Hagsmunir og hugðarefni

Er utanríkisráðherra Íslands að vinna vinnuna sína ?  Um það er ástæða til að efast, því að 21. desember 2015 hafði hann uppi orð um það, að ekkert hefði komið fram, sem gæti breytt þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússland. Þetta er alrangt. 

Það hefur heldur ekkert komið opinberlega fram um, að utanríkisráðherrann hafi kannað, hvað þurfi að koma til að Íslands hálfu til að Rússar mundu aflétta innflutningsbanni á íslenzk matvæli.

Allt er þetta í raun hið undarlegasta mál, því að þátttaka Íslands í þessu viðskiptabanni BNA, Kanada, Japan og ESB, skiptir engu máli fyrir áhrif þess á Rússa, vegna þess að vörur og þjónusta, sem þar um ræðir, eru ekki á boðstólum á Íslandi.  Þar af leiðandi er þátttaka Íslands í því tóm vitleysa.

Utanríkisráðherra Íslands vildi sýna samstöðu landsins með sjónarmiðum Vesturveldanna, og það hefur hann reyndar margoft gert með yfirlýsingum, sem mundu standa óhaggaðar, þótt Ísland drægi sig út úr þessu viðskiptabanni af þeirri einföldu og augljósu ástæðu, að byrðunum af því er mjög misjafnlega skipt niður á þátttökuþjóðir.  Það tók þó steininn úr, er viðbrögð ESB urðu ljós við því, að utanríkisráðherra fór fram á jöfnun byrða þátttökuríkjanna með því, að ESB mundi fella niður eða lækka verulega innflutningstolla á vissum íslenzkum matvælum.  Við það var ekki komandi

Hlutfall viðskipta Íslands við Rússland fyrir bann þeirra á innflutning matvæla frá BNA, EES o.fl., í refsingarskyni við útflutningsbann þessara ríkja á mjög afmarkaðri gerð vöru og þjónustu, nam um 1,5 % af VLF og er megnið af því matvæli.  Hlutfall viðskipta bannþjóðanna sem hlutfall af þeirra VLF er á bilinu 0,05 % - 0,2 %, og aðeins lítill hluti af útflutningi þeirra fellur undir bann þeirra og refsiaðgerðir Rússa. Áfallið fyrir viðskipti Íslands er 7,5 - 30 sinnum stærra fyrir hagkerfi Íslands en hinna þátttökuríkjanna í þessu banni.  Samt neitaði ESB Íslandi um sanngjarnar málalyktir á tilmælum Íslands.  Það, ásamt öðrum málavöxtum, er næg ástæða til að framlengja ekki þetta illa ígrundaða og illa kynnta, nánast ólýðræðislega, viðskiptabann Íslands á Rússland, sem er hvorki fugl né fiskur, hvað áhrif á rússnesku hernaðarvélina áhrærir.  Það á fortakslaust í þessu tilviki og öðrum tilvikum viðskiptabanns að bera slíka tillögu undir Alþingi, og slík ákvörðun á ekki að öðlast lögmæti án stuðnings gilds meirihluta á Alþingi. Vítin eru til þess að varast þau.

Í ljósi þessa sláandi samanburðar virkar það eins og blaut tuska í andlit landsmanna, að ESB skyldi ekki ljá máls á að létta undir með Íslendingum. 

Að öllu þessu virtu ætti Ísland ekki að framlengja þátttöku sína í viðskiptabanni, sem rennur út í janúarlok 2016, heldur að slást í hóp Færeyinga og Grænlendinga og reyna að endurreisa viðskiptasamböndin í Rússlandi og selja þangað uppsjávarfisk, landbúnaðarafurðir og annað, sem Rússar geta og vilja borga almennilega fyrir, eins og var reyndin á áður en fór að sneyðast um gjaldeyrissjóð þeirra á árinu 2014, þegar olía og eldsneytisgas tóku að lækka mjög í verði. Er leitt til þess að vita, að ríkisstjórnin skyldi samþykkja þessa heimskulegu tillögu utanríkisráðherrans. Hún er tímabundin, og við næstu vegamót ætti að hafa farið fram umræða og atkvæðagreiðsla um málið á Alþingi.  Tíma þess yrði vel varið í slíka stefnumótun miðað við margt annað á dagskrá þingsins. 

Á illa saman 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Tek undir NEI TAKK. 

Helga Kristjánsdóttir, 20.1.2016 kl. 15:07

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Framkoma Berlaymont er ekki boðleg.

Bjarni Jónsson, 20.1.2016 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband