Vegumferð í vanda

Það er eðlilegt að gera þær kröfur til umferðar á landi, að hún lagi sig að markmiðum Íslands um mengun andrúmslofts og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess að gera það kleift er þörf tækniþróunar, sem leysir sprengihreyfilinn snurðulaust af hólmi, og bílaiðnaðurinn er kominn vel á veg með þá þróun.  Tíminn til stefnu er hins vegar svo skammur, að grípa verður til annarra ráða samhliða rafbílavæðingunni. 

Í landinu eru a.m.k. 3000 km2 af að mestu ónýttu framræstu landi, sem kjörið er að nýta til skógræktar í því skyni að binda koltvíildi, eins og fullgilt er samkvæmt Kyoto-samkomulaginu. Mætti þá eftir atvikum fyrst endurbleyta með lokun skurða og síðan planta.  Bleytingin bindur a.m.k. ferfalt magn CO2 á hektara (ha) m.v. meðalbindingu skógræktar, svo að ná mætti a.m.k. 25 t CO2/ha með hvoru tveggja á sama jarðnæði.   

Sé gætt jafnræðis við aðra notendur jarðefnaeldsneytis á Íslandi, þurfa farartæki á landi að skila 40 % minnkun losunar koltvíildis árið 2030 m.v. árið 1990.  Það hefur orðið gríðarleg aukning á fjölda fartækja á landi síðan 1990, en það ár nam losun þessara fartækja 521 kt af CO2.  Árið 2012 nam hún 782 kt, og reikna má með toppi 850 kt/a af CO2, ef strax verður hafizt handa við fækkun þessara farartækja.  Þjóðhagslega hagkvæmast er, að sú fækkun verði með þeim hætti, að rafbílar eða raftvinnbílar leysi eldsneytisknúna bíla af hólmi.  Þar með næst gjaldeyrissparnaður, sem getur á endanum numið tæplega MUSD 300 eða um miaISK 40 á ári. Verður það búhnykkur fyrir vöruskiptajöfnuðinn við útlönd. 

Lækkunarþörf til 2030 er þá 850-0,6x521=540 kt/a af CO2, sem gæti samsvarað 540 kt/4 t=135 þúsund farartækjum eða 9 þúsund eldsneytisfarartækja fækkun á ári. 

Í ljósi þess, að árlega bætast um 15 þúsund nýjar bifreiðir í flotann á ári, er algerlega óraunhæft að 60 % nýrra bíla að jafnaði til 2030 verði "umhverfisvænir" með hefðbundnum aðferðum, þ.e. með því að fella niður vörugjöld og virðisaukaskatt af rafbílum og leggja "hóflegt" kolefnisgjald á eldsneytið, sem ekki fari yfir líklegt verð á kolefniskvóta í ESB á næstu 15 árum.  Hvað er þá til ráða ?

Lausnin er að jafna út mismuninum með kolefnisbindingu, sem með ræktun skóga í þessu augnamiði má ætla, að nemi a.m.k. 5,0 t/ha á ári.  Sé reiknað með, að á árabilinu 2016-2030 verði unnt að fækka eldsneytisknúnum farartækjum á vegum um 70´000 eða rúmlega helming þess, sem þarf, þá þarf að binda um 295 kt/a árið 2030, og sá ræktunarskógur mun þekja 590 km2. Til samanburðar má ætla ræktunarskóg 425 km2 í árslok 2015, svo að þetta jafngildir um 140 % aukningu ræktunarskóglendis á Íslandi, og ræktunarafköstin verða tæplega tvöföld á við það, sem verið hefur undanfarin ár, eða 40 km2/ár, þótt ekkert annað verði ræktað af skógi en í þessu augnamiði.  Afkastagetan á að þola þessa afkastatvöföldun.   

Koltvíildislosandi umferð verður að fjármagna þessa skógrækt, ef fylgja á hvatakerfi til orkubyltingar.  Ætla má, að stofnkostnaður nemi 300 kkr/ha.  Með 1 % nettó rekstrar-og viðhaldskostnaði á ári (af stofnkostnaði), mun kostnaður nema 20 kkr/ha ár yfir 40 ára afskriftartíma og með 5 % ársávöxtunarkröfu fjármagns.  Þetta jafngildir 4000 kr/t CO2, sem er undir 30 EUR/t, en líklegt má telja, þegar koltvíildiskvótar í Evrópu minnka, er nær dregur árinu 2030, að kvótaverðið þar verði hærra en 30 EUR/t.  Það má hiklaust halda því fram, að kolefnisútjöfnun á Íslandi sé hagkvæm millibilslausn til að ná settum markmiðum, þar til orkubylting verður um garð gengin. 

Ef meðaleldsneytisbíll sendir frá sér 4,0 t/ár af CO2, þarf sá bíleigandi að greiða 16 kkr/ár í kolefnisgjald til að standa fjárhagslega undir þessari útjöfnun. Það er hóflegt m.v. tæplega 300 kkr/a í eldsneytiskosnað, þar sem kolefnisgjald er nú þegar innifalið, svo að verði þessi leið farin, mun það lítil áhrif hafa á heildareldsneytisverð. 

Íslendingar eru í kjörstöðu til orkubyltingar vegumferðar vegna hreinnar og endurnýjanlegrar raforkuvinnslu og nægs landrýmis til tímabundinna mótvægisaðgerða með ræktun.  Þessi aðferð mun gera landsmönnum kleift að standa við markmið um 40 % minni losun koltvíildis frá vegumferð en árið 1990 með jákvæðum áhrifum á hagkerfið allt, því að aðferðin er ekki íþyngjandi fyrir neytendur, hún eflir atvinnustigið í dreifðum byggðum landsins, og aðferðin mun geta af sér gjaldeyristekjur, þegar orkubyltingin verður afstaðin hérlendis með sölu koltvíildiskvóta á erlendum mörkuðum eða til innlendrar stóriðju eftir atvikum. 

Rætt hefur verið um, hvernig bæta má ríkissjóði upp tekjutapið af fækkandi eldsneytisbílum.  Í því sambandi er rétt að minna á, að opinber gjöld á nýja bíla hafa verið úr hófi fram á Íslandi m.v., að hérlendis eru engar járnbrautarlestir og fyrir þeim verður enginn fjárhagsgrundvöllur á næstu áratugum, og m.v. kaupmáttarstig í landinu.  Ríkið innheimtir virðisaukaskatt af raforku í efra þrepi, og kemur hann til mótvægis við tekjutap af eldsneytissölu, en eigendur rafbíla munu auðvitað njóta góðs af mun betri orkunýtni rafbíla en eldsneytisbíla, sem er næstum þreföld.  Þegar framleiðslukostnaður lækkar á rafbílum, sem mun gerast með aukinni framleiðslu og þegar títtnefndu loftslagsmarkmiði hefur verið náð, er eðlilegt að íhuga virðisaukaskatt á rafmagnsbílana.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll Bjarni.  Tekur þú með í þennan útreikning að hingað koma ferðamenn sem eru allt að 4 sinnum fleiri en "virkir" íbúar og nota eldsneytisþurfandi farartæki, bæði á landi og í lofti?

Kolbrún Hilmars, 3.1.2016 kl. 16:24

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún Hilmars;

Það er efni í aðra vefgrein að fjalla um losun gróðurhúsalofttegunda af völdum flugsins, og ég mun gera því skil.  "Mengun" flugsins vegna komu- og brottfararfarþega einvörðungu, en að slepptum skiptifarþegum (transit), er miklu meiri en losun umferðar á landi. 

Erlendir ferðamenn voru í fyrra tæplega 1,5 milljón og dvöldust að jafnaði 9 daga á landinu.  Ætli "virkir" landsmenn séu fleiri en 250´000 talsins ?  Þá jafngilda erlendir ferðamenn 15 % fjölgun í landinu, og þeir eru inni í þessum útreikningum að því áskildu, að þróun farartækja fyrir ferðamenn, rútna og bílaleigubíla, verði eins og fyrir innfædda.  Hins vegar vantar þarna hlut fartækja, sem koma með Norröna. Það er stinningur, en þessir útreikningar eru "ekki upp á klofið", eins og "Nestor" sagði.

Með góðri kveðju /   

Bjarni Jónsson, 3.1.2016 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband