir.  Það er nákvæmlega sama staðan hér og annars staðar í Evrópu að þessu leyti; félagshyggjuflokkarnir duga ekki til stórræða.  Þeir hugsa mest um skiptingu auðsins, en minna um sköpun hans.  Þegar öllu skiptir að stækka þjóðarkökuna, eyðir félagshyggjan tímanum í eitthvað annað, oftast er það kostnaðaraukandi í stað tekjuaukandi, og stjórnin skilar þess vegna í raun auðu við úrlausn á vandamálum samfélagsins í bráð og lengd.  

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur valdið stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum.  Flokkarnir halda hvor öðrum í heljargreipum, og hrossakaupin sjúga merginn úr beinum beggja flokka.  Samfylkingin fékk leyfi til að sækja um aðild að ESB.  Áhugi Samfylkingarinnar á inngöngu Íslands í ESB er þó torskiljanlegur, því að hún virðist standa langt til vinstri við stefnu framkvæmdastjórnar ESB á flestum sviðum. 

Umsókn og aðlögun var of mikil fórn á grunngildum VG, enda troðið ofan í kokið á flokksmönnum af valdasjúkum formanninum.  Í staðinn fékk VG þó stöðvunarvald á öllum stórframkvæmdum, sem ríkið átti nokkurn kost á að stöðva.  Þetta veldur krötum miklum áhyggjum, og í heild er þessi samsuða banvæn fyrir flokkana, sem að ríkisstjórninni standa.  Það er bara tímaspurning, hvenær upp úr sýður, og annað þessara atriða mun valda stjórnaslitum áður en kjörtímabilið verður á enda runnið. 

Þá mun margur anda léttar, og þá þarf heldur betur að taka til hendinni í viðreisn á öllum sviðum.  Það er skylda borgaralegu flokkanna að búa sig vel og vandlega undir valdatökuna, kynna almenningi markmið sín og leiðir að þeim, og hrinda strax eftir stjórnarmyndun af stað aðgerðum til að ná settum markmiðum.  Öll markmið ættu að stuðla að aðalstefnumiðinu, að Ísland verði í hópi þriggja landa með beztu lífskjörin í Evrópu árið 2020. Minna sættum við okkur ekki við.  Ljúfan lýðveldisdag ! 

Jón Sigurðsson, forseti   

 

  

 

 

 

 

  

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Góðan dag! Er ekki kvillanum lesblindu  (dislexíu),að einhverju leiti um að  kenna lélegri rettritun.Alla vega er tekið tillit til þeirra og prófblöð merkt þeim,sem þreyta próf í H.Í. Er nokkur metnaður í menntamálaráðuneitinu að örva kennslu í Íslensku? Svona þunglyndisleg athugasemd,á þessum verstu tímum.M.b.kv.

Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2011 kl. 02:47

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Það eru ýmsar ástæður fyrir því, að bóknám hentar ekki öllum, og þú nefnir eina þeirra.  Löngum hefur verið vitað, að vel greindu fólki getur sótzt bóknám seint.  Hæfileikarnir eru á mismunandi sviðum, og mannleg greind er flokkuð í eina tíu þætti.  Því miður var hæfileikafólk dæmt úr leik áður fyrr, og e.t.v. enn, vegna vanmáttar skólakerfisins við að greina orsakir vanda nemenda við bóknámið.  Það er skylda nútíma skólakerfis að kenna fólki að greina styrk sinn og veikleika.  Þáttur í því á að vera að hefja verknámið til vegs og virðingar, því að öll sköpun er þjóðfélaginu verðmæt; ekki síður fagur gripur en vel skrifuð bók. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 18.6.2011 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband