Kínverska kreppan

Frá því að Deng Tsiao Ping fékk uppreisn æru í Beijing, þegar miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins urðu ljós hrapalleg mistök flokksins undir stjórn stórglæpamannsins Mao Tse Tung, hefur verið reynt að framlengja óskoraðan valdatíma kommúnistaflokksins með því að virkja auðvaldskerfið, sem reist er á ágóðavon einstaklinganna, til að draga hlassið.  Kommúnistar hafa frá dögum læriföður síns, Karls Marx, haldið því til streitu, að ágóði einstaklinga sé jafnan á kostnað annarra og þar með heildarinnar, og þess vegna sé ófélagsleg hegðun að græða fé. Tilraunir Kínverja með auðvaldskerfið á afmörkuðum svæðum landsins sýndu þvert á móti, að einstaklingsgróði lyfti hag heildarinnar, nákvæmlega eins og Adam Smith, lærifaðir auðvaldssinna, hélt fram á 18. öld og búið er að margsanna í verki á Vesturlöndum og víða annars staðar síðan. Þetta eru þess vegna flestum á Vesturlöndum löngu kunn sannindi, þó að vinstri sinnaðir jafnaðarmenn neiti að viðurkenna þau, hvar sem er í heiminum. Það sýnir betur en margt annað, að marxisminn og afsprengi hans eru eins konar trúarbrögð, þar sem staðreyndir koma málinu ekki við. 

Þetta var auðvitað niðurlægjandi niðurstaða fyrir kommúnista í Kína, en Kínverjar eru raunsæismenn og ákváðu eftir árangursríka tilraun í héruðum við ströndina að innleiða auðvaldskerfið um allt land, jafnvel í landbúnaði, þar sem stofnun samyrkjubúa hafði leitt til hungursneyðar í hinu "Stóra stökki" Maos, formanns. Deng hafði sagt með réttu, að ekki skipti máli, hvort kötturinn væri svartur eða hvítur, heldur hvort hann veiddi eða ekki.  Auðvaldskerfið gerði kraftaverk á kínverska hagkerfinu, en friðsamleg sambúð þess og kommúnistaflokksins kann nú að vera komin á leiðarenda, því að margvísleg sjúkdómseinkenni, sem stafa af þessari sambúð, eru nú að koma í ljós, enda er miðstýrt auðvaldskerfi mótsögn í sjálfu sér, og samkeppnin getur aldrei orðið frjáls í slíku kerfi. Megnið af fjárfestingum í Kína hefur verið á vegum ríkisfyrirtækja, en hagvöxturinn er mestmegnis framkallaður af einkafyrirtækjum. Fjárfestingar ríkisfyrirtækjanna voru skuldsettar, fjárfestingar einkafyrirtækjanna ekki.  Nú er komin upp peningaþurrð í Kína, sem leitt getur til hruns hagkerfisins.    

Fyrsta augljósa veikleikamerkið var hrun bólgins hlutabréfamarkaðar sumarið 2015. Stjórnvöld eru sek um bæði bólguna og hrunið. Þau hvöttu almenning til að setja sparifé sitt í hlutabréfakaup, og margir skuldsettu sig fyrir hlutabréfakaupum.  Þeir hugsa nú yfirvöldum þegjandi þörfina, því að þeim er kennt um hrunið. Stjórnvöld hafa misst trúverðugleika í augum almennings, einkum unga fólksins.

Fyrirtæki í Kína eru gríðarlega skuldsett, og yfirvöld ráðlögðu þeim að selja hlutabréf á útblásnum markaði og greiða niður skuldir sínar þannig.  Skuldir Kínverja nema nú um 28 trilljónum bandaríkjadala (trilljón=1000 milljarðar), sem er mikið m.v. íbúatölu og landsframleiðslu.  Nú hefur hagvöxtur lækkað úr tæplega 10 % árið 2011 og í 7 % 2014 og fer lækkandi.  Júanið lækkar líka, því að fjármagnsflótti er hafinn frá Kína og aðallega til Bandaríkjanna, BNA. Vöruinnflutningur til Kína var 14 % minni í bandaríkjadölum talið í ágúst 2015 en í ágúst 2014. 

Kínversk stjórnvöld lofuðu að beita öllum brögðum til að styðja við hlutabréfamarkaðinn og hefur loforðið kostað kínverska ríkið um 1 trilljón bandaríkjadala, og enn er óstöðugleiki í kínverska hagkerfinu. Kínversk stjórnvöld eiga nú í síauknum erfiðleikum með að finna fjármagn til að halda hagkerfinu gangandi.  Þessi vandi á sér lengri aðdraganda en hrun hlutabréfamarkaðarins.  Mistök við hagstjórn í Kína gera það mjög ósennilegt, að landið verði mesta efnahagsveldi heims undir stjórn kommúnistaflokksins. Við þekkjum það, Íslendingar, að froðuhagkerfi veitir stundarfró, en í kjölfarið koma skuldadagarnir óhjákvæmilega. Pappírsverðmæti eru hillingar.  Aðeins verðmæti framleidd á sjálfbæran hátt verða varanleg, þó að mölur og ryð fái þeim grandað að lokum, eins og öðru veraldlegu.

Með því að binda gengi júans við bandaríkjadal og skrá gengið of lágt m.v. markaðsgengi, hefur Kínverjum tekizt að safna 4 trilljónum bandaríkjadala í gjaldeyrisvarasjóð, en þessi ráðstöfun hefur haft mjög þensluhvetjandi áhrif og ótæpileg peningaprentun verið stunduð. Slíkt hefur alltaf timburmenn í för með sér, sem nú virðist vera komið að.

Tvenns konar ályktanir má draga af óförum Kínverja.    Í fyrsta lagi, að Kína standi nú og muni áfram, með eins flokks kerfi, standa efnahagslega langt að baki vestrænum auðvaldsríkjum og Japan. 

Í öðru lagi, að hinn mikli uppgangur síðustu ára hafi ekki verið annað en sígild hagbóla, sem stafar af gegndarlausri peningaprentun og misráðnum ákvörðunum ráðamanna. 

Héraðsstjórar og aðrir pótintátar kommúnistaflokksins hafa beint gríðarlegu fjármagni í óarðbærar fjárfestingar, gæluverkefni sín, sem oft eru skuldsett, og af því stafar í raun núverandi afturkippur og fjármagnsskortur, að arðsemi fjárfestinganna vantar. 

Tilraunir kínverskra stjórnvalda til að viðhalda veizluhöldunum ættu að verða mönnum víti til varnaðar.  Allar mótvægisaðgerðir kínverska seðlabanakans og ríkisstjórnarinnar hafa haft neikvæðar afleiðingar annars staðar í hagkerfinu.  Þær kölluðu á aðrar mótvægisaðgerðir með neikvæðum afleiðingum o.s.frv. 

Lögmálið er, að eina ráðið við slæmum fjárfestingum eru afskriftir og gjaldþrot, ef sú er staðan.  Að dæla inn fé til að viðhalda ósjálfbæru ástandi gerir ekkert gagn til lengri tíma, heldur veldur tjóni, jafnvel gríðarlegu.  Þetta er algild lexía, og mætti verða mörgum forræðishyggjumanninum víti til varnaðar.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband