Hagsmunir sjávarútvegsins eru hagsmunir Íslands

Áberandi dómgreindarleysi virðist tröllríða utanríkisráðuneytinu þessi misserin. Hér verður "ESB-bréfmálið" þó ekki gert að umfjöllunarefni.  Því voru gerð "endanleg" skil í Áramótaskaupi Ríkisútvarpsins 31.12.2015. Það, sem nú vitnar um téð dómgreindarleysi, er, að ráðuneytið skyldi styðja og mæla með við Utanríkismálanefnd Alþingis, að Ísland gerðist aðili að vopnasölubanni á Rússland ásamt banni við sölu á íhlutum, sem nýta mætti í hernaðartól, og banni við ákveðnum fjármálalegum viðskiptum við Rússa. Þetta gerðist í kjölfar frægra ferða utanríkisráðherrans til Úkraínu, þar sem hann gerðist óvenju vígreifur. Hvaða nauður rak utanríkisráðherrann til að þvæla Íslandi inn í þetta viðskiptabann, sem er hvorki fugl né fiskur ?  Brýnir hagsmunir Íslendinga eru fólgnir í að viðhalda frjálsu flæði á vörum og þjónustu sem víðast.

Það blasir við, að þetta afmarkaða viðskiptabann á Rússland kemur Íslandi ekkert við, og eru þess vegna grundvallarmistök í framkvæmd á utanríkisstefnu Íslands.  Það kemur okkur ekki við, af því að það er sett á af ríkjasamböndum, sem við erum ekki aðilar að, þ.e.a.s. Evrópusambandinu - ESB og Bandaríkjum Norður-Ameríku - BNA, og við verzlum alls ekkert með þá vöruflokka og fjármálagjörninga, sem heyra undir bannið.  Það skiptir í þessu sambandi engu máli, þó að Norðmenn, Kanadamenn og Japanir taki þátt í viðskiptabanninu, því að þessar þjóðir hafa allar á boðstólum þær vörur og þjónustu, sem bannið spannar.

Þeim fáránlegu mótbárum hefur síðan verið hreyft gegn því, að Ísland framlengi ekki bannið fyrir sitt leyti, að þá verði utanríkisstefna landsins ótrúverðug.  Þetta er nauðhyggja og rökleysa, sem jafngildir því, að aldrei megi sjá að sér og draga í land með vitleysuna, heldur  "Keep stiff upper lip", hvað sem tautar og raular. Í millitíðinni hefur það þó gerzt, að íslenzk yfirvöld hafa leitað til ESB um ráðstafanir að hálfu Berlaymont til að deyfa afleiðingar innflutningsbanns Rússa á matvæli, sem var svar þeirra við téðu viðskiptabanni.  Var óskað eftir tollaívilnun á vörum, makríl o.fl., sem urðu fyrir barðinu á innflutningsbanni Rússa.  Þessu var svarað með hefðbundnum þvergirðingi ESB í garð Íslands, og ekki við það komandi. Er þetta í samræmi við framkomu ESB í garð Íslands varðandi deilurnar um flökkustofnana, þar sem gríðarlegir hagsmunir Íslands eru fyrir borð bornir af ESB o.fl. Samt er ljóst, að viðskiptabannið á Rússa og mótaðgerðir þeirra hafa valdið Íslandi margföldu því tjóni, sem hinar þjóðirnar hafa orðið fyrir að tiltölu, a.m.k. tíföldu, og þátttaka Íslands í þessu viðskiptabanni á Rússa skiptir engu til eða frá um áhrif þess á efnahag Rússlands og getu og vilja landsins til hernaðarumsvifa. Dómgreindarleysið felst í að mistakast við að vega og meta hagsmuni Íslands og hafa ekki bein í nefinu til að reka hér sjálfstæða utanríkisstefna, heldur dingla alltaf rófunni, þegar stórveldin brýna raustina.

Nú stefnir í, að þetta tjón Íslands aukist um allan mun, ef loðna skyldi finnast í veiðanlegum mæli og ef Rússar gera alvöru úr hótun sinni um að meina Íslendingum aðgang að þorskstofni sínum í Hvítahafinu, sem er raunveruleg ógn.  Þá gæti tjónið hæglega tvöfaldazt og numið 30 miakr/ár, sem er 1,5 % af landsframleiðslu.  Hér skal fullyrða, að Vesturveldin mundu ekki fara út í viðskiptabann með slíkum afleiðingum fyrir hagkerfi sín, nema NATO eða SÞ ættu frumkvæði að því að hvetja til slíks. 

Það er sjálfsagt að mótmæla hernámi Rússa á Krímskaga og hernaðaraðgerðum í Austur-Úkraínu harðlega á diplómatíska sviðinu, en það er langur vegur þaðan til þess að kalla fórnir yfir íbúa dreifðra sjávarbyggða á Íslandi og valda höggi á hagkerfi landsins á kolröngum forsendum, sem gætu t.d. verið lágkúruleg þjónkun við Brüsselveldið, sem síðan kann alls ekki að meta fleðulætin. Það er gamla sagan. 

Þá að öðru, en þó um sjávarútveg og landshagi: 

Á aldarfjórðungi hefur orðið tæknibylting í sjávarútveginum.  Út er komin skýrslan, "Sjávarklasinn á Íslandi: efnahagsleg umsvif og afkoma 2014", eftir Hauk Má Gestsson, Bjarka Vigfússon og Þór Sigfússon.  Verður nú vitnað í þessa menn, reist á greininni, "Tæknin að taka fram úr þorskinum", í Morgunblaðinu eftir Ásgeir Ingvarsson, 19. nóvember 2015:

"Beint framlag sjávarútvegsins er ekki nema 8,5 % af landsframleiðslu, en þá er eftir að taka tillit til þess, að um grunnatvinnuveg er að ræða og utan um hann myndast hliðargreinar, sem væru ekki eins umsvifamiklar, ef sjávarútvegsins nyti ekki við."

"Haukur segir sjávarútveginn og tengdar greinar í dag mynda á bilinu 25 % - 30 % af landsframleiðslu."

Ástæða þess, að bein hlutdeild sjávarútvegs af landsframleiðslu er undir tíund, er sú, að erlend aðföng hans eru dýr.  Hlutdeild hans af gjaldeyrisöflun er hins vegar yfir fjórðungur, og sama gildir um heildarhlutdeild hans af landsframleiðslu.  Það kemst enginn atvinnuvegur, nema stóriðjan, með tærnar, þar sem sjávarútvegurinn hefur hælana í heildarverðmætasköpun í landinu.  Ástæðan er sem sagt fjölbreytileg nýsköpun á tæknisviði, sem átt hefur sér stað í sjávarútvegsklasanum og væri óhugsandi án öflugra og grózkumikilla útgerða og fiskvinnslu hér innanlands.

Hagfræðingar hafa reiknað út, að hlutdeild stóriðjuklasans af landsframleiðslu sé a.m.k. fjórðungur. Framleiðsla stóriðjunnar er nánast öll seld erlendis, og með hjálp hennar hefur fjölda fyrirtækja, framleiðslufyrirtækja á tækjum og hugbúnaði fyrir iðnaðinn, vaxið fiskur um hrygg. 

Sama verður ekki sagt um ferðamannaiðnaðinn eða ferðaþjónustuna í sama mæli og hinar tvær útflutningseimreiðar hagkerfisins.  Ferðaþjónustan er orðin stærsta gjaldeyrislind þjóðarbúsins, og hennar vegna hefur ISK sótt í sig veðrið og verið þess vegna unnt að greiða hraðar niður erlend lán.  Hún veitir einnig orðið flestum vinnu, þó að margir séu í hlutastarfi á hennar vegum, af því að vinnuálagið yfir árið er mjög ójafnt.  Meðallaunin í þessari grein eru lægri en í hinum tveimur útflutningsgreinunum, af því að framleiðnin í þjónustugreinum er yfirleitt alltaf lægri en í vöruframleiðslu. Góð nýtni hefur náðst á atvinnutækjum flugsins, og hótelnýtingin mun vera betri en víðast hvar.  Þess vegna er nú búið að fjárfesta gríðarlega í nýjum flugvélum, hótelum, bílaleigubílum og öðrum tækjum greinarinnar. 

Ísland nýtur góðs af sinni norðlægu legu, sem veitir ferðamönnum öryggistilfinningu og nýstárlegar upplifanir.  Ef atburðir verða hér á sviði öryggis eða gengis gjaldmiðilsins, sem ferðamenn telja ógnvænlega fyrir sig eða budduna, er hætt við, að nýting fjárfestinga ferðaþjónustunnar hrynji niður á viðsjávarvert stig.  Svipað má segja um sjávarútveginn.  Ef mengunarslys yrði í norðurhöfum, er hætt við markaðshruni fyrir afurðir hans. Stóriðjan glímir nú við djúpa og langvarandi markaðslægð. Því verður þó ekki neitað, að saman mynda þessar þrjár útflutningseimreiðar sterka gjaldeyrisuppsprettu fyrir íslenzka hagkerfið, sem er því lífsnauðsyn. 

Aftur að sjávarútveginum og Hauki Má:

"Við mælum vöxt tæknigeirans fjórða árið í röð, en öll 4 árin hefur hann vaxið um 10 %-15 % að raunvirði og veltir í dag um 60 milljörðum króna.  Til að setja þá tölu í samhengi flytur íslenzkur sjávarútvegur út afurðir fyrir 244 miakr, og sala á þorskflökum nemur 65 miakr.  Er því stutt í, að tæknigeiri sjávarútvegsins velti jafnmiklu og allur þorskflakaútflutningur."

"Skýrir Haukur mikinn vöxt tæknigreinarinnar m.a. með veikingu krónunnar, sem bætt hafi alþjóðlega samkeppnishæfni tæknifyrirtækjanna.  "Á sama tíma og krónan lækkaði, var eftirspurnin lítil á heimamarkaði, enda íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki mörg mjög skuldug og óvissa í rekstrinum.  Hefur fjárfesting í sjávarútveginum tekið aftur við sér á undanförnum 2-3 árum, sem svo eykur enn frekar á vöxtinn.""

Helztu greinar, sem átt er við með tæknigreinum í sjávarklasanum, eru (vöxtur 2014 í svigum): umbúðir (5 %), fiskvinnslutækni (10 %), kælitækni (30 %), bátar (8 %), málmsmiðja (21 %) og veiðarfæri (1 %).

Það er ljóst, að sjávarklasinn er "krúnudjásn" íslenzka hagkerfisins, og það, sem er gott fyrir "krúnudjásnið", er gott fyrir land og þjóð.  Að sama skapi gildir, að það, sem er slæmt fyrir "krúnudjásnið", er slæmt fyrir land og þjóð.  Við alla ákvarðanatöku verða landsfeður og aðrir þingmenn að hafa þetta efst í huga.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband