Heilbrigðismál í sviðsljósi

Lífslíkur við fæðingu landsins barna hafa batnað stöðugt á 20. og 21. öldinni og eru nú með þeim albeztu í heimi hér, vel yfir 80 ár. Mannkynið telur drjúga 7 milljarða, og meðallífslíkur þeirra, sem á annað borð komast á legg, munu nú vera tæplega 70 ár.

Langlífi Íslendinga má þakka tiltölulega hreinni náttúru, jörð, vatni og andrúmslofti, tiltölulega heilnæmum matvælum vegna náttúrunnar, strjálbýlis og lítillar notkunar eiturefna og sýklalyfja í landbúnaði, góðum efnahag og góðu heilbrigðiskerfi. 

Hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu á Íslandi er Landsspítalinn.  Alþingismenn umgengust hann af ónógri varúð, jafnvel af léttúð, á síðasta kjörtímabili, svo að hann drabbaðist niður á flestum sviðum.

Við stjórnarskiptin vorið 2013 varð vendipunktur á öllum sviðum þjóðlífsins, og hefur Landsspítalinn notið góðs af því, og mun gera á næstu árum, þó að fjárveitingar til heilbrigðismála verði ekki tengdar við landsframleiðslu, sem er fráleit hugmynd, því að heilsufar þjóðar og landsframleiðsla eiga fátt sameiginlegt.  Landsframleiðsla á mann er þó yfirleitt til marks um efnahag einstaklinga og getu samfélagsins til innviðauppbyggingar.

Hafnar eru stórfelldar nýbyggingar á Landsspítalalóðinni við Hringbraut, og er það ánægjuefni, enda brýnt.  Deilt var um heppilegustu staðsetningu nýs Landsspítala; niðurstaðan var að velja lóðina við gamla spítalann, og hefur hönnunin, t.o.m. flókin verkhönnun nokkurra áfanga, verið miðuð við Hringbrautarlóðina.  Forysta Landsspítalans og yfirvöld heilbrigðismála mega heita einhuga um þessa niðurstöðu, þó að sitt sýnist hverjum í heilbrigðisgeiranum, og leikmenn verða að treysta á dómgreind manna í þessum efnum, sem daglega "eru með lífið í lúkunum" og hafa sýnt frábæran árangur við lækningar við aðstæður, sem nú standa til bóta. Allt orkar tvímælis, þá gert er. Ekki má draga það lengur að reisa nýjan spítala með vangaveltum um aðrar staðsetningar.

Hvað gerðist skömmu eftir, að heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tók fyrstu skóflustunguna að sjúkrahótelinu ?  Óð þá ekki þáverandi forsætisráðherra landsins fram á víðan völl og tók til við að sá fræjum efasemda um staðsetninguna ?  Þessi gjörningur var til óþurftar málstað ríkisspítalans og gerir ráðherra málaflokksins og forystu spítalans sízt auðveldara fyrir, og var þó ekki á flækjustig viðfangsefna þessara manna og kvenna bætandi.   

Svona gera menn ekki, þó að þeir hafi mikinn áhuga á skipulagsmálum.  Núverandi forsætisráðherra, dýralæknirinn, hefur ekki höggvið í sama knérunn, og honum hættir sennilega síður til en hinum  að hlaupa út um víðan völl, þegar það á ekki við.

Heilbrigðiskerfinu íslenzka hefur verið hallmælt ótæpilega, og hafa svigurmæli í garð kerfisins og stjórnenda þess fallið.  Alræmdar eru lýsingar Kára Stefánssonar, læknis, á ástandinu og krafa hans um að hella a.m.k. miakr 50 á ári í reksturinn til að ná 11 % af VLF.  Um téðan Kára má segja hið sama og sagt var um Kára Sölmundarson í Njálu, að engum manni er Kári líkur, og skal ósagt látið, hvort um fræknleik eða frekju ræðir í tilviki Stefánssonar.

Til að fá nasaþef af hlutlægu mati á íslenzka heilbrigðiskerfinu í stað sleggjudóma og órökstuddra fullyrðinga æsingaseggja verður hér vitnað til greinar Steins Jónssonar, læknis, í Morgunblaðinu, 12. marz 2016:

"Frá árinu 2005 hefur evrópskt fyrirtæki að nafni "Health Consumer Powerhouse" (HCP) birt árlegan samanburð á heilbrigðiskerfum Evrópulanda, sem byggist á 48 gæðaþáttum.  Þessir mælikvarðar snúa ekki aðeins að hagfræðilega þættinum í rekstri heilbrigðiskerfanna, heldur ekki síður að því, hvernig þau þjóna neytendum eða sjúklingum.  Það vill stundum gleymast, að heilbrigðiskerfin eru fyrir þegnana.  Á þessum fjölþætta skala hefur íslenzka heilbrigðiskerfið yfirleitt verið mjög ofarlega meðal Evrópulanda.  Árið 2012 var Ísland í 3. sæti á eftir Danmörku og Hollandi.  Árið 2014 var Ísland í 7. sæti, rétt fyrir ofan Svíþjóð, Þýzkaland, Bretland og Frakkland.  Þessi staða Íslands má heita nokkuð góð, þegar litið er til þess, að á árunum 2009-2013 átti sér stað mikill niðurskurður á framlögum hins opinbera til heilbrigðismála.  Margvíslegur vandi steðjar nú að íslenzka heilbrigðiskerfinu, og eru hlutastörf lækna á LSH langt frá því að vera með þeim alvarlegri."

Að skera niður fjárveitingar til Landsspítalans án nokkurrar uppstokkunar eða kerfisbreytinga var náttúrulega eins og að míga í skóinn sinn, gjörsamlega vonlaus aðferðarfræði til að draga úr kostnaði til lengdar. Vinstri menn eru eins og námahestar með augnblöðkur.  Þeir mega ekki heyra minnzt á einkarekstur í heilbrigðisgeiranum, þó að reynslan hérlendis og erlendis, t.d. í Svíþjóð, bendi til aukinna afkasta (framleiðni) og gæða þjónustunnar með innleiðingu samkeppni af þessu tagi.  Samkeppni  um sjúklinga er notendum þjónustunnar og skattborgurunum til hagsbóta, enda er þetta eitt af úrræðum núverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, til að fá meira fyrir peningana og að stytta biðlistana.  Hann er jafnframt að setja auknar fjárveitingar til höfuðs biðlistum, og á langtímafjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er um miakr 60 fjárveiting til nýs Landsspítala við Hringbraut, sem er þegar komin á framkvæmdastig, sem að mestu á að taka enda árið 2022. 

Allt eru þetta ólíkt skynsamlegri ráðstafanir en allsendis ótímabært heljarstökk í fjárveitingum til rekstrar heilbrigðiskerfisins, sem taki mið af 11 % af hratt vaxandi landsframleiðslu. Mikil útgjöld geta aldrei orðið markmið í neins konar rekstri, heldur skilvirkni og gæði.  Stefnan ætti að vera á eitt af þremur efstu sætunum hjá HCP á hverju ári, og markmiðið á að vera skilvirkari Landsspítali frá ári til árs, svo að skilvirkni spítalans árið 2025 mælt í rekstrarkostnaði á íbúa landsins á föstu verðlagi verði a.m.k. 20 % betri en árið 2015. Þetta er verðugt og raunhæft markmið vegna hinna miklu fjárfestinga, sem á næstu árum verða í Landsspítalanum.  

Margvíslegir lífsstílssjúkdómar herja á landsmenn, sem rekja má til óhollra lifnaðarhátta, slæms mataræðis og lítillar útiveru, hreyfingar og áreynslu.  Lyfjanotkun er óhófleg og meiri hér en annars staðar þekkist.  Mörg lyf hafa slæm áhrif á líkamsstarfsemina og þar með á heilsuna. 

Maðurinn var ekki skapaður í Paradís fyrir 6000 árum eða svo til að lifa á landbúnaði, akuryrkju og dýrahaldi, heldur hafa forfeður "homo sapiens" verið á fótum í um 3 milljónir ára, og líkamsstarfsemi hans hefur lítið breytzt á þessu tímabili, þó að lifnaðarhættir hans hafi mikið breytzt frá jurtatínslu og veiðimennsku í upphafi, til akuryrkju og dýrahalds fyrir um 15000 árum, og til iðnvæðingar, þéttbýlisbúsetu og hóglífis nútímans.  Lífstílssjúkdómar, þ.m.t. ofát, ofdrykkja og reykingar, valda bróðurpartinum af kostnaði ríkisins vegna sjúklinga.  Kostnaðarvitund og kostnaðarhlutdeild sjúklinga getur hjálpað þeim við að sjá að sér og bæta lífernið. 

Ruslfæði, skolpdrykkja, sætindi og kyrrsetur brennimerkja nútímamanninn, svo að hann afmyndast og verður heilsuveill.  Allt er það vegna þess, að hann gætir ekki að uppruna sínum.  Um þetta ritaði Pálmi Stefánsson, efnaverkfræðingur, athyglisverða grein í Morgunblaðið 21. marz 2016, "Baráttan við ofsúrnun líkamans":

"Gefum okkur, að jarðvist manna sé orðin 100 þúsund kynslóðir, þá eru ekki nema 500 kynslóðir (0,05 % - innsk. BJo) síðan mjólkur- og kornvörur urðu hluti af mataræðinu sums staðar á hnettinum.  Þótt steinaldarmennirnir hafi neytt fisks og kjöts, þá var fæði þeirra talið mun basískara vegna viðbótar matar úr jurtaríkinu en fæði okkar í dag í iðnaðarlöndunum og víðar. 

Nútímafæði er súrmyndandi og veldur súrnun líkamsvessanna og versnandi heilsu vegna ofáts prótínríks og steinefnasnauðs matar. Sést þetta bezt á því, að líkaminn hefur ekki getað aðlagað sig að gjörbreyttu mataræði (sýrustig) síðustu aldirnar (innan við 10 kynslóðir) án aukaverkana."

Þetta er lærdómsrík lesning, af því að bent er á þá augljósu staðreynd, sem flestir hunza þó, að maðurinn er ekki ruslkvörn, sem hægt er að henda hverju sem er í án þess, að það hafi neinar neikvæðar afleiðingar fyrir líðan og heilsufar.  Þvert á móti er maðurinn að stofni til eins og steinaldarmaðurinn, sem var alls ekki gerður til að vinna úr sætindum, verksmiðjuunnum mat, kornmeti og mjólk (nema ungabörn úr mjólk mæðra sinna), heldur var hann gerður fyrir hrámeti, aðallega úr jurtaríkinu, eins og tanngarður hans ber merki um.

Um þetta skrifar Pálmi:

"Ofát prótínríks matar eins og kjöts, fisks, eggja og mjólkurvara ásamt korni og brauðmeti veldur þessari miklu sýrumyndun eða ofsúrnun líkamans á okkar tímum."

Það er óeðlilegt matarræði, sem er meginbölvaldurinn og veldur offitu, vanlíðan, lélegu ónæmiskerfi og bágu heilsufari nútíma mannsins, sem hefur lítið sem ekkert þróazt líkamlega síðan á steinöld, eins og Pálmi bendir á.  Akuryrkja og landbúnaður voru bjarnargreiði við heilsufar mannsins, og kannski voru stærstu mistökin að stökkva niður úr trjánum, en það er reyndar talið, að forfaðir mannsins hafi neyðzt til þess vegna loftslagsbreytinga. Aðlögunarhæfni mannsins að breyttum aðstæðum er við brugðið, en þróun efnastarfsemi líkamans er afar hæggeng, eins og dæmin sanna.  

Nútíma læknisfræði býr yfir mörgum öflugum úrræðum til að fást við sjúkdóma, og þannig er hægt að bæta árum við lífið lengi, þó að ekki sé unnt að bæta lífi við árin, því að ekki er ráð, nema í tíma sé tekið.  Af þessum ástæðum sitja vestræn þjóðfélög nú uppi með heilbrigðiskerfi, hvers kostnaður er að vaxa þegnunum yfir höfuð og mun, þegar borgarar 67 ára og eldri, verða orðinn yfir þriðjungur íbúanna, reyna mjög á opinbera sjóði.  Til að kerfið hrynji ekki verður strax að verða almenn hugarfarsbreyting varðandi lífernið.  Hugarfarsbreyting á sér þegar stað, en nær enn til of fárra.  "Á skal að ósi stemma."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband