Iðnaðurinn og gróðurhúsaáhrifin

Orkukræfi iðnaðurinn á Íslandi notar um 14 TWh/a af raforku um þessar mundir.  Ef þessi raforka væri unnin erlendis, eru mestar líkur á, að hún kæmi frá gasorkuverum, 20 %, og kolaorkuverum, 80 %.  Þá mundi sú orkuvinnsla valda losun á um 11,5 Mt/a af koltvíildi, CO2, út í andrúmsloftið, en til samanburðar er losun Íslands um þessar mundir um 4,5 Mt/a samkvæmt Kyoto bókhaldinu og iðnaðarins um 2,1 Mt/a. Í ljósi hættunnar á stjórnlausri hlýnun jarðar er helzta umhverfislega röksemdin fyrir staðsetningu stóriðju á Íslandi, að þar með hægir á hlýnun jarðar sem svarar til minni losunar koltvíildis á hverju ári upp á a.m.k. 11 Mt/a.  Heimslosunin er talin nema um 40 Gt/a, svo að þetta framlag Íslands er dropi í hafið eða tæplega 0,03 %.

Á Íslandi kemur þessi orka frá vatnsorkuverum, 70 %, og jarðgufuverum, 30 %, og veldur losun á CO2, sem nemur um 0,4 Mt/a, aðallega frá hinum síðar nefndu.  Mismunurinn er 11,1 Mt/a CO2, sem er um 2,5-föld heildarlosun Íslands um þessar mundir samkvæmt Kyoto-bókhaldinu.  Þetta er mikilvægasta framlag Íslands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum til þessa, en er ekki metið landinu til tekna í fyrr nefndu bókhaldi. 

Iðnaðurinn losaði árið 2013 2112 kt (2,1 Mt/a) af koltvíildisjafngildum út í andrúmsloftið eða 47 % af heild landsins án landnotkunar, og sú losun mun hafa vaxið um a.m.k. 500 kt/a upp í um 52 %, þegar kísilverin hafa hafið starfrækslu. Hér er augljóslega um risaviðfangsefni að ræða, sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir á tímum minnkandi losunarkvóta. 

Hér er um meiri háttar viðfangsefni að ræða, því að ekki hillir undir nýja og umhverfisvænni efnaferla, svo að tækniþróunin gefur ekki vonir um lausn að svo stöddu.  Dæmi má taka af áliðnaðinum, en framleiðsla hans nemur um 900 kt/a, þrátt fyrir afurðaverð um 1550 USD/t, sem er neðan við allt velsæmi í boði Kínverja, sem farið hafa offari með voveiflegum afleiðingum á sviðum mengunar, heilsufars og hagkerfis heimsins. Allt er þetta í boði miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína.  Áliðnaðurinn á Íslandi sendir frá sér um 1440 kt/a eða tæplega 70 % af hlutdeild iðnaðarins. Ekki er allt sem sýnist, og þessi losun er ekki hrein viðbót við gróðurhúsaloft jarðar, nema síður sé, heldur mun draga úr losun á öðrum sviðum, eins og nú skal greina:

Ef 25 % af framleiddu áli á Íslandi fer til samgöngugeirans, sem er nokkurn veginn skiptingin á heimsvísu, þá sparast um 300 kt/ár af CO2 með því að létta farartækin.  Með því að endurvinna þetta ál 5 sinnum og nota í farartæki, sem er hægðarleikur með lítilli orkunotkun, hefur öll losun áliðnaðarins á Íslandi unnizt upp. 

Tínt hefur verið til, hversu umhverfisvæn framleiðsla kísils fyrir sólarhlöður sé.  Á heimsvísu er þetta nokkuð orðum aukið, eða "överreklamerat", eins og Svíar segja, því að ýmis mjög sterk gróðurhúsagös myndast í ferlinu að sólarhlöðu, t.d. NF3 og SF6.  Sú fyrr nefnda er 16´600 sinnum sterkari en CO2 og sú síðar nefnda 23´900 sinnum sterkari.  Þannig losna um 513 kg/m2 af koltvíildisígildum í framleiðsluferli sólarhlaða, og yfir endingartímann þarf þess vegna að reikna með 35 g/kWh í losun.  Þetta er 13-föld losun íslenzkra vatnsorkuvera, en aðeins 35 % af losun jarðgufuveranna. 

Stóriðjan fellur undir ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Heimild til losunar nú er 1600 kt/a, en verður líklega lækkuð um 40 % árið 2030 niður í 960 kt/a.  Það er um 160 kt/a hærra en 60% af losun stóriðjunnar 1990.   Það þýðir samdrátt eða útjöfnun um U=2112-960=1152 kt/a.  Ný tækni er ekki í sjónmáli, svo að útjöfnun með skógrækt kemur helzt til greina. Til þess mun þurfa F=1152/5,0=232 kh = 2320 km2.  Kostnaður við ræktunina er K=232 kha x 300 kkr/ha = 70 mia kr eða MUSD 540.  Þetta þarf að framkvæma á 15 árum, svo að kostnaðurinn verður 4,7 mia kr/ár.  Sem valkost hefur stóriðjan að bíða með bindingu og kaupa losunarkvóta á markaði í síðasta lagi árið 2030 og síðar eða velja blöndu af þessum leiðum, sem sennilega er skynsamlegast. "Aðeins" er um tímabundinn kostnaðarauka að ræða, sem nemur 40 USD/t Al eða um 3 % kostnaðarauka.  Þetta er fjárhagslega kleift fyrir áliðnaðinn, þegar markaðsverðið nær 1800 USD/t Al.

Stóriðjan hefur þegar farið inn á braut skógræktar til útjöfnunar á gróðurhúsalofti, og 3. desember 2015 birtist t.d. um það frétt í Morgunblaðinu, að bandaríska fyrirtækið Silicor hygðist kosta plöntun á 26 þúsund trjám í þessu skyni, þó að losun fyrirtækisins virðist munu verða mjög lítil. Þó að þetta sé lítilræði m.v. árlega plöntun á um 3,0 milljón trjáplöntum á Íslandi, verður að virða viljann fyrir verkið. 

Íslenzk skógrækt er samkeppnihæf á koltvíildismarkaði Evrópu, því að kostnaður hennar við bindinguna er um 4000 kr/t CO2, sem er innan við 30 EUR/t.  Markaðsverðið er að vísu mun lægra núna, en hlýtur að hækka, þegar losunarheimildum á markaði fækkar um 40 %.

Það er nóg landrými í landinu fyrir þessa skógrækt.  T.d. hafa verið ræstir fram um 4200 km2 af mýrum, og þar af hafa aðeins 630 km2 verið ræktaðir upp, sem þýðir, að 3500 km2 eru óræktaðir. Það mætti bleyta í hluta þessa ræktaða lands og síðan rækta þar skóg með miklum bindingarafköstum koltvíildis. Það er varla goðgá að nýta ríkisjarðir og eyðijarðir til þessarar ræktunar, og klæða auk þess mela og sanda eftir þörfum, en hið síðar nefnda hefur Skógrækt ríkisins sýnt fram á, að er hægt með hjálp jarðvegsbætandi jurta.  Með þessu móti slá Íslendingar tvær flugur í einu höggi.    

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Forsendan fyrir þessari síbyljukenndu röksemdafærslu stóriðjusinna er sú að hvergi sé hægt að virkja vatnsafl eða háhitaorku á jörðinni nema á Íslandi.

Það er hins vegar öðru nær í flestum heimsálfum og meira að segja í Noregi er álíka mikið vatnsafl að magni til óvirkjað og á Íslandi.

Virkjanir í Noregi hafa miklu minni óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif í för með sér en virkjanir á Íslandi.

Í Noregi er vatnið hreint, en í jökulsánum á Íslandi sest jökulleir í miðlunarlónin og fyllir þau upp, svo að þau verða ónýt, og háhitavirkjanirnar verða ónýtar vegna rányrkju á nokkrum áratugum. 

Mestu skiptir þó að á Íslandi verða miklu meiri náttúruverðmæti eyðilögð en í Noregi.

Ómar Ragnarsson, 10.1.2016 kl. 16:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar;

Hver heldur því fram, að hvergi sé hægt að virkja vatnsföll og jarðgufu, nema á Íslandi.  Norðmenn hafa virkjað um 125 TWh/a af vatnsorku, sem er um tífalt meira en Íslendingar hafa virkjað.  Þar standa eftir af "hagkvæmt" virkjanlegu vatnsafli a.m.k. 40 TWh/a, sem er meira en allt hagvæmt, virkjanlegt vatnsafl á Íslandi.  Feiknamikil stóriðja er í Noregi, og framleiða þeir um 1,5 Mt/a af áli og eru mestu álframleiðendur Evrópu.  Ætli þeim hafi ekki þótt komið nóg af stóriðjunni í landi sínu, er þeir fundu olíu og gas í Norðursjónum, og urðu heldur betur stórtækir á því sviði. 

Þó að endurnýjanleg orka sé í landi, er ekki þar með sagt, að öll skilyrði séu fyrir hendi til mikilla fjárfestinga í virkjunum og stóriðju.  Góð vísa verður aldrei of oft kveðin má segja um þátt Íslands í að draga úr aukningu á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.

Bjarni Jónsson, 10.1.2016 kl. 21:01

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Árið 2002 lýsti Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra því yfir að tími stórra vatnsaflsvirkjana í Noregi væri liðinn.

Við það hefur verið staðið og verður staðið.

Ómar Ragnarsson, 11.1.2016 kl. 01:51

4 Smámynd: Stefán Örn Valdimarsson

Ert þú Ómar á móti vatnsaflsvirkjunum almennt eða bara hér á Íslandi?  Það má eiginlega lesa bæði viðhorfin út því sem þú segir í þessum tveimur kommentum.  Hvaða orkugjafar eru þér þóknanlegir eða sérðu fyrir þér að mannkyn hætti að nota orku.  Ég verð að viðurkenna að ég skil heldur ekki alveg viðhorf þín og margra annarra til framleiðslu.  Telur þú að mannkynið þurfi ekki þeir vörur sem eru framleiddar í verksmiðjum (verksmiðja er víst ljóta orðið) eða viltu bara að vörurnar séu framleiddar annarstaðar?

Stefán Örn Valdimarsson, 11.1.2016 kl. 09:00

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Deilur standa um það í Noregi, hvernig eigi að afla viðbótar raforku fyrir stækkandi þjóð, sem hitar húsnæði sitt nánast alfarið með rafmagni.  Þeir hafa reist gaskynt orkuver í þessu augnamiði, en slíkt samrýmist ekki núverandi markmiði Norðmanna um losun gróðurhúsalofttegunda. 

Norðmenn eru búnir að virkja 75 % af "hagkvæmt" virkjanlegu vatsafli, en Íslendingar innan við 40 %.  Þeir eru miklu lengra komnir í nýtingunni en við.

Menn verða að fara að gera sér grein fyrir því, að í loftslagsmálunum verður ekki bæði sleppt og haldið.  Til að stöðva aukningu CO2 í andrúmsloftinu verður að virkja aðrar orkulindir en jarðefnaeldsneyti.  Þar sem hægt er að virkja vatnsaflið með jafnlitlum neikvæðum áhrifum, t.d. án búferlaflutninga fólks, eins og á Íslandi, ætti ekki að vera nokkurt áhorfsmál að gera það.  Að berjast gegn umhverfisvænum virkjunum á viðsjárverðum tímum mengunar í þéttbýli og hlýnunar jarðar er eins og að heyja stríð með herfræði síðasta stríðs að leiðarljósi. 

Bjarni Jónsson, 11.1.2016 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband