Auðvaldsskipulagið hefst heima

Joseph Schumpeter hélt því fram, að kraftaverk kapítalismans væri fólgið í lýðvæðingu auðsins (democratising wealth), þ.e. auðdreifingu um samfélagið.  Elizabeth I átti silkisokka, tók Schumpeter sem dæmi, en "framlag auðvaldskerfisins er ekki fólgið í að framleiða meira af silkisokkum fyrir drottningarnar, heldur að færa silkisokkana innan seilingar verksmiðjustúlknanna".  Þetta dæmi Joseph Schumpeters sýnir í hnotskurn um hvað markaðshagkerfi með félagslegu ívafi snýst. Það felst alls ekki í að gera hina ríku ríkari, heldur í að veita öllum, sem vettlingi geta valdið, kost á að bæta hag sinn, þ.e. að allir geti veitt sér silkisokka.  Þetta gerist með ávinningi af framleiðniaukningu, sem skipt er á milli launþeganna og fjármagnseigenda, þannig að hvati sé hjá launþegunum að leggja meira af mörkum og hjá fjármagnseigendum að fjárfesta.  Á Íslandi fer hærra hlutfall verðmætasköpunar til launþega en annars staðar.

Á flestum sviðum mannlífsins hefur einmitt þetta átt sér stað.  Það, sem áður var aðeins á færi auðmanna, er nú á almannafæri.  Í Bandaríkjunum (BNA) hefur sá vinnustundafjöldi, sem þarf til að vinna sér fyrir meðalbíl eða fullum fataskápi, helmingazt á einni kynslóð (30 árum).  Á þremur sviðum hefur auðvaldskerfið hins vegar ekki enn þá náð fram hagræðingu, eins og skyldi, aðallega vegna afskipta stjórnmálamanna, sem hallir eru undir forræðishyggjuna.  Þessi svið eru  heilbrigðisþjónusta, menntakerfi og húsbyggingar.  Þarna er þó ekki alfarið við markaðshagkerfið að sakast, heldur, eins og áður segir, hafa stjórnmálamenn verið með fingurinn á þessum málaflokkum og tafið fyrir framförum. 

Í algert óefni stefnir með heilbrigðisþjónustu Vesturlanda, því að gamlingjum fjölgar mikið hlutfallslega, og heilsufar þeirra verður bágbornara eftir því, sem aldurinn færist yfir.  Einn möguleikinn til að draga úr kostnaðinum er að nýta erfðatæknina.  Hún gerir nú þegar kleift að leiða góðar líkur að sjúkdómum, sem vænta má síðar á ævinni.  Vilji einstaklingurinn ekki fara í markvissar fyrirbyggjandi aðgerðir eða nýta sér önnur úrræði heilbrigðiskerfisins áður en allt er komið í óefni, ætti að láta þann einstakling sjálfan um kostnaðinn, ef/þegar hann leitar til kerfisins með einkenni, sem búið var að vara hann við.  Hið sama ætti að gilda, hafi hann hafnað erfðagreiningu eða hafnað því að verða upplýstur um niðurstöðu rannsókna.  Nú þegar er tækni fyrir hendi á sumum sjúkdómasviðum til að fara inn á þessar brautir og ber hiklaust að nýta hana öllum til hagsbóta.

Það er auðvitað óverjandi forstokkun að vilja ekki leyfa ólíkum rekstrarformum að þrífast hlið við hlið, t.d. á sviði heilsugæzlustöðva, endurhæfingarstofnana, skurðstofa og sjúkraþjónustu almennt.  Öryggi og þjónusta við sjúklinga á að vera í forgangi, og gefur auga leið, að það verður því meira þeim mun fjölbreyttari, sem rekstrarformin eru, t.d. í verkfallsástandi.  Það verður tæplega hægt að lama allar sjúkrastofnanir í einu, ef vinnuveitendur eru fjölbreytilegir, því að starfsfólkið mun búa við vinnustaðasamninga, þar sem væntanlega verða launahvatar til afkasta og gæða.  Þetta er gríðarlegur kostur í þjóðfélagi, sem má búa við óbilgirni og ófrið í stað skynsamlegra samninga á vinnustöðum heilbrigðisstarfsfólks, þannig að líf skjólstæðinganna, svo að ekki sé nú minnzt á lífsgæðin, er í uppnámi. Tekur engu tali, hvernig sjúkrastofnanir verða hvað eftir annað fyrir barðinu á ófyrirleitnum verkfallsskipuleggjendum, sem sjást ekki fyrir, heldur taka veikt fólk og starfsfólkið, sem reynir að halda starfseminni á floti, í gíslingu.

Upphrópanir á borð við þá, að ekki megi græða á sjúklingum, eru innihaldslausar, því að sjúkratryggingar sjá til þess, að sjúklingur beri ekki skarðan hlut frá borði, og allir eiga rétt á arði af eigin fé, sem fram er reitt til starfsemi, enda er slíkt grundvöllur arðsamra fjárfestinga.  Annars þarf að seilast í vasa skattborgaranna, og þar er sviðin jörð eftir síðustu vinstri stjórn.  Þá eru það kostulegir fordómar, að þeir, sem vilja reiða fram úr eigin vasa til að fá þjónustu, betri þjónustu en ella að eigin mati, megi það ekki.  Með þessu er skattfé sparað og biðlistar styttir.  Hvað er ósiðlegt við það ?  Fólk á að eiga möguleika á að forgangsraða fjárnotkun sinni að eigin vild án hindrana forstokkaðrar forræðishyggju.

Í menntageiranum hefur alnetið þegar aukið hagræðinguna, og vafalaust liggja enn ónýtt tækifæri í að búa skólana betri búnaði og í fjarkennslu.  Það er áreiðanlega enn unnt að auka framleiðni menntageirans, en vandinn er að mæla þessa framleiðni, af því að hætt er við, að framleiðniaukning verði á kostnað gæða.  ISK/stúdent er t.d. afleitur mælikvarði, ekki sízt í ljósi þess, að rökstuddur grunur er fyrir hendi um, að almennri þekkingu stúdenta hraki, en hugsanlega eykst sértæk þekking á móti.  (PISA árangur)/(ISK per grunnskólanemanda) er einn mælikvarði, og hann hefur verið óviðunandi fyrir Ísland að undanförnu, þ.e. slakur árangur og hár kostnaður.  Alvarlegast er, hversu lestrarkunnáttu fer hrakandi.  Þar á alnetið sennilega sína sök, þar sem ungviðið les minna í frístundum en áður.  Ótrúlega stór hluti æskunnar er ólæs, og það er ávísun á fátækt og óhamingju. Orðaforða, málfræðikunnáttu og framburði nemenda við lok grunnskóla hefur hrakað hræðilega síðast liðna hálfa öld. Hér sem á fleiri sviðum eru foreldrarnir aðalsökudólgarnir, þó að skólarnir verði nú að sýna öflugt frumkvæði til úrbóta.

Framleiðni á sviði húsbygginga hefur sums staðar hrakað, t.d. í BNA, þar sem framleiðni vinnuafls hefur fallið um 22 % á 20 ára tímabilinu 1989-2009, þó að framleiðni vinnuafls í öðrum geirum athafnalífsins hafi á sama tíma vaxið um 45 %.  Í þróuðum ríkjum notar 60 milljón manns meira en 30 % af tekjum sínum í húsnæðið, og 200 milljón manns eru talin búa í hreysum. Húsnæðismálin þarfnast umbóta, og þar geta yfirvöldin lagt lóð á vogarskálarnar, því að þau skipuleggja og útvega lóðirnar og setja fram tækniskilmála og útfærslukröfur.  

Stærsta hagsmunamál ungs fólks er að kljúfa það fjárhagslega að eignast sitt fyrsta húsnæði.  Það hefur alltaf erfitt verið, en vegna kostnaðarhækkana, t.d. á lóðum, sem framleiðniaukningin hefur ekki náð að hamla gegn, ásamt greiðslugetumati lánastofnana, sem er orðið ungu fólki þyngra í skauti eftir bankahrunið, er þetta jafnvel erfiðara en áður. 

Að eignast þak yfir höfuðið, eins og sagt er, er mjög eftirsóknarvert fyrir fjölskyldurnar og samfélagið, af því að húsnæði er aðalsparnaðarformið yfir ævina og veitir afkomutryggingu, þegar kemur fram á ævikvöldið og tímabært er að minnka við sig.  Samfélagslega er það auðvitað að sama skapi æskilegt, að sem flestir séu fjárhagslega sjálfstæðir að afloknum vinnuferli. Eigið húsnæði hefur verið hryggjarstykkið í eignamyndun miðstéttarinnar víðast á Vesturlöndum og afdráttarlaust á Íslandi, þar sem það hefur lengi þótt öruggasti fjárfestingarkosturinn.   

Nýlega upplýstu Samtök iðnaðarins um kostnaðargreiningu á byggingarkostnaði, sem fram hafði farið á þeirra vegum á hreinum byggingarkostnaði annars vegar og hins vegar opinberum gjöldum og kostnaði, sem af leyfisveitingum og reglugerðum leiðir.  Tekið var dæmi af kostnaði vegna 115 m2 íbúðar í þriggja til fjagra hæða fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu:

  • Heildarkostnaður: MISK 37, þ.e. 313 kISK/m2
    • hreinn byggingarkostnaður: MISK 26, þ.e 70 %
    • lóðarverð: MISK 4,5, þ.e. 13 %
    • ný byggingarreglugerð: MISK 2,0, þ.e. 6 %
    • annar kostnaður hins opinbera: MISK 4,0, þ.e. 11 % 
  • Þarna nemur kostnaður af völdum hins opinbera, sveitarfélags og ríkis, um MISK 11 eða 30 % á þessari litlu íbúð.  Það er sanngjarnt að gefa hluta af þessum opinberu tekjum eftir gegnum skattkerfið, þegar um er að ræða kaup á fyrsta húsnæði einstaklinga eða fjölskyldna, t.d. þannig, að draga megi 5 % íbúðarkostnaðar frá skattskyldum tekjum í 5 ár og fasteignagjöld verði felld niður í 5 ár.  Á móti yrðu vaxtabætur úr ríkissjóði felldar niður, enda er ekki ástæða til þess af ríkisins hálfu að greiða niður vexti bankanna, enda hillast þeir þá frekar til vaxtahækkana.  Hér er um umtalsverðan stuðning við markhóp að ræða, sem á venjulega erfitt með að ná endum saman vegna hárrar skuldsetningar, ómegðar og fremur lágra tekna vegna reynsluleysis á vinnumarkaði, þó að reynt sé að bæta slíkt upp með yfirvinnu. 

Það ætti að vera forgangsmál borgaralegrar ríkisstjórnar að fjölga hlutfallslega íbúðareigendum, en þeim hefur fækkað frá Hruni. Margir fjárfestar telja íbúðarhúsnæði til vænlegustu fjárfestingarkosta, og það ætti að vera markmið, að 80 % landsmanna búi í eigin húsnæði árið 2020, en um þessar mundir er hlutfallið um 75 % og var um 77 % fyrir Hrun.  Um 25 % fjölskyldna býr nú í leiguhúsnæði.   Ríkisstjórnin áformar að létta undir með þeim.  Slíkt er vandmeðfarið, svo að komi að sem beztum notum, en renni ekki að mestu í vasa leigusalanna. Reyna ætti að ná hluta af þessu fólki inn í hóp íbúðareigenda með því að létta undir í gegnum skattkerfið, eins og áður er minnzt á, og auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði fyrir þá, sem erfiðast eiga uppdráttar. Borgaraleg ríkisstjórn getur ekki verið þekkt fyrir að festa fólk í fatæktargildru með hækkun husaleigubota, sem hætt er við, að lendi að mestu í vasa leigusalanna. Miklu nær er að stuðla að auknu framboði íbúða á bilinu 80-110 m2, t.d. með byggingu félagslegs húsnæðis. Þá mun leiguverð á almenna markaðnum lækka að öðru jöfnu.       

             

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband