Æskan og menntakerfið

Fyrir hag almennings á Íslandi skiptir samkeppnishæfni landsins við útlönd meginmáli.  Á síðasta kjörtímabili fór Íslandi mjög fram, hækkaði um 4 sæti frá 2013-2015, hvað samkeppnishæfni varðar, að mati World Economic Forum-Global Competitiveness Index-WEF-GCI, en hrörnun samkeppnishæfni og lífskjara hefur hins vegar verið óumflýjanlegur fylgifiskur vinstri stjórna. 

Samkvæmt skýrslu WEF eru helztu hamlandi þættir á samkeppnishæfni hérlendis: gjaldeyrishöft, skattheimta og verðbólga.  Þessir þættir stóðu allir til bóta árið 2016, og munu þeir draga úr rýrnun samkeppnishæfni af völdum um 20 % styrkingar ISK á árinu.  Nú, 16.11.2016, hafa furðufuglarnir í Peningastefnunefnd Seðlabankans hins vegar ákveðið, að vegna um 5,0 % hagvaxtar 2016 sé óráð að lækka vexti.  Með þessu ráðslagi grefur bankinn undan trúverðugleika hagstjórnarinnar, því að ISK ofrís nú, og slíkt endar aðeins með kollsteypu. Í þessu sambandi má benda á Svíþjóð.  Þar er hagvöxtur um 4 % 2016, en stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir.  Hagfræðingarnir, sem þessu ráða í þessum tveimur löndum,virðast hafa gengið í mjög ólíka skóla.  Vonandi bjagar fortíð íslenzka Seðlabankastjórans sem Trotzkyisti ekki lengur viðhorf hans til raunveruleikans. 

Sviss, Singapúr og Bandaríkin eru efst á þessum lista WEF.  Svissneski frankinn, CHF, hefur fallið mjög m.t.t. USD á þessu ári, enda stýrivextir við 0 í Sviss.  Nú eru teikn á lofti um, að USD muni stíga m.v. aðra gjaldmiðla, einkum EUR og GBP, vegna vaxandi hagvaxtar og hækkandi stýrivaxta í upphafi valdatíðar Donalds J. Trump.

Hið merkilega er, m.v. umræðuna í fjölmiðlum, að á Íslandi stendur grunnskólakerfið og heilbrigðiskerfið vel að vígi samkvæmt WEF og skorar 6,6 af 7,0, og er Ísland þar í 7. sæti af 138 löndum. 

Þá er Ísland vel í sveit sett, hvað varðar að tileinka sér nýja tækni, skorar 6,2 og lendir í 8. sæti.

Hið síðast nefnda hlýtur að vera háð menntunarstigi í landinu og gæðum framhalds- og háskóla.  Vitað er hins vegar, að þar er pottur brotinn, svo að slembilukka gæti ráðið mikilli aðlögunarhæfni að nýrri tækni. 

Mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar 2009-2013 reif niður framhaldsskólakerfið með stórfelldum skerðingum á framlögum ríkisins til þess. Það var kreppa, en það er almennt viðurkennt, að við slíkar aðstæður má ekki ráðast á fræðslukerfið, því að það er undirstaðan fyrir viðsnúning.  Þá er mikilvægast að fjárfesta í framtíðinni

Þrátt fyrir þessi afglöp og stórfelld svik við kjósendur VG með umsókn ríkisstjórnar um aðild að ESB og undirlægjuhátt hennar við AGS og kröfuhafa föllnu bankanna, þá er téð Katrín samt vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar.  Ávirðingar hennar virðast enn ekki festast við hana, svo að hún verðskuldar vissulega heitið Teflón-Kata.

Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga, 2013-2016, er af allt öðru sauðahúsi, enda lét hann hendur standa fram úr ermum við að bæta fyrir kárínur Katrínar í embætti.  Hann skrifaði mjög góða grein í Morgunblaðið 18. október 2016, "Endurreisn framhaldsskólans",

og verður nú vitnað í hana:

"Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sumarið 2013, voru framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins um kkr 900 á verðlagi 2016.  Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum, en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart fram gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður.  Til að setja kkr 900 framlagið á hvern nemanda í samhengi, þá er framlag á verðlagi ársins 2016 á hvern grunnskólanemanda um kkr 1´700.  Þessi skelfilega lága tala, sem blasti við sumarið 2013, stefndi öllu skólastarfi í voða, og engar raunhæfar áætlanir voru uppi um, hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu."

Þessi hrikalega lýsing eftirmanns Teflón-Kötu á viðskilnaði hennar við embætti menntamálaráðherra bendir til, að hún sé óhæfur stjórnandi.  Ekki einvörðungu skar hún framhaldsskólana inn að beini, svo að starfsemi þeirra beið tjón af, heldur var hún svo sinnulaus um starf sitt, að hún lét undir höfuð leggjast að gera áætlun um endurreisnina.  Öll sú vinna féll í skaut eftirmanns hennar í embætti, og hann hafði forgöngu um kerfisbreytingar, sem leggja munu grundvöll að framhalds- og háskólakerfi í fremstu röð og að menntakerfi, sem eykur samkeppnishæfni þjóðfélagsins:

"Fjölmargar ástæður liggja því til grundvallar að fara úr fjögurra ára framhaldsskólakerfi í þriggja ára kerfi.  Ljóst var, að Ísland var eina landið innan OECD, þar sem 14 ár þurfti til að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám, en önnur lönd kláruðu það verkefni á 12 eða 13 árum.  Ekki var hægt að víkja sér undan því að breyta þessu, gríðarlegir hagsmunir eru undir fyrir þjóðarbúið allt, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo, að þjóðarframleiðslan muni verða hærri sem nemur 14-17 miökr/ár vegna þessarar breytingar.  Ríkissjóður mun þar af leiðandi fá í sinn hlut um 5-7 miakr/ár í auknar skatttekjur, og munar um minna."

Illugi gat ekki vikizt undan skyldum sínum sem menntamálaráðherra til að auka skilvirkni framhaldsskólanna, um leið og hann skaut traustum fótum undir umbætur með mjög auknum fjárframlögum úr ríkissjóði.  Teflón-Kata átti hins vegar í engum erfiðleikum með það.  Hennar aðferð er að stinga hausnum í sandinn, ef hana grunar, að krefjandi verkefni sé handan við hornið: 

"Það, sem ég ekki sé, það er ekki fyrir hendi."

"Til viðbótar því fjármagni, sem mun bætast við framlög á hvern nemanda vegna styttingarinnar, þá liggur nú fyrir í samþykktri áætlun um ríkisfjármál til ársins 2021 ákvörðun um að auka framlög til framhaldsskólans um miakr 2,6 á þeim tíma, sem áætlunin nær til. 

Þar með mun framlag á hvern nemanda aukast úr rúmum kkr 900 í um kkr 1´570 árið 2021, og svigrúm er til enn frekari hækkana, ef vilji stendur til slíks. 

Þetta mun gjörbreyta öllu starfi framhaldsskólanna, möguleikum þeirra til að sinna hverjum nemanda með fullnægjandi hætti og tryggja, að menntun ungmenna á Íslandi sé jafngóð því, sem bezt gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við um lífskjör."

Ofan á sveltigildi Teflón-Kötu er Illugi búinn að bæta kkr 670 eða 74 % sem framlagi ríkisins per nemanda á ári að raunvirði.  Þá verður þetta framlag hærra en allra hinna Norðurlandanna, nema Noregs, og 42 % hærra en meðaltal OECD var árið 2012.  Ef svo fer fram sem horfir um þróun efnahagsmála, verður framlag ríkisins á Íslandi hið hæsta á Norðurlöndunum árið 2021. Er það vel að verki verið hjá Illuga og ríkisstjórninni, sem hann sat í 2013-2016. 

Átak er nauðsynlegt á þessu kjörtímabili í fjármögnun háskólanna, svo að góður menntunargrunnur beri hámarks ávöxt.  Illu heilli stöðvaði Teflón-Kata, ásamt öðrum afturhaldsöflum í blóra við vilja stúdenta, framgang frumvarps Illuga um fjárhagslegt stuðningskerfi við stúdenta í lok síðasta þings haustið 2016.  Frumvarpið innihélt fjárhagslega hvata fyrir stúdenta til að standa sig í námi og ljúka því án tafa.  Umbætur Illuga beinast allar að aukinni framleiðni og auknum gæðum, en skilvirkni er eitur í beinum Teflón-Kötu. Þar situr aumingjavæðingin í fyrirrúmi, enda þjónar slíkt flokkshagsmunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Stórskuldugir eilífðarstúdentar, sem aldrei verða borgunarmenn himinhárra skulda við LÍN, eru hennar menn. 

Mjög jákvætt teikn við íslenzka þjóðfélagið er atvinnuþátttaka ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Á meðal aðildarríkja OECD er hún mest á Íslandi eða um 78 %. Aðgerðarleysi og atvinnuleysi ungmenna er í mörgum löndum stórfellt þjóðfélagslegt og efnahagslegt vandamál.

Í Sviðsljósi Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu, 13. október 2016, stendur þetta í upphafi greinarinnar:

"Atvinnuþátttaka ungmenna hvergi meiri":

"Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, virðast íslenzk ungmenni búa við mun betri aðstæður en [ungmenni] í öðrum löndum.  Þannig er atvinnuþátttaka 15-29 ára um 80 % hér á landi, en hlutfallið er 2 % í Grikklandi og 28 %-37 % á Ítalíu, Spáni og Portúgal."

Að Ísland skuli fá hæstu einkunn innan OECD fyrir atvinnutækifæri til handa ungmennum, er einhver þýðingarmesta umsögn, sem íslenzka þjóðfélagið getur fengið, og vitnar um heilbrigði þess, fólks, atvinnulífs og stjórnarfars, hvað sem úrtöluröddum niðurrifsaflanna líður.  Ýmsar úrtöluraddir telja íslenzka samfélagið of lítið til að geta staðizt sjálfstætt.  Af 35 ríkjum OECD í þessum samanburði er meðaltalið rúmlega 50 % atvinnuþátttaka ungmenna.  Til hvers að vera stór eða hluti af stóru ríkjasambandi, ef það þýðir mun verri aðstæður og færri atvinnutækifæri fyrir nýja kynslóð ?

Þessu tengd eru lífslíkur, sem eru einna hæstar á Íslandi innan OECD, svo og lífsánægjan, sem fær 7,5 af 10,0 á Íslandi. 

Að lokum skal birta hér upplýsingar um fátækt innan OECD, sem sýna svart á hvítu, að jöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, enda er menntakerfi, eins og hið íslenzka, öflugasta jöfnunartækið:

"Þegar tölur um fátækt eru skoðaðar, er hlutfall ungmenna einna hæst í flestum ríkjum, einkum þar sem ungmenni fara fyrr að heiman.  Á Íslandi er hlutfall ungmenna, sem teljast búa við fátækt, rúm 5 %.  Um 3 % eldri borgara á Íslandi búa við fátækt samkvæmt OECD.  Eru þær tölur frá árinu 2014.

Athygli vekur, að 25 % ungmenna (16-29 ára) í Bandaríkjunum búa við fátækt, um 24 % í Danmörku, 23 % í Noregi og tæp 20 % í Svíþjóð.  Hvað Norðurlöndin varðar, er í skýrslunni sérstaklega bent á, að ungt fólk flytji fyrr úr foreldrahúsum en víðast annars staðar."

Íslendingar geta verið stoltir af þjóðfélagi sínu varðandi aðbúnað ungmenna og tækifæri þeirra til náms og starfa.  Það er þó vissulega hægt að gera betur. Viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar er glæsilegur í þessum efnum, en hvort ný ríkisstjórn hefur vit á því að beina kröftunum í rétta átt, þ.e. þangað, sem mestu varðar að ná frábærum árangri út frá sanngirnissjónarmiðum og fjárhagslegum ávinningi samfélagsins er önnur saga.  Það er líka undir hælinn lagt, hvort hún ratar rétta braut að ákvörðunarstað eða þvælist bara fyrir framförum.  Sporin hræða.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband