Tuggan um misskiptinguna

Karl Heinrich Marx (1818-1883), hagfræðingur og stjórnmálafræðingur, útskýrði mannkynssöguna sem röð stéttaátaka og taldi kreppur auðvaldskerfisins að lokum mundu ganga af því dauðu og úr rústunum mundi rísa stéttlaust samfélag, kommúnismi. Þar yrði misskiptingu auðsins útrýmt í eitt skipti fyrir öll með því að gera alla að öreigum og færa allar eignir, þ.m.t. framleiðslutækin, til hins opinbera. Jafnaðarmenn og sameignarsinnar eru enn þann dag í dag ofurseldir þessari þráhyggju og tönnlast signt og heilagt á ójafnri tekju- og eignaskiptingu í samfélaginu.     

Draumóramenn hafa síðan trúað því, að þetta væri framkvæmanlegt og mundi fela í sér draumaríki framtíðarinnar í anda kommúnisma undir stjórn kommúnista.  Þessir dagdraumar enduðu með martröð, og meira en 100 milljón fórnarlömbum kommúnismans, sameignarstefnunnar, sem átti að útrýma misskiptingu auðsins.  Sameignarstefnan snerist um "Allt þitt er mitt" og "Öll völd til ráðanna (sovétanna)", sem alls staðar leiddi til alræðis "nómenklatúrunnar".  Samt er enn rembzt við, eins og rjúpan við staurinn. 

Það er óhætt að fullyrða, að auðnum verður aldrei skipt að forsögn Karls Marx og Friedrich Engels: hver maður leggi fram til samfélagsins eftir getu og taki frá því eftir þörfum.  Það er óhætt að fullyrða, að auðnum verður aldrei skipt jafnt á milli manna, og það er líka óhætt að fullyrða, að það er hvorki æskilegt, eðlilegt né sanngjarnt. 

Síðasta fullyrðingin þarfnast rökstuðnings.  Hann felst í að benda á, að framlag manna er mjög misverðmætt fyrir samfélagið.  Ef ég dett niður á aðferð, sem tvöfaldar framleiðnina við framleiðslu á einhverri vöru, þá lítur markaðurinn svo á, að ég sé verðmætari en sá, sem tekst að auka framleiðni um aðeins 5 % á sama tímabili.  Karl Heinrich, kaffihúsasnati, og jafnvel einnig hinn mótsagnakenndi iðnjöfur, Friedrich Engels, vanmátu gróflega mátt markaðarins.  Draumurinn um hinn frjálsa markað og frjálsa samkeppni hugmynda, vöru og þjónustu, hefur borið algjört sigurorð af sameignarstefnunni, og þess vegna hljómar kvakið um ójafna skiptingu auðsins sem hjáróma væl.

Við höfum úrskurðaraðila um þetta, og það er markaðurinn.  Hinn fullkomni markaður ákvarðar verðmæti samkvæmt framboði og eftirspurn.  Markaðurinn er hins vegar alltaf skakkur, og samkvæmt "þýzku leiðinni", hinu Félagslega markaðshagkerfi - Die Soziale Marktwirtschaft, sem Dr Ludwig Erhard mótaði á 6. áratugi 20. aldarinnar, er það hlutverk ríkisvaldsins að fylgjast með og kippa í spottana, ef fyrirtæki verða of ríkjandi á markaðinum eða frjálsri samkeppni virðist ógnað. Þetta er málamiðlunin á milli frjáls einkaframtaks og ríkisafskipta, sem hægt er að gera og sem reynzt hefur vel, þar sem hún hefur verið reynd. 

Í engilsaxnesku ríkjunum ríkir ekki Félagslegt markaðshagkerfi, enda sýna tölfræðilegar rannsóknir fram á vaxandi misskiptingu auðs þar víðast hvar og einkum í Bandaríkjunum - BNA. Þetta er óæskilegt, því að það bendir til ósanngjarnrar skiptingar á arði, sem leiðir af framleiðniaukningu, á milli hins vinnandi manns og fjármagnseigandans.  Í BNA hefur hlutur 10 % auðugustu af þjóðarkökunni aukizt og einkum hefur hlutur 0,1 % auðugustu aukizt.  Þetta er allt á kostnað miðstéttarinnar, þ.e. 90 % neðstu í þessum stiga (50 % neðstu eiga jafnan mjög lítið).

Eins og fram kemur í vefgreininni: "Heimur batnandi fer" undir tenglinum hér að neðan, þá er hlutur 0,1 % auðugustu í BNA nú svipaður og hlutur 90 % neðstu, en samanburður þessara tveggja hópa er talinn veita innsýn í jöfnuð í hverju þjóðfélagi:       

http://bjarnijonsson.blog.is/admin/blog/?entry_id=1519453 

Á 30 ára tímabili, 1980-2010, hefur hlutur miðstéttarinnar í þjóðarauðnum minnkað úr 34 % í 22 % og hlutur hinna forríku, 0,1 % aukizt úr 8 % í 21 %. Þarna hlýtur að vera vitlaust gefið og búið að skekkja markaðinn, svo að um munar.  

Á þessu 30 ára tímabili hefur orðið mikill hagvöxtur í BNA, og miðstéttin virðist fara varhluta af honum.  Ávinningurinn af framleiðniaukningunni, sem á hlut í hagvextinum, virðist ekki lenda hjá launþegunum í BNA, heldur hjá fjármagnseigendunum.  Þetta er ósanngjarnt og er tekið að valda þjóðfélagsóróa í "Guðs eigin landi".

Íslenzka þjóðfélagið ber hins vegar mörg einkenni Félagslegrar markaðshyggju.  Hvergi er hlutfall launakostnaðar fyrirtækja af heildarkostnaði þeirra hærra en hérlendis, eða 70 %.  Þetta háa hlutfall gefur til kynna, að hinn vinnandi maður hreppi drýgsta hluta verðmætasköpunarinnar á Íslandi, og er það vel. Næstar á eftir Íslendingum í þessum samanburði eru Norðurlandaþjóðir með um 65 %, sem þekktar eru að fremur miklum jöfnuði samkvæmt alþjóðlegu mati með hinum fræga kvarða Ginis.  Ennfremur er húsnæðiseign óvíða almennari en á Íslandi, og lífeyriseign Íslendinga er hin mesta, sem þekkist.  Þá er aðgangur að menntakerfinu frjáls og óháður efnahag, enda myndast blóðbönd hérlendis óháð stéttum, en töluvert háð menntunarstigi.  Á Íslandi er af þessum sökum meira jafnræði í öllum aldurshópum en annars staðar þekkist.  Það er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á þessu í moldviðrinu, sem óprúttnir aðilar gjarna þyrla upp af miklu ábyrgðarleysi út af ójafnrétti á Íslandi.   

Einar S. Hálfdánarson, lögfræðingur og löggiltur endurskoðandi, ritaði í janúar 2015 grein í Morgunblaðið um m.a. jöfnuð, þar sem eftirfarandi kemur fram:

"Ríkasta prósentið er væntanlega atvinnurekendur.  Atvinnutækin eru skráð á þeirra nafn, og því betur, sem þeim gengur, þeim mun betur vegnar okkur hinum.  Hagnist þeir, geta þeir borgað hærra kaup.  Hvorki borða þeir skipin né hugbúnaðinn; sem sé neyzla og ríkidæmi er fjarri því að vera það sama.  Hverjum dettur í hug, að 10 % Íslendinga eyði 75 % þjóðarframleiðslunnar.  Tölfræði af þessu tagi hefur afskaplega lítið upplýsingagildi."  

Óðinn segir jafnframt um þetta í Viðskiptablaðinu 29. janúar 2015:

"Umræða um skiptingu auðs heimsins annars vegar og íslenzku þjóðarinnar hins vegar hefur verið töluverð frá því, að brezku góðgerðarsamtökin OXFAM notuðu tækifærið til að fylla helztu stuðningsaðila sína samvizkubiti, þar sem þeir sprönguðu um á árshátíð ríka, fræga og mikilvæga fólksins í Davos.  OXFAM birti upplýsingar, sem þau sögðu sýna, hve stóran hluta af auðlegð heimsins væri í höndum þeirra allra ríkustu.  Íslenzkir fjölmiðlar hlupu strax til, grófu upp tölfræði frá Hagstofunni frá því í ágúst 2013 um eignaskiptingu á Íslandi árið 2012 og blésu þeim upp."

Hráar tölur Hagstofunnar eru ekki hæfar til að draga af þeim víðtækar ályktanir um eignadreifingu í landinu.  Það er m.a. út af því, að í skattaframtölum, þaðan sem tölur Hagstofunnar koma, eru ekki fullnaðarupplýsingar um eignir, sumpart af því að ekki er upplýsingaskylda um allt, t.d. er ekki gerð krafa um skráningu annars lausafjár en bifreiða. Má þar nefna innbú, málverk og skartgripi.  Þá er ein stærsta eign, margra, réttindi þeirra í lífeyrissjóðum.  Þessi eign er misstór eftir lengd inngreiðslutímabils og launum. 

Hagstofan lagði til grundvallar sínum tölum skattframtöl 264´193 Íslendinga fyrir árið 2012.  Það ár voru Íslendingar, 18 ára og eldri, aðeins 239´724 talsins, og Íslendingar 25 ára og eldri voru aðeins 206´106 talsins.  Þarna er því fjöldi barnaframtala, og 30´000 - 60´000 manns, sem aldurs síns vegna er hvorki farinn að safna eignum né afla tekna í miklum mæli.  Þvert á móti eru þarna upp undir 60´000 manns, sem er að hefja búskap og er jafnvel með neikvæða eiginfjárstöðu vegna námslána og lána til húsnæðis.  Þetta fólk hefur á hinn bóginn, margt hvert, fjárfest vel og skynsamlega í þekkingaröflun og er þess vegna vel í stakkinn búið til mikillar tekjuöflunar, oft með mikilli vinnu, og hraðri eignamyndun. Þetta sýnir, hversu varasamt er að draga af tölum Hagstofunnar víðtækar ályktanir um eignadreifinguna í landinu.

Þrátt fyrir fyrirvara um notagildi Hagstofutalnanna til að gera sér grein fyrir eignadreifingunni í landinu, má reyna að nota þær til að bera sig saman við önnur lönd. 

Samkvæmt framtölunum fyrir 2012 eiga 10 % eignahæstu fjölskyldurnar, 19000 talsins, 1500 mia kr hreina eign, sem jafngildir 73 % hreinna eigna alls. Þetta jafngildir Mkr 79 á fjölskyldu, sem eru nú engin ósköp, eða gott einbýlishús á góðum stað. Í BNA-Bandaríkjum Norður Ameríku var þetta hlutfall 78 % árið 2010, svo að með fyrirvara um gallaðan talnagrunn virðast 10 % eignahæstu Bandaríkjamennirnir eiga meira af landseignum en á við hérlendis.  

Eignahæsta 1,0 % , eða 1900 fjölskyldur, átti 23 % hérlendis eða 473 mia kr eða 249 Mkr á fjölskyldu.  Þetta er svipað hlutfall og 0,1 % eignahæstu í BNA áttu árið 2010, sem var þá 21 %. Þessi samanburður sýnir óyggjandi mun meiri jöfnuð á Íslandi en í BNA, og stóreignafólk er varla hægt að tala um hérlendis í samanburðinum, en samkvæmt þessu á mjög mikil auðsöfnun sér stað á meðal hinna allra auðugustu í BNA. 

Þegar þróun þjóðfélagsjafnaðar er íhuguð, þarf að hafa í huga byltinguna á stöðu kvenna.  Jöfnun tækifæra kvenna og karla á Vesturlöndum, sem hófst með P-pillunni, hefur leitt til mun meiri menntunar kvenna en áður og jafnvel meiri menntunar en karlanna nú í seinni tíð, ef fjöldi af hvoru kyni á háskólastigi er borinn saman.  Afleiðing af þessu er m.a. sú, að menntafólk í háskólum eða útskrifað þaðan sækir ruglar saman reitum sínum í miklu meiri mæli en áður af eðlilegum ástæðum.   

Þessar fjölskyldur eru fátækar að efnislegum gæðum fram undir þrítugt, oft með neikvæða eiginfjárstöðu, en fjölskyldutekjurnar eru samt háar og hækkandi og þar af leiðandi verður eignamyndunin hröð og oft talsvert mikil.  Við þessu er auðvitað ekkert að gera, enda er dreifing auðsins ekki vandamál á Íslandi.  Þetta er hin augljósa skýring á meiri hlutfallslegri eignamyndun á meðal 10 % efnamestu á þessum áratugi en t.d. á tímabilinu 1990-2000. Miklu verðugra viðfangsefni er þó, hvernig auðurinn verður til og í framhaldi af því að vinna að hámarks auðsköpun, sem í þjóðfélagi, eins og okkar, dreifist hratt um.  Óðinn í Viðskiptablaðinu orðar það svo:      

"Langflestir þeirra, sem búa yfir mestum auði, eiga fyrirtæki eða hluti í fyrirtækjum.  Þessi fyrirtæki skapa auð og atvinnu.  Heimurinn væri ekki betur staddur án þessa fólks og auðs þeirra." 

Á Íslandi er dreifing heildareigna þannig eftir aldri (peningalegar eignir eru í svigum):

  • Yngri en 30 ára: 142 mia kr eða  4 %   ( 5 %)
  • 30 - 44 ára:     812 mia kr eða 20 %   (13 %)
  • 45 - 59 ára:    1350 mia kr eða 34 %   (28 %)
  • 60 ára og eldri:1666 mia kr eða 42 %   (54 %)

Í svari fjármála-og efnahagsráðherra á Alþingi við fyrirspurn meints áhugamanns um misskiptingu eigna, Árna Páls Árnasonar, sem, þó að undarlegt megi virðast, sækist nú eftir endurkjöri sem formaður Samfylkingarinnar, enda fer fylgi hennar dalandi um þessar mundir. Í svarinu kom eftirfarandi fram samkvæmt Tý í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 5. febrúar 2015:

  • "Ríkustu" 5% fjölskyldna eiga 32 % heildareigna
  • "Ríkasta" 1 % fjölskyldna eiga 13 % heildareigna
  • "Ríkasta" 0,1 % fjölskyldna á 5 % heildareigna

Spyrja mætti Árna Pál og Katrínu Jakobsdóttur að því, hvaða eignahlutföll þau telji sanngjörn og ákjósanleg í þessum efnum.  Það er áreiðanlegt, að uppskrift þeirra beggja í þessum efnum virkar alls ekki til að bæta neitt hag alls þorra fólks eða 90 % eignaminnstu, þ.e. miðstéttarinnar, né neðstu 50 % fjölskyldna á kvarða heildareigna, sem eiga lítið og oft á tíðum neikvæða hreina eign, þó að tímabundið sé í mörgum tilvikum.  Það er á hinn bóginn keppzt við að ala á öfund til að réttlæta nærgöngulli skattheimtu af "þeim ríkustu", eins og dæmin sýndu í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013, en hver skyldi nú árangur hennar hafa orðið ?  Á þann sama mælikvarða, sem hér er beitt til að meta eignadreifinguna í þjóðfélaginu, var töluvert meiri ójöfnuður á öðru ári ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en á öðru ári ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.  Þetta sýnir loddaraháttinn í málflutningi núverandi stjórnarandstöðu, þar sem formennirnir Árni Páll og Katrín Jakobsdóttir eru einna háværust (hæst bylur í tómri tunnu).

Fyrst er þar til að taka, að misskipting heildareigna náði hámarki árið 2007, en það ár komst Samfylking í ríkisstjórn eftir langa eyðimerkurgöngu.  Misskipting hreinna eigna, þ.e. heildareigna umfram skuldir, náði hins vegar hámarki á velmegtarári vinstri stjórnarinnar, 2010.

Árið 2010 var skipting hreinna eigna á Íslandi svona (í svigum eru sambærileg hlutföll árið 2013):

  • "Ríkustu" 5 % þjóðarinnar áttu 56 % (48 %)
  • "Ríkasta" 1 % þjóðarinnar átti 28 % (22 %)
  • "Ríkasta" 0,1 % þjóðarinnar átti 10 % (8 %)

Á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar ríkti framan af efnahagssamdráttur og síðan stöðnun. Hagvöxtur náði sér ekki á strik, enda voru fjárfestingar þá í sögulegu lágmarki, þar sem vinstri stjórnin hækkaði skattheimtu meira en 100 sinnum og hélt atvinnuvegunum í heljargreipum, m.a. með framkvæmdafjandsemi á sviði virkjana og stóriðju og hótunum um þjóðnýtingu veiðiheimilda, þar sem útgerðin á nú afnotaréttinn, þ.e. rétt til nýtingar á aflaheimildum fiskimiða í þjóðareign, sem ríkið úthlutar á grundvelli laga um fiskveiðistjórnun.  Árið 2013 jókst bjartsýni í athafnalífinu, fjárfestingar jukust, og valdaskipti urðu í landinu um vorið.  Þá jókst hagvöxturinn, og ofangreindar tölur sýna, að hagvöxturinn jafnaði eignaskiptinguna, enda tók hagur flestra fjölskyldna þá að batna.  Jákvæð þróun eignaskiptingar fæst með auknum umsvifum á vinnumarkaði og sköpun gjaldeyristekna með vinnuframlagi fjöldans í stað viðskipta með pappíra undir vafasömum formerkjum, eins og tíðkuðust á tímabilinu 2005-2008.   

Hér að neðan verður rakið, hvernig þróun hreinna eigna varð á tímabilinu 2010-2013, en hún sýnir svart á hvítu, að þungar "áhyggjur" vinstri flokkanna eru ástæðulausar, enda eru þær tilbúningur og ekki ætlaðar til annars en að ala á öfund þeirra, sem af einhverjum ástæðum telja sig bera skarðan hlut frá borði m.v. framlag sitt til samfélagsins. 

Árin 2010-2013 jókst hrein eign mismunandi hópa Þannig:

  •  Hjá efstu 5 % jókst hún um 18 % eða um 150 mia kr
  •  Hjá meðstu 95 % jókst hún um 66 % eða 450 mia kr 

Sameignarsinnarnir eru haldnir fáránlegum grillum um það, hvernig verðmætasköpun og þar af leiðandi eignaaukning á sér stað.  Þeir, t.d. Helgi Hjörvar, Alþingismaður, halda því fram, að jöfnuður knýji áfram verðmætasköpunina.  Þetta eru alger öfugmæli, eins og margsannazt hefur, nú síðast í Venezúela, þar sem Hugo Chavez innleiddi sameignarstefnu með jöfnuð á vörunum.  Þegar olíuverðið lækkaði árið 2014, hrundi hagkerfi Venezúela, af því að innviðir þjóðfélagsins höfðu grotnað niður undir jafnaðarstefnu Hugo Chavez, og nú er Venezúela viðurstyggilegt fátæktarbæli. Ekki knúði jöfnuðurinn verðmætasköpunina þar, eða felur sameignarstefnan, þ.e. þjóðnýting auðlinda og atvinnutækja, e.t.v. ekki í sér þjóðfélagslegan jöfnuð ?

Það er áreiðanlega ekki draumurinn um aukinn jöfnuð tekna og eigna, sem knýr fólk og fyrirtæki til dáða til aukinnar verðmætasköpunar, þjóðfélaginu öllu til heilla, heldur sóknin eftir hærri tekjum og auknum arði.  Sóknin eftir stærri hlut í eigið bú knýr verðmætasköpun þjóðfélagsins áfram, og það er hvorki raunhæft né æskilegt að reyna að breyta því, en um það snýst samt allt vafstur vinstri manna í pólitík.  Þar eru þeir í hlutverki riddarans sjónumhrygga að berjast við vindmyllur.   

 Þríhyrningur

  

 

 

 

 

    

      

   

   

  

 

  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

„Draumóramenn?“

Þarna er hugsjónamaðurinn, „skaparinn,“ Bjarni Jónsson, sá sem sér í huganum lausnir,  

þannig að vandamálið hverfur.

Slóð   Verum fulltrúar gnægta, lausna.

Hann sér einnig að nóg er til ef allir fá að gera gagn, búa til vörur og framkvæma þjónustu,

og fá „kvittanir,“ „bókhald,“ „peninga“ frá „SJÓÐI-0“

til að þeir geti einnig framfleytt sér og sínum.

Slóð    Hent upp í hillu A4 blað

ooo

...„Félagslega markaðshagkerfi - Die Soziale Marktwirtschaft, sem Dr Ludwig Erhard mótaði á 6. áratugi 20. aldarinnar,

er það hlutverk ríkisvaldsins að fylgjast með og kippa í spottana.....

....Á þessu 30 ára tímabili hefur orðið mikill hagvöxtur í BNA, og miðstéttin virðist fara varhluta af honum.  ......

......Ávinningurinn af framleiðniaukningunni, sem á hlut í hagvextinum, virðist ekki lenda hjá launþegunum í BNA,

heldur hjá fjármagnseigendunum. 

Þetta er ósanngjarnt og er tekið að valda þjóðfélagsóróa í "Guðs eigin landi.“".  ....

Egilsstaðir, 13.02.2015  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 13.2.2015 kl. 21:52

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Ef ofnotkun er á auðlindum jarðarinnar,þá neytum við einungis fæðu úr plönturíkinu,

og ef einhver vill endilega hafa húsdýr, þá verði það gerlar sem éta afganginn,

af ávöxtunum, korninu og grænmetinu.

Gerlarnir tvöfalda þyngd sína á tveim klukkutímum.

Þú leggur í gerlasúpu eftir hádegið og býrð svo til bollur úr því, í kvöldmatin.

Að sjálfsögðu framleiðir þú ekki eldsneyti úr mat, korni, þannig að þú fáir minni orku,

en þú eyðir í framleiðsluna, eins og nú er gert.

Hér ættu að koma slóðir, en þær eru á blogginu mínu.

Egilsstaðir, 13.02.2015  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 13.2.2015 kl. 22:07

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Bloggið þitt er læsilegt og fullt af hugmyndum og atorku.

Egilsstaðir, 13.02.2015  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 13.2.2015 kl. 22:12

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, Jónas Gunnlaugsson. 

Stjórnmálamenn forræðishyggjunnar eru stöðugt með jöfnun lífskjara á vörunum, en gerðir þeirra virka yfirleitt til aukins ójafnaðar, enda einkennast þær af geðþóttaákvörðunum og virka yfirleitt hamlandi á verðmætasköpunina, sem sjálf er undirstaða bættra lífskjara allra. 

Bjarni Jónsson, 14.2.2015 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband