Hvað verður um samkeppnishæfnina ?

Í Viðskiptablaðinu 28. maí 2015 er dregin upp fremur dökk mynd af samkeppnihæfni Íslands, eins og hún er metin af viðskiptaháskóla nokkrum, IMD, sem blaðið gerir ekki grein fyrir, hvar starfar.  Samt hækkaði landið um eitt sæti og er árið 2015 í 24. sæti á meðal 61 lands, þ.e. 38 % samanburðarlandanna stendur enn sterkar að vígi en Ísland til að bæta lífsgæði þegnanna. 

Lagt er mat á 362 atriði á sviði menntunar, færni vinnuafls, framleiðni, spillingar, réttarkerfis og félagslegs aðbúnaðar. 2/3 hlutar matsins eru reistir á mælingum og tölfræðilegum gögnum, en 1/3 á mati stjórnenda í íslenzkum fyrirtækjum, svo að niðurstaðan er ekki að öllu leyti hlutlæg, því að viðhorf stjórnenda í mismunandi löndum eru ekki samræmd.

Það þarf engu að síður að vinna að því að verða á meðal 15 % beztu á þessum lista, en í þeim hópi eru Norðurlandaþjóðirnar, Noregur (7.), Danmörk (8.) og Svíþjóð (9.). Umgjörð hagkerfisins hefur dregið Ísland niður í samkeppnihæfni, en við að aflétta fjármagnshöftum, eins og nú er búið að kynna áætlun um, mun hagur strympu vænkast.  Hvaða þýðingu hefur þessi samkeppnihæfni ?

Samkeppnihæfni þjóða er mælikvarði á getu þeirra til að halda uppi hagvexti og til að auka efnisleg og óefnisleg lífsgæði íbúanna til langs tíma.  Að flestra mati er mikil samkeppnihæfni af þessu tagi æskileg, en þó ekki að allra mati, t.d. græningja, og sennilega vinstri grænna og e.t.v. pírata hérlendis. Þau eru þó utanveltu með þá sérvizku sína, því að eins og harðvítugar kjaradeilur hérlendis sýna, virðist mikill meirihluti launþega vilja mikið á sig leggja til að öðlast betri kjör, og óhætt er að fullyrða, að forsenda slíks er að bæta samkeppnihæfni landsins. Krafan um betri kjör mun halda áfram, og fjölgun ómaga á samfélaginu á hvern vinnandi mann veldur því, að algerlega er óraunhæft að stefna hérlendis að einhvers konar endimörkum vaxtar í anda græningja, og þess vegna verður mikil samkeppnihæfni viðvarandi nauðsyn.

Óhóflegar launahækkanir, þvingaðar fram í verkföllum, rýra vafalaust samkeppnihæfni starfandi fyrirtækja á Íslandi, sem annaðhvort eru í samkeppni við erlend fyrirtæki með útflutningi sínum, eða þau keppa við innfluttar vörur hingað. Ekki er að efa, að verkfallsátök og kostnaðarhækkanir hafa skaðleg áhrif á þjónustu, sem á í alþjóðlegri samkeppni, t.d. á ferðaþjónustuna. Erlendu fyrirtækin verða fyrir miklu minni, ef nokkrum, kostnaðarhækkunum af völdum launa en þau íslenzku, og eru t.d. raunlaun í BNA enn á árinu 2015 1,2 % undir launastiginu árið 2009 þrátt fyrir hagvöxt á tímabilinu. 

Á Bretlandi féll raungildi launa á hverju ári 2009-2014, sem er lengsta lækkunartímabil raungildis launa síðan á miðri 19. öld.  Árið 2014 var miðgildi launa 10 % undir hámarki sínu, sem var árið 2008.  Á Íslandi, hins vegar, hafði raungildi launa náð hámarki sínu frá 2007 á öðrum ársfjórðungi 2015, og hafði það og kaupmáttur launa aldrei verið hærra, þegar launþegar tóku sig til og heimtuðu miklu meira með afleiðingum, sem þjóðin á eftir að bíta úr nálinni með.  Kökunni verður ekki í senn haldið og hún étin. Þarna er gríðarlegur munur á aðstöðu Íslendinga annars vegar og hins vegar Breta og annarra, sem fóru illa út úr Hruninu.

  Jafnvel Þjóðverjar, sem vegna viðbrugðinnar ráðdeildarsemi sinnar, sem Íslendingar ættu að taka sér til fyrirmyndar og mundi þá vel farnast, mega búa við raunlaun, sem eru 2,4 % undir gildinu 2008.  Undantekningar um raunlaunaþróun, aðrar en Íslendingar, eru t.d. Kanadamenn og Frakkar, en miðgildi raunlauna í Frakklandi hefur hækkað um 14 % síðan 2006, sem reyndar vekur furðu m.v. bágborið ástand franska hagkerfisins og litla samkeppnihæfni. 

Í BNA hefur framleiðnin sem frálag/(unnin klst) hækkað um 12 % síðan 2006 eða um 1,5 % á ári, og atvinnuleysi var 5 % og lækkandi árið 2014.  Á Bretlandi hefur framleiðnin staðið í stað síðan 2006, og atvinnuleysið var 5 % og lækkandi árið 2014.  Í Frakklandi hefur framleiðnin aðeins hækkað um 3 % síðan 2006, en atvinnuleysið náði þar 10 % árið 2014 og var hækkandi.

Í þessum samanburðarlöndum virðist ekki vera samband á milli framleiðniþróunar og launaþróunar, sem þýðir, að fjármagnseigendur hafa hirt ávinning af framleiðniaukningu, þar sem hún hefur orðið. Á Íslandi er þessu þveröfugt farið, þ.e. öll framleiðniaukningin (að meðaltali) og meira til hefur skilað sér til launþega. 

Aftur á móti virðist raunlaunahækkun valda auknu atvinnuleysi, t.d. í Frakklandi,og við því hefur einmitt verið varað hérlendis, en launþegafélögin hafa skellt við þeim varnaðarorðum skollaeyrum, enda hefur atvinnuleysi farið minnkandi hérlendis og er nú um 3 %. Einmitt sú staðreynd á sinn þátt í kröfuhörku verkalýðsfélaganna nú og gæti komið þeim í koll.

Eitt af því, sem er öðruvísi á íslenzka vinnumarkaðinum en víðast hvar í hinum vestræna heimi, er skylduaðild flestra launþega að verkalýðsfélögum.  Það ríkir þó félagafrelsi á Íslandi samkvæmt Stjórnarskrá, sem þýðir, að einstaklingum er frjálst að stofna eða ganga í þau félög, sem þeim sýnist, og úr þeim aftur.  Hér er sameignarfyrirkomulag við lýði, sem þýðir, að félagið skyldar launþegann til að ganga í verkalýðsfélagið, og vinnuveitandinn heldur eftir af launum fyrir félagsgjöldum og alls konar sjóðagjöldum.  Þarna er brotið á þeim einstaklingum, sem ekki kæra sig um félagsaðild af þessu tagi.  Á þessu hlýtur að verða breyting nú á á 21. öldinni, og vert væri að láta Mannréttindadómstól Evrópu fjalla um prófmál af þessu tagi.

Yfirleitt hefur aðildarhlutfallið farið minnkandi erlendis, sem gefur úreldingu þessa félagslega forræðishyggjufyrirkomulags til kynna. Hugmyndin um skylduaðild er barn síns tíma og augljóslega hugarfóstur sameignarsinna, kommúnista og jafnaðarmanna.  Ef tímabilið 1960-2013 er skoðað, kemur eftirfarandi í ljós varðandi þróun aðildar fólks á vinnumarkaði að stéttarfélögum um kaup og kjör:

  1. Bretland, hámark 1982 í 50 %, 2013 í 26 %
  2. Þýzkaland, hámark 1992 í 36 %, 2013 í 18 %
  3. Japan, hámark 1965 í 36 %, 2013 í 18 %
  4. Bandaríkin, BNA, hámark 1960 í 30 %, 2013 í 11 %
  5. Frakkland, hámark 1970 í 22 %, 2013 í 8 %

Raunlaunahækkun undanfarið er mest í landinu með minnsta skráða aðild að launþegasamtökum, svo að áróður verkalýðsfélaganna hérlendis um versnandi stöðu verkalýðs án aðildar að verkalýðsfélagi, stenzt ekki samanburð við útlönd. Það er hégilja, að starfsemi verkalýðsfélaga hafi grundvallaráhrif á kaupmáttinn til lengdar.  Þar ræður miklu meira lögmál framboðs og eftirspurnar og sú staðreynd, að einkaneyzla er hagvaxtarhvetjandi, og hár kaupmáttur er þess vegna þjóðhagslega hagkvæmur, ef hann er sjálfbær.  Við endurskoðun löggjafar um stéttarfélög og vinnudeilur er brýnt að banna þvingaða aðild að verkalýðsfélögum.

Í "ríkum" löndum, t.d. G7, stendur neyzla heimilanna undir 55 % (Frakkland-háskattaland-mikil ríkisumsvif) - 68 % (BNA-lágskattaland-lítil ríkisumsvif) af landsframleiðslunni. Það er þess vegna þjóðhagslega hagkvæmt, að launþegar fái væna sneið af kökunni, sem er til skiptanna, en þetta er línudans, því að þvinguð launahækkun umfram sanngjarna skiptingu á milli launamanna og fjármagnseigenda mun koma í fang launþega sem bjúgverpill.  Ef bogi greiðslugetu fyrirtækjanna er spenntur um of, munu þau draga saman seglin og fækka fólki, sem eykur ójafnræðið í þjóðfélaginu.  GINI-stuðullinn hækkar.

Á Íslandi máttu almennir launþegar vel una hlut sínum fyrir kjaradeilur 2015, því að kaupmáttur launa varð á árinu 2014 tæplega 18 % hærri en aldamótaárið 2000, sem er svipað og 2008, en hann varð hæstur árið 2007 og varð þá tæplega 20 % hærri en aldamótaárið, lækkaði í kjölfar Hruns niður í rúm 6 % yfir aldamótaárinu og er væntanlega nú þegar orðinn sá hæsti, sem um getur hérlendis.

Vísitala kaupmáttar launa segir ekki alla söguna um velferðina og tekjuskiptinguna í landinu.  Samkvæmt Hagstofunni var tekjuhæsti fimmtungur þjóðarinnar með 3,1 sinnum hærri laun en tekjulægsti fimmtungurinn árið 2014, og GINI-stuðullinn var það ár hinn lægsti, sem þekkist, eða 22,7, en var til samanburðar 29,6 árið 2009.  Það er frábær árangur stjórnvalda og atvinnulífs að ná á sama tíma sögulega hæstum kaupmætti og mestum jöfnuði og virkilegt heilbrigðismerki á íslenzka þjóðfélaginu. Á Íslandi voru þó árið 2014 13 % fólks á atvinnualdri undir lágtekjumörkum, en það er samt lægra hlutfall en annars staðar þekkist, og var þetta hlutfall t.d. 25 % í ESB að jafnaði. Þessi hlutföll taka ekki tillit til fjármagnstekna, og þess vegna er áhugavert að skoða, hvort stærri hluti landsframleiðslunnar renni til fjármagnseigenda en í öðrum löndum. Ef tekið væri tillit til fjármagnstekna, mundi jöfnuður á Íslandi hafa aukizt mun meira en að ofan greinir, þar sem fjármagnstekjur nú eru ekki svipur hjá sjón, eins og sýnt er hér að neðan.

Fyrir samkeppnihæfni fyrirtækjanna og getu þeirra til launahækkana er mikilvægt, hversu stór hluti tekna þeirra rennur til launamanna, sem ekki vinna hjá sjálfum sér, og til greiðslu launatengdra gjalda.

Magnús Júlíusson, verkfræðingur, birti um þetta mikilsverða mál áhugaverðan samanburð í Morgunblaðinu þann 6. júní 2015,"Leikur að tölum og lífskjör Íslendinga", og er niðurstaða hans sýnd hér að neðan.  Þar kemur fram samkvæmt Eurostat, Hagstofu ESB, að árið 2013 nam beinn og óbeinn launakostnaður fyrirtækja á Íslandi tæplega 60 % af tekjum þeirra, og þá hafa rúmlega 40 % verið eftir til að greiða afborganir lána, vexti, færa afskriftir fastafjármuna, greiða eigendum arð og færa annan hagnað sem eigið fé, greiða einyrkjum og öðrum starfandi eigendum laun og að greiða skatta og skyldur til sveitarsjóða og ríkissjóðs. Aðeins í tveimur löndum Evrópu er þetta hlutfall hærra, í Danmörku og í Sviss, og þykja þau bæði vera dýr. Í báðum þessum löndum er framleiðnin meiri en á Íslandi, sem vekur ugg um sjálfbærni hárra nafnlaunahækkana 2015, sem vafalaust hafa hleypt Íslandi upp fyrir Danmörku og jafnvel upp í toppsætið á þessum lista árið 2015: 

Launakostnaður sem hlutfall af tekjum fyrirtækja 2013:

 

  1. Danmörk:      61,0 %
  2. Ísland:       58,6 %
  3. Finnland:     58,1 %
  4. Svíþjóð:      54,2 %
  5. ESB:          53,5 %
  6. Evru-lönd:    53,3 %
  7. Noregur:      50,4 %
  8. Írland:       45,1 %
  9. Grikkland:    36,9 %

Fullvíst má telja, að Seðlabankinn muni á árabilinu 2015-2017 hækka stýrivextina, e.t.v. um 5 %, til að hamla gegn verðlagsáhrifum aukinnar eftirspurnar. Jafnvíst er talið, að hann hefði verið í færum til að lækka stýrivextina, ef launþegar hefðu sýnt þá hófsemi og biðlund að semja um launahækkanir á bili, sem Seðlabankinn taldi ekki mundu raska stöðugleika. Það verður tilfinnanlegt fyrir mörg fyrirtæki, mun ásamt launahækkunum ríða sumum að fullu og neyða önnur til að draga saman seglin til að ná endum saman, og þar sem samkeppni er takmörkuð, sem því miður er Akkilesarhæll íslenzka hagkerfisins, verður reynt að bjarga sér með verðhækkun á afurðum fyrirtækjanna, vörum og þjónustu. 

Einn er sá hópur manna, sem verst fór út úr Hruninu og hefur alls ekki náð á sér strik, eins og launþegarnir.  Sumir í þessum hópi fjárfesta munu hagnast á því ástandi, sem íslenzka hagkerfið nú siglir inn í, en ekki allir. 

Svartagallsrausarar á við Gunnar Smára Egilsson og aðrir boðendur bölmóðs hérlendis, sem ala á óánægju og einkum öfund á meðal almennings og halda því fram, þvert á tölfræðilegar staðreyndir, en berja samt hausnum við steininn og reyna að telja fólki trú um, að á Íslandi sé miður gott að búa, að íslenzk alþýða hafi borið byrðarnar fyrir fyrirtækin og að ráðamenn beri ekki skynbragð á kjör almennings.  Verður nú vitnað orðrétt í niðurlag téðrar Morgunblaðsgreinar Magnúsar Júlíussonar um þetta efni:

"Raunveruleikinn er sá, að íslenzkir launamenn eru að jafna sig efnahagslega eftir hrunið, og eftir síðustu kjarasamninga er full ástæða til að ætla, að lífskjör á Íslandi verði betri fyrir þorra almennings en þau voru árið 2007. 

Jafnframt fá íslenzkir launþegar stærri sneið af landsframleiðslunni til sín en launþegar í nær öllum öðrum löndum Evrópu. 

Hitt er annað mál, að fjármagnseigendur hafa ekki náð sama flugi og árið 2007.  Um eitt er hægt að vera sammála Gunnari [Smára Egilssyni-Innsk. BJo] - íslenzkir fjármagnseigendur hafa það skítt á Íslandi í dag, ef miðað er við árið 2007.  Kannski er hann að skrifa til þeirra ?"

Hér að neðan er yfirlit um fjármagnstekjur á Íslandi 2000-2013:

 

  • Ár 2000:  94,3 mia kr
  • Ár 2001: 103,0 mia kr
  • Ár 2002: 100,6 mia kr
  • Ár 2003: 130,7 mia kr
  • Ár 2004: 150,1 mia kr
  • Ár 2005: 229,0 mia kr
  • Ár 2006: 284,9 mia kr
  • Ár 2007: 413,5 mia kr
  • Ár 2008: 287,6 mia kr
  • Ár 2009: 186,2 mia kr
  • Ár 2010:  89,9 mia kr
  • Ár 2011:  80,7 mia kr
  • Ár 2012:  85,0 mia kr
  • Ár 2013:  95,2 mia kr

Á tímabilinu 2007-2013 lækkuðu fjármagnstekjur landsmanna um 318 mia kr, og átti þetta fall meginþáttinn í falli heildarráðstöfunartekna eftir skatt um tæplega 400 mia kr á sama tímabili, reiknað á föstu verðlagi, og nam lækkun fjármagnstekna um 78 % af lækkun heildarráðstöfunartekna, en um 22 % stöfuðu af hærri skattheimtu, meira atvinnuleysi, minni atvinnuþátttöku (fækkun á vinnumarkaði) og styttri vinnutíma. 

Bóluhagkerfið og sprenging þess er meginskýringin á samdrætti heildarráðstöfunartekna, en kaupmáttur hverrar vinnustundar hafði hins vegar fyllilega skilað sér til launþega, er vinnudeilur hófust fyrir alvöru árið 2015.  Þessi mikli ávinningur launþeganna frá Hruni er hins vegar núna í uppnámi vegna óbilgjarnra launakrafna, sem taka ekkert mið af efnahagslegum stöðugleika, en eru kannski vonlaus tilraun til að láta vinnuveitendur bæta upp tap heildarráðstöfunartekna, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, en slíkri tilraunastarfsemi má jafna við leik skessanna með fjöregg þjóðarinnar, sem er handan heilbrigðrar skynsemi, og sumir telja af annarlegum rótum runninn. 

Í tengslum við gerð kjarasamninga hefur ríkisstjórnin boðað nokkrar aðgerðir, t.d.:

  • Tekjuskattslækkun:              16 mia kr á ári
  • Niðurfelling tolla á fatnað:     2 mia kr á ári
  • Félagslegt húsnæði:              5 mia kr
  • _______________________________________________
  • Alls                            23 mia kr

Launahækkanir til ríkisstarfsmanna eru taldar geta kostað ríkissjóð 51 mia kr á ári við lok samningstímans.  Hér er um að ræða heildarkostnað ríkissjóðs vegna kjarasamninga a.m.k. 74 mia kr, sem er svipuð upphæð og árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs fyrir jákvæð áhrif afnáms fjármagnshaftanna.HINGAÐ

Hins vegar mun aukin neyzla vegna launahækkana  og lægri skattheimtu skila sér að nokkru leyti í ríkissjóð til baka.  Nú hefur verið boðuð skattheimta á slitabú föllnu bankanna, sem ganga á til lækkunar á skuldum ríkissjóðs.  Slíkt mun draga úr vaxtabyrðinni.

Það er hugsanlegt, að heildartekjuaukning ríkissjóðs muni jafna út tekjutapið og auknu útgjöldin, og slíkt er reyndar nauðsynlegt fyrir jafnvægi í ríkisbúskapinum.  Hins vegar er stöðugleika hagkerfisins ógnað, þar sem spáð er yfir 6 % verðbólgu árið 2017 og minnkandi hagvexti niður fyrir 2 % sama ár.  Erlendar fjárfestingar í landinu munu vonandi bjarga gjaldeyrisjöfnuðinum, því að hrynji hann, hrynur krónan.  Allt er nú í hers höndum. 

 

 

  

       

      

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Viðskiptaráð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands reyna að handstýra tölum um samkeppnishæfni Íslands.

Sett á blogg Bjarna Jónssonar

Hvað verður um samkeppnishæfnina ?

Þú segir.

„Umgjörð hagkerfisins hefur dregið Ísland niður í samkeppnihæfni, en við að aflétta fjármagnshöftum, eins og nú er búið að kynna áætlun um, mun hagur strympu vænkast.“

000

Nú er lofað að samkeppnishæfni Íslands batni ef við leyfum einkafjármálakerfinu að flytja „ágóðan“ af „KREPPUSVINDLINU“ til útlanda í gjaldeyri.

000

Stór hluti af könnunum um samkeppnishæfni Íslands eru byggðar á mati umsagnaraðila, sem eru valdir af Viðskiptaráði Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

000

Hvers vegna er Viðskiptaráð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands

eða viðmælendurnir að draga niður samkeppnishæfni Íslands,

og eru þeir nú að lofa að gefa Íslandi betri einkunn ef þeir fá að koma ágóðanum af kreppufléttunni til útlanda í erlendum gjaldeyri.

Hagtölur

Jónas Gunnlaugsson | 17. nóvember 2014

Samkeppnishæfni

Jónas Gunnlaugsson | 26. október 2014

Umsagnir frá hagsmunaaðilum það er hagsmunir og pólitík eiga ekki að lita tölur um samkeppnishæfni.

Egilsstaðir, 16.06.2015  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 16.6.2015 kl. 05:16

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Með tilvitnaðri málsgrein átti ég ekki einvörðungu við fjármagnsfærslur utan, t.d. fyrir lífeyrissjóðina og einstaklinga til fjárfestingar á erlendri grundu, heldur einnig og fremur beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi.  Þetta er áhættufjármagn, þar sem fjárfestar hafa hug á að fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum og viðeigandi húsnæði, sem myndar grunn að auknum vexti hagkerfisins. 

Það er hæpið að gera því skóna, að einhvers konar samsæri sé í gangi um að veita rangar upplýsingar, er leiða til ályktana um of lága samkeppnishæfni íslenzkra atvinnuvega.  Aðilarnir, sem þú nefnir í því sambandi, eru ekki svo vitlausir að leggja trúverðugleika sinn að veði fyrir svo hæpinn ávinning.

Bjarni Jónsson, 16.6.2015 kl. 17:18

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þú segir, Björn Jónsson

„Það er hæpið að gera því skóna, að einhvers konar samsæri sé í gangi um að veita rangar upplýsingar, er leiða til ályktana um of lága samkeppnishæfni íslenzkra atvinnuvega.  Aðilarnir, sem þú nefnir í því sambandi, eru ekki svo vitlausir að leggja trúverðugleika sinn að veði fyrir svo hæpinn ávinning.“

000

Ég notaði , bros, hluta af vitinu sem“Guð mér gaf,“ og sé ekki betur en Sigurður Már Jónson velti vöngum einnig um hvort Viðskiptaráð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands  hafi gleymt því að internet samskiptin rugla yfirráðin yfir fjölmiðluninni.

000

Egilsstaðir, 16.06.2015  Jónas Gunnlaugsson

000

Hér skrifar  Sigurður Már Jónsson

8. september 2014 kl. 22:10

http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/sigurdurmar/1441046/

Samkeppni og hæfni þjóða

...... „Það er mjög athygli vert að Ísland kemur hlutfallslega mun verr út úr þeim þáttum sem rekja má til huglægra svara stjórnenda en þeim áþreifanlegu.

Ísland skrapar botninn í mörgum þessara mælikvarða þar sem stjórnendur í löndunum 60 gefa sínu landi einkunn svo vitnað sé til könnunar IMD.

Margt er kúnstugt í þessum svörum stjórnenda, svo sem að gagnsæi í stjórnsýslu sé meira í kínverska alþýðulýðveldinu en á Íslandi!

Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið stjórnenda vigti enn þyngra í könnun WEF eða hve alvarlega taka menn niðurstöðu um að bankakerfið hér sé lakara en í Afríku?

Af þessu má draga tvær ályktanir, fyrir utan þá augljósu að taka verði slíkum rannsóknum með fyrirvara.“ ......


 

 

Jónas Gunnlaugsson, 16.6.2015 kl. 22:02

4 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þessi skrif þín og greining Bjarni Jónsson, gefa mér og mínum líkum aukna þekkingu og aukin skilning.

Takk fyrir Bjarni Jónsson

Egilsstaðir, 17.06.2015 Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 17.6.2015 kl. 07:09

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas, og gleðilega Þjóðhátíð;

Ég tók líka eftir þessu, að huglæga matið dró niðurstöðuna niður.  Það hvílir einhver drungi yfir svörunum.  Ég var að ímynda mér, að það væru áhyggjur út af ástandinu á vinnumarkaðinum og haftalosuninni.

Vonandi horfir allt til betri vegar nú.

Með góðri kveðju austur / Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson, 17.6.2015 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband