Um ávörp við áramótin 2013/2014

Við hæfi er að staldra fyrst við ávarp forseta lýðveldisins.  Athygli vakti, hversu mikla áherzlu forsetinn lagði á sáttfýsi í samfélaginu, og það er óhætt að taka undir með honum um það.

Lagður hefur verið sáttagrunnur með skuldaleiðréttingu, endurreisn sjúkrakerfisins úr öskustó vinstra afturhaldsins, skattkerfisbreytingum og stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Stjórnarskráarmálið hefur verið tekið úr átakafarvegi og sett í samráðsferli, og kveikjan í eldfimasta átakamáli landsins, umsókninni um aðildina að Evrópusambandinu, ESB, hefur verið aftengd.  Það er nú þegar búið að söðla um, hverfa frá stöðugu róti og stríðsyfirlýsingum afturhaldsaflanna, til friðsamlegrar vinnu við að leggja hornsteina að framtíð Íslands með blóm í haga.

Öfugsnúnir sagnfræðingar, sem aldrei mega skynja þjóðerniskennd í loftinu án þess að fara að gjamma, t.d. um að sátt, einurð og samkennd þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttu hennar hafi verið goðsögn, eru eins fyrirsjáanlegir og ófrumlegir í málflutningi sínum og mest getur verið.  Allir vita, að allt orkar tvímælis þá gert er, en þegar meira en 80 % samstaða næst um niðurstöðuna, þó að eftir á sé, þá er hægt að tala um eindrægni og almenna samstöðu, jafnvel þjóðfélagslega sátt.  Öfugsnúnir sagnfræðingar munu ekki rita söguna.   

Landsmenn eru nú lausir við dæmalausa illindaríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og það er mikill léttir.  Það verður að segja eins og er, að það er líka óumræðilegur léttir að hafa nú fengið ferskan mann í forsætisráðherrastólinn, sem setur þjóðarhag ofar hag hagsmunaafla í Berlaymont og vitnar í Einar Benediktsson, skáldjöfur, en fer ekki með fleipur um fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, forseta.  Eru brýningar Einars Benediktssonar í ódauðlegum kvæðum sínum og skáldskap til Íslendinga um að hefja mikla framfarasókn, sem því miður varð minna úr þá en efni stóðu til, kannski goðsögn ?  Nei, þær standa þarna, svart á hvítu.

Pistilhöfundur er hins vegar ekki með jafnhástemmdar hugmyndir um norðurslóðahlutverk Íslendinga og Bessastaðabóndinn.  Líklegast er, að ekkert verði úr hugmyndum um olíudælingu upp úr hafsbotni Drekasvæðis; ekki þó vegna þess, að olía finnist þar ekki.  Til þess standa meira en 50 % líkur, heldur vegna þess, að vinnslan verður mun dýrari en markaðsverðið mun ráða við.  Kostnaðurinn verður yfir 100 USD/tunnu, en markaðsverðið er þegar komið undir þennan kostnað, og vegna ofgnóttar á setlagagasi og sandsteinsolíu og bættrar orkunýtni á öllum sviðum mun markaðsverð olíu hrynja, e.t.v. niður í 60 USD/tunnu, ef marka má verðþróun, sem þegar er orðin í  Bandaríkjunum (BNA).

Það er auðvitað gott og blessað, ef Bremerhaven-hafnir vill byggja risahöfn í Finnafirði eða menn sjá viðskiptatækifæri með sköpun þjónustuaðstöðu á Dysnesi fyrir auðlindavinnslu á og við Grænland.  Íslenzk stjórnvöld og íslenzk fyrirtæki ættu í meira mæli að leita hófanna á Grænlandi.  Grænlendingar eru áfram um að fá nágranna sína til samstarfs og hafa þar með sterkari spil á hendinni gagnvart Dönum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum, sem allir hyggja gott til glóðarinnar. 

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna rituðu áramótaávörp í Morgunblaðið.  Þar bar af ávarp fjármála- og efnahagsráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins.  Það var vel og skipulega upp sett og afar fróðlegt aflestrar.  Er alveg ljóst, að Laugarvatnsstjórnin leggur nú með skipulegum hætti traustan grunn að framtíðinni.  Aðhald og ráðdeild í dag jafngildir kjarabótum á morgun.  Ekkert er mikilvægara en efnahagslegur stöðugleiki við núverandi aðstæður fyrir hagkerfið.  Fórn verkalýðsfélaga, ríkisstjórnar og vinnuveitenda nú mun koma fram síðar sem margfaldur ávinningur fyrir allt hagkerfið, ekki sízt mun hún skila sér sem auknar ráðstöfunartekjur í vasa almennings.  

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nefndi, að lægstu laun væru of lág, en hann bætti við, að laun miðstéttarinnar þyrftu öll að hækka.  Það er rétt hjá honum í nafni samkeppnihæfni landsins um vinnuafl, en slíkt fæst ekki með hærri prósentum á blaði í kjarasamningum án þess að framleiðniaukning og tekjuaukning þjóðarbúsins búi að baki. Slíkt er langtímaverkefni.  Verkalýðshreyfingin ætlar að þessu sinni ekki að míga í skóinn sinn, enda hávetur, og slíkt stórhættulegt í frosti.  Viðskiptakjör landsins eru slæm um þessar mundir vegna tímabundinnar lækkunar á afurðaverði, t.d. fiski og áli.

Hegðun fáeinna verkalýðsforkólfa, sem voru viðstaddir samningana, en neituðu að skrifa undir þá, minnir mest á Björn að baki Kára í Njálu.  Téður Björn var á vettvangi, er bardaginn fór fram, en hann var þar vita gagnslaus.  Heim kominn var hann hins vegar mikill á lofti og tíundaði afrek sín, sem öll voru orðum aukin.  Hegðun téðra verkalýðsforkólfa á Akranesi og Húsavík er þess vegna ekki ný af nálinni, og hún er ekki stórmannleg, enda munu þeir ekkert annað upp skera en skömmina.    

Ávarp formanns Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu á gamlaársdag var slæm grautargerð og viðbrunnin.  Hann var í ríkisstjórn, sem rótaði mikið, og nú stunda ráðherrar vinstri stjórnarinnar þann leik helztan að róta yfir skítinn úr sjálfum sér.  Aðferðin, sem notuð er, er að endurskrifa söguna í bókarformi, og liggja þá staðreyndir máls óbættar hjá garði, enda virðist jafnaðarmönnum oft vera sýnna um gerviveröld hugmyndafræði sinnar en raunheima almennings í landinu.

Vinstri menn gerðu atlögu að bezt reknu atvinnugrein landsins, sjávarútveginum, og gerðu tilraun til að brjóta hann á bak aftur, af því að þar var góður rekstrarárangur einkaframtaksins auðsær.  Hverjar urðu afleiðingar ofurskattlagningarinnar þar ?  Lítil fyrirtæki lögðu upp laupana og gengu inn í hin stærri.  

Nú er verið að selja 4 frystitogara úr landi, af því að rekstur þeirra stendur ekki undir svimandi háum veiðigjöldum auk annars kostnaðar.  Vinnslan flyzt í land, af því að þar er nýrri tækni beitt við vinnsluna, sem skilar betri nýtni og meiri gæðum, en það er ekki hægt að horfa fram hjá því, að þar eru líka lægri laun. 

Sjávarútvegurinn hefur greitt hæstu laun á Íslandi.  Hásetahlutur upp á MISK 20 á ári, þar sem tvær áhafnir skiptast á, er ekki óalgengur.  Hér er auðvitað í hæsta máta afkastahvetjandi launakerfi á ferðinni, sem hefur skilað hæstu framleiðni í heimi.  Þetta kerfi vilja vinstri mennirnir feigt.  Allt skal draga niður í svaðið og stunda síðan millifærslur á báða bóga úr ríkiskassanum.  Þetta er vinstri mennskan í hnotskurn. 

Það, sem einkenndi grautargerð Árna Páls um áramótin, var einkennileg sjálfsgagnrýni og gagnrýni á fyrri ríkisstjórn, sem hann sat í sjálfur.  Dæmi:

"Það eru bara tvær leiðir.  Leið aukinnar verðmætasóknar og leið kyrrstöðunnar.  Því miður hefur ný ríkisstjórn náð saman um hina seinni, þegar þjóðin þarfnast helzt hinnar fyrri."

Augljóslega er miklu fremur hægt að kenna Jóhönnustjórnina við kyrrstöðu en Laugarvatnsstjórnina.  Sú fyrrnefnda keyrði niður fjárfestingar og einkaneyzlu með ofurskattlagningu, en sú síðarnefnda er að koma hjólum atvinnulífsins smám saman af stað með því að lækka skattbyrði á fyrirtæki og einstaklinga.  Með því er ríkissjóður ekki að sleppa hendinni af einhverju, sem honum réttilega ber að hirða, eins og vinstri menn halda fram, heldur er verið að draga úr aðgangshörku hans, svo að hann láti ekki greipar sópa um eigur almennings og aflafé í alveg jafnríkum mæli og áður.  Þetta hefur þegar leitt til aukinna fjárfestinga og hagvaxtar.  Við það munu skattstofnar fitna, en ekki dragast upp, eins og undir vinsti stjórninni.  Hagkenningar hægri manna eru eitur í beinum vinstri manna, en þær sönnuðu sig á vinstri stjórnar tímabilinu, og þær eru þegar farnar að sanna sig á nýju kjörtímabili.  Megi eyðumerkurgöngu vinstri manna aldrei linna.

Þessar ranghugmyndir vinstri manna komu vel fram í áramótagrein Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Morgunblaðinu 31. desember 2013.  Þar skrifaði hún m.a. af alkunnu lítillæti:

"Hin unga ríkisstjórn hefur hins vegar ekki beinlínis verið boðberi nýrra tíma.  Átök þessa árs frá og með kosningum hafa fyrst og fremst snúizt um afturhvarf til gamalla stjórnarhátta veltiáranna fyrir hrun.  Þau hófust strax á sumarþingi, þegar ný ríkisstjórn lækkaði sérstök veiðigjöld á útgerðarfyrirtæki, sem lögð voru á umframhagnað þessara fyrirtækja.  Þar með afsöluðu stjórnvöld almenningi árlegum tekjum upp á tæplega sex og hálfan milljarð af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar."

Hér er öllu snúið á haus af stjórnmálamanni, sem föst er í klakabrynju kommúnismans.  Hún sakar unga stjórnmálamenn, sem fitjað hafa upp á algerum nýjungum í stjórnmálum, t.d. skuldaleiðréttingunni, sem Katrín var of mikil heybrók gagnvart fésýsluauðvaldinu til að reyna, um að vera fasta í fortíðinni.  Um þetta má segja, að margur heldur mig sig. 

Þá fer hún rangt með, þegar hún reynir að skýra út álagningu ofurskattlagningar sinnar og Steingríms á útgerðina.  Því fer fjarri, að skattstofninn hafi verið "umframhagnaður" útgerðar.  Skattstofninn var algert einsdæmi, tók út yfir allan þjófabálk, svo ómálaefnaleg og fjarri meðalhófi, sem þessi skattheimta var.  Þau notuðu framlegð fyrirtækjanna, sem sennilega er ólöglegt, því að framlegðin er það, sem þau hafa upp í fastan kostnað, þegar breytilegi kostnaðurinn hefur verið greiddur.  Slík skattheimta er tilræði við fyrirtækin og má jafna við þjóðnýtingu í fáeinum skrefum.  Skrefin hefðu orðið 1-5 talsins, háð fjárhagslegum og eignalegum styrk fyrirtækjanna.  Vladimir Lenin hefði veitt þeim skötuhjúum orðu alræðis öreiganna fyrir gjörninginn, hefði sá fantur verið enn á dögum. 

Allar aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks miða að því að hækka tekjur almennings og ríkissjóðs í framtíðinni.  Með sameiginlegu átaki borgaralegra afla og hálstaki á afturhaldsöflunum mun það takast.  

 

        

      

    

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband