Gallað auðlindamat

Verkefnastjórn um Rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúruauðlinda skilaði af sér áfangaskýrslu um 3. áfanga Rammaáætlunar 31. marz 2016, og segja má, að um snemmbúið aprílgabb hafi verið að ræða vegna þeirra einhæfu sjónarmiða, sem þar tröllríða húsum. Hér verða leidd að því rök, að skýrsluna skorti vísindalegan trúverðugleika og sé jafnvel meira í ætt við fúsk en vísindi. 

Verkefnastjórn í öngstræti:

Segja má, að Verkefnastjórnin hafi illilega skotið sig í fótinn með skýrslunni og þar með staðfest gagnrýni á tilvistarrétt sinn og það fyrirkomulag, sem nú er við lýði um frummat á auðlindanýtingu á landi hér.  Skýrslan er einhliða mat á "verndargildi" nokkurra staða, en sleppt er í þessum áfanga að leggja mat á samfélagslegt og efnahagslegt gildi nýtingar af öðrum toga en fyrir ferðaþjónustu og útivist. Þá er sleppt frummati á tugum virkjanakosta, sem Orkustofnun lagði fyrir Verkefnastjórn að leggja frummat á. Verkefnastjórn þessi er nú komin í öngstræti, enda getur hún ekki sinnt hlutverki sínu með núverandi aðferðarfræði.

Ný umhverfisógn:

Nú er reyndar komið í ljós, að stærsta ógnin við náttúru landsins er fólgin í skipulagslítilli áníðslu og átroðslu óhefts ferðamannafjölda.  Þessu hefur fráfarandi Landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, lýst á áhrifamikinn hátt þannig, að ferðageirinn sé nú að ræna framtíðarkynslóðir landinu. Það er ámælisvert, hversu hægt gengur að koma við nægilegum mótvægisaðgerðum gegn landspjöllunum.  

Orkustofnun taki við:

Núverandi aðferðarfræði við frummat á nýtingu landkosta stenzt ekki gagnrýni, og er þess vegna réttast að leggja téða Verkefnastjórn niður og fela t.d. Orkustofnun að gera tillögu til Alþingis um þjóðhagslega hagkvæmustu nýtingu náttúrunnar.  Ein af ástæðum þess, að núverandi fyrirkomulag er ótækt, er sú, að Verkefnastjórn gizkar á virkjunartilhögun, þar sem forhönnun virkjunar er sjaldnast fyrir hendi, þegar Verkefnastjórn þessi fjallar um hana.  Eina raunhæfa matið á jákvæðum og neikvæðum áhrifum virkjunar er mögulegt, eftir að forhönnun hennar hefur farið fram.  Þá á sér reyndar stað umhverfismat, svo að mat Verkefnastjórnar á frumstigum málsins er meira eða minna út í loftið og jafnvel óþarft, en nauðsynlegt og nægjanlegt er téð umhverfismat. 

Með núverandi tækni hafa verkfræðingar yfir að ráða fjölbreytilegum ráðum til að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og orkubeizlunar.  Að slá virkjanakostum á frest eða jafnvel að slá þá út af borðinu er ótímabært fyrr en verkfræðingar hafa fengið að spreyta sig á því viðfangsefni að hámarka hagkvæmni orkubeizlunar að teknu tilliti til sjálfbærni, afturkræfni og að halda umhverfisraski innan ásættanlegra marka að dómi flestra.

Hið síðast talda er háð huglægu mati.  Nú vill svo til, að nýlega var gerð könnun á meðal ferðamanna, sem ferðazt höfðu um landið, á viðhorfum þeirra til orkunýtingar á Íslandi og flutningi hinnar sjálfbæru orku um landið.  Niðurstaðan var sláandi m.v. áróður, sem haldið hefur verið að fólki hérlendis um, að ekki fari saman að nýta og njóta, heldur muni virkjanir og flutningslínur skaða ferðaþjónustuna.  97 % svarenda töldu orkunýtingu landsmanna vera umhverfisvæna og til fyrirmyndar.  3 % svarenda tók ekki afstöðu, en enginn taldi umhverfisspjöll hafa verið framin á virkjunarstöðum og línuleiðum.  Staðfestir þessi viðhorfskönnun, að það er röng aðferðarfræði að stilla skipulegri nýtingu lands fyrir ferðaþjónustu upp sem andstæðu og ósamrýmanlega virkjunum og flutningslínum.  Þessir tveir þættir eru vel samrýmanlegir, og slík samnýting skilar augljóslega hámarksarði inn í þjóðarbúið.

Ný vinnubrögð: 

Það er brýnt að taka strax upp gjörbreytta aðferðarfræði við undirbúning nýtingar, sem tekur mið af þessu. Hér er um verkfræðilegt og hagfræðilegt úrlausnarefni að ræða, sem aldrei getur orðið barn í brók undir formerkjum fordómafullra verndunarviðhorfa ásamt ofstækislegri afstöðu gegn flestum framkvæmdum.  Þetta er næsta náleg hugmyndafræði í landi, sem er í stöðugri landfræðilegri mótun. 

Í frétt Morgunblaðsins 2. apríl 2016,

"Verðmæti náttúru og minja ræður",

er eftirfarandi haft eftir Stefáni Gíslasyni, formanni Verkefnastjórnar 3. áfanga Rammaáætlunar, og varpar tilvitnunin ljósi á þá meingölluðu aðferðarfræði, sem nú er lögð til grundvallar við frummatshuganir á landnýtingarkostum:

"Forsendurnar fyrir flokkun svæða í vernd eru alltaf verðmæti náttúru og menningarminja, en ekki útfærsla virkjana eða önnur nýting.  Ef hins vegar svæði fer ekki í verndarflokk, er farið að athuga, hvort útfærslur virkjana hafi meiri eða minni áhrif á verðmætin."

Þessi lýsing á starfsháttum Verkefnastjórnar um Rammaáætlun sýnir meinsemdina í hnotskurn.  Það er þegar í upphafi girt fyrir möguleikann á að nálgast skynsamlega og hófsamlega niðurstöðu úr fleiri en einni átt, af því að í upphafi er ekkert þekkt, nema náttúran.  Gróðurfar og náttúrumyndanir er hægt að rannsaka og leggja mat á verndargildi út frá, hversu algeng einkennandi náttúrufyrirbrigði staðarins eru, en þegar kemur að fegurðarskynjuninni, er hins vegar um smekksatriði að ræða.

 Látum það vera, en hin hlið málsins, önnur nýting en að skoða, er jafnvel enginn gaumur gefinn, og sé virkjanakostur íhugaður, þá er ekki fyrir hendi nein vitneskja um hann, sem hægt sé að reisa heildstætt mat á á þessu stigi.  Þessi aðferðarfræði er óþörf og ótæk, af því að önnur betri er til, og þar af leiðandi verða vinnubrögðin allsendis ófullnægjandi, og mega kallast fúsk. 

Þau eru fúsk í samanburði við vinnubrögð, sem vænta má, þar sem grunnforsendan er sú að nálgast viðfangsefnið með hlutlægum hætti víðar að með það að markmiði að ná hámarksverðmætum út úr náttúruauðlindinni á sjálfbæran og afturkræfan hátt.  Í flestum tilvikum fela slík vinnubrögð í sér málamiðlun, þ.e. farin er einhver millileið, allir hagsmunaaðilar slá af ýtrustu kröfum, og bezta þekkta tækni er hagnýtt til að lágmarka umhverfisrask við tiltekna hagnýtingu.

Afleiðing núverandi skelfilegu vinnubragða er sú, sem lesa mátti um í téðri frétt:

"Þrjú stór vatnasvið voru flokkuð í verndarflokk, eins og fram kom í blaðinu í gær, auk vesturkvísla Þjórsár.  Það eru Skjálfandafljót, Héraðsvötn og Skaftá.  Á þessum svæðum var tilkynnt um alls 10 virkjanakosti, sem þá koma ekki til greina, verði þetta niðurstaðan."

Hér er þjóðarhag fórnað á altari hégóma, fordóma og þröngsýni, og hagur Norðlendinga algerlega fyrir borð borinn.  Norðanmenn eru settir í raforkusvelti, því að á Norðurlandi ríkir nú þegar orkuskortur, og Landsnet kemst hvorki lönd né strönd með áform sín um samtengingu Suðurlands og Norðurlands og er reyndar að krebera við að tengja Reykjanes syðra við landskerfið. Þar hefur Hæstiréttur reyndar hafnað eignarnámsheimild ráðherra, af því að undanfarandi rannsóknarskyldu var ekki nægilega vel sinnt, og er það vel. Um allt eru of miklir hagsmunir í húfi til að slá megi af kröfum um beztu faglegu vinnubrögð, og við svo búið má ekki standa.  Fleirum blöskrar nú en blekbónda. 

Ráðherra er óánægður: 

Ein þeirra, sem ekki hefur getað orða bundizt af þessu tilefni, er iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Frá því greindi Fréttablaðið 6. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Segir verkefnastjórn vaða í villu":

"Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á vorfundi Landsnets í gær, að tillögur verkefnisstjórnar rammaáætlunar í síðustu viku um flokkun virkjanakosta í þriðja áfanga rammaáætlunar væru "ágætt dæmi um skort á skilningi á samspili orkumála og loftslagsmála".

Þessa fullyrðingu byggði Ragnheiður Elín á því, að tillögurnar byggja á niðurstöðum tveggja faghópa af fjórum; þeim, sem fjalla um náttúruverðmæti, menningarminjar auk ferðaþjónustu og hlunninda, en ekki þeim faghópum, sem fjalla um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif."

Það má geta sér þess til, að síðast nefndu faghóparnir hafi ekki treyst sér á jafnveikum forsendum og fyrir hendi voru til að gefa út nokkra greinargerð, sem gagn væri að, enda verður ekki séð, eins og áður segir, að unnt sé að meta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif virkjana fyrr en forhönnun þeirra er tilbúin.  Þá er hægt að reikna út orkuvinnslugetuna og orkuvinnslukostnaðinn og leggja raunhæft mat á umhverfisrask.  Það er reyndar ekki heldur hægt, svo að nokkurt vit sé í, að meta áhrif á náttúruverðmæti, menningarminjar og ferðaþjónustu, fyrr en virkjanatilhögun er tilbúin til lögformlegs umhverfismats.  Ferlið er gagnslaus hringavitleysa, sem er til þess eins fallin að sóa opinberu fé og afvegaleiða undirbúning að skynsamlegri og fjölþættri nýtingu, svo að ferlið einskorðast við ferðamennsku, jafngæfuleg og slík einhliða nýting hefur nú reynzt á mörgum stöðum.

Púkinn á fjósbitanum: 

Þeir eru auðvitað til, sem fagna ófaglegum og þröngsýnislegum niðurstöðum. Púkinn fitnar á fjósbitanum. Engum þarf að koma á óvart, að þar fór formaður Landverndar, Snorri Baldursson, fremstur í flokki og ritaði laugardaginn 2. apríl 2016 grein í Morgunblaðið, þar sem hann taldi, að þessi vitlausa niðurstaða styddi við draumsýn sína um þjóðgarð á öllu miðhálendinu, þjóðgarð, sem mundi spanna 40 % landsins undir einni miðstjórn, sem yrði vafalaust íþyngjandi fyrirkomulag fyrir ýmiss konar starfsemi, sem er þó jafnrétthá ferðaþjónustunni:

"Góðu tíðindin fyrir Landsvernd og önnur náttúruverndar-, útivistar- og ferðaþjónustusamtök, sem brenna fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, eru, að tillaga verkefnisstjórnar staðfestir í raun eindregið mat þessara samtaka, að miðhálendið sé mun verðmætara villt en virkjað."

Hvernig hafa þessi samtök komizt að niðurstöðu, sem engar efnislegar forsendur eru á þessari stundu til að komast að ?  Það eru augljóslega engar vitrænar rannsóknir að baki þessu "mati", heldur er um huglægt mat fólks í þessum samtökum að ræða, sem engum þarf að koma á óvart.  Hér skal ekki ganga svo langt að segja, að þetta "mat" sé einskis virði, en það er alls ekki hjálplegt til að ná fram málamiðlun á grundvelli hlutlægrar aðferðarfræði til að nálgast niðurstöðu úr mörgum áttum til að finna út hagkvæmustu nýtinguna, sem mjög sennilega er fólgin í fjölþættri og hófstilltri nýtingu. 

Téður Snorri hélt enn í burtreiðar að þessu tilefni, og í þetta sinn til að snupra orku- og ferðamálaráðherrann fyrir hóflega gagnrýni hennar á vinnubrögð Verkefnastjórnar.  Nefndist sú grein: "Falskur söngur iðnaðar- og viðskiptaráðherra".  

Hér verða aðeins 3 atriði greinarinnar gerð að umræðuefni:

  1. Snorri skrifar: "Ný kerfisáætlun Landsnets á auk þess að tryggja flutning raforku um allt land".  Staðhæfingin er rétt svo langt sem hún nær, en sá er hængurinn á, að Landsnet er langt á eftir tímaáætlun með veigamikla þætti í framkvæmd þessarar Kerfisáætlunar, m.a. vegna hatrammrar andstöðu Snorra Baldurssonar og skoðanasystkina hans.  Þar af leiðandi er Norðurland í raforkusvelti, og er nú boðið upp á friðun allra helztu óvirkjaðra vatnsfalla Norðurlands. 
  2. Snorri skýtur sjálfan sig í fótinn með þessum skrifum: "Engar rannsóknir liggja fyrir um, að það sé hagfelldara fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins að virkja vatnasvið á miðhálendinu en að friða þau í þjóðgarði.  Þess vegna er söngur ráðherrans falskur." Hvernig væri nú að leyfa raunhæfum rannsóknum á þessu að fara fram með beztu aðferðum nútímans í stað þess að setja mikilvægar orkulindir í verndarflokk nánast að óathuguðu máli, og reka síðan skefjalausan áróður fyrir stofnun eins þjóðgarðs á öllu miðhálendinu ?  Það eru nefnilega með sama hætti engar rannsóknir fyrir hendi, sem benda til, að "hagfelldara (sé) fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins" að friða vatnasvið á miðhálendinu. 
  3. Snorri Baldursson heldur því fram í téðri Fréttablaðsgrein, að "í orkunýtingarflokki rammaáætlunar verði alls um 1400 MW, gangi tillögur verkefnisstjórnar eftir."  Nú veit enginn, hvort þetta afl er rétt metið eða hvort hagkvæmt verði að virkja það allt, enda drjúgur hluti jarðvarmi, þar sem ekki er á vísan að róa.  Þó að þetta mat væri nærri lagi, þá dugar það hins vegar alls ekki fyrir fyrirsjáanlega rafvæðingu hér innan lands á tímabilinu til 2050, þegar ljúka þarf íslenzku orkubyltingunni með notkun rafmagns úr endurnýjanlegum lindum í stað jarðefnaeldsneytis.  Uppsett afl, 1400 MW, má áætla, að gefi 10 TWh/a (terawattstundir á ári) af orku, sem er um 55 % af núverandi raforkunotkun.  Almenningsnotkunin nemur um þessar mundir tæpum 4 TWh/a, og aukist hún að jafnaði um 2,0 %/ár fram til 2050, verður viðbótar þörf almennings þá 4,0 TWh/a.  Fjögur kísilver munu þurfa um 4,0 TWh/a til viðbótar við það, sem þeim hefur þegar verið tryggt.  Rafvæðing allra farartækja á landi, láði og í lofti, mun ekki þurfa minna en 4,0 TWh/a.  Þarna er komin viðbótar orkuþörf, aðeins næstu 35 árin, upp á 3 x 4 = 12 TWh/a, sem er 20 % yfir því, sem Snorri telur til reiðu.  Þá hefur viðbótar orkuþörf núverandi orkusækins iðnaðar og annarrar orkukræfrar stóriðju, nýrra málmvinnslufyrirtækja o.þ.h., ekki verið tekin með í reikninginn.  Ef brautryðjandi áfangar nást í þróun kjarnorku, klofnings eða samruna, verður væntanlega engin slík viðbótar eftirspurn orku hérlendis, en annars gæti hún hæglega orðið.  Téð uppsett afl Snorra Baldurssonar, formanns Landverndar, hrekkur a.m.k. hvergi til. 

Samantekt:

Stjórnkerfi undirbúnings að nýtingu náttúruauðlinda á landi þarfnast endurskoðunar strax til að koma í veg fyrir tjón af völdum núverandi aðferðarfræði, sem getur ekki gefið góða raun.  Ágæt ríkisstofnun er fyrir hendi á þessu sviði, sem hæglega má fela hlutverk Verkefnastjórnar um Rammaáætlun að breyttu breytanda.  Stefnan á að vera sjálfbær og afturkræf nýting náttúruauðlindanna, sem er líkleg til að hámarka fjárhagslegan hag samfélagsins til langframa af nýtingunni.  Meginstefið verður þá vafalítið fjölþætt nýting, þar sem málamiðlunar hefur verið gætt á milli hagsmunaaðila, t.d. í ferðaþjónustu og í raforkugeiranum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband