Orkumál vestan hafs og austan

Það eru miklar mótsagnir fólgnar í aðgerðum ýmissa stórþjóða o.fl. í baráttunni við loftslagsbreytingar af völdum uppsöfnunar koltvíildis af manna völdum í andrúmsloftinu.  Ein afdrifaríkasta mótsögnin er sú að loka kjarnorkuverum án fullnægjandi öryggislegra raka í mörgum tilvikum á sama tíma og varið hefur verið háum fjárhæðum úr vasa skattborgaranna til að niðurgreiða orku frá getulitlum orkuverum á borð við vindrafstöðvar og sólarhlöður.  Hefur þetta leitt til aukins rekstrar á kolakyntum orkuverum, eins og nú skal rekja á grundvelli greinar í The Economist, "Half-death", þann 31. október 2015.

Pennsylvanía-ríkið í Bandaríkjum Norður-Ameríku, BNA, er nú aftur miðdepill orkuvinnslu í BNA, og kjarnorkuverið "Three Mile Island" í fylkinu er á ný í sviðsljósinu, en þar varð kjarnorkuslys fyrir mörgum árum, og var þá öðrum kjarnakljúfi virkunarinnar lokað. 

Gríðarlegt gasflæði úr setlögum Marcellus-svæðisins í ríkinu á síðustu árum hefur valdið svo miklu verðfalli á raforku sums staðar í BNA, að kjarnorkuver standa í ströngu í verðsamkeppninni.  Kjarnakljúfurinn, sem enn er í rekstri á "Three Mile Island" er í miklum vandræðum, ekki af öryggisástæðum, heldur af fjárhagsástæðum vegna lækkunar verðs á orkumörkuðum Bandaríkjanna, BNA. 

Í BNA og í Evrópu hafa almennar vöruverðslækkanir aukið vandræði kjarnorkuvera, sem voru ærin fyrir eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan árið 2011.  Tækniþróun í BNA við gasvinnslu úr setlögum, aukið framboð í Evrópu á niðurgreiddri raforku frá endurnýjanlegum orkulindum og fremur lítil spurn eftir raforku í báðum þessum álfum, hefur valdið mikilli lækkun á heildsöluverði raforku. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að draumfarir sæstrengsunnenda á Íslandi hafa breytzt í martröð, og áætlanir Landsvirkjunar um miklar raunhækkanir raforkuverðs á áratuginum 2010 - 2020 hafa fallið um sjálfar sig án þess, að Landsvirkjun hafi þó aðlagað verðlagsstefnu sína að breyttum aðstæðum.  Afleiðingin er sú, að Landsvirkjun er að verðleggja Ísland út af alþjóðlegum raforkumarkaði. Þetta blasir við, en stjórnendur Landsvirkjunar berja hausnum við steininn. Þetta er til vitnis um ótrúlega klúðurslega stjórnun og setur samkeppnishæfni Íslands við útlönd í uppnám.  Má hún alls ekki við bergþursahætti af þessu tagi eftir launahækkanir án tengsla við framleiðniaukningu atvinnuveganna. 

Raforkuverðlækkanir á alþjóðamörkuðum hafa m.a. orðið til þess, að eigendur kjarnorkuveranna eiga erfitt með að greiða fyrir breytilegan kostnað þeirra, og hafa þeir þá neyðzt til að loka þeim.  Hið öfugsnúna er, að þessi þróun hefur magnað gróðurhúsavandann, því að skarð kjarnorkuveranna hefur verið fyllt með orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti.  Að bæta við algengustu endurnýjanlegu orkulindunum hefur ekki leyst vandann: þegar vindur blæs ekki og sólin skín ekki, þá eru kjarnorkuverin enn þá bezt fallin til að standa undir grunnálagi stórra rafkerfa án myndunar koltvíildis. Í stað þeirra hafa menn reist gas- og kolaknúin orkuver.  Hvað rekur sig á annars horn í baráttunni við hlýnun jarðar, og allt virðist ekki vera með felldu. 

Kínverjar hafa með fyrirhyggjulausri iðnvæðingu sinni bakað sér alvarleg heilsufarsvandamál með mengun lofts, láðs og lagar. Ofan á þetta bætast öfgar í veðurfari með vatnsleysi á stórum svæðum. Þeir sjá nú þann grænstan að reisa kjarnorkuver og ætla að þrefalda uppsett afl þeirra á tímabilinu 2016-2020, og önnur nýmarkaðsríki feta í fótspor þeirra. Vonandi verður Indland þeirra á meðal, en engin teikn eru þó enn á lofti um það.  

Í Japan var lokað 41 af 43 kjarnorkuverum eftir Fukushima-slysið.  Í Þýzkalandi var lokað nokkrum kjarnorkuverum að skipun ríkisstjórnarinnar í Berlín eftir sama slys og ákveðið að stöðva rekstur hinna eigi síðar en 2022.  Í Frakklandi hefur verið ákveðið að lækka 75 % hlutdeild kjarnorku niður í 50 %, sem er ákvörðun, sem virðist vera tímaskekkja. Allt er þetta ávísun á hömlulitla aukningu á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og sýnir forgangsröðun stjórnmálamanna, þegar þeir ganga út úr ráðstefnusölum orðagjálfursins um gróðurhúsaáhrifin. Með því að berjast þannig á tvennum vígstöðvum í einu er kröftunum dreift í óskynsamlegum mæli, svo að útilokað verður að hindra hlýnun andrúmslofts jarðar yfir 1,5°C-2,0°C, sem orðagjálfur ráðstefnusalanna þó snýst um.  

Í heiminum eru nú starfrækt 394 kjarnorkuver samkvæmt "World Nuclear Industry Status Report" og hefur fækkað um 37 eða tæplega 9 % frá 2010.  Í OECD-ríkjunum koma nú 18 % raforkunnar frá kjarnorkuverum, en voru 24 %, þegar mest var árið 1997, en utan OECD er þessi hlutdeild miklu lægri eða 8 %. 

Fleiri lokana má vænta á næstunni, einkum á eldri kjarnorkuverum með aðeins einum kjarnaofni, sem eru vinnukrefjandi, jafnvel þó að þau framleiði ekki mikið.  Í BNA standa verin verst að vígi, þar sem frjáls markaður er við lýði, t.d. í Norð-Austri og Mið-Vestri, þar sem kjarnorkuverin verða að keppa við orkuver, sem nota aðra orkugjafa, um að selja ódýrustu orkuna.  Í Suðurríkjunum, t.d. í Georgíu, þar sem markaðnum er stjórnað af yfirvöldum, gengur kjarnorkuverunum betur, því að þar er þeim tryggt visst lágmarksverð á orkunni.  Í krafti slíkrar afkomutryggingar var kjarnorkuverið í Watts Bar í Tennessee fyrsta nýja kjarnorkuverið til að hefja vinnslu 22. október 2015 í 20 ár.  Sama fyrirkomulag er við lýði á Bretlandi, þar sem kjarnorkuverinu Hinkley Point C hefur verið tryggt verð að jafngildi 150 USD/MWh af ríkisstjórninni. 

Sem dæmi um fall raforkuverðs í BNA undanfarin misseri má taka orkufyrirtækið Entergy, sem er með höfuðstöðvar í New Orleans.  Það tilkynnti 13. október 2015, að það hygðist loka kjarnorkuverinu Pilgrim í Massachusetts sumpart vegna þess, að vinnslukostnaður þar, 50 USD/MWh, væri orðinn hærri en orkuverð markaðarins, sem hefði fallið í 45 USD/MWh. 

"The Nuclear Energy Institute" í BNA gaf nýlega upp, að árið 2014 hefði meðalvinnslukostnaður rafmagns í kjarnorkuverum BNA numið 24 USD/MWh.  Meðalvinnslukostnaður þá með kolum nam 30 USD/MWh, með gasi 45 USD/MWh og með olíu 240 USD/MWh.  Á grundvelli þessara upplýsinga um markaðsverð og vinnslukostnað í BNA er alveg kostulegt, að Landsvirkjun á Íslandi skuli enn ríghalda í þá fordild, að viðmiðunarverð hennar í nýjum langtímasamningum við stóriðju,43 USD/MWh, sé samkeppnishæft. Því fer víðs fjarri, því að það er löngu viðurkennd staðreynd, að vegna flutningskostnaðar á hráefnum til Íslands og fjarlægðar frá mörkuðunum býr Ísland við óhagræði, sem verður að vega upp með öðru móti, t.d. lægra orkuverði, e.t.v. 10 USD/MWh lægra en á meginlandi Evrópu og í BNA. Á þessum grundvelli má hiklaust draga þá ályktun, að gagnrýnisraddir á Landsvirkjun um, að stjórnendur hennar séu með óraunsærri verðlagsstefnu sinni að verðleggja íslenzka fallvatnsorku út af markaðinum, hafi rétt fyrir sér.  Það einkennilega í þessu máli er, að vinnslukostnaðarins vegna í íslenzkum vatnsaflsvirkjunum er engin þörf á að spenna verðið í nýjum samningum svona hátt, þar sem jaðarkostnaður þeirra er nálægt 30 USD/MWh. Hvers konar "græðgisvæðing" er þá hér á ferðinni hjá ríkisfyrirtækinu ?

Evrópski raforkumarkaðurinn er að mestu leyti frjáls, og þar sem kol og gas hafa lækkað í verði, hefur raforkan lækkað líka. Á íslenzka fákeppnismarkaðinum hækkar hins vegar raforkuverðið og upp úr öllu valdi til nýrrar stóriðju, enda er búið að framkalla afl- og orkuskort í landinu með illa dulbúnu framtaksleysi, á meðan vaðið er á súðum um vindmyllur og sæstreng til Bretlands.  Þetta er gjörsamlega ólíðandi hegðun, og Landsvirkjun, sem risinn á markaðinum, gefur tóninn.  Með óþarfa hækkun raforkuverðs rífur Landsvirkjun niður samkeppnishæfni íslenzks iðnaðar, dregur úr aukningu verðmætasköpunar og rýrir lífskjörin í landinu, kaupmátt og atvinnutækifæri, sem ekki er hægt að láta átölulaust.  Langlundargeð fulltrúa eigenda Landsvirkjunar er með eindæmum og fer að verða þeim fjötur um fót.   

Árið 2014 nam vinnsla kjarnorkuvera í ESB 883 TWh og hafði frá 1997 dregizt saman um 50 TWh eða rúm 5 %.  Þá nam vinnsla vindorkuvera 250 TWh, og hefur nánast öll aukningin orðið frá 1997 eða 15 TWh/ár, og frá sólarhlöðum komu þá 98 TWh, og hefur nánast öll aukningin orðið síðan 2007 eða 14 TWh/ár. Hin nöturlega staðreynd er sú, að í Þýzkalandi og sumum Norðurlandanna hefur aukning endurnýjanlegrar raforkuvinnslu þrýst niður heildsöluverði raforku með alvarlegum afleiðingum fyrir andrúmsloftið.  Studdir af hinu opinbera með niðurgreiðslum, fá  vindrafstöðva- og sólarhlöðueigendur meiri tekjur en eigendur kjarnorkuvera, þegar orkuverðið er lágt.   Þetta hefur leitt til þess, að í kjarnorkuverum hefur vinnslan verið minnkuð eða þau hreinlega stöðvuð, en í staðinn hafa komið kolakynt og gaskynt orkuver, þegar vinds eða sólar nýtur ekki við, og megnið af tímanum eru þau rekin á dræmum afköstum og oft engum afköstum. 

Í Svíþjóð hefur orkuverð á markaði stundum undanfarið lækkað undir vinnslukostnað kjarnorkuvera. Þau standa samt enn undir helmingi grunnorkuþarfar Svíþjóðar. Það hefur gert þeim enn erfiðara fyrir, að ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja hefur lagt viðbótar skatt á kjarnorkuverin, sem annars konar orkuver sleppa við.  Þessi stjórnargjörningur stríðir auðvitað gegn baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda og margir segja gegn heilbrigðri skynsemi. Ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja gasprar um, að í stað kjarnorkuvera landsins komi vindrafstöðvar og sólarhlöður, en það er innantómt fjas og í raun óleyfilegur barnaskapur af stjórnvöldum að halda slíku fram. 

Án þess að auka hlut kjarnorkuvera með svipuðum hætti og Kínverjar hafa tekið ákvörðun um, munu Vesturveldin ekki geta staðið við markmið sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.   

Lokanir kjarnorkuvera beggja vegna Atlantshafs sýna tvískinnunginn, sem uppi er að hálfu stjórnvalda í loftslagsmálum. Þau hafa valið að ráðstafa skattfé með óskilvirkum hætti með því að niðurgreiða raforku frá nýjum endurnýjanlegum lindum í stað þess að skattleggja orkuver, sem brenna jarðefnaeldsneyti.

Úr því að stjórnvöld víðast hvar á Vesturlöndum virðast ekki sjá sér fært að ýta undir smíði nýrra kjarnorkuvera, er eina vonin um að takast muni að halda hlýnun andrúmslofts jarðar í skefjum, sú, að þróun nýrra orkulinda til raforkuvinnslu muni heppnast í tæka tíð.  Það bendir reyndar sitthvað til, að þóríum-kjarnorkuver muni reynast bjargvætturinn, en geislunarhættan frá þeim er mun minni en frá hefðbundnum kjarnorkuverum, og úrgangurinn hættir að vera hættulega geislavirkur á um hálfri öld í stað nokkurra þúsunda ára.  Þessi orkuver geta verið að stærð frá 100 kW og upp í a.m.k. 1000 MW og munu þess vegna henta til margvíslegra nota, allt frá samgöngutækjum til orkuvera.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Breytan

Það sem gæti bjargað okkur nú er að stjórnvöld í Kína verða að hlusta á fólkið.

Mengunin er slík að það gæti leitt til upreisnar.

Egilsstaðir, 14.02.2016  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 14.2.2016 kl. 14:30

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Jónas. 

Vatnsból eru eitruð víða, og loftmengun er iðulega yfir tíföldum viðmiðunarmörkum WHO.  Þetta rýrir lífsgæði almennings mjög, enda skiptir fjöldi fólks, sem árlega deyr ótímabærum dauða, milljónum í Kína.  Þetta ástand hefur þegar leitt til staðbundinna uppreisna, og ríkjandi valdastétt í Peking er orðin skíthrædd við að þurfa senn aftur að berja niður uppreisn á Torgi hins himneska friðar með skriðdrekum.

Bjarni Jónsson, 14.2.2016 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband