Úr myrkviðum vinstri stjórnar

Nú er komið upp úr kafinu, að einhver innan Stjórnarráðsins gaf skipun um að eyða netpóstum ráðuneytisstjóra í Viðskiptaráðuneytinu, ásamt geymsluafritum þeirra, á dögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þetta er vítavert athæfi.

Nú gæti einhver hugsað sem svo, að þetta væri einfaldlega enn eitt dæmið um lausatökin við stjórnvölinn eða axarsköptin, sem þessi umdeildasta og líklega lélegasta ríkisstjórn allra tíma á Íslandi er alræmd fyrir. 

Málið er hins vegar mun alvarlegra en svo, því að Morgunblaðið hefur fyrir því heimildir, að hér hafi verið um ásetningssynd að ræða og að verknaðurinn tengist Landsdómsréttarhaldinu yfir Geir Hilmari Haarde. 

Þar með er afar líklegt, að verknaðurinn sé saknæmur, og ákæruvaldið verður að kafa til botns í þessu máli.  Landsdómsmálið voru pólitískar ofsóknir villta vinstrisins á Íslandi gegn borgaralegum öflum, og réttarríkið á ekki að sýna meintum sökudólgum í þessu gagnaeyðingarmáli neina linkind.  Málið er í sjálfu sér miklu alvarlegra en "upplýsingalekinn" úr ráðuneyti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.  Það kostaði hana þó ráðherraembætti og varaformannsembætti í Sjálfstæðisflokkinum og e.t.v. lyktir á þingferli.  Þeir, sem sekir kunna að vera í þessu máli, gegna varla háum embættum lengur, en þeir eiga alls ekki að fá leyfi til að dyljast og e.t.v. ná einhvern tímann opinberu embætti.  Séu hér núverandi þingmenn á ferð, eiga kjósendur þeirra, svo og aðrir kjósendur, heimtingu á útskýringu á þessum vítaverða gerningi.  Forkólfarnir misnotuðu Alþingi og réttarkerfið, og sagan mun fara um þá ómjúkum höndum. 

Vinstri menn eru frægir fyrir að eiga erfitt með að viðurkenna söguleg mistök.  Þeir eru nú teknir til við að endurrita söguna með því að bera í bætifláka fyrir ráðherra téðrar vinstri stjórnar.  Nú er viðkvæðið, þegar talið berst að hrakfallasögu vinstri stjórnarinnar, að ráðherrarnir hafi ekki haft tíma til uppbyggilegra starfa, því að þeir hafi allan tímann verið að slökkva elda.  Þetta er tóm þvæla.  Ríkisstjórn Geirs Hilmars hafði þegar lagt grunn að endurreisn fjármálakerfisins, þegar Samfylkinguna þraut örendið í þessari ríkisstjórn, en það gerðist fljótlega eftir, að boð bárust frá forystu VG um, að hún væri tilbúin að ræða umsókn um aðild að Evrópusambandinu við ríkisstjórnarmyndun.  Þá ákvað Samfylkingin að setja Sjálfstæðisflokkinum stólinn fyrir dyrnar.  Þess vegna var boðað til Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í ársbyrjun 2009, en Sjálfstæðisflokkurinn lét ekki undan þar.  Í kjölfarið spannst hrikaleg atburðarás svika og landráða vinstri flokkanna í örvæntingarfullri tilraun til að þröngva landsmönnum í losti inn í ríkjabandalag Evrópu og að taka á sig skuldir bankakerfisins samkvæmt forskrift ESB. Nú virðist annar þessara stjórnmálaflokka vera að líða undir lok, enda er forysta hans fláráð og í engu treystandi.

Í tilefni téðrar sögufölsunar vinstri manna, sem erfitt eiga með að horfa framan í sannleikann, er tímabært að rifja upp nokkur axarsköpt vinstri stjórnarinnar, sem flest voru fallin til að seinka viðreisn hagkerfisins:

  1. Fyrsta verk minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var að setja af sem formann bankastjórnar Seðlabankans höfuðstjórnmálaandstæðing sinn í tvo áratugi, Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra.  Var það gert með lagabreytingu, og fylgdi öll bankastjórnin.  Var þetta fáheyrð valdníðsla í lýðræðislandi, þar sem Seðlabankinn á að vera sjálfstætt stjórnvald.  Var niðurlægjandi og gegn lögum að fá norskan íhlaupamann úr Verkamannaflokkinum í Noregi í staðinn, og sérlega illa hefur þótt til takast með arftakann, sem ber ábyrgð á lagabrotum og slæmri stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd eftirlits með gjaldeyrishöftunum, eins og rækilega hafa verið gerð skil í Morgunblaðinu og á þessum vettvangi og víðar.
  2. Vinstri stjórnin fékk Alþingi til að samþykkja vanhugsaðar breytingar á stjórnarráðslögunum, að því er helzt verður skilið, til að samsama sig því, sem hún hélt, að væri Evrópusambandinu þóknanlegt.  Er það afleitur útgangspunktur lagasetningar að apa gagnrýnislaust eftir öðrum.  Slíkt er heimskra manna háttur. 
  3. Vinstri stjórnin setti á svið sirkus um nýja Stjórnarskrá til að koma þar inn nokkrum pólitískum áhugamálum sínum, sem áttu að auðvelda henni að kasta skjóðunni inn um "Gullna hliðið" í Berlaymont og að knésetja einkaframtakið í landinu með þjóðnýtingu sjávarútvegsins.  Þetta var skólabókardæmi um það, hvernig ekki á að standa að stjórnarskrárbreytingum í lýðræðisríkjum, en er við hæfi í bananalýðveldum, og er við hæfi Marxista.  Að láta sirkus semja nýja Stjórnarskrá er auðvitað algerlega fráleit hugmynd í ljósi þess, hvað Stjórnarskrá er, og hefði sett af stað hér réttarfarslega ringulreið.  Stjórnarskrárbreytingar í þróuðu lýðræðisríki er verkefni fyrir sérfræðinga á sviði stjórnskipunar- og stjórnlagaréttar, en ekki sirkusdýra, sem skiptast á banönum og hnetum, svo að hver fái nokkuð fyrir sinn snúð, og taka svo lagið að sínum hætti.  Nú er verið að vinna að afmörkuðum breytingum á Stjórnarskrá lýðveldisins með ólíkt gæfulegri hætti en áður.  Æfingum á borð við lækkun þröskuldar við framsal fullveldis til erlendra stofnana ber þó að taka vara fyrir, enda verður ekki séð, hverjum slíkt ætti að verða til góðs.
  4. Alræmd varð vinstri stjórnin fyrir á annað hundrað skattalagabreytingar, sem allar voru til hækkunar skattheimtu og virkuðu í heildina mjög íþyngjandi á framkvæmdavilja einstaklinga og fyrirtækja og töfðu þess vegna viðsnúning hagkerfisins um 3 ár eftir Hrun fjármálakerfisins haustið 2008.  Að yfirvarpi var höfð fjárþörf hins opinbera, en þegar reynt er að kreista skattstofna, sem nýlega hafa orðið fyrir stórfelldu eignatapi og margir einnig talsverðu tekjutapi, þá gefur auga leið, að afleiðingin verður sú, að enginn nýr safi myndast, heldur skreppur skattstofninn saman, enda var það ekki fyrr en eftir kosningar vorið 2013 og umbætur á skattakerfinu voru boðaðar og hafnar, að hagvaxtar tók að gæta fyrir alvöru og aukinna skatttekna hins opinbera í kjölfarið. Enn hamlar skattkerfið þó samkeppnishæfni Íslands, þó að nokkuð hafi áunnizt, og er Ísland að þessu leyti eftirbátur allra Norðurlandanna, nema Danmerkur. Hugmyndafræði vinstri manna, ef fræði skyldi kalla, snýst um að beita skattkerfinu til að pína heiðarlegt og duglegt fólk til að láta fé sitt og eignir af hendi við hið opinbera, svo að misvitrir stjórnmálamenn geti endurútdeilt verðmætunum í gæluverkefnin sín.  Þetta kalla þeir að "auka réttlætið", en þetta er grunnhyggin afstaða út frá rekstrarsjónarmiði hins opinbera, því að íþyngjandi álögur minnka verðmætasköpun frá því, sem ella væri.  Vinstri menn kæra sig hins vegar kollótta yfir því, af því að þeir eru yfirlýstir andstæðingar hagvaxtar, eða a.m.k. efasemdarmenn um gagnsemi hans og sjálfbærni.  Þetta sýnir í hnotskurn við hvers konar viðvaninga um hagspeki er að fást á vinstri kantinum. Það krystallast algerlega í upphrópunum "litlu hagheilanna" um skaðsemi þess, að ríkið "afsali sér tekjum", þegar álögur eru lækkaðar.  Hugarheimurinn að baki þessu orðalagi er augljóslega sá, að ríkið eigi rétt á öllum tekjum, sem aflað er í þjóðfélaginu.  Þetta er hrein og ómenguð sameignarstefna Karls Marx.  Hið rétta er, að þar sem hið opinbera hefur farið offari við skattheimtuna, virkar lækkun skattheimtu til aukinna skatttekna.  Þetta er ofvaxið skilningi "litlu hagheilanna", þó að auðskilin dæmin blasi við. 
  5. Það væri að æra óstöðugan að telja upp allar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar, en minnast má á fjármagnstekjuskattinn, þar sem verðbætur eru skattlagðar, sem er furðulegt og afar sparnaðarhamlandi.  Eitt af stefnumiðum fjármálastjórnar í landinu ætti að vera efling sparnaðar, en há skattlagning á fjármálatekjur dregur stórlega úr hvata til sparnaðar.  Tvöföldun erfðafjárskattheimtu var níðangursleg, enda í flestum tilvikum áður búið að greiða skatt við öflun eignanna.  Tryggingagjaldið dregur úr hvata til mannaráðninga, og þess vegna skýtur skökku við, að það skyldi hækkað, þegar atvinnuleysi jókst.  Nú á að lækka það til mótvægis við hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð starfsmanna sinna.  Sú hækkun og samræming lífeyrisréttinda í landinu er þarft mál og sanngjarnt á tímum hækkandi meðalaldurs í landinu og lengri tíma á lífeyri. HINGAÐ Geta ríkissjóðs til bótagreiðslna og ellistyrks mun að sama skapi fara minnkandi, eftir því sem færri vinnandi menn eru á móti hverjum landsmanni á ellilífeyrisaldri. 
  6. Afstaða vinstri manna til sjávarútvegsins sýnir, hversu veruleikaskyn þeirra er brenglað og hversu mikil slagsíða er á réttlætistilfinningu þeirra.  Þeir vilja taka eignarréttinn yfir aflahlutdeildunum úr sambandi og bjóða þær upp.  Þetta er eins og að gefa útgerðarmönnum val um að hypja sig af miðunum eða fá þeim í hendur skammbyssu með einu skoti í og skipa þeim að beina henni á höfuð sér og hleypa af.  Rúsnesk rúlletta heitir það og er algerlega óhæf hagstjórnaraðferð.  Þetta sýnir, að hugarfar gömlu bolsanna gengur hér ljósum logum, þegar kemur að afstöðu vinstri manna á Íslandi til atvinnurekstrar. 
  7. Arfavitlaus löggjöf Jóhönnustjórnarinnar, sem skyldar innflytjendur eldsneytis til að blanda brennsluolíuna með lífdísli og bensínið með etanóli, kostar bílrekendur tugi þúsunda á ári per bíl án þess að draga hið minnsta úr koltvíildislosun á heimsvísu, því að lífeldsneytið er unnið úr fóður- eða matjurtum og hækkar verð á þessum lífsnauðsynjum.  Á Íslandi er eina raunhæfa ráðið til að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda við vélabruna að rafvæða farartækin. Íslendingar eru að vakna til meðvitundar um þetta. Þar sem vinstri mönnum er ekki gefin andleg spektin, hafa þeir að sjálfsögðu tekið upp á því að berjast fyrir rafknúnum léttlestum og sporvögnum. 
  8. Húsbyggjendum og -kaupendum var gert lífið leitt af vinstri stjórninni með nýrri byggingarreglugerð, sem talin er hafa í för með sér allt að 15 % hækkun á byggingarkostnaði, og strangt greiðslumat heldur fólki í fjötrum hárrar húsaleigu.  Nú er Kópavogskaupstaður að brjótast út úr þessum vítahring undir forystu sjálfstæðismanna.

Þetta eru nokkur dæmi af handahófi um leikhús fáránleikans í boði Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, þar sem heilbrigð skynsemi var tekin út fyrir sviga og henni eytt út úr stjórnsýslu ríkisins.  Farsinn heldur áfram á Alþingi undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur, lúpínueyðis, og mannvitsbrekkunnar Árna Páls Árnasonar, svo að ganga má að því sem vísu, að nái Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð völdum á ný í Stjórnarráðinu, þá mun hér öllu verða riðið á slig með heiftrækni og fávísi við stýrið, hvað sem sjóræningjum líður.   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það verður að eyða sönnunargögnum.

Þetta voru glæpamenn.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.11.2015 kl. 14:50

2 Smámynd: Elle_

Ekki vafi frá mínum bæjardyrum að það var versta stjórn landsins að frátöldum Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni.  Þeir gátu ekki gert mikið mannlegt undir svona ofurefli.

Elle_, 16.11.2015 kl. 22:42

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Íslenskir miðju menn eru ljóslega gungur af betri gerðinni, því þeir láta kommúnista rass skella sig aftur og aftur en þora svo ekkert að gera þegar færið er þeirra. 

Ég held að það sé komin tími á að við fáum okkur alvöru hægriflokk, eða skiptum um stjórn í brúnni  í Valhöll. 

Hrólfur Þ Hraundal, 16.11.2015 kl. 23:06

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Það er kominn þriðji fjórðungur í umsátri vinstriaflanna um þjóðríkið okkar Ísland.-Það gat nú verið að kæmi meira grugg upp úr kafinu eftir stjórnarsetu Jóhönnu Sig. Það er þó ekkert smámál og sýnir vítaverðan ásetning þeirra að eyðileggja gögn sem     skiptu miklu i Landsdómsmálinu gegn Geir Haarde. Bjarni skýrir hér frá og ættu menn ekki að linna látum fyrr en hægt er að fá það upp á yfirborðið.

Hrólfur það er þetta með gungurnar,við hvað gætu "þær" verið hræddar? Það er í mörg horn að líta, t.d.þá eldri,ef við flest lifum það af að kjósa aftur,því máltækið segir;"Ungur má en gamall skal"- Miðað við síðasta misseri væri ég ekki fráhverf nýjum sterkum hægri/mið,flokki,en er afar ánægð með Vigdísi og Guðlaug.-- 

Helga Kristjánsdóttir, 17.11.2015 kl. 01:07

5 Smámynd: Elle_

Nú hef ég ekki mikið fylgst með Gunnlaugi, Helga, en fáir ná þangað sem Vigdís nær.  Og samt er Vigdís lögð í einelti, eins og Björn Bjarnason var, Geir H. Haarde og Jón Bjarnason. 

Elle_, 17.11.2015 kl. 20:13

6 Smámynd: Elle_

Ekki Gunnlaugi, Guðlaugi.

Elle_, 17.11.2015 kl. 21:40

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það voru ljótar lýsingar Vigdísar á framkomu smámenna við hana.  Hún er einn skeleggasti þingmaðurinn og brennur fyrir bættri ráðstöfun almannafjár.  Andstæðingana svíður undan spjótalögum valkyrjunnar og grípa þá til óyndisúrræða. 

Bjarni Jónsson, 18.11.2015 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband