Óvænt seinni tíma sagnfræði

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í framboði til embættis forseta lýðveldisins í kosningunum 25. júní 2016 er sagnfræðingur nokkur, góðkunningi þjóðarinnar af sjónvarpsskjánum; nú síðast fékk RÚV hann til álitsgjafar um hina dramatísku atburði í aprílbyrjun 2016, sem lyktaði með þeim einstæða atburði, að forsætisráðherrann hrökklaðist út úr ríkisstjórn sinni, en við keflinu tók einn ráðherranna, dýralæknir að mennt, sem áreiðanlega nýtist í starfi, og ríkisstjórnin hélt áfram störfum með sömu áhöfn að viðbættum einum efnilegum utanþingsráðherra í utanríkisráðuneytinu.

Verða þessir atburðir nú ekki frekara umfjöllunarefni hér, né mat Guðna Thorlaciusar á þeim, en hins vegar hefur verið óumflýjanlegt að reyna að kynnast ögn nánar, hvaða mann téður Guðni hefur að geyma út frá skrifum hans og tjáskiptum í fjölmiðlum, og við þau kynni hefur margan manninn rekið í rogastanz.  Skal nú tína sitthvað til af hneykslunarefni, sem birzt hefur opinberlega.  Satt bezt að segja má kenna sögutúlkun og útleggingar Guðna við "postmodernisma", þar sem öllu er snúið á haus og fátt er um heilbrigð, föst viðmið.  Téður Guðni veit fullvel, að skoðanir hans eiga ekki upp á pallborðið hjá þorra þjóðarinnar.  Hann hefur þess vegna gripið til þess ráðs í kosningabaráttunni að fara í hlutverk hins vinsæla Ragnars Reykáss.  Alkunna er, hvernig RR gat snúizt á punktinum 180°, en téður Thorlacius mun hafa gert gott betur á fundum, því að hann mun hafa snúizt um 360° !  Það er ekkert varið í mann, sem ekki treystir sér til að standa við skoðanir sínar, sem skjalfest er, að hann hafði fyrir fáeinum árum.  Að sigla þannig undir fölsku flaggi til búsforráða á Bessastöðum er með öllu óboðlegt.

Viku fyrir forsetakosningar 2012 ritaði Guðni grein um dr Ólaf Ragnar Grímsson, að því er virðist til að klekkja á forsetanum, sem þá átti í baráttu við RÚV-arann Þóru Arnórsdóttur.  Skrif Guðna um Icesave sýna, að hann gerðist talsmaður samsærisins mikla gegn íslenzku þjóðinni 2008-2010, þar sem ESB, AGS, brezka, hollenzka og íslenzka ríkisstjórnin, Samfylking, Vinstri hreyfingin grænt framboð (með undantekningum), ýmsir háskólakennarar, Seðlabankinn, Landsvirkjun o.fl. í sameiningu reyndu að telja Íslendingum trú um, að land þeirra færi á vonarvöl, nema ríkissjóður þeirra baktryggði innistæðutryggingasjóð innistæðueigenda í útibúum íslenzkra banka erlendis, eins og innanlands.  Allt evrópska bankakerfið var sagt standa eða falla með þessu. Sagnfræðingurinn, sem nú leitar eftir stuðningi þjóðarinnar við að komast í embætti forseta Íslands, sá þá ekki sóma sinn í að standa með þjóð sinni í baráttunni, heldur níddist á henni.  Reyndar er aðeins skjalfest, svo að blekbónda sé kunnugt um, að einn frambjóðenda í forsetakjörinu 2016 hafi haft þrek og þor á örlagastundu til að stappa stálinu í þjóð sína og "neita að greiða skuldir óreiðumanna", og það var Davíð Oddsson í embætti formanns þriggja manna bankastjórnar Seðlabankans og síðar ritstjóra Morgunblaðsins.  Hvernig sem fer í forsetakosningunum laugardaginn 25. júní 2016, mun sagan áreiðanlega halda þessu til haga, því að staðreyndirnar tala sínu máli. 

Umrætt samsæri voru svik aldarinnar, sem Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi steypuforstjóri hjá BM Vallá, er að svipta hulunni af og vinnur þar margfalt þarfara verk en öll sagnfræðingastéttin með nútímasögu Íslands að sérsviði, samanlögð.

Nú skal vitna í forystugrein Morgunblaðsins,

"Ekki fer öllum vel úr hendi að skrá sögu Icesave", þann 13. júní 2016:

"Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi ráðherra flokksins í vinstri stjórninni, vildi ekki láta rangfærslunum [Guðna Th. Jóhannessonar - innsk. BJo] ósvarað.  Hann er einn þeirra fulltrúa VG, sem stóðu vaktina með þjóðinni gegn vinstristjórninni og þeim stuðningsmönnum hennar, sem vildu hengja Icesave-klafann á þjóðina.  Grípum aðeins niður í skrif sagnfræðingsins Ögmundar, sem báru yfirskriftina: Lítil fræði í sagnfræði Guðna: "Ekki þykja mér skrif Guðna endurspegla skilning á [Icesave-málinu].  Fjarri lagi. 

Hann segir:"Línur í Icesave-deilunni hafa ætíð markazt af því, hvort menn sitja í stjórn eða stjórnarandstöðu.  Sjálfskipaðir sigurvegarar munu reyna að skrá söguna og eru reyndar byrjaðir á því.  En þeim verður ekki kápan úr því klæðinu, þegar upp er staðið.  Til þess eru staðreyndirnar of skýrar.  Þetta á líka við um forsetann.  Valdhöfum í Lundúnum og Haag má hann þakka fyrir að hafa losnað úr Icesave-snörunni.  Þeir neituðu að samþykkja fyrirvara Alþingis, og því þurfti að semja upp á nýtt."

Í fyrsta lagi er það rangt, að afstaða til Icesave-samninganna hafi alltaf farið eftir flokkspólitískum línum.  Í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði voru á Icesave-tímanum nokkrir þingmenn andvígir samningunum, og einn ráðherra sagði af sér embætti af þessum sökum.  Þetta er söguleg staðreynd, sem ekki verður horft framhjá.  Allra sízt af hálfu sagnfræðings. [Yfir 90 % þátttakenda í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave voru samninginum andvígir; ekki voru það allt saman framsóknarmenn og sjálfstæðismenn - hvers konar bull er þetta í sagnfræðinginum Guðna Th. Jóhannessyni ? - innsk. BJo]. 

Í öðru lagi endurspeglar það mikið skilningsleysi á málinu að tala um, að Bretar og Hollendingar hafi skorið forsetann niður úr "Icesave-snörunni með því að samþykkja ekki fyrirvara Alþingis, sem settir voru eftir miklar deilur á þingi í sumarlok 2009.  Á hvern hátt var forsetinn skorinn niður úr "Icesave-snörunni" ?  Það skyldi þó aldrei hafa verið þjóðin, sem losaði úr snörunni Alþingi og þær ríkisstjórnir, sem setið höfðu frá hausti 2008, beittar ítrekuðum þvingunum af Bretum, Hollendingum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar liggja skýrar staðreyndir á borðinu"."

Með þessari umsögn inni um sagnfræði Guðna Th. Jóhannessonar gefur Ögmundur Jónasson, sagnfræðingur og fyrrverandi ráðherra, Guðna, forsetaframbjóðanda, falleinkunn í sagnfræði.  Er slíkum fallista treystandi fyrir forsetaembættinu ?  Klárlega alls ekki.  Maður, sem stundar skáldskap í nafni sagnfræði hefur misst fótanna í fræðilegum og siðferðilegum efnum.  Slíkur persónuleiki getur orðið beggja handa járn í forsetaembætti, vindhani, sem lætur stjórnast af hvaða goluþyt sem er.  

Berlega hefur komið fram, að Guðni Jóhannesson er hallur undir Evrópusambandið og studdi aðildarumsókn Íslands að því.  Til að greiða fyrir umsókninni fannst honum sjálfsagt að fórna langtímahagsmunum þjóðarinnar á altari alþjóðlegra fjármagnseigenda árið 2009, enda gætu Íslendingar ekki staðið við Icesave-samningana frekar en Þjóðverjar við Versalasamningana !  Hvers konar nauðhyggja og hundalógík er þetta eiginlega hjá sagnfræðiprófessornum og forsetaframbjóðandanum ?

Annar maður, lögfræðingur og fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, Víglundur Þorsteinsson að nafni, hefur aftur á móti lagt mikið að mörkum til rannsókna á mjög óeðlilegri atburðarás í seinni tíma sögu Íslendinga, og hann hefur afhjúpað vinstri stjórnina 2009-2013 sem handbendi alþjóðlegra fjármálaafla, sem beittu lúalegum brögðum í tilraun til að svínbeygja Íslendinga undir afarkosti sína.  Vinstri stjórnin lagðist á hnén gagnvart ESB, AGS og kröfuhöfum föllnu bankanna þrátt fyrir skjöld Neyðarlaganna, sem samin voru fyrir atbeina bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Vitna nú í Morgunblaðsgrein Víglundar frá 14. júní 2016,

"Af hverju sviku þau ?":

"Neyðarlögin og ákvarðanir FME á grundvelli þeirra í október 2008 lögðu grundvöllinn að því að leysa úr málum með því að horfast í augu við allsherjar forsendubrest, nýir bankar voru stofnaðir af FME í samræmi við neyðarlögin, og útlán voru flutt niðurfærð í samræmi við forsendubrestinn í hina nýju banka."

Ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins, sem Samfylkingin rauf í janúarlok 2009, með hana dinglandi utan gátta og vankaða með, hafði fyrir tilstilli þingmeirihluta síns og á grundvelli ítarlegs undirbúnings Seðlabankans lagt grunninn að endurreisn fjármálakerfisins á Íslandi með frumlegri lagasmíð, þar sem lánadrottnar bankanna fengu að súpa seyðið af óvarlegum lánveitingum sínum, innlendum innistæðum var bjargað og erlendar innistæður voru látnar njóta forgangs í þrotabúin.  Þessi snjalla lagasetning reyndist í janúar 2012 standast að alþjóðlegum rétti, þegar EFTA-dómstóllinn hreinsað Ísland af ákærum brezku og hollenzku ríkisstjórnarinnar, sem framkvæmdastjórn ESB studdi opinberlega.  Líklega á enginn einn maður meiri heiður af þessu snilldarbragði, téðum Neyðarlögum, en Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans. 

"Þegar fundargerðir þessarar nefndar [samræmingarnefnd, sem sett var á laggirnar í desember 2008 til að hafa yfirumsjón og eftirlit með endurreisn bankakerfisins-innsk. BJo] eru skoðaðar, sést, að allt er með felldu fram í miðjan janúar 2009, en þá byrjar að votta fyrir þeim breytingum, sem í hönd fóru.  Í lok janúar lét þáverandi forstjóri FME af störfum og kvaddi nefndina. Fljótt eftir að vinstri velferðarstjórnin tók til starfa, verða ráðuneytisstjóraskipti í forsætis- og fjármálaráðuneyti með tilheyrandi breytingum á nefndinni.  Straumhvörfin verða 11. febrúar 2009, þegar Indriði H. Þorláksson er mættur á vettvang sem sérlegur sendimaður Steingríms J.; þá má ráða, að eitthvað nýtt stóð til.  Eitt var þó enn ógert til að klára að plægja jarðveginn fyrir hina nýju stefnu, en það var að reka þrjá seðlabankastjóra með sérstakri lagabreytingu, svo að þeir yrðu ekki í vegi hinnar nýju vinstri velferðarstjórnar, sem kenndi sig síðar við að hafa slegið "skjaldborg um heimilin"." 

Hér voru mikil firn á ferð, þar sem ofstækisfullir stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmálanna gerðu aðför að sjálfstæði Seðlabankans, en segja má, að hann eigi að vera 4. vald Lýðveldisins og stjórna peningamálastefnunni.  Vinstri menn virða engin grið, og það ber að meðhöndla þá samkvæmt því. 

Draga má niðurstöðu rannsóknar Víglundar saman með eftirfarandi orðum hans sjálfs í greininni:

"Til að komast inn í ESB var ákveðið að semja við Breta og Hollendinga og brjóta gegn neyðarlögunum.  Þessar einbeittu ákvarðanir Samfylkingarinnar voru mótaðar strax haustið 2008 og leiddu m.a. til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn féllst á að boða Landsfund í febrúar 2009 til að leggja tillögu um það [inngönguna - innsk. BJo] til ákvörðunar. Atburðarásin varð hins vegar önnur, VG og vinstri armur Samfylkingarinnar ásamt tækifærissinnanum Össuri náðu saman í búsáhaldabyltingunni.  Ný stjórn komst til valda."

Hér voru mikil undirmál á ferð, þar sem nota átti öngþveitið, sárindin og áfallið af falli bankanna til að fórna fjárhagslegu fullveldi Íslands á altari kröfuhafa bankanna að vilja ESB, AGS og flestra "vina- og bandalagsþjóða" Íslendinga.  Þetta var samansúrrað ráðabrugg með fjöregg íslenzku þjóðarinnar, sem hefði skapað hér grískt ástand í boði ESB fyrir tilstilli vanstilltra vinstri afla á Íslandi.  Að mati blekbónda bliknar Landsdómsákæran á hendur Geir Hilmari Haarde algerlega í samanburði við þær sakargiftir, sem hér hafa verið reifaðar á hendur forkólfum vinstri stjórnarinnar og handbenda þeirra. 

Sagnfræðingurinn í forsetaframboði, Guðni Thorlacius, dansaði með óþjóðlegum yfirvöldum téðs tíma (2009-2013) á Íslandi með afstöðu sinni til örlagaþrunginna deilumála.  Þetta er að mati höfundar þessa pistils svo alvarlegur ljóður á ráði frambjóðandans, að ekki ætti að koma til greina að hálfu þeirra, er átta sig á boðskap Víglundar hér að ofan og á sínum tíma höfnuðu Icesave-samningunum, að ljá téðum Guðna atkvæði sitt.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakkir Bjarni fyrir þessa ýtarlegu grein sem sýnir mjög vel, hvernig sagnfræðingurinn virkjaði krafta sína gegn þjóðinni á lífsbaráttu hennar gegn Icesave. Það eru óheilindi mikil að vilja ekki kannast við orð sín og hlaupa frá hólmi. Hvernig á slíkur maður að geta verið í forsæti fyrir þjóðinni? 

Gústaf Adolf Skúlason, 21.6.2016 kl. 19:15

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gústaf Adolf;

Baráttan fyrir þessar forsetakosningar hefur leitt í ljós, að kjósendur eiga val á milli mjög ólíkra manngerða og ólíkrar þekkingar og reynslu.  Mér blöskrar það, sem fram hefur komið um þann, sem vinsælastur þykir í skoðanakönnunum, og að hann skuli hafa séð sitt óvænna og látið loka vefsetri eða hluta af því, þar sem gramsa mátti í fyrri skrifum og ummælum frambjóðandans.  Ef fortíð frambjóðanda þolir ekki dagsljósið, þá er ekki hægt að treysta slíkum frambjóðanda fyrir æðsta embætti og öryggisloka lýðveldisins. 

Með góðri kveðju / Bjarni Jónsson 

Bjarni Jónsson, 21.6.2016 kl. 21:02

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Vandinn felst í því að meirihluti kjósenda er á sama plani og Guðni er, eða var í þessu máli (Icesave ESB) skilja það ekki og hafa ekki þá yfirsýn sem þarf til að sjá stóru myndina. Óvitar kjósa yfir sig óvita það er jú lýðræði. Eða eins og Guðni Th mundi segja.  Fávís lýðurinn hefur tilhneigingu til að kjósa fávita.

Guðmundur Jónsson, 22.6.2016 kl. 10:38

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Guðmundur;

"Meirihluti kjósenda" hafði á árunum 2009-2011 nægt þrek til að standa gegn harðvítugum áróðri hinna ráðandi afla innanlands og utan fyrir því að láta ríkissjóð ábyrgjast skuldir óreiðumanna.  Nú virðist "meirihluti kjósenda" halda, að óhætt sé að setja einn af þeim áróðursmönnum í stól forseta lýðveldisins.  Slíkt er engan veginn óhætt og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Bjarni Jónsson, 22.6.2016 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband