Hvað er róttækni ?

Eftir að hinn vitiborni maður (homo sapiens) tók sér fasta bólfestu og hóf að yrkja jörðina í stað þess að vera á faraldsfæti í leit að veiðibráð, leið ekki á löngu, unz klíkur mynduðust og hrifsuðu til sín völdin í samfélögunum.  Kaupin gerðust þannig á eyrinni í 8000 ár þar til borgarastríðinu á Englandi lyktaði með sigri Cromwells og þingsins um 1662 og bylting varð í Frakklandi 1789.

Áður hafði aðallinn ráðið lögum og lofum í Evrópu, og honum tókst reyndar lengi vel að klóra í bakkann eftir téðar byltingar.  Á Íslandi réðu landeigendur lögum og lofum.  Höfðingjar, kirkjan og kóngurinn, áttu nærri allar jarðir á Íslandi, en ábúendur voru leiguliðar.  Lýðurinn var skattpíndur og haldið í átthagafjötrum og í fjötrum fáfræði.  Hann var nánast réttlaus, en landeigendurnir réðu ráðum sínum á Alþingi og settu þar lög til að tryggja valdastöðu sína. Þetta var framhald á goðakerfi sögualdar.  Bjó almenningur á Íslandi við verstu kúgun og réttindaleysi, sem jaðrar við þrælahald, allt fram á 20. öld. 

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið, og valdið hefur að forminu til færzt til almennings, en því fer þó fjarri, að stjórnað sé með hagsmuni hans fyrir augum. Um þverbak hefur keyrt undir valdstjórn svo kallaðra vinstri flokka, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda forræðishyggjan þeim runnin í merg og bein. Þarna situr í raun lítil, þröngsýn og fáfróð klíka á valdastólunum, sem á enga samleið með almenningi í lífsbaráttu hans.

Aldrei hafa hagsmunir almennings verið jafnheiftarlega fyrir borð bornir og í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Nægir þar að nefna Icesave og starfaeyðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í garð athafnalífsins, sem ber hagsmuni hins vinnandi manns gjörsamlega fyrir borð. Það var kominn tími til þess, að almenningur sæi svart á hvítu, hverjir fórna hagsmunum hans purkunarlaust á altari Evrópustefnu og sérvizku um málefni ríkisbúskapar og náttúruverndar.  Nú hefur afturhaldið kastað grímunni.  Segja má, að miðaldasvartnætti sé við lýði hjá valdstjórninni og almenningur sé leiksoppur tilraunastarfsemi um andvana félagshyggju í ríkisbúskapi og atvinnumálum.  Þetta sama lið vinnur síðan að því að flytja úrslitavald um málefni lands og þjóðar til nýs stórríkis í Evrópu, sem þegar er á fallanda fæti.  "Ekkert er nýtt undir sólunni."   

Umbætur á Stjórnarskrá þurfa að hafa að meginmarkmiði að færa enn meiri völd til almennings, t.d. með því að færa almenningi rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál, sem á döfinni eru.  Almenningur ætti og að fá rétt til að setja forseta lýðveldisins og ríkisstjórn af með því að krefjast nýrra forsetakosninga og Alþingiskosninga.

Verkalýðsflokkarnir, svo kölluðu, ráku upphaf sitt til kenninga Karls Marx og Friedrichs Engels og til rússnesku byltingarinnar og byltingarforingjans, Vladimirs Lenins.  Það kom hins vegar strax í ljós árið 1917, að byltingin át börnin sín. Stjórnkerfi kommúnismans byggir upp nýja, gjörspillta valdaklíku.  Hér var um að ræða rétt eina valdaklíkuna gegn hagsmunum almennings, en þessi var reist á lygum, hræsni og loddarahætti.  Valdaklíkan var með hagsmuni öreiganna á vörunum, en stjórnarhættirnir voru algerlega ólýðræðislegir og leiddu ekki til kjarabóta almennings.  Þvert á móti var skapað hagkerfi fátæktar.  Almenningi var beitt fyrir vagn einræðisins. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er af þessum meiði, þó að hún geri sig ekki seka um blóðsúthellingar.  Ef sama fólk fær völdin að afloknum næstu Alþingiskosningum, verður hagkerfi landsins lagt í rúst.   

Vægari útgáfa alræðis öreiganna var mótuð, þegar hryllingur stjórnarhátta Jósefs Stalíns varð ljós.  Þá var svo kölluð jafnaðarstefna mótuð.  Hugmyndafræðin um, að stjórnmálaflokkur verkalýðsstéttarinnar ætti að móta samfélagsgerðina með ríkisafskiptum á öllum sviðum þjóðfélagsins og hárri skattheimtu af borgarastéttinni, hefur algerlega gengið sér húðar.  Þetta var "kratisminn" eða "socialdemocracy".  Hann lenti í blindgötu stöðnunar hagkerfisins og ægilegri skuldabyrði almennings, sveitarfélaga og ríkissjóðs. Þetta er kjarninn í vandamálum Evrópu þessi misserin, og þessi lýsing á vissulega við um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Evran hefur magnað vandamál Evrópu, en hún er ekki orsök vandans.  Rætur vandans liggja í stjórnkerfi Evrópu, sem leitt hefur til gríðarlegrar skuldsetningar ríkja, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.  

Við þjóðargjaldþroti lá í Svíþjóð áður en borgaralegu flokkarnir komust til valda 2006 og sneru af ógæfubrautinni.  Þetta er í raun og veru vandi langflestra Evrópuríkjanna nú um stundir, þó að evrunni sé um kennt, ekki alveg þó að ósekju.  Hún hefur flýtt fyrir því, að þjóðirnar kæmust fram á bjargbrúnina.  Evrópsk þjóðfélög eru flest mjög ósveigjanleg og niður njörvuð í reglugerðafargan og frelsissviptingu athafnalífsins í anda jafnaðarmanna, sem leitt hefur til gríðarlega hás launakostnaðar og geigvænlegs atvinnuleysis.  Þjóðirnar eru af þessum sökum ekki lengur samkeppnihæfar, nema Þjóðverjar, sem tóku sér taki eftir hagbóluna, sem varð í kjölfar endursameiningar Þýzkalands og óhemjulegra fjárfestinga í Austur-Þýzkalandi (mia EUR 2000).  Þeir tröllríða nú hagkerfum hinna evrulandanna, sem mega sín einskis, og munu senn neita þeim um frekari fjárhagsstuðning, enda hafa þeir ekki lengur efni á honum. Hallinn á ríkisbúskap Þýzkalands er árið 2012 EUR 35 milljarðar (mia EUR 35), og stefnir í, að þeir taki á sig skuldbindingar að upphæð mia EUR 300. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands mun í septembar 2012 kveða upp úr um, hvort slíkt samrýmist stjórnarskrá Sambandslýðveldisins.  Af þessum sökum fer lánshæfismat þýzka ríkisins lækkandi.  Vonandi rís fuglinn Fönix upp úr öskuhrúgu hagkerfa Evrópu og svífur um án ægivalds sérhagsmunanna, en í byr raunverulegs frelsis og valds almennings.  Það getur þó aðeins orðið við valddreifingu og án miðstýringar frá Brüssel eða Berlín.  

Stjórnmál samtímans ættu að snúast um að finna fyrirkomulag, sem hámarkar lífsgæði almennings. Slíkt fyrirkomulag er órjúfanlega tengt stjórnkerfisumbótum, sem færir almenningi völd til að stöðva "elítuna", þegar "hugsjónir" hennar leiða hana á villigötur stórveldisóra eða annarra óra, sem ganga þvert gegn hagsmunum og óskum almennings í bráð og lengd. Auka ber verðmætasköpun með sjálfbærum hætti með því að nýta beztu fáanlegu tækni og dreifa auðnum til þeirra, sem skapa hann, án milligöngu opinberra aðila.  Þannig verður hagsmunum afkomenda okkar bezt borgið.       

  Stefán Eyjólfsson-Bjarni Jónsson-Auður Eyjólfsdóttir      

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband