Landnýting í brennidepli

Íbúum landsins fjölgar talsvert, ferðamannafjöldinn slagar upp í 1,5 milljón manns á ári, en er nokkuð ójafnt dreifður yfir landið enn, skógrækt er vaxandi og arðbær atvinnugrein, sem ekki nær að anna eftirspurn frá málmiðnaðinum, og endurheimt votlendis mundi draga úr koltvíildislosun, landbúnaðurinn virðist geta afsett erlendis á viðunandi verði allt, sem hann getur framleitt, og ekki er torgað innanlands, og þörfin fyrir raforku og flutninga á rafmagni um landið vex mikið, að ógleymdri þörfinni á nýjum brúm og nýjum eða bættum vegum. 

Allt kallar þetta á auknar landnytjar, sem munu breyta ásýnd landsins töluvert.  Sitt sýnist hverjum um það, hversu miklu má breyta til að öðlast aukin veraldleg gæði, sem þó allflestir keppa að, og kröfuharkan á hendur atvinnulífinu um hærri laun virðist ekki fara minnkandi, þó að kaupmáttur launa sé nú í hæstu hæðum, sem hann hefur náð hérlendis.

 Auknum lífsgæðum verður hins vegar ekki náð án fórnarkostnaðar, en þar stendur hnífurinn í kúnni, að mat á þessum fórnarkostnaði er huglægt, og sitt sýnist hverjum.  Lykilatriði við mat á fórnarkostnaði við breytta landnýtingu hlýtur að vera, hvort breytingin felur í sér aukna sjálfbærni í víðum skilningi, og hvort breytingin er afturkræf.  Af þessum sökum öllum má telja líklegt, að umræða um landnýtingu muni fremur færast í aukana en hitt.  

Einn angi landnýtingar eru línulagnir og jarðstrengjalagnir fyrir raforku, því að rafkerfi okkar er miðað við miðlæga orkuvinnslu og oftast fjarri mannabyggð, og þá þarf flutnings- og dreifikerfi til að koma orkunni til notenda.  Um þetta sýnist sitt hverjum, og hafa verið uppi deilur um nýlagnir, sem hamlað hafa framvæmdum.  Skortur á flutningsgetu rafmagns er nú orðið böl, sem hefur þegar valdið samfélagslegu tjóni, sem nemur yfir 100 milljörðum kr, uppsafnað.  Þetta ófremdarástand hefur varað allt of lengi og má ekki lengur við svo búið standa.  Vonandi mun löggjafinn senn höggva á þennan hnút, sem stafar af óljósu og þunglamalegu ferli að framkvæmdaleyfi.

Nýlega var í Héraðsdómi kveðinn upp úrskurður í máli landeigenda á leið Suð-Vesturlínu gegn Landsneti, en Landsnet fór fram á eignarnámsheimild, þar sem ekki höfðu náðst samningar um landnotkun fyrir línuturna.

Fjölskipaður Héraðsdómur féllst einróma á kröfur Landsnets, enda var sýnt fram á, að almannahagur væri í húfi, og rök landeigenda voru talin svo veik, að verjandi væri að taka hluta úr landi þeirra eignarnámi fyrir línuna.  Ástæðan er sú, sem síðan sannaðist fáeinum vikum eftir uppkvaðningu dómsins, að við línubilun falla jarðvarmavirkjanir á Suðurnesjum úr rekstri með þeim afleiðingum, að straumlaust verður um öll Suðurnes, einnig í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og á flugbrautunum, ef neyðarrafstöð bregst, og þær bregðast oft og nánast örugglega, ef höndum er kastað til viðhalds þeirra og prófana. 

Virkjanirnar á Suðurnesjum þurfa spennutengingu við stofnkerfi landsins til að geta haldið stöðugri tíðni, 50 Hz +/-0,5 Hz. Það tekur ennfremur mun lengri tíma að endurræsa jarðvarmavirkjanir en vatnsaflsvirkjanir.  Fyrir arðsaman rekstur virkjananna þurfa þær að geta gengið stöðugt nálægt hámarksafköstum og til þess þurfa þær öfluga tengingu við stofnkerfið.  Til að HS Orka geti nýtt jarðvarmann á Reykjanesi er öflugri lína en núverandi nauðsynleg.  

Ein af forsendum stóriðju í Helguvík, álvers, kísilmálmvera, eða annarrar raforkukræfrar starfsemi, er öflug tenging við landskerfið, þ.e.a.s. 2x220 kV lína frá Hrauntungum í Hafnarfirði að nýju tengivirki á Njarðvíkurheiði og væntanlega jarðstrengir þaðan.  

Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að Suð-Vesturlína er þjóðhagslega hagkvæm, og hún er nauðsynleg fyrir vöxt og viðgang á Suðurnesjum.  Þar að auki er hún forsenda þess flutnings á línum að og frá aðveitustöðinni í Hamranesi í Hafnarfirði, sem yfirvöld þar í bæ hafa eindregið óskað eftir.  Til að gera það kleift verða tveir 220 kV jarðstrengir lagðir á milli Hamraness og Hrauntunga, 2x400 kV lína lögð frá Sandskeiði að Hrauntungum, og nýjar ISAL-línur lagðar fjarri byggð frá Hrauntungum, og þær gömlu teknar niður.

Það hefur verið upplýst, að svo kölluð Suð-Vesturlína, sem nær frá Sandskeiði um Hrauntungur að Njarðvíkurheiði, hafi í för með sér nýbyggingu 152 km línulengdar og niðurrif á 97 km línulengd.  Þetta er einmitt leiðin, sem þarf að fara í átt til sæmilegrar sáttar í raflínumálum, þ.e. að rífa niður línur á móti því, sem upp er sett.  Þarna vantar 55 km upp á, og þá er einmitt verið að færa í jörð þessi misserin og meira til. Núverandi heildarlengd loftlína hefur stytzt um 300 km frá hámarkinu eða um 3,5 %, sem er anzi hægfara þróun. 

Það gilda mjög svipuð rök fyrir því að tengja alla landshluta saman með öflugum flutningslínum, eins og rakið hefur verið fyrir Suðurnesin, en þessu er mjög ábótavant nú og stendur afhendingaröryggi og atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum.   

Í Fréttablaðinu 21. febrúar 2015 birtist frétt Svavars Hávarðssonar, "Flutningur orku mikill flöskuháls".

"Afhending 10 MW af raforku í núverandi flutningskerfi er aðeins möguleg í tveimur landshlutum - Suðvesturlandi og á hluta Norðvestanlands.  Slitnað hefur upp úr samningaviðræðum milli Landsvirkjunar og fyrirtækja, sem óska eftir orkukaupum, vegna þessara takmarkana í flutningskerfinu, og þannig eru stór erlend fjárfestingaverkefni í hættu."

Þessi frásögn sýnir í hnotskurn, að raforkustofnkerfi landsins, sem telja verður til lykilinnviða í þjóðfélaginu, er algerlega vanbúið og hefur dregizt hræðilega aftur úr þróun þjóðfélagsins á undanförnum árum, enda fer hringtenging landsins með Byggðalínu að nálgast fertugsaldurinn.  Hún hefur aldrei beysin verið til stórflutninga, þótt hún hafi þjónað almennu álagi þokkalega, en er ekki lengur boðleg vegna aukinnar flutningsþarfar.

 Samkvæmt upplýsingum Óla Grétars Blöndals Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, veldur vanbúið flutningskerfi því, að Landsvirkjun verður af sölu á 100 GWh/a.  Markaðshlutdeild Landsvirkjunar er um 73 %, svo að óseld raforka vegna óburðugs flutningskerfis gæti numið 140 GWh/a, sem á listaverði Landsvirkjunar, 43 USD/MWh, jafngildir glötuðum tekjum upp á MUSD 6 á ári eða yfir MISK 800 á ári.  Hér er um að ræða glötuð tækifæri á formi fjárfestinga, sem ekkert varð af, og veltu, sem á hverju ári nemur a.m.k. tífaldri þessari upphæð eða um 10 milljörðum kr á ári.  Umbætur, sem duga á þessu sviði, eru þess vegna fljótar að borga sig. Samt eru ljón í veginum, og þau eru reyndar engir bógar til að taka á sig ábyrgð á því fjárhagstjóni, sem samfélagið allt verður fyrir af þessum völdum. 

Að láta málin dankast ár eftir ár með þessum hætti ber vitni hræðilegu sleifarlagi í stjórnsýslunni, þar sem hér er um einokunarfyrirtækið Landsnet að ræða, sem að mestu er í eigu Landsvirkjunar, sem er 100 % ríkisfyrirtæki. Stjórnmálamenn á Alþingi verða að reka af sér slyðruorðið og skapa Landsneti forsendur til að eyða öllum flöskuhálsum í kerfinu á næstu 7 árum.  Við svo búið má ekki standa.

Byggðalínan, 132 kV lína hringinn í kringum landið, er barn síns tíma.  Flutningsgeta hennar er allt of lítil fyrir núverandi þarfir, og hún skapar óstöðugleika kerfisins við truflanir.  Falli mikið álag út af kerfinu í einu, t.d. hjá álveri annaðhvort vestan- eða austanlands, rofnar Byggðalína gjarna í Blöndu til að koma í veg fyrir aflsveiflur.  Verður við þetta skaðlega mikil spennuhækkun og tíðnihækkun öðrum megin, en gjarna spennulækkun og tíðnilækkun hinum megin rofs. Hvort tveggja getur valdið tjóni hjá notendum og í jarðvarmavirkjunum, sem þá falla oft út af kerfinu og tekur tiltölulega langan tíma að endurræsa. 

Einn kostur Landsnets er að styrkja Byggðalínuna, tvöfalda hana eða umbyggja fyrir hærri spennu.  Eðlilega hafa slík áform mætt andstöðu í sveitum landsins, þar sem íbúarnir hafa þessa línu í bakgarði sínum og stöðugt fyrir augunum.  Skagfirðingar hafa leitt þessa andstöðu, og er miklu eðlilegra að grafa hana í jörðu á viðkvæmum stöðum en að efla hana.  

Miklu eðlilegar er að fara aðrar leiðir, sem með tíð og tíma gefa Landsneti kost á að setja Byggðalínu í jörð, þar sem hún fer um fagrar sveitir.  Leiðin, sem leysir úr þessu öllu og létta mundi á Byggðalínu, skapa stöðugleika í meginflutningskerfinu, og gera mikinn aflflutning á milli landshluta mögulegan með lágmarkstilkostnaði og vera þannig arðsamasti valkosturinn, er 400 kV lína yfir Sprengisand.  Margir reka upp ramakvein, þegar á þetta mannvirki er minnzt, en þá verður að bera saman fórnarkostnaðinn og ávinninginn og jafnframt að hafa í huga, að um afturkræfa framkvæmd er að ræða.  Í þessu sambandi hefur einnig verið bent á, að hugtakið sjónmengun uppfyllir ekki skilgreiningu á mengun, sem er órjúfanlega tengd neikvæðum áhrifum á lífríkið fyrir heilsufar dýra og manna.  Jafnvel þó að sjónmengun sé afstæð og sitt sýnist hverjum í þeim efnum, er mögulegt að fara í mótvægisaðgerðir, þó að þær kosti allar sitt.  

Miðhálendið spannar um 75 000 km2, og eru helztu hlutar þess Kaldidalur, Kjölur, Sprengisandur, Ódáðahraun, Brúar- og Vesturöræfi, Lónsöræfi, Landmanna- og Síðuafréttir og jöklarnir.  Áhrifasvæði Sprengisandslínu yrði á innan við 4 % af þessu svæði í bezta skyggni.  Á yfir 96 % Miðhálendisins yrði hún ekki sýnileg.  Það yrði jafnframt framfaraspor fyrir samgöngur og flutninga í landinu að leggja veg með bundnu slitlagi yfir Sprengisand og losa ferðamenn og bíleigendur þar með við heilsuspillandi rykmökkinn, þvottabretti, grjót og forað, þá sjaldan rignir á svæðinu, sem umferð um aðalslóðann þar fylgir með óþörfum kostnaðarauka fyrir vikið.  Íhuga mætti gerð slóða út frá þessum vegi að völdum stöðum til að draga úr freistni til utanvegaaksturs.  Eftirlit og viðurlög með slíku þarf að herða verulega, því að sár eftir slíkan gjörning gróa seint. Sala inn á þennan veg á að standa undir framkvæmdum, viðhaldi og eftirliti á þessari leið.  Þrátt fyrir slíkt veggjald yrði vafalítið sparnaður af framkvæmdinni fyrir vegfarendur.

Loftlínur á landinu eru um þessar mundir um 8300 km að lengd, og leggja þar af leiðandi undir sig talsvert mikið land og eru víðast í augsýn á byggðu bóli. Lengd þeirra nam mest 8600 km, og þær hafa aðeins stytzt um 300 km.  Jarðstrengjavæðingin gengur of hægt, og sama er að segja um þrífösun sveitanna, sem er mikið hagsmunamál fyrir dreifbýlið.  Það vantar enn meiri fjárhagslega hvata til að flýta hvoru tveggja, og þeir gætu t.d. verið fólgnir í, að Alþingi geri eigendum þessara lína að greiða árlegt gjald per km fyrir að fá að starfrækja loftlínur með þeim neikvæðu umhverfisáhrifum, sem þeim fylgja.  Afgjaldið yrði lagt í sjóð til að fjármagna jarðstrengjavæðingu og þrífösun sveitanna.  Ef afgjaldið yrði stemmt við 1,0 milljarð kr í sjóðinn á ári m.v. núverandi línulengd, þá gæti það litið nokkurn veginn þannig út:

  •  33 kV og lægri: 5300 km @  30 kkr/km =MISK 159
  •  66 kV spenna:    940 km @ 140 kkr/km =MISK 132
  • 132 kV spenna:   1245 km @ 280 kkr/km =MISK 349
  • 220 kV spenna:    850 km @ 420 kkr/km =MISK 357 

    Alls MISK 997 eða tæpur milljarður króna.      

Lögfræðilegu rökin yrðu í svipuðum dúr og með veiðigjöldin og stjórnun á nýtingu fiskimiðanna.  Landið er sameign þjóðarinnar, þó að hlutar þess séu í einkaeign.  Þetta veitir ríkisvaldinu rétt til íhlutunar um notkun þess og þar með talið að stuðla að því, að loftlínur séu færðar í jörðu eftir því, sem tæknin og fjárráðin leyfa hverju sinni. 

Ofangreint "auðlindargjald" fyrir að fá að setja upp og reka loftlínur í íslenzkri náttúru má reikna með, að lendi að langmestu leyti á notendum.  Athugum nú, hversu mikið árlegur kostnaður af 220 kV loftlínu eykst miðað 420 kkr/km árgjald:

  • Stofnkostnaðurinn er 60 MISK/km (130 MISK/km fyrir jarðstreng).  M.v. 25 ára afskriftartíma og 6,0 % árlega vexti, gefur þetta árlegan kostnað upp á 4,7 MISK/km.
  • Rekstrarkostnaður 220 kV loftlínu nemur 1,0 MISK/km.
  • Heildarkostnaður núna á ári er þá 5,7 MISK/km.
  • Áuðlindagjaldið, 0,42 MISK/km, mundi hækka heildarkostnað við línuna um 7,4 %, þ.e. upp í 6,12 MISK/km. 
  • Þetta mundi þýða um 1,5 % hækkun á heildarraforkukostnaði í landinu.  Jaðarkostnaður virkjunar við stöðvarvegg er um þessar mundir um 3,5 kr/kWh og með flutningskostnaði orkunnar um 4,2 kr/kWh komin til notanda á 220 kV, sem hækkar upp í 4,26 kr/kWh með auðlindagjaldi á línuna eða 31,6 USD/MWh.  Þetta er samkeppnihæft verð á alþjóðlegan mælikvarða.

 

 

 

  

   

 

  

  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband