Borg í basli

 

Það gengur flest á afturfótunum hjá Reykjavíkurborg þessi misserin af fréttum að dæma. Er ástæða til að óttast, að höfuðborgin stríði við alvarlegat innanmein stjórnunarlegs eðlis, sem Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarstjóri, ræður ekkert við.  Er ástæða til að ætla, að vinstri flokkarnir og píratar, sem nú standa að stjórn borgarinnar, séu búnir að koma sér upp þvílíku stjórnkerfisbákni búrókrata í anda stjórnlyndra, að enginn hafi þar í raun yfirsýn lengur og hæfileikarnir í ráðum og nefndum borgarinnar séu svo útþynntir, að vart dugi til annars en að fægja neglurnar.  Það þarf örugglega ekki að skafa undan þeim. Silkihúfurnar eru legio, en fjöldinn magnar vandann, þegar þær eru utan gátta.

Merki um óstjórnina má sjá á fjárhagnum.  Fjárhagsáætlun borgarinnar er fjarri því að standastst, og borgarsjóður er rekinn með halla, þó að útsvarið sé skrúfað í botn.  Stjórnkerfið er allt of dýrt og getulítið, kostnaður hefur þanizt út, en tekjugrunnur tæpur.  Dæmigerður stjórnunarvandi jafnaðarmanna. 

Það er sláandi munur á fjárhag Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna.  Sérstaklega er jákvæður viðsnúningur í Kópavogi eftirtektarverður.  Þar hallaðist heldur betur á merinni undir vinstri stjórn, en það var eins og við manninn mælt, þegar sjálfstæðismenn tóku við stjórn Kópavogs, að þá spruttu þar upp byggingarkranar og fé af framkvæmdum og nýjum húseigendum streymdi í hirzlur bæjarins, svo að skuldasöfnun sukkara forræðishyggjunnar var stöðvuð.  Hún heldur áfram í höfuðborginni, enda neita jafnaðarmenn að skilja lögmál efnahagslífsins. Þeir eru alltaf utan gátta við stjórnvölinn.     

Stærstu mistök Dags B. Eggertssonar, DBE, borgarstjóra, eru að keyra Reykjavíkurflugvöll í algert óefni í bullandi ágreiningi við ríkisstjórn, Alþingi, borgarbúa og landsmenn alla.  Þar virðist hann láta annarleg sjónarmið ráða ferðinni á kostnað flugrekenda, sjúklinga, sem þurfa á sjúkraflugi að halda, ferðaþjónustunnar, flugklúbbanna og flugnema, svo að nokkrir séu nefndir, en í raun er það gríðarlegt hagsmunamál og öryggismál fyrir landið allt, að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fái að haldast óskertur.  Dagur B. Eggertsson hefur algerlega hunzað fjölmennustu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar, þó að hann yrði maður að meiri af að gefa gaum að rödd þjóðarinnar, því að borgin sjálf yrði miklu betri, ef Vatnsmýrarvellinum yrðu búin örugg rekstrarskilyrði til frambúðar.  Áhugaverð skipulagsverkefni mundi þá þurfa að leysa, s.s. varanlega flugstöð og tengingu hennar við aðra umferð, innanborgar og utan.  Það væri þá loksins hægt að skipuleggja Vatnsmýrina með langtíma sjónarmið í huga, og það er verðugt verkefni fyrir borgaryfirvöld að samþætta háskólana, Erfðagreiningu, veitingastaðina, Háskólasjúkrahúsið, byggðina, flugstöðina og flugbrautirnar þrjár og allt annað, sem nú þegar er í Vatnsmýrinni og mun flytja þangað. Einhæft íbúðahúsnæði kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við þróun þeirrar kraftmiklu starfsemi, er nú þegar hefur aðsetur í Vatnsmýrinni.

Í staðinn hefur DBE kosið stríð við þjóðina.  Það er fullkomið dómgreindarleysi af honum að fara í slíkt stríð, því að á slíkum vígvelli mun hann þurfa að lúta í gras fyrr en síðar.  Verður þá skömm hans mikil og dómur sögunnar óvæginn.

Mesta stjórnunarklúður Reykjavíkurborgar fyrr og síðar var í sviðsljósi alþjóðar í mest allan vetur, og hefur ekki séð fyrir endann á því enn.  Er það skólabókardæmi um, að Péturslögmálið er tekið að gilda um stjórnmálamenn og búrókrata í valdastöðum borgarinnar, og er þá æðsti koppur í búri eigi undan skilinn.  Péturslögmálið segir, að fólk á uppleið endi að lokum í stöðu, sem það ræður ekki við.  Það er deginum ljósara, að þetta á við í borgarstjórn núna og stjórnkerfi borgarinnar. 

Um þetta fjallaði eina forystugrein Morgunblaðsins 20. maí 2015, "Blettur á borginni":

"Breytingarnar í vetur á ferðaþjónustu fatlaðra eru svartur blettur á borgaryfirvöldum.  Við innleiðingu breytinganna voru gerð yfirgengileg mistök, sem leiddu til þess, að notendur þjónustunnar voru strandaglópar um allan bæ.  Allt klúðraðist, sem klúðrast gat og gott betur.  Dag eftir dag birtust dapurlegar fréttir af þjónustu, sem fram að því hafði vart sézt í fréttum.  Á þessu gekk, svo að vikum skipti." 

Hið dapurlega við verkstjórnarleysi DBE er, að hann virðist engan láta sæta ábyrgð, hvorki í þessu máli né öðrum. Er það ótrúlegur vingulsháttur af borgarstjóra að láta svo óskýrar línur viðgangast í stjórnkerfi borgarinnar, að sökudólgur eða sökudólgar mesta klúðurs í manna minnum sé ekki látinn sæta ábyrgð. 

Hvers vegna er formaður velferðarráðs borgarinnar ekki látinn sæta ábyrgð ?  Er lýsingin hér að ofan ekki næg sönnun þess, að hún hefur gjörsamlega brugðizt skjólstæðingum sínum og á ekki að fara með forráð eins né neins í borginni ? Dagur gerir sér greinilega ekki grein fyrir skyldum stjórnandans, sem verður ætíð að vera tilbúinn að grípa inn í óheppilega eða hættulega framvindu og gera fleira en gott þykir. Þetta vita góðir læknar og allir, sem nærri stjórnun hafa komið. Dagur vill  hins vegar bara vera "góði gæinn" og nennir ekki að stíga út fyrir þægindarammann sinn.  Hvorki borgarbúar né nokkrir aðrir þegnar landsins ættu að þurfa að hafa aðrar eins afætur á fóðrum og nú stjórna höfuðborginni aðeins að nafninu til.

Í téðri forystugrein eru leiddar líkur að því, að lufsurnar við stjórnvöl Reykjavíkurborgar hafi ekki einu sinni manndóm í sér til að reyna að læra af mistökum sínum:

"Athygli vekur, að í kynningu á skýrslunni [um breytingastjórnunina hjá borginni] á heimasíðu Reykjavíkurborgar er hlutlaus fyrirsögn um útkomu hennar. "Margt til fyrirmyndar í ákvarðanatöku", segir síðan í millifyrirsögn.  Neðst segir síðan:"Stjórnun breytinga misfórst", líkt og það sé eitthvert aukaatriði.  Þessi framsetning ber því vitni, að hjá borginni sé skortur á skilningi á alvöru málsins.  Undirbúningstíminn skiptir engu máli, ef liðið tapar öllum leikjunum."

Hjá öllum betri meðalstórum og stórum fyrirtækjum hefur verið innleitt breytingastjórnunarferli.  Það hjálpar til við að koma í veg fyrir óánægju og vandræði vegna nýs búnaðar eða stjórnkerfis, jafnvel notað við starfaskipti.  Amlóðarnir í Ráðhúsinu í Tjörninni virðast aldrei hafa heyrt á slíkt minnzt eða telja sig hafna yfir viðteknar góðar viðmiðanir við stjórnun.  Slík viðhorf hafa aldrei kunnað góðu að stýra.  Það rekur allt á reiðanum hjá Reykjavíkurborg.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband