Mengunartilræði

Föstudagsmorguninn 1. nóvember 2013 máttu þeir, sem þá dvöldu í lögsögu Hafnarfjarðarbæjar vegna búsetu sinnar, vinnu eða annars, upplifa um öndunarfæri sín vanlíðan vegna alvarlegs mengunartilræðis í boði vinstri-grænna og Umhverfisstofnunar.

Það er varla rétt að kalla þetta mengunarslys, nema að taka þá fram, að um var að ræða stýrt ferli af viðkomandi yfirvöldum, sem höfðu atburðarásina í hendi sér, þar sem bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, hvar bæjarstjórinn er vinstri-grænn,  Umhverfisstofnun o.fl., heimiluðu drátt Þórs á Fernöndu inn í Hafnarfjarðarhöfn.

Umhverfisstofnun hlýtur að hafa efnagreint reykinn áður en hún mælti með þessari leyfisveitingu við hafnaryfirvöld og bæjarstjórann.  Annað væri algerlega óábyrgt af henni og óábyrg stjórnsýsla af hinum vinstri-græna bæjarstjóra að heimila komu eiturspúandi rússneskrar fleytu inn að þéttbýli Hafnarfjarðar.  Þeir, sem upplifðu fnyk þennan, hafa fulla ástæðu til að halda, að þar hafi verið um að ræða í meira lagi óheilnæmar lofttegundir, og kemur krabbameinsvaldurinn díoxín fljótlega upp í hugann í því sambandi, því að sá vágestur myndast einmitt við ófullkominn efnabruna, eins og þarna átti sér stað.

Bæjaryfirvöldin í Hafnarfirði skulda öllum, sem urðu fyrir þessari skaðvænlegu mengun í boði Umhverfisstofnunar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en bæjarstjórinn er fulltrúi hennar, afsökunarbeiðni með skýringum á því, hvers vegna í ósköpunum ákvörðun var tekin um að slökkva eldinn í Hafnarfjarðarhöfn án þess að nokkur færi fyrst um borð til að rannsaka þar aðstæður.  Ef ekki er reykköfunarbúnaður um borð í varðskipinu Þór, var t.d. hægt að láta slökkviliðsmann í slíkum búningi síga um borð í Fernöndu úr þyrlu eða að senda þyrlu til Þórs með mann og slíkan reykköfunarbúning og síðan sigla á báti að Fernöndu.  Fyrst hefði þó orðið að hitamæla Fernöndu með innrauðu hitamælitæki, sem áreiðanlega er um borð í Þór.    

Í þessu máli eru yfirvöld rétt einu sinni orðin uppvís að alvarlegu glappaskoti, þar sem líf og heilsa almennings var með kæruleysislegum hætti sett í uppnám algerlega að þarflausu.  Yfirvöldin höfðu öll tól og tæki í höndunum til að lágmarka áhættuna af Fernöndu með því að taka upplýsta ákvörðun, en það var gösslazt áfram án snefils af áhættugreiningu, að því, er virðist, og hagur almennings látinn sigla sinn sjó.  Hvílíkt fúsk !

Þetta er rétt einn áfellisdómurinn yfir bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði varðandi umgengni þeirra við hættu, sem heilsu almennings getur verið búin vegna aðskotaefna, eins og lesa má um í næstu grein á undan þessari ádrepu hér á vefsíðunni, "Mengunarváboðar". 

 Málatilbúnaður Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í þeim viðkvæmu málaflokkum, sem snúa að almannaheilsu til skamms og langs tíma, sýnir, að þessum stjórnmálahreyfingum er engan veginn treystandi til að fara með stjórnunarhlutverk í umboði almennings.  Öll stóryrði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um mengunarvarnir í þágu lýðheilsu er einvörðungu í nösunum á þeim.  Vinstri-grænir meina ekkert með þeim annað en að ná frama í stjórnmálum.  Náttúran verður að njóta vafans er innantómt slagorð.  Slíka má kalla loddara að ósekju.    

 Logandi heit Fernanda í drætti  

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

það eru nefndir og ráð og fulltrúar og allskonar fólk á launum- sem kann ekkert- veit ekkert- gerir ekkert- mun að lokum valda alvarlegum vandræðum vegna þess að' það er ráðið í vinnu vegna pólitiskra tengsla- og engrar kunnáttu !

Erla Magna Alexandersdóttir, 2.11.2013 kl. 18:48

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Erla Magna;

Það er erfitt að mótmæla því, að afætur hafa raðað sér við kjötkatlana án þess að afla nokkurs í búið.  Það sést af "verkunum" og yfirklórinu í kjölfarið.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 2.11.2013 kl. 20:41

3 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Nú sér maður hverskonar snilling þú hefur að geyma

Af hverju varst þú ekki við stjórnun og ákvarðanatöku í þessum aðgerðum, allavega virðist á skrifum þínum að þú einn vitir nákvæmlega hvað átti að gera, og fara hefði átt eftir þínum skipunum í einu og öllu...

Með kveðju

Kaldi

PS

er menntaður í stjórnun neyðaraðgerða

Ólafur Björn Ólafsson, 3.11.2013 kl. 10:00

4 Smámynd: Snorri Hansson

Það var stefnt að því að ná olíunni úr skipinu. Skipið var ofsalega heitt. Eldurinn var að því virtist mestu slökktur og þá var rökrétt að koma skipinu þar sem stórt slökkvilið gat athafnað sig  frá landi til að kæla það og slökkva það sem efir var. Vindurinn var vestanstæður sem var afar slæmt.

 Ég tel að ákvarðanataka eigi í öllum slíkum tilfellum að vera frá upphafi til enda hjá skipherra varðskipssins. Hann getur ráðfært sig við Yfirmenn landhelgisgæslu og slökkvilið.

 Allar aðrar stofnanir eiga að halda sér saman, nema skipherra vilji tala við þá að fyrra bragði.

Það er engin leið að gagnrýna slökkvistarfið . Skipið var glóandi heitt og því fór sem fór.

Það sem uppúr stendur er það að við eigum varðskip sem er eðalgripur.   

Snorri Hansson, 3.11.2013 kl. 10:40

5 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Samkvæmt umræðunni varðandi þetta mál þá lítur útfyrir að snjallast sé að lát brennandi skip í friði og lofa þeim að reka þangað sem fara vill. 

Annað sé ávísun á ónot og niðurlægingu.

Hrólfur Þ Hraundal, 3.11.2013 kl. 12:53

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ólafur Björn Ólafsson:

Það er ekki vel fallið til stjórnunar neyðaraðgerða að misskilja og/eða rangtúlka skilaboðin jafnherfilega og þú gerir hér að ofan.

Bjarni Jónsson, 3.11.2013 kl. 14:09

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er röng ályktun hjá þér, Hrólfur Hraundal.

Öllum ber skylda til að bjarga, og Landhelgisgæzlunni ber skylda til að draga úr mengunarvá og slysahættu, eins og kostur.  Öll skip eru tryggð, svo að hafast ætti upp í kostnað.  Þetta er ekki fyrsta skipið, sem kviknar í úti á rúmsjó.  Hegðun elds í skipum er vel þekkt.  Ekkert þurfti að koma á óvart við það, sem gerðist í Hafnarfirði.  Þess vegna er gagnrýnivert, hvernig staðið var að málum í ljósi hættu á almannavá vegna hættulegra lofttegunda, sem var fyrir hendi.

Bjarni Jónsson, 3.11.2013 kl. 19:02

8 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Skilningur felst í því sem sést ekki því sem þú hugsar...

Ólafur Björn Ólafsson, 3.11.2013 kl. 22:30

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jæja, ekki er ein báran stök.  Nú er komið í ljós, að orðræðan um "neyðarhöfn" fyrir Fernöndu í Hafnarfirði var úr lausu lofti gripin.  Skilgreining nokkurra hafna sem neyðarhafna er enn á hugmyndastigi, og er þar sleifarlagi vinstri stjórnarinnar rétt lýst, því að tillögurnar komu fram árið 2008, og aldrei hefur verið gerð tillaga um neyðarhöfn í Hafnarfirði fyrir brennandi skip.  Enginn tók í taumana til að koma í veg fyrir þessa bölvuðu vitleysu fyrr en SLH gafst upp á slökkvistarfinu.  Silkihúfurnar verða sér hvað eftir annað til skammar.  Hvar er "gegnsæ stjórnsýsla" ?  Það þarf að skýra aðkomu bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og annarra opinberra aðila, sem afskipti höfðu af ákvarðanatöku í þessu skrýtna máli.

Bjarni Jónsson, 5.11.2013 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband