Snilldarsnykur af áformum

Allir vildu Lilju kveðið hafa, var skrifað um vel ígrundað og vel ort íslenzkt trúarkvæði í kaþólskum sið, en ekki um Lilju Mósesdóttur með sinn boðskap um útgönguskatt á gjaldeyri frá Íslandi eftir losun hafta.

Nú hefur verið kynnt til sögunnar afreksverk, þar sem framkvæmdahópur undir leiðsögn stýrihóps, sem fjármála- og efnahagsráðherra Íslands fer fyrir, hefur, með vandaðri og hnitmiðaðri undirbúningsvinnu, fundið ágæta lausn á afar flóknu viðfangsefni, sem er afnám fjármagnshafta með hámarks ávinningi og lágmarksáhættu fyrir íslenzka ríkið, en ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde setti höftin á í neyð fyrir tæplega 7 árum.

Það er hárrétt, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt á þessum tímamótum nú, að losun fjármagnshaftanna varðar veginn í framfarasókn þjóðarinnar til bættra lífskjara.  Nægir að benda á þróun vaxtabyrði ríkissjóðs í þessum efnum, sem nú eru tæplega 80 milljarðar kr á ári.  Ef skuldir ríkissjóðs verða lækkaðar um 30 % með fé, sem ríkissjóði mun áskotnast við uppgjör slitabúa föllnu bankanna og tengdum aðgerðum, sem nú er í sjónmáli, þá mun vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um hér um bil 30 milljarða kr á ári, því að væntanlega verður reynt að greiða fyrst upp óhagstæðustu lánin.  Þessi gjörningur mun bjarga fjárhag ríkissjóðs yfir núllið, sem gæti orðið fyrir útgjaldaaukningu og tekjutapi upp á 70 milljarða kr á ári vegna kjarasamninganna 2015, en mun fá það, sem upp á vantar, til baka í auknum skatttekjum vegna hærri launa, aukinnar neyzlu og fjárfestinga. 

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gerði ekkert til að losa um höftin, enda hafði hún hvorki vilja né getu til þess.  Vinstri flokkar eru haftaflokkar í eðli sínu, af því að með höftum hafa stjórnmálaflokkar meiri stjórn á þegnunum, geta deilt og drottnað, sem eru ær og kýr vinstri flokkkanna, og geta ráðið því í smáatriðum, hverjir fá að nota gjaldeyri og í hvað. 

Þetta telja vinstri menn og hafa alltaf talið, að ríkið eigi að ráðskast með, en borgaralega sinnað fólk telur slíka fjármagnsflutninga einkaaðila vera utan ráðsmennskusviðs ríkisvaldsins.  Þarna er grundvallarmunur á stjórnmálaflokkunum, sem standa að núverandi ríkisstjórn og hinna, sem stóðu að fyrri ríkisstjórn.

Varðandi getu núverandi stjórnarandstöðu til að móta og þróa lausn á viðfangsefninu, "Losun 7 ára gamalla fjármagnshafta á Íslandi", sem væri ekki síðri en sú farsæla lausn, sem nú hefur verið kynnt til sögunnar, er það að segja, að það eru minni líkur á, að hún gæti það en eru á, að hyskinn og áhugalaus nemandi standi sig betur á prófi en metnaðarfullur afburðanemandi.

Til að styðja þetta er rétt að rifja upp nokkra gjörninga vinstri stjórnarinnar, sem fjármagni tengjast. 

Á vegum þeirrar ríkisstjórnar var gerður samningur við Breta og Hollendinga um, að íslenzkir skattborgarar skyldu gangast í ábyrgð fyrir greiðslum á skuldum útibúa hins fallna Landsbanka í Bretlandi og Hollandi.  Talið er, að með umsömdum vaxtagreiðslum hefði þetta ekki orðið undir 300 mia kr myllusteinn um háls skattgreiðenda á Íslandi.  Þetta fékk vinstri stjórnin þingmenn sína til að samþykkja í a.m.k. tvígang, en jafnoft var hún gerð afturreka í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Back to the drawing desk", en aldrei fann hún viðunandi lausn á þessu viðfangsefni fyrir íslenzku þjóðina, heldur réð þjónkun við fjármagnseigendur og stjórnendur Evrópusambandsins, ESB öllum hennar gerðum.  Ríkisstjórninni, þeirri, þótti meira virði að fá fram lausn, sem væri þóknanleg herrunum í Berlaymont en hagfelld íslenzku þjóðinni. 

Annað dæmi er afhending vinstri stjórnarinnar á eignarhaldi Aríon-banka og Íslandsbanka til kröfuhafa föllnu bankanna. Þetta var bæði löglaus og siðlaus gjörningur. Nýju bankarnir voru samkvæmt Neyðarlögunum ríkisbankar, en af einskærri þjónkun við kröfuhafa föllnu bankanna var þeim afhent eignarhaldið á silfurfati, og hagsmunir íslenzka ríkissjóðsins þar með fyrir borð bornir.  Þessir bankar hafa frá 2009 skilað tæplega 400 mia kr hagnaði til eigenda sinna, sem ríkið að mestu hefur orðið af.  Ætla má, að markaðsvirði þessara banka geti verið um 500 mia kr, svo að vinstri stjórnin hlunnfór skattborgarana þarna með einu pennastriki hugsanlega um 900 mia kr m.v. stöðuna 2015. Það er broslegt að gefa til kynna, að slíkt fólk hefði verið þess umkomið að finna jafngóða lausn á jafnflóknu viðfangsefni og losun gjaldeyrishafta á Íslandi 2015.

Af fréttum að dæma ætla slitabúin bráðlega að selja sinn hlut í téðum bönkum, og hefur á vegum núverandi ríkisstjórnar hlutur ríkissjóðs verið réttur nokkuð, með því að hann fær hluta af söluandvirði umfram ákveðna upphæð, en hverjum dettur eiginlega í hug, að þeir, sem alltaf kiknuðu í hnjáliðunum 2009-2013, hefðu haft þrek til að standa í lappirnar árið 2015, eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert ?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, gefur í skyn í viðtölum nú, að Samfylkingin hafi verið með svipuð áform uppi og núverandi ríkisstjórn hefur nú opinberað. Ekkert getur verið fjær sanni, því að ÁPÁ fullyrti hvað eftir annað af fádæma grunnhyggni, að ekki yrði hægt að losa um höftin án þess að ganga í ESB. Þessi innistæðulausi og digurbarkalegi talsmáti nú minnir aðeins á söguna í Njálu um Björn að baki Kára.  Björn, þessi, hafði uppi digurbarkalegar lýsingar af framgöngu sinni við hlið kappans Kára Sölmundarsonar eftir bardagann, en sannleikurinn var sá, að hann var vitagagnslaus í bardaga og verri en enginn.

Umgengni ráðherra vinstri stjórnarinnar um ríkissjóð er rétt lýst með nýlegu dæmi af fyrrverandi menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, en hún hækkaði árið 2009 árlegar fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart Lánasjóði íslenzkra námsmanna um 20 % án þess að gera nokkra þarfagreiningu á undan.  Hún hefur viðurkennt þessi afleitu vinnubrögð og slæmu umgengni við almannafé, en í forstokkun sinni og stærilæti kallar hún þessi forkastanlegu vinnubrögð "heilbrigða skynsemi". 

Það var nákvæmlega ekkert heilbrigt við hana né aðra ráðherra vinstri stjórnarinnar, og framganga þeirra gegn þjóðarhagsmunum 2009-2013 ásamt yfirleitt slæmum og óvönduðum vinnubrögðum sýnir, svo að ekki verður um villzt, að þeir hefðu aldrei megnað að ná viðlíka góðum áfanga við losun gjaldeyrishaftanna og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur nú náð.   

   

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvernig líður fólki sem þolir ekki framgang þjóðar sinnar,eins og henni er eðlislæg? illa? -vonandi uppgötvað að í langflestum býr sú eina sanna heilbrigða skynsemi,sem tókst að afstýra þjóðargjaldþroti og er nú að aflétta aðkallandi gjaldeyrishöftum.

Helga Kristjánsdóttir, 10.6.2015 kl. 02:30

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Aðkallandi að létta gjaldeyrishöftum.

Helga Kristjánsdóttir, 10.6.2015 kl. 02:35

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Vandamálið er, að hjarta ýmissa slær í Brussel.  Þessu þurfa kjósendur á Íslandi að átta sig rækilega á.  Brussel-dindlar setja hagsmuni almennings ekki í forgang, heldur það, að ganga í augun á forystu ESB.  Sjáðu tiltæki ÁPÁ í vetur.  Strax eftir að utanríkisráðherra hafði sent bréfið, fræga, gerði hann sér ferð til Brussel, gekk á fund forystunnar í Berlaymont og tjáði henni , að hans fyrsta verk eftir valdatöku jafnaðarmanna á Íslandi yrði að ógilda bréfið og taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið, svo gáfulegt sem það nú yrði.

Bjarni Jónsson, 10.6.2015 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband